Djúpavogshreppur
A A

Leikskóli

Vöfflukaffi á aðventunni

Í byrjun aðventunar fór hópur barna úr leikskólanum í vöfflukaffi út í Tryggvabúð.  Vöfflukaffi er alla miðvikudaga í Tryggvabúð og fóru 7-8 börn frá leikskólanum í hvert skipti.  Farið var í fjögur skipti og var síðasta skiptið þann 16. desember.  Börnin gengu ef veður leyfði og voru ýmist sótt þangað eða komu til baka í leikskólann um fjögur leytið.  Var þetta skemmtileg tilbreyting á starfinu og fannst öllum gaman að kíkja á heldri borgara sem hafa aðstöðu þarna og sum hittu ömmu sína eða afa, langömmu eða frænku og snæða ljúffenga vöfflu með sultu og rjóma. 

Fyrsti hópurinn í vöfflukaffi


Síðasti hópurinn í vöfflukaffi

Fleiri myndir hér

ÞS

 

Jólatréð skreytt og jólaball

Jólatréð er skreytt af elsta árgangi leikskólans og er það gert daginn fyrir litlu jólin sem voru að þessu sinni, miðvikudaginn 16. desember.  Það var mikill spenningur og gleði við að taka upp allt fallega skrautið sem fór á tréð og koma því svo á tréð sem varð hið skrautlegasta. 

Þegar búið var að skreyta tréð var orðið ballhæft og var jólaballið haldið með pomp og prakt.


Fyrst var dansað í kringum jólatréð

Síðan kom Gluggagæir í heimsókn og voru sumir mjög hugrakkir á meðan aðrir leituðu skjóls í faðm kennaranna


Jólasveinninn færði öllum krökkunum gjafir


Jólasveinninn kvaddi okkur og við ætlum að hitta hann aftur seinna


Þá var sest niður, allir fengu ávexti og horfðum svo saman á jólamynd um Rúdólf með rauða nefið

 

Fleiri myndir af jólaskreytingu trésins

Fleiri myndir af jólaballinu

ÞS

 

17.12.2015

Jólaföndur og kaffihús

Jólaföndur foreldrafélags Djúpavogs

Laugardaginn 5. desember verður árlegt jólaföndur Djúpavogsskóla í grunnskólanum.
Föndrið verður frá 11:00 - 14:00.  Í boði verður alls konar endurnýtanlegur efniviður, allt er ókeypis en gott er að taka með sér lím, skæri og auglýsingapésa til að föndra úr.
Nemendur 9. bekkjar verða með kaffihús frá 12:00 - 14:00 og verða margar girnilegar hnallþórur í boði.

Allir íbúar sveitarfélagsins eru hjartanlega velkomnir, ef ekki til að föndra þá bara til að hitta aðra og kíkja á kaffihúsið. 

Skólastjóri

 

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu var á mánudagin sl. 16. nóvember.  Börnin á Kríudeild fóru á bókasafnið í vikunni og völdu sér bækur sem þau fengu svo lánaðar niður í leikskóla.  Við höfum svo verið að skoða og lesa og skoða þessar bækur alla vikuna.  Elstu börnin unnu svo með vísuna Buxur, vesti, brók og skór eftir Jónas Hallgrímsson.  


Tjaldahópur velur sér bók

Græni hópurinn skoðar bók


Rauði hópurinn gluggar í bækurnar


Buxur, vesti, brók og skór......

Fleiri myndir hér

ÞS

20.11.2015

Skólastarf í leikskólanum

Nú er skólastarfið komið á fullt í leikskólanum en það byrjaði þann 15. september sl. Á Kríudeild og Krummadeild fara þau í Lubbastarf, hreyfingu og listakrók.  Auk þessa fer  Krummadeild í könnunarleik og málörvun/fínhreyfing og Kríudeild í þemaverkefni og tónlist auk þess sem elsti árgangurinn er í Tjaldastarfi. 


Elsti hópurinn á Kríudeild í tónlist


Yngsti hópurinn á Krummadeild í Lubbastarfi


Miðhópurinn á Kríudeild í listakrók

Myndir af starfi á Krummadeild

Myndir af starfi á Kríudeild.   Tónlist og Lubbastarf

ÞS

 

13.11.2015

Gjöf frá Kvenfélaginu Vöku

Í sumar færðu Kvenfélagskonur leikskólanum rólur fyrir yngstu nemendurna að gjöf. Nú eru þær komnar upp og viljum við  í Leikskólanum Bjarkatúni þakka kærlega fyrir þessa góðu gjöf. Hér sést formaðurinn Ingibjörg Stefánsdóttir ýta tveim nemendum í rólunni og eins og sést mun rólan koma að góðum notum.

