Djúpavogshreppur
A A

Neisti

Mótaröð UÍA og HEF í frjálsum íþróttum hefst 30. maí.

Fjögur mót eru í mótaröðinni en á þeim reynda keppendur með sér í all flestum greinum frjálsra íþrótta og safna stigum í gegnum alla mótaröðina. Sex stig eru veitt fyrir 1. sæti, 5 stig fyrir annað sæti og þannig koll af kolli. Þeir hlutskörpustu í hverjum flokki voru verðlaunaðir í lok sumars. Öll mótin fara fram á Vilhjálmsvelli og hefjast öll kl 17:00. Keppt er í flokkum stúlkna og pilta 11 ára, 12-13 ára, 14-15 ára og 16 ára og eldri.

Mót í mótaröðinni verða:
30. maí. Kúluvarp, 200 m hlaup, þrístökk.
26. júní. 80/100/110 m grindahlaup, hástökk, spjótkast og 1500 m hlaup.
25. júlí. Langstökk, 80/100 m hlaup, kringlukast og 800 m hlaup.
22. ágúst. Sleggjukast, langstökk, 400 m hlaup og frjálsíþróttaflipp!

Þátttökugjöld á hvert mót er 500 kr óháð greinafjölda. Skráningar berist á uia@uia.is

Neisti vill hvetja unglinga til að taka þátt í þessum mótum því líkur eru á góðum æfingum í frjálsum í sumar.

Nánar auglýst innan skamms.

Stjórn Neista.

30.05.2012

Úrslit í spurningakeppni Neista

Úrslit í spurningakeppni Neista fóru fram miðvikudaginn 16. maí.

Til úrslita kepptu Vísir hf., Djúpavogshreppur, Ferðaþjónustan Eyjólfsstöðum og Hótel Framtíð.

Vísir og Djúpavogshreppur höfðu tryggt sér þátttökurétt eftir sigur á sitthvoru undankeppniskvöldinu, Hótel Framtíð tók þátt sem stigahæsta tapliðið og Ferðaþjónustan á Eyjólfsstöðum átti sjálfkrafa þátttökurétt sem sigurvegari síðasta árs.

Í fyrstu umferð mættust lið Vísis hf. og Ferðaþjónustunnar á Eyjólfsstöðum þar sem Vísir hafði nauman sigur eftir harða keppni. Í annarri umferð mættust Djúpavogshreppur og Hótel Framtíð. Djúpavogshreppur fór með sigur af hólmi úr þeirri umferð.

Í fyrstu tveimur umferðunum var brugðið á leik þar sem einn keppandi úr hvoru liði, hverju sinni, átti að klæða sig í froskalappir og reyna að vippa af þeim svokallaðri tortillaköku upp á hausinn á sér en á hann var búið að festa plastlok. Keppendur sýndu ótrúleg tilþrif í þessari keppni en sú eina sem náði að klára verkefnið var Snjófríður Kristín Magnúsdóttir úr liði Vísis hf.

Í úrslitum mættust því Vísir og Djúpavogshreppur. Að loknum hraðaspurningum var staðan 16-14, Djúpavogshreppi í vil en áður en að síðustu spurningu kvöldsins kom hafði Vísir hf. jafnað. Ótrúleg þekking Skúla Benediktssonar á Bastilludeginum í Frakklandi tryggði Djúpavogshreppi 2 stig og þar með sigur í keppninni 27-25.

Skemmtilegri keppni lokið og óskum við Djúpavogshreppi til hamingju með sigurinn.

Smellið hér til að sjá myndir frá kvöldinu.

Stjórn UMF Neista

18.05.2012

Úrslit í spurningakeppni Neista í kvöld

Í kvöld kl. 20:00 á Hótel Framtíð verður hörkuspennandi lokaspurningakeppni Neista. Á svið munu stíga sigurvegarar undan-keppninnar, stigahæsta tapliðið og sigur-vegarar síðasta árs.

Þessi lið munu sjá okkur fyrir skemmtun kvöldsins ásamt hinum geðþekka sveitastjóra sem er spyrill kvöldsins.

