Djúpavogshreppur
A A

Leikskóli

Málbeinaleit með Lubba

Rauði þráðurinn í öllum skipulögðum málörvunartímum í leikskólanum Bjarkatúni er hann Lubbi okkar. Þess vegna köllum við þetta starf Lubbastarf.  Lubbi er bangsi sem börnin kynnast strax í hópastarfi þegar þau eru 2ja ára gömul og hann fylgir þeim alveg út leikskólagönguna. Við vinnum með bókina Lubbi finnur málbein en sú bók er hugsuð til málörvunar og hljóðanáms fyrir börn á aldrinum tveggja til sjö ára. Höfundar bókarinnar, Þóra Másdóttir og Eyrún Ísfold Gísladóttir, eru talmeinafræðingar og hafa þær áralanga reynslu af talþjálfun barna. Efnið í bókinni stuðlar að auðugri orðaforða og ýtir undir skýrari framburð barna. Í bókinni er lögð rík áhersla á það að hverjum bókstaf fylgi málhljóð. Hvert málhljóð er tekið fyrir á síðu eða opnu. Hverju málhljóði fylgir ákveðin vísa og einnig stutt saga eftir Þórarin Eldjárn þar sem lögð er sérstök áhersla á hvert hljóð fyrir sig. Hvert málhljóð á sér ákveðið tákn en með því að tengja hljóðið við táknræna hreyfingu er auðveldara fyrir börnin að læra það og muna. Börnin í leikskólanum eru mjög hrifin af Lubba og það er einstaklega gaman og mikil forréttindi að fá að kenna þeim allt um heillandi heim íslenskunnar í gegnum þetta námsefni.

Við höfum alltaf gert eitthvað sérstakt með Lubba okkar í lok hvers skólaárs þegar hópastarfinu líkur. Núna í maí héldum við kveðjuviku fyrir Lubba þar sem allir Lubbahóparnir fóru með Lubba í gönguferð að leita af földum málbeinum uppá Bóndavörðu. Þessi leikur var unnin í samstarfi Lubbasmiðjuna sem bauð öllum leikskólanum á landinu að taka þátt. Við fórum uppá Bóndavörðu þar sem við sjáum yfir allan Djúpavog. Lubbi kom með okkur og við fórum í málhljóða sönggöngu á leiðinni að felustaðnum. Uppá Bóndavörðu voru falin beinin B fyrir Búlandstind og Bjarkatún og D fyrir Djúpavog sem börnin leituðu af og þar var mikil spenna. Einn hópurinn fékk ægilega þoku en það var einstaklega spennandi ganga þar sem hreindýrin vorum mjög nálægt okkur að fela sig í þokunni...og kannski að leita af málbeinum til að gæða sér? Þegar málbeinin voru síðan fundin sungum við lögin um stafina B og D og blésum sápukúlur yfir Djúpavoginn okkar. Málhljóða söngganga var síðan farin aftur niður í leikskóla og þar var leitað af fleiri málbeinum um alla leikskólalóðina og þá fékk hugmyndaflug barnanna að ráða ferðinni og þar var virkilega  gaman að sjá hvernig leikirnir þróuðust út frá aldri barnanna.

 
Hópur 2011 í málbeinaleit


Hópur 2012 á leið í málbeinaleit með Lubba


Hópur 2013 búinn að finna bein handa Lubba

 

Fleiri myndir eru hér

Bestu kveðjur úr leikskólanum

Hugrún og Lubbi

 

Síðasti dagur útikennsluviku

Í síðustu viku voru útikennsludagar í grunnskólanum.  Elstu nemendur leikskólans eru í heimsókn hjá okkur nú í tvær vikur og tóku þátt að miklu leyti.  Síðasta daginn fórum við öll saman í gönguferð út á sanda.  Alls um 65 nemendur grunnskólans, 9 nemendur leikskólans ásamt starfsfólki.

Við gengum sem leið lá eftir gamla veginum og þaðan út á sanda.  Þar fórum við í "Að hlaupa í skarðið" og í boðhlaup.  Eftir það gekk hópurinn út í Sandey og á leiðinni fundum við skeljar og margan fjársjóðinn, spiluðum fótbolta, létum öldurnar elta okkur o.m.fl.  Þegar við komum út í Sandey voru allir orðnir banhungraðir þannig að við fengum okkur nesti.  Síðan fórum við í feluleik, bjuggum til sandkastala, skoðuðum hellinn í Sandey og lékum okkur í frjálsum leik.  Þegar fór að líða að hádegi röltum við til baka og komum beint í hádegismat.

Veðrið hefði getað verið betra, það var pínu kalt en það kom ekki að sök.  Allir voru glaðir og sáttir og nutu þess að vera úti í náttúrunni í sátt og samlyndi við menn og dýr.

Myndir úr ferðalaginu má finna hér.

Skólastjóri

Gæsluvöllur sumarið 2016

Gæsluvöllur verður starfræktur í Bjarkatúni fyrir börn fædd 2009-2014 frá 18. júlí -12 . ágúst í sumar, ef næg þátttaka fæst og starfsfólk finnst. Miðað er við að ekki færri en 8 börn verði skráð í hverri viku. 

Opið verður frá kl. 10:00-14:00. Börnin þurfa að koma nestuð fyrir daginn en aðstaða verður í leikskólanum til að borða inni ef veður er vont.  Skrá verður börnin 1-4 ákveðnar vikur og er skráningin bindandi.  

Vikan kostar kr. 10.500, systkinaafsláttur er 50%.

Foreldrar eru vinsamlegast beðnir að ganga frá skráningu á skrifstofu sveitarfélagsins fyrir 1. júní þar sem fram kemur nafn barns/barna og hvaða vikur viðkomandi hyggst nýta sér.

Sveitarstjóri