 
Mokað fyrir nýrri rólu


Rólan samsett og tilbúin til uppsetningar


Þá er bara að prófa róluna


Formaður Kvenfélagsins afhendir og vígir nýju róluna með yngstu börnum leikskólans

Fleiri myndir hér

ÞS og GSS

Bangsadagur

Alþjóðlegi bangsadagurinn var þann 27. október sl.   Þá fengu leikskólabörnin að hafa með sér bangsa að heiman og leika með hann í leikskólanum.  Við sungum lög fyrir bangsana og dönsuðum með þeim í samverustund auk þess sem þeir horfðu á þegar við vorum í hópastarfi. 

 

Á Kríudeild með bangsann sinn

Á Krummadeild með bangsann sinn

Fleiri bangsa myndir hér

ÞS

30.10.2015

Dagar myrkurs í leikskólanum

Í dag byrjuðu dagar myrkurs á Austurlandi og að því tilefni fóru leikskólabörnin í heimsókn upp í Landsbanka og fengu gefins endurskinsmerki.  Þau eru nefnilega svo mikilvæg til þess að við sjáumst vel þegar myrkrið skellur á. 

Allir fengu eitt endurskinsmerki

Nú ættu allir að sjást vel

Fleiri myndir hér

ÞS

28.10.2015

Nýir kennarar

Það hefur verið mikill erill í leikskólanum frá því að við opnuðum í haust. Við vorum fáliðuð til að byrja með en höfum verið að bæta við nýjum kennurum smátt og smátt. Ásdís Heiðdal byrjaði sem deildarstjóri um leið og við opnuðum eftir sumarfríið. Hafdís Reynisdóttir og Bergþóra Valgeirsdóttir byrjuðu 31. ágúst og Bryndís Skúladóttir og Ania Czezcko 1. september. Þann 7. september byrjuðu Hafdís Ásta Marinósdóttir og Guðný Klara Guðmundsdóttir og að lokum byrjar William Óðinn Lefever 5. október. Þá er leikskólinn orðin fullmannaður með 35 börnum á tveimur deildum, 23 börn eru á Kríudeild og er ekki hægt að bæta við fleirri börnum þar inn og á Krummadeild eru 12 börn og getum við bætt við 3 börnum í janúar.

Við bjóðum alla velkomna til starfa og hlökkum til skemmtilegs veturs :)

GSS

02.10.2015

Rigning og sól

Í ágúst var allskonar veður á Djúpavogi og þá er nú um að gera að nýta góða veðrið og leika út eða rigninguna og sulla með vatnið. 


Í sólinni að drullumalla


Þegar ekki rignir nóg þarf stundum að fá slönguna lánaða og gera almennilega polla til að sulla í

Sólarmyndir eru hér og rigningarmyndir eru hér

ÞS

31.08.2015

Kveðjur

Það voru 6 stelpur sem kvöddu leikskólann í dag en þær eru allar að fara í grunnskóla í haust.  Auk þess höfðu 3 önnur börn hætt fyrr í sumar. 

Leikskólinn fékk tuskudýr að gjöf frá einum nemanda og voru krakkarnir mjög þakklát fyrir þá gjöf og hafa þau leikið sér mikið með dýrin. 

Þessi færðu leikskólanum þetta flotta hjól sem eflaust verður gaman að hjóla á enda fyrir tvo.

Leikskólinn mun þó ekki sleppa þeim alveg frá sér þar sem við ætlum að heimsækja þau upp í grunnskóla og fá þau í heimsókn í leikskólann næsta vetur. 

ÞS

17.07.2015

Sullum og drullumöllum

Þessa síðustu viku í leikskólanum áður en hann fer í sumarfrí höfum við verðið að sulla og drullumalla.  Við blésum sápukúlur (sjá myndir), fengum slönguna út og drullumölluðum allskonar kökur og fínerí.  Vatnsblöðrurnar voru mjög spennandi í sullukarinu.  Í leiðinni þrifum við dótið okkar enda það orðið verulega skítugt eftir veturinn. 

