Djúpavogshreppur
A A

Neisti

Uppræting lúpínu í þéttbýlinu

Hér með eru allir íbúar sem vettlingi geta valdir hvattir til að taka þátt í að uppræta lúpínu hér í þéttbýlinu og á nærsvæði á næstu dögum og vikum.  Samhliða er stefnt að því að sveitarfélagið vinni að því á næstunni að uppræta lúpínuna þar sem hún hefur breitt mest úr sér.

Um þessar mundir er einmitt talið rétti tíminn til að herja á þennan skaðvald sem ógnar m.a. tilveru íslensku flórunnar á stórum svæðum. Íbúum er hér með gefnar frjálsar hendur með að slá þetta illgresi niður, hvort heldur með sláttuorfum eða öðrum brúklegum verkfærum.  Að þessu tilefni er því beint til íbúa í viðkomandi hverfum að einbeita sér fyrst og síðast að þeim svæðum.   

Frábær árangur hjá sundkrökkunum okkar

Sundkrakkarnir hjá Neista bættu enn einni rósinni í hnappagatið á Sumarhátíð UÍA sem haldin var um síðustu helgi.  13 krakkar mættu til leiks en 9 af þeim sem eru líka að æfa komust ekki á mótið.  Voru menn því ekki allt of bjartsýnir á að sigur næðist að þessu sinni en þeir keppendur sem mættu voru komnir til að gera sitt allra besta.

Að venju var vaskur hópur foreldra með í för og er frábært að sjá hversu mikil samheldni er hjá Neistafólkinu og umgjörðin um börnin eins og best verður á kosið. 

Eftir fyrri daginn voru menn farnir að gæla við að kannski næðist nú silfrið, þrátt fyrir að keppendurnir væru með fæsta móti og spennan jókst eftir því sem leið á keppnina á laugardagsmorgninum.  Skemmtilegt var að fylgjast með boðsundunum í lokin og þegar verðlaunaafhendingin hófst mátti finna spennuna magnast.  Fyrst voru veitt þátttökuverðlaun fyrir 10 ára og yngri en síðan stigaverðlaun í hverjum aldursflokki fyrir sig.  Neisti átti þar tvo sigurvegara, þau Kamillu Marín Björgvinsdóttur í flokki 11-12 ára stúlkna og Bjarna Tristan Vilbergsson í flokki 13-14 ára drengja.  Frábær árangur hjá þeim.  Síðan voru lesin upp stig félaga og var byrjað á fimmta sætinu.  Þegar ljóst var að helstu keppinautarnir í Hetti og Þrótti hefðu lent í 2. og 3. sæti upphófust mikil fagnaðarlæti hjá Neistafólkinu þegar ljóst var að fyrsta sætið væri okkar, fjórða árið í röð.

Hér má sjá heildarstigin fyrir þrjú efstu sætin:

1. sæti  Neisti með 424 stig
2. sæti  Höttur með 384 stig
3. sæti  Þróttur með 262 stig

Ég held að við getum öll verið sammála um það að þessi árangur er stórkostlegur, sérstaklega í ljósi þess hversu fá börn standa á bak við árangurinn.  Mikilvægt er nú, sem endranær að hlúa að íþróttafélaginu okkar því við vitum öll hversu frábærar forvarnir íþróttir eru. 

Bjart er framundan í sundinu, fjölmennir árgangar eru að koma inn í grunnskólann og er hugur í þeim börnum.  Ljóst er að ef við fullorðna fólkið höldum áfram að standa okkur þá höfum við alla burði til að skara áfram fram úr á þessu sviði. 

Áfram Neisti.

Myndir frá Dröfn Freysdóttur eru hér.  HDH / HR

11.07.2012

Afleysingar í fótbolta

Okkur vantar vaska foreldra til að leysa af æfingar í fótbolta hjá unglingunum frá kl 18 - 19, miðvikudag og fimmtudag.

Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband við Lilju í síma 8679182.

10.07.2012

Sumarhátíð UÍA um helgina

Sumarhátíð UÍA verður haldin á Egilsstöðum um helgina. Hátíðin, sem haldin hefur hvert sumar frá árinu 1975, er stærsta einstaka verkefni sambandsins ár hvert.

Að vanda eru frjálsíþróttir fyrirferðamestar en Nettómótið í frjálsum teygir sig yfir alla keppnisdagana þrjá, föstudag, laugardag og sunnudag. Þá er einnig keppt í sundi á föstudagskvöld og laugardagsmorgun.

Nýjasta keppnisgreinin á Sumarhátíðinni er skák en teflt verður á föstudagskvöld. Strandblak er á dagskránni þriðja árið í röð á sunnudag og á laugardag er knattspyrnumót fyrir tíu ára og yngri.

Skemmtidagskrá er seinni part laugardags þegar íþróttahátíð Spretts Sporlanga fer fram á Vilhjálmsvelli. Keppt verður í boccia, starfshlaupi, haldnir verða fáránleikar og taek-won-doe deild Hattar sýnir nokkur brögð. Sprettur ætlar líka að bjóða upp á tertu til að þakka Austfirðingum fyrir frábærar móttökur fyrsta árið sem hann hefur verið lukkudýr UÍA.