Aðgangseyrir 500 kr. sem rennur óskiptur til Ungmennafélagsins.

Fjölmennum kæru Djúpavogsbúar og hvetjum áfram okkar lið og styrkjum starf félagsins.

Stjórn Neista.

16.05.2012

Myndir af brandönd

Hér má sjá myndir af brandandarpari sem var við leik í gær á vatninu við svokallaðar Selabryggjur á Búlandsnesi. AS 

Frá UMF Neista

Síðasti neistatími annarinnar er 15. maí. Sumardagskrá verður afhent á skólaslitum.

Enn er laust starf þjálfara fyrir sumarið og þeir sem hafa áhuga hafi samband við Ester í síma 899-7600.

UMF Neisti

15.05.2012

ATH!! Úrslitum í spurningakeppni Neista frestað

Vegna óveðurs er spurningakeppni Neista, sem fara átti fram í kvöld, frestað fram á miðvikudaginn 16. maí. Hún fer fram kl. 20:00 á Hótel Framtíð.

Liðin sem mætast þá eru Djúpavogshreppur, Vísir, Hótel Framtíð og Ferðaþjónustan Eyjólfsstöðum.

Nýjar spurningar, ný skemmtiatriði og ótrúlega skemmtileg lið í úrslitum.

Sjáumst sem flest í blíðunni þá.

Stjórn UMF. Neista.

13.05.2012

Frjálsíþróttaskóli UMFÍ

Frjálsíþróttaskóli UMFÍ verður haldinn á Egilsstöðum 11.-15. júní 2012. Skráning í skólann er nú formlega hafin hér á síðu skólans.

Eins og undanfarin ár sér UÍA um skólann í samstarfi við UMFÍ og FRÍ. Um nokkurs konar íþróttasumarbúðir er að ræða, sem ætlaðar eru ungmennum á aldrinum 11 – 18 ára. Þátttakendur koma saman á hádegi á mánudegi en skólanum lýkur á hádegi á föstudegi í sömu viku. Skólinn er hvoru tveggja ætlaður byrjendum sem og þrautreyndum frjálsíþróttakrökkum.

Þó frjálsar íþróttir skipi veglegan sess í dagskrá skólans þá er fjölbreytinin engu að síður í fyrirrúmi.
Í skólanum í fyrra var m.a. farið í strandblak, taekwondo, glímu, forníþróttir, á hestbak, í bátsferð, fjallgöngu og fleira og fleira.

Þátttökugjald er 17.000 kr og innifalið í því er kennsla, fæði, gisting og allar ferðir sem farið verður í.  
Hildur Bergsdóttir verður skólastjóri í skólanum, og fær til liðs við sig ýmsa þjálfara, bæði í frjálsum íþróttum og öðrum greinum.

Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu UÍA í síma 4711353 eða á netfangið uia@uia.is

08.05.2012

Spurningakeppni Neista hefst í kvöld

Spurningakeppni Ungmennafélagsins er nú að hefjast og má búast við skemmtilegri og spennandi keppni eins og undanfarin ár. Liðin sem mæta eftirfarandi kvöld eru:

1. kvöld - þriðjudaginn 8. maí:

Kvenfélagið Vaka – Hótel Framtíð              
Gr.sk. Nemendur - Vísir

2. kvöld - fimmtudaginn 10. maí:

Gr.sk. Kennarar - Eyfreyjunes
Djúpavogshreppur - Rán bátasmiðja.

Úrslitakvöld - sunnudaginn 13. maí:                            

Stigahæsta tapliðið kemst áfram í undanúrslit, sigurvegarar síðasta árs fara einnig beint í undanúrslit.


Viðureignirnar eru í Löngubúð kl. 20:00. 500 krónur inn. Frítt fyrir ófermda. Stefnt er að því að úrslitin ráðist svo sunnudagskvölið 13. maí, kl. 20:00 á Hótel Framtíð.

Stjórn Neista

08.05.2012

Silfurhafar!

Körfuboltalið Neista lenti í öðru sæti í Bólholtsbikarnum eftir æsispennandi úrslitaleik við Sérdeildina í gær, en Sérdeildin varð sigurvegari annað árið í röð.

