Djúpivogur
A A

Neisti

Fimleikanámskeið á Djúpavogi vikuna 15. – 19. júlí 2013

Námskeiðið verður haldið í íþróttahúsinu. Farið verður í helstu grunnæfingar í fimleikum, þrek, teygjur og leiki.

Skráningu þarf að senda á sjofnkrist@gmail.com.
Síðasti skráningardagur er fimmtudagurinn 4. júlí 2013.

Hér að neðan má sjá tíma- og dagafjölda fyrir hvern aldurshóp fyrir sig ásamt verði.

Systkinaafsláttur er 50% fyrir annað barn.

Ég vonast til að sjá sem flesta í sumar!
Fimleikakveðja,
Sjöfn

27.06.2013

17. júní 2013

Djúpavogsbúar héldu upp á 17. júní með hátíðardagskrá á Neistavelli. Skrúðganga var farin frá grunnskólanum og mættu allir í sínum litum að sjálfsögðu en hverfakeppni var nú viðhöfð þriðja árið í röð á Djúpavogi. Hverfin höfðu alla helgina til þess að skreyta en dómnefnd, skipuð kongungum hverfanna valdi síðan best skreytta hverfið.

Það má segja að dagskráin hafi byrjað á föstudaginn með hverfa-Pub Quiz í Löngubúð. Hvert hverfi sendi tvö fjögurra manna lið. Þar hafði gula hverfið sigur eftir hatramma baráttu.

Á Neistavelli var farið í ýmsa leiki fyrir börn og fullorðna og úr varð hin besta skemmtun. Mætingin var mjög góð og fín stemmning, enda veður gott þrátt fyrir smá strekking. Auður Gautadóttir var fjallkona í ár.

Sú nýbreytni var í ár að dómnefnd kaus best skreytta húsið og það var samdóma álit, þrátt fyrir mörg vel skreytt hús, að Bergholt þeirra Jóns og Steinunnar væri best skreytt.

Þá var gula hverfið valið best skreytta hverfið og fögnuðu íbúar þess vel og innilega.

Meðfylgjandi eru þrjú myndasöfn. Eitt úr hverfa-Pub Quizinu, eitt frá skrúðgöngunni og hátíðardagskránni og í lokin eitt sem sýnir brot af þeim skreytingum sem íbúar hverfanna gerðu í ár.


Myndir úr Hverfa-Pub Quiz

Myndir frá skrúðgöngu og hátíðardagskrá
Myndir af hverfaskreytingum

ÓB

18.06.2013

Dagskrá 17. júní 2013

Svona lítur dagskráin út á Þjóðhátíðardag íslendinga, 17. júní:

13:30 - mæting hjá Grunnskóla.
14:00 - skrúðganga niður á fótboltavöll þar sem við tekur hátíðardagskrá:

Ávarp Fjallkonu.
Sprell og leikir fyrir börn og fullorðna.
Hoppukastali – sumokappar

Sápukúlur og fánar verða seldir við Grunnskólann.
Yngri flokkaráð Neista selur svala,prinspolo og kaffi á vellinum.

Hlökkum til að sjá sem flesta.

UMF Neisti.

14.06.2013

Hverfa Pub Quiz

Jæja þá er komið að því.

Hverfapubquiz verður haldið í aðdraganda 17. júní í Löngubúð, föstudaginn 14. júní.

Hvert hverfi má mæta með 2 lið og eru 4 í hverju liði.

Húsið opnar kl. 20:00 og keppnin hefst á slaginu 21:00. Aldurstakmark er ekkert, en börn 12 ára og yngri verða að mæta í fylgd fullorðinna.

Umf. Neisti

14.06.2013

Öxi 2013

Öxi 2013, göngu- og hlauphelgi fjölskyldunnar fer fram helgina 28. - 30. júní næstkomandi.

Búið er opna fyrir skráningar í þríþrautarkeppnina en hægt er að skrá bæði lið og einstaklinga í gegnum netfangið oxi2013@djupivogur.is.

Allar upplýsingar um Öxi 2013 og aðra viðburði þessa helgi er að finna hér.

Fylgist líka með á Facebook-síðu Öxi 2013.

ÓB

10.06.2013

Frá UMF. Neista - Þjálfara vantar

Enginn hefur enn sótt um að þjálfarastarf á frjálsíþrótta- og fótboltanámskeiðinu í sumar.

Neisti leitar nú logandi ljósi að þjálfara fyrir sumarið en það gengur hvorki né rekur.

Við biðlum því til allra að láta þetta berast og eru áhugasamir beðnir að hafa samband við Pálma í síma 847-3216.

UMF Neista

05.06.2013

Frá Neista vegna 17. júní

Eru ekki ábyggilega allir búnir að kjósa kónga?

Föstudaginn 14. júní má byrja að skreyta hverfin og um kvöldið verður Pub-Quiz í Löngubúð.

Farandhverfabikarinn stóri verður veittur fyrir best skreytta hverfið og í ár verða líka bikarar veittir fyrir best skreytta húsið og fyrir sigur í Pub-Quiz.

Skrúðgangan er á sínum stað á 17. júní og svo verður farið í leiki og þrautir með börnunum á Neistavelli.

Dagskráin verður auglýst betur síðar.

UMF. Neisti

04.06.2013

Upptaka af Músik Festivali

Nú er hægt að panta DVD diska með upptöku af hinu frábæra Músik Festivali 2013.
Áhugasamir sendi póst á skolastjori@djupivogur.is eða hringi í síma 478-8836.
Diskarnir verða afhentir um 20. júní.

Skólastjóri