Djúpavogshreppur
A A

Leikskóli

Fyrsti vetrardagur og bangsadagur

Þann 27 október var fyrsti vetrardagur og alþjóðlegi bangsadagurinn.  Leikskólabörnin héldu upp á það á föstudegunum fyrir og fengu að hafa með sér einn bangsa að heiman.  Í tilefni komu vetrarins var svo haldið diskótek þar sem börnin dönsuðu bæði hópdansa og síðan frjálst eins og þau gátu.  Eftir hádegismat fengu svo allir íspinna til að minna okkur á veturinn.  Við í leikskólanum höfum fagnað vetrinum í þó nokkuð mörg ár með mismunandi hætti og hefur það alltaf vakið mikla lukku meðal barnanna sem skilja stundum ekki af hverju það kemur ekki snjór víst nú sé kominn vetur.  En snjórinn kom nú fljótlega því í dag fögnuðu krakkarnir snjónum enda alhvít jörð þegar börnin vöknuðu í morgunsárið.  Það voru margir foreldrar sem töluðu um það að sjaldan hefðu börnin verið svona snögg á fætur eins og í morgun.  

 

Alþjóðlegi bangsadagurinn er hins vegar nýr á nálinni hjá okkur hér í leikskólanum en hann er þann 27. október ár hvert og fjölmargir leik- og grunnskólar eru farnir að taka upp þennan dag með því að bjóða börnum skólans að koma með sinn bangsa að heiman.  

Með bangsa í leikskólann

Diskótek til að fagna vetrinum og með bangsa

Ís í eftirrétt er algjört lostæti 

 

Fleiri myndir hér

ÞS

Ársskýrsla 2011-2012

Ársskýrsla leikskólans, vegna skólaársins 2011-2012 var samþykkt á fundi fræðslunefndar í gær, þann 17. október.  Hana má finna á síðunni hér til vinstri undir "Skýrslur og áætlanir, 2011 - 2012."  HDH

18.10.2012

Myndasafnið okkar

Búið er að setja inn myndir fyrir septembermánuð og má sjá bæði myndir frá Kríudeild og Krummadeild auk þess sem myndir eru úr afmælum barna sem fædd eru í ágúst og september.  

Á Kríudeild

Á Krummadeild

ÞS

17.10.2012

Laufblaðaleiðangur

Börnin á Kríudeild fóru í laufblaðaleiðangur þar sem þau leituðu að allskonar laufblöðum í öllum litum haustsins.  Gengið var frá leikskólanum og endaði hópurinn hjá Hvammi þar sem mikið af fallegum rauðum laufblöðum voru á trjánum en einnig skemmtileg brekka og klettar sem gaman var að leika sér í.  Laufblöðin voru síðan pressuð og þurrkuð og til stendur að nota þau í sérstakt verkefni sem börnin munu gera í listakrók.  

Haldið af stað í halarófu.  

Leitað af laufblöðum

Leikið í klettunum

Fleiri myndir má finna hér

ÞS

Dýr í heimsókn

Nú í september hafa leikskólabörnin fengið tvö dýr í heimsókn.  Fyrst kom hann Magnús með  litla mús í krukku og vakti hún mikla lukku meðal barnanna en svo fengum við hana Rönd í heimsókn en hún er naggrís sem eitt barnið í leikskólanum var að fá sem gæludýr.  Hún sagði okkur að hún væri búin að fá gæludýr sem héti Rönd og væri svona næstum því hrekkjusvín.  Kom svo í ljós að gæludýrið var naggrís.   Vakti Rönd líka mikla lukku.    

Lítil mús í heimsókn

Hún Rönd í heimsókn

Krummadeild að skoða Rönd

Fleiri myndir hér

Íþróttaálfurinn í heimsókn

Foreldrafélag Djúpavogs bauð leikskólabörnum og nemendum 1.-3. bekkjar uppá skemmtilega heimsókn í gær.  Íþróttaálfurinn sjálfur kom