Djúpavogshreppur
A A

Leikskóli

Djúpavogshreppur auglýsir vinnu fyrir sumarið 2015

1. STARFSMAÐUR Á UPPLÝSINGAMIÐSTÖÐ

 

Starfið felst í meginatriðum í afgreiðslu á upplýsingamiðstöð, þ.e. að leiðbeina og svara spurningum ferðamanna sem sækja Djúpavogshrepp heim. Þrif upplýsingamiðstöðvar kæmu einnig í hluta starfsmanns sem og önnur tilfallandi verkefni.

 

Um er að ræða 50% hlutastarf auk 8 yfirvinnutíma á viku. Starfsmaður yrði með viðveru á upplýsingamiðstöð kl. 12-17:00 fjóra virka daga hverrar viku og frá 12-16:00 laugardag og sunnudag. Frídagur yrði virkur dagur og samkomulagsatriði hvaða dagur yrði fyrir valinu.

 

Umsækjandi þarf að vera 18 ára eða eldri, geta talað og lesið íslensku og ensku, og þekkja Djúpavogshrepp, eða vera tilbúinn til að kynna sér staðhætti og annað til að geta leiðbeint ferðamönnum.

Ráðningartími er 1. júní – 31. ágúst.

 

Umsóknarfrestur er til 15. mars.

Umsóknir berist á skrifstofu sveitarfélagsins eða á netfangið erla@djupivogur.is

 

Nánari upplýsingar í síma 478-8228.

Erla Dóra Vogler

Ferða- og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps

 

 

 

2.    UNGLINGAR

 

Nemendum í 8., 9. og 10. bekk í Grunnskóla Djúpavogs stendur til boða vinna á vegum sveitarfélagsins sumarið 2015 sem hér greinir:

 

8. bekkur: Frá 3. júní til og með 15. ág.:  4 klst. á dag.   

9. bekkur: Frá 3. júní til og með 15. ág.:  4 klst. á dag.   

10. bekkur: Frá 3. júní til og með 15. ág.:  8 klst. á dag.   

 

Umsóknarfrestur til 23. maí.

Umsóknir berist á skrifstofu sveitarfélagsins.

Umsækjendur eru beðnir um að virða umsóknarfrestinn.

 

Einnig verður í boði vinna í hefðbundinni hreinsunarviku fyrir 4. – 7. bekk og mun hún verða auglýst í skólanum.

 

 

3.    STARFSMENN Í ÞJÓNUSTUMIÐSTÖÐ

 

Auglýst eru allt að 5 störf fyrir 17 ára og eldri við slátt lóða og opinna svæða, hreinsun, snyrtingu o.m.fl. Hluti af störfunum verður við flokksstjórn og skulu áhugasamir taka slíkt fram í umsókn. Einnig skal taka fram hvort viðkomandi hafi bílpróf. Fjöldi flokksstjóra verður ákveðinn, þegar fyrir liggur fjöldi umsækjenda úr Grunnskólanum. 

 

Umsóknarfrestur til 23. maí.

Umsóknir berist á skrifstofu sveitarfélagsins.

 

Æskilegt er að umsækjendur geti hafið störf eigi síðar en í byrjun júní.

 

Nánari upplýsingar, m. a. um launakjör í síma 478-8288.

Laus störf við Djúpavogsskóla

Við Djúpavogsskóla vantar starfsmenn tímabundið

Grunnskólinn.  Skólaliða vantar í 56% starf frá 1. mars – 29. maí.  Um er að ræða aðstoð í 1.-3. bekk auk annarra tilfallandi verkefna.   Vinnutími frá 8:00 – 12:30.  Laun greiðast skv. Kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Afls starfsgreinafélags.

Leikskólinn.  Leikskólakennara eða leiðbeinanda  vantar í 100% starf eða tvö 50% störf frá 1.mars – 29. maí.  Um er að ræða starf inni á Krummadeild þar sem eru eins -þriggja ára börn, fyrir hádegi og síðan í afleysingar frá 12:00 – 16:00.   Laun greiðast skv. Kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga og KÍ eða Afls starfsgreinafélags.

Umsóknir sendist á skolastjori@djupivogur.is og veitir skólastjóri nánari upplýsingar.

Umsóknarfrestur rennur út klukkan 12:00 þann 27. febrúar nk.

Halldóra Dröfn, skólastjóri

 

Öskudagur í leikskólanum 2015

Öskudagurinn var haldinn með pomp og prakt í leikskólanum eins og venja er.  Börn og starfsfólk mætti prúðbúið til vinnu og byrjaði dagurinn á morgunmat.  Þá var farið í salinn og kötturinn sleginn úr tunnunni.  Þegar það hafðist að slá tunnunna í sundur var sest niður og bragðað á góðgætinu sem kom úr tunnunni.  Þegar flestir voru búnir með úr sínum poka var slegið í ball og tjúttað duglega.  Þegar þreyta var komin í hópinn var ballinu slaufað og allir settust niður og horfðu á Brúðubílinn á DVD.  Eftir hádegismatinn fóru elstu krakkarnir í gönguferð og sungu fyrir nammi en hin börnin fóru út í garð að leika og taka á móti krökkum sem komu og sungu fyrir okkur í leikskólanum. 