Vatnsblöðrur

Sullað með vatn

Drullumallað

Myndir hér

ÞS

15.07.2015

Gróðursetning og garðrækt

Börnin á Kríudeild settu niður kartöflur og nokkrar gerðir af fræjum í vor í gróðurkassanna okkar.  Þau hafa síðan farið nokkur börn í einu í hverri viku og vökvað og kíkt á vöxtinn.  Sprettan er ágæt þrátt fyrir að hitastigið hafi ekki farið hátt hjá okkur í sumar en það verður spennandi að  sjá hvernig útkoman verður í haust.

Setjum niður kartöflur

Vökvum vel

Myndir hér

ÞS

13.07.2015

Djúpavogshreppur auglýsir störf

Djúpavogsskóli – grunnskóli

Íþrótta- og sundkennsla, samtals 18 stundir á viku og smíðakennsla 8 stundir á viku, samtals 100% starf.  Æskilegast að viðkomandi geti kennt allt saman en það er þó ekki skilyrði.

Skólaliði um 60% starf, vinnutími 8:00 – 13:00.  Aðstoð inni í bekkjum, gæsla o.fl.

Skólaliði um 50% starf, vinnutími 12:00 – 16:00.  Aðstoð við skólamötuneyti og gæsla í lengdri viðveru.

Djúpavogsskóli – leikskóli

Deildarstjóri á yngri deild, 100% starf. 

Leikskólakennarar, 3 x 100% störf

Stuðningsfulltrúi með fötluðu barni, 100% starf

Umsóknarfrestur er til 31. júlí 2015 og sendast umsóknir vegna grunn- og leikskóla á skolastjori@djupivogur.is

Djúpavogshreppur / Umf. Neisti

Djúpavogshreppur, í samvinnu við Ungmennafélagið Neista, auglýsir starf íþrótta- og æskulýðsfulltrúa.  Leitað er eftir öflugum einstaklingi sem er tilbúinn að stýra metnaðarfullu og lifandi æskulýðs- og íþróttastarfi í samvinnu Ungmennafélagsins Neista, Djúpavogsskóla og sveitarfélagsins.

Starfssvið:

Yfirumsjón með starfi Umf. Neista s.s. þjálfun, foreldra- og sjálfboðaliðastarfi, fjármálum, heimasíðu, mótshaldi og öðru sem lýtur að starfsemi félagsins í samvinnu við stjórn þess.

Yfirumsjón með æskulýðsstarfi í sveitarfélaginu í samvinnu við Djúpavogsskóla og sveitarstjórn.

Um er að ræða 100% starf frá og með 15. ágúst.

Hæfniskröfur:

Menntun sem nýtist í starfi

Reynsla og þekking á æskulýðs- og íþróttamálum

Góð framkoma og hæfni í mannlegum samskiptum

Reynsla af stjórnun og stefnumótun

Umsóknum ásamt meðmælum og ferilskrá skal skila á skrifstofu Djúpavogshrepps, Bakka 1 , 765 Djúpavogi og er umsóknarfrestur til 31. júlí 2015.   Allar nánari upplýsingar veitir sveitarstjóri og má senda fyrirspurnir á netfangið sveitarstjori@djupivogur.is

 

 

Sápukúlufjör

Það er alltaf gaman að blása sápukúlur og góð æfing fyrir alla enda skemmtu allir sér vel í sápukúlublæstri og drullumalli í leikskólanum í dag. 


Sápukúlur


Rosafjör að blása sápukúlurDrullumall

Fleiri myndir hér

ÞS

09.07.2015

Tjaldadeild í grunnskólanum

Í byrjun maí fóru elstu nemendur leikskólans í grunnskólann þar sem þeir fengu innsýn í tilvonandi grunnskólastarf enda byrja í grunnskólanum í haust.  Fengu þau að vera í einni stofu þar sem handavinna er kennd og viðveran er eftir hádegi.  Þau tóku þátt í samsöng og frímínútum auk þess sem þau fóru í nokkra tíma með 1. bekk. Í samsöng

Í fyrsta bekkjarstofunni

Morgunmatur í grunnskólanum

Tilvonandi grunnskólastelpur

07.07.2015

Lifandi háfur

Þeir Guðlaugur og Óðinn á Öðlingi komu í heimsókn í leikskólann með lifandi háf í kari.  Vakti hann mikla lukku og fengu þau að vita allt um Háfa.  Við í leikskólanum erum einstaklega heppin með það hvað við eigum áhugasama foreldra sem eru alltaf tilbúin að koma með eitthvað spennandi heiman frá til að sýna leikskólabörnum. Þannig höfum við fengið lamb, hunda, hvolpa og yrðlinga í heimsókn til okkar og nú komu sjómennirnir/pabbar með lífríki sjávar upp á land til að sýna okkur og erum við þeim og öllum hinum mjög þakklát fyrir að fá þessa innsýn.