Meðfylgjandi mynd af Neistaliðinu tók Sóley Dögg Birgisdóttir og kunnum við henni bestu þakkir fyrir.

Textinn þar fyrir neðan er fenginn af heimasíðu UÍA.

Við óskum Neistaliðinu innilega til hamingju með frábæran árangur á fyrsta ári þess í Bólholtsbikarnum.

ÓB

 


Lið UMF Neista

Lið Sérdeildarinnar varði titil sinn sem Bólholtsmeistara á æsispennandi úrslitahátíð Bólholtsbikarsins sem fór fram 6. maí í íþróttahúsinu á Egilsstöðum.

Þar mættust lið Sérdeildarinnar, Neista, ME og Einherja. En lið Austra sem unnið hafði sér inn keppnisrétt í úrslitum, dró sig úr keppni og Einherji kom í þeirra stað.

Úrslitahátíðin hófst með viðureign ME og Neista, Neistamenn leiddu leikinn og tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum með sigri á ME 62 stig gegn 47.

Sérdeildin lagði lið Einherja að velli 62-51 og tók sér það með stöðu andspænis Neista í úrslitaviðureigninni.

Eftir kærkomið hádegishlé mættust Einherji og ME í leik um bronsið, þar réði leikgleðin ríkjum og leikmenn beggja liða sýndu skemmtileg tilþrif. Ásmundur Hrafn Magnússon í liði ME átti stórleik og skoraði 35 stig.

Áður en úrslitaviðureignin hófst spreyttu fulltrúar liðanna sig í spurningarkeppninni Skotið út í loftið, undir styrkri stjórn Stefáns Boga Sveinssonar Útsvarsjöfurs. Í keppninni, sem reyndi á visku keppenda, leikhæfileika og öryggi í vítaskotum, mættust tvö firna árennileg lið. Annars vegar lið Stefáns Más Gunnlaugssonar Einherja, Evu Ránar Ragnarsdóttur Neista og Valgeirs Eyþórssonar ME og hinsvegar lið Erlings Guðjónssonar SE/Ásins, Sigurðar Jakobssonar, ME og Sigurdórs Sigvaldasonar Sérdeildinni. Liðin skiptust á að leiða keppnina en lið Stefáns, Evu og Valgeirs seig framúr á lokasprettinum og hafði sigur. Þar munaði meðal annars um, vel útfærða leikræna túlkun Evu Ránar á körfuknattleikskappanum Larry Bird.

Það ríkti spenna meðal keppenda jafnt sem áhorfenda þegar kom að úrslitaviðureigninni, enda liðin sem þar mættust bæði sterk og tilbúin að gera fullt tilkall til bikarsins góða. Leikurinn allur bar þess glöggt vitni og varð jafn og spennandi og hart barist um hvern bolta. Sérdeildin hafði yfirhöndina að stærstum hluta í leiknum en lið Neista fylgdi þeim fast eftir og var á tímabili, meðal annars í síðasta leikhluta, yfir. Sérdeildin spýtti þá í lófana og landaði sigri við mikinn fögnuð stuðningsmanna sinna 54-49. Viggó Skúlason var stigahæstur í liði Sérdeildarinnar með 15 stig en Neistamaðurinn Óskar Ragnarsson átti flest stig í leiknum eða 22.

Sérdeildin hóf því Bólholtsbikarinn á loft öðru sinni, en þeir sigrðu keppnina einnig í fyrra.

Veitt voru verðlaun fyrir Stigakóng keppninnar og þau hlaut Nökkvi Jarl Óskarsson sem setti niður 152 stig, að þessu sinni voru einnig veitt viðurkenning fyrir Stigadrottningu keppninnar en hana hlaut Eva Rán Ragnarsdóttir sem spilaði með Neista í mótinu og skoraði þrjú stig.

Körfuknattleiksráð UÍA þakkar Bólholti, dómurum keppninnar, leikmönnum, áhorfendum og öðrum sem lögðu okkur lið fyrir skemmtilega úrslitahátíð og undankeppni.

07.05.2012