Rúsínan í pylsuendanum verður sýning fimleikahópsins GYS87 sem skipaður er dönskum eldri borgum sem héldu áfram að æfa saman eftir þátttöku á fimleikahátíðinni Gymnastrada árið 1987 en þaðan kemur nafn hópsins GYS87.

Í gegnum árin hafa þau ferðast og sýnt  listir sínar vítt og breitt um heiminn í sex heimsálfum. Fimleikasýningin samanstendur af margskonar æfingum: kvenlegum hreyfingum, karlmannlegum kraftaæfingum, paraæfingum og samvinnu svo eitthvað sé nefnt. Sýningin fær mikinn innblástur af vel valinni tónlist sem gefur mikla upplyftingu og innlifun.

Nánari upplýsingar um Sumarhátíðina er að finna á www.uia.is.


04.07.2012

Neisti á Bónusmóti Hattar

Helgina 23.-24. júní kepptu Neistar á Bónusmóti Hattar á Fellavelli. Mjög góð mæting var hjá Neista, bæði af keppnisfólki, foreldrum og öðrum aðstandendum.

Stóðu krakkarnir sig mjög vel og lærðu mikið af þessari reynslu sinni. Þór og Askur kepptu með liðum Fjarðarbyggðar, stúlknaliðið var fámennt frá Djúpavogi en fengu góðan liðsauka af henni Áslaugu, sem ættuð er frá Starmýri. Neistastúlkur, Eydís, Ísabella, Viktoría, Diljá og Elísa áttu marga mjög góða kafla, sýndu frábær tilþrif í marki, vörn og nokkur glæsimörk voru skoruð. Þær geta gert mjög góða hluti þegar aðrar stúlkur mæta með þeim á völlinn eftir góðar æfingar. Þess má geta að Elísa spilaði flokk upp fyrir sig.

7. flokkur Neista samanstóð af Mark Antony í marki, Viktori, Aldísi og Natalíu auk Hilmis, Björgvins, Haralds og Sigurðar Atla sem allir spiluðu flokk upp fyrir sig. Er okkur sem á horfðum ljóst að sterkt fótboltalið Neista er í uppbyggingu. Kepptu þau í flokki B liða og unnu 7 leiki og gerðu eitt jafntefli. Miklar framfarir mátti sjá á krökkunum frá fyrsta leik fram að þeim síðasta.

Skemmtun, samvera og gott veður er það sem stendur uppúr eftir frábæra helgi með skemmtilegu fólki. Þegar kólnaði í veðri á sunnudeginum var gott að grípa til nýju Neistabúninganna.

Takk fyrir okkur.

Myndir má sjá með því að smella hér.

Stjórn Neista

04.07.2012

Öxi 2012

Öxi 2012, göngu- og hlaupahelgi fjölskyldunnar, fór fram um síðustu helgi. Óhætt er að segja að viðburðir helgarinnar hafi tekist vonum framar en hápunkturinn var þríþrautarkeppnin sem fram fór á laugardeginum.

Helgin hófst með kynnisferð um bæinn á föstudagskvöldinu sem Ferðafélag Djúpavogs stóð fyrir. Góð mæting, um 25 manns og skemmtileg ganga.

Þríþrautarkeppnin fór eins og áður sagði fram á laugardeginum. Alls tóku 9 manns þátt. Tvö þriggja manna lið, annars vegar Demantarnir með Guðjón Viðarsson, Brynjólf Einarsson og Kristján Ingimarsson innanborðs og hins vegar Fatboys, skipað þeim Andrési Skúlasyni, Ólafi Áka Ragnarssyni og Þóri Stefánssyni. Þá tóku þrír einstaklingar þátt; Hafliði Sævarsson, Arnar Páll Gíslason og Sigurbjörn Hjaltason.

Ræst var í fyrstu grein, sjósund (700 m), kl. 10:00 frá Staðareyri (neðan við Hvannabrekku). Að því loknu var hjólað upp Öxi að Merkjahrygg (13 km) þaðan sem hlaupið var niður í Fossárdal (19 km) og síðan hjólað út á Djúpavog (18 km).

Gaman var að sjá hversu margir áhorfendur voru, en þeir hafa sennilega verið í heildina hátt í 50.

Keppnin fór svo þannig að Hafliði Sævarsson kom langfyrstur í mark og vann þar með einstaklingskeppnina en heildartíminn hjá honum var 03:39:01. Næstur á eftir honum var Sigurbjörn Hjaltason á tímanum 04:43:44 og loks Arnar Páll Gíslason á tímanum 04:46:00.

Í liðakeppninni höfðu Demantarnir sigur á tímanum 04:24:04 en Fatboys kláruðu á tímanum 04:55:19.

Allt í allt frábær keppni og einstaklega vel lukkuð. Mótshaldarar vilja þakka öllum sem lögðu hönd á plóg kærlega fyrir sitt framlag og gerðu keppnina mögulega.

Seinni part laugardags var svo gúmmískóaganga um Útlandið. Í hana mættu um 30 manns í blíðskaparveðri.

Þá var svokallað tásutölt á söndunum að morgni sunnudags, sami fjöldi og í gúmmískóagöngunni og sama blíðskaparveðrið.

Myndir frá þríþrautinni má sjá með því að smella hér.

ÓB

02.07.2012