 


Undrunin leynir sér ekki


Það var mikið spurt og spekulerað


Verið að benda krökkunum á hvar Háfurinn veiddist

Áhugasamir krakkar að skoða Háfinn

Fleiri myndir hér

ÞS

06.07.2015

Hattadagur

Í dag er hattadagur í leikskólanum og máttu börn og starfsfólk mæta með hatta, höfuðföt eða derhúfur.  Við bjuggum líka til okkar eigin hatta og skreyttum þá og síðan var tjúttað með hattanna fyrir hádegismatinn. 

Með hatta

Að búa til hatta

Allir að dansa ...og spegla sig með fínu hattanna

Fleiri myndir hér

ÞS

26.06.2015

Í sól og sumaryl

Þó hitastigið fari ekki hátt um þessar mundir þá er veðrið búið að vera gott og margt brallað í leikskólanum.  Börnin eru að æfa sig í að smíða og hafa til þess stóran rekadrum þar sem þau geta neglt af vild. 

Einbeittar stúlkur að smíða

Þá erum við að rækta okkar eigið grænmeti og kartöflur en við erum með 4 ræktunarkassa á lóðinni.  Við settum kartöflur í einn kassann, radísur í annan, þriðju og fjórðu kassarnir innihalda sitthvora sallattegundina auk ýmissa kryddjurta

Það þarf að vökva reglulega og hafa börnin verið að skiptast á að vökva

Síðan fór Krummadeild í gönguferð eftir 17. júní og skoðuðu listaverkin í bleika hverfinu.

Farið var í Kubb keppni á leikskólalóðinni

Fleiri myndir eru hér

ÞS

 

25.06.2015

Síðbúið myndband frá sjómannadeginum

Hér má sjá síðbúið myndband frá sjómannadeginum - https://vimeo.com/130934660

                                                                                                          AS 

 

Skóladagatal 2015-2016

Skóladagatal næsta skólaárs er komið á heimasíður grunn- og leikskólans.  Hægt er að skoða skóladagatal Djúpavogsskóla en einnig grunn- og tónskólann sér og leikskólann sér.

HDH

Nýr leikskólastjóri

Nýr leikskólastjóri hefur verið ráðinn við Leikskólann Bjarkatún.  Það er Guðrún Sigríður Sigurðardóttir, sem starfaði áður sem deildarstjóri við leikskólann.

Guðrún tekur við nýja starfinu þann 1. ágúst nk. og mun starfa í nánu samstarfi við skólastjóra Djúpavogsskóla.  Guðrún kemur til með að stýra öllu starfi leikskólans en skólastjóri Djúpavogsskóla stýrir faglegu samstarfi milli skólastiganna tveggja.

F.h. skólasamfélagsins á Djúpavogi óska ég Guðrúnu hjartanlega til hamingju með nýja starfið og óska henni velfarnaðar í því.

Halldóra Dröfn, skólastjóri Djúpavogsskóla

 

Skógardagur leikskólans

Föstudaginn 19. júní verður Skógardagur leikskólans. 

Að þessu sinni ætlum við að hafa þetta einfalt í sniðum.  Við ætlum að hittast klukkan 17:00 við hliðið og ganga saman í gegnum skóginn.  Við hengjum Óskaboxið upp á sínum stað og í Aðalheiðarlundi ætlum við að borða saman nesti (sem hver kemur með fyrir sig) og fara í nokkra leiki. 

Allir velkomnir.

 

Dóra

Frí eftir hádegi 19. júní vegna 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna

Starfsmönnum Djúpavogshrepps verður gefið frí eftir hádegi föstudaginn 19. júní til að fagna 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. 

Þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri langþráðan kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Baráttan hafði þá staðið yfir frá árinu 1885 en þá skrifaði Valdimar Ásmundsson grein um stjórnmálaréttindi kvenna í blað sitt Fjallkonuna og sömuleiðis Bríet Bjarnhéðinsdóttir, og Páll Briem hélt opinberan fyrirlestur um kosningarétt og önnur réttindi kvenna.