Krummadeild á öskudegiKríudeild á öskudegiTjaldadeild á öskudaginn

Yngsta leikskólatígrisdýr að slá í tunnunna

Elsa í Frozen var vinsæl

Meiri fjölbreytileiki var í búninngum strákanna en það voru tveir superman

Fleiri myndir af öskudegi hér

ÞS

1. bekkur í heimsókn

Hópur nemenda úr fyrsta bekk kom í heimsókn í leikskólann þar sem þau fengu að hitta gamla vini úr leikskólanum og að leika með holukubbanna en þeim finnst rosalega gaman að byggja úr kubbunum. 

Fyrri hópurinn að byggja

Seinni hópurinn í holukubbaleik

Fleiri myndir hér

ÞS

11.02.2015

Slökkviliðsheimsókn 11.2

Í dag er 112 dagurinn og fengum við því heimsókn frá slökkviliðinum og kom hann Kári til okkar og var með brunavarnafræðslu.  Við fengum að prófa hjálminn hans og spurðum hann allskonar spurningar um græjurnar hans en hann var með tvær talstöðvar og ferlega skrítna vettlinga.  Síðan sýndi hann okkur möppu sem við fáum en í henni eru fullt af verkefnum. 

Áhugasamir krakkar

Flottar græjurnar sem slökkviliðsmenn hafa

Fengum svo að prófa hjálminn

Fleiri myndir hér

ÞS

11.02.2015

Dagur leikskólans 2015

Í dag 6. febrúar er dagur leikskólans en þetta er í áttunda sinn sem þessi dagur er haldinn hátíðlegur. Þetta er því  merkisdagur í íslenskri leikskólasögu en á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtökin sín.   Tilgangurinn með þessum degi er að auka jákvæða umræðu um leikskólann, vekja umræðu um hlutverk leikskóla og starf leikskólakennara og kynna starfsemina út á við. 

Við í Bjarkatúni buðu því sveitarstjórn, fræðslunefnd og sveitarstjóra til morgunverðar inn á deildum.  Gauti, Andrés, Sóley, Rán og Hegla Rún komu og skiptu þau sér inn á deildirnar og fengu sér morgunmat með börnunum á deildunum.  Þau fylgdust svo með starfinu en eftir morgunverð var farið í samveru þar sem þjónn dagsins var valinn og farið yfir daginn og veðrið.  Þá var komið að valinu en á föstudögum er stórt val þar sem Tjaldadeild og Kríudeild velja saman sem að elstu krakkarnir á Krummadeild koma í heimsókn á Kríudeild. 

Andrés á Krummadeild

Gauti á Kríudeild

Það var því margt að sjá og upplifa bæði fyrir börnin og gestina en diskur flaug á gólfið inn á Krummadeild, weetabixinu var dýft ofan í glasið og bitið í því og voru nokkur fljót að grípa það og herma eftir.  Á Kríudeild þótti það sæta til tíðinda að einn fékk sér tvö weetabix í einu og gleymdi svo að segja takk fyrir mig þegar hann gekk frá disknum sínum.  Á Tjaldadeild vakti það mikla undrun meðal gestanna hvað börnin voru rosalega stillt og þæg. 

Rán og Helga Rún kíktu á Tjaldadeild

Síðan hafa deildirnar sett upp listaverk, Krummadeild er með verk á Neistatúninu, Kríudeild er með verk út í Samkaup/strax og Tjaldadeild er með verk í sparisjóðnum.  Við hvetjum ykkur til að skoða þessi verk barnanna. 

Fleiri myndir hér

ÞS

Dagur leikskólans

Dagur leikskólans er á morgun, föstudaginn 6. febrúar.  Af því tilefni hafa nemendur og starfsfólk boðið fræðslunefnd, sveitarstjórn og sveitarstjóra í morgunverð í fyrramálið.
Auk þess ætla börnin að vera með listaverkasýningar vítt og breitt um þorpið.  Tjaldadeild verður með listaverk til sýnis í Sparisjóðnum / Íslandspósti, Kríudeild verður með listaverk til sýnis í Samkaup-Strax og Krummadeild verður með útilistaverk á Neistatúninu.  Hvetjum við alla til að gera sér ferð og skoða þessi fallegu verk.
Þá ætlar starfsfólkið að sitja fjarfund á morgun þar sem fjallað verður um málþroska og læsi í leikskólum.

Gleðilegan leikskóladag !!

Skólastjóri