Árið 1894 var stofnað í Reykjavík Hið íslenska kvenfélag og hafði það jafnrétti kynjanna og þátttöku kvenna í opinberum málum á stefnuskrá sinni. Félagið safnaði 2000 undirskriftum með áskorun til Alþingis um að veita konum kosningarétt árið 1895. Þetta var fyrsta opinbera krafan um kosningarétt kvenna sem skipulögð samtök kvenna lögðu fram.

Allar stofnanir sveitarfélagsins verða því lokaðar frá hádegi 19. júní.

Tengt efni:
Kvennasögusafn Íslands
Kosningaréttur í 100 ár
Konur og stjórnmál
Wikipedia
Vísindavefurinn

Afrakstur Sólblómahátíðar

Sólblómahátíð leikskólans fór fram í gær og fór afskaplega vel fram.  Nemendur höfðu undirbúið sig í allan vetur með því að búa til ýmis listaverk sem seld voru í gær.  Auk þess bökuðu þau bollakökur og bjuggu til kókoskúlur sem þau seldu sjálf á kaffihúsi, ásamt djús og kaffi.  Þá höfðu þau verið búin að planta ýmsum kryddjurtum sem seldust einnig vel.  Mjög góð mæting var strax þegar kaffihúsið opnað klukkan 15:30 og var fólk að koma alveg til að vera fimm.  Klukkan 16:00 sungu börnin fjögur lög sem þau höfðu verið búin að æfa, eitt þeirra Bonse aba er þjóðlag frá Zambíu, en þar býr einmitt Carol.

HDH

 

 

 

 

Verið að baka möffins fyrir kaffihúsið

Til að baka kókoskúlurnar þurfti að margfalda uppskriftina og telja hvað átti að setja marga desilítra í deigið.  Við gerðum fimmfalda uppskrift og áttu að vera 3 dl í hverri uppskrift þannig að þá varð að telja

Kókoskúlurnar mótaðar

 

Markmiðið var að safna fyrir árgjaldinu sem eru 45.000.- en okkur langaði líka til að safna aðeins meiru til að geta lagt inn til viðbótar í "framtíðarsjóðinn" hennar Carolar.  Telst okkur til að það hafi safnast um 55.000.- krónur í gær.

 

Nokkrir foreldrar og ættingjar barnanna voru ekki heima í gær og gátu því ekki mætt.  Listaverkin munu hanga hér uppi á veggjum áfram og verða til sölu út þessa viku og næstu, þ.e. til 19. júní.  Einnig er enn hægt að kaupa kryddjurtir.  Lágmarksgreiðsla fyrir listaverk eða kryddjurt eru 500.- en það má að sjálfsögðu greiða meira.  Hvetjum við ykkur öll til að leggja góðu málefni lið.

Afgreiðslufólkið að störfum

Myndir af undirbúningi sólblómahátíðar eru hér

Myndir af verkum barnanna og Sólblómahátíðinni má finna hér. 

 

Sólblómahátíð

Sólblómahátíð leikskólans verður 8. júní- Auglýsingu má finna hér.  Allir íbúar eru hjartanlega velkomnir.

HDH

Fallegu hreindýrin okkar

Það ætlaði allt um koll að keyra á Kríudeild í hádeginu þegar börnin sátu í rólegheitunum að borða steiktan fisk með kartöflum og grænmeti.  Haldiði ekki að hreindýrin hafi komið í heimsókn með því að kíkja yfir hæðina og þar með voru þau komin beint fyrir utan gluggann á deildinni.  Það var náttúrulega ekki annað hægt en að standa aðeins upp og sjá þessa fallegu tarfa sem eru búnir að halda sig inn í þorpinu í allt vor. 

Börnin eru nú samt alvön því að sjá dýrin enda orðin töluvert gæf og kippa sér lítið við það þó bílar keyri framhjá eða krakkar kalli til þeirra þau líta bara upp og síðan halda þau áfram að bíta græna grasið.  Það var með semingi sem þau fengust til að setjast aftur og klára matinn sinn en hreindýrin voru rosalega spennandi og langaði nokkrum að fara í gönguferð eftir matinn til að klappa dýrunum. 

 

Hreindýrin okkar komin að kíkja á okkur

Þetta er heldur betur spennandi

Kíkt á hreindýrin

Fleiri myndir má sjá hér

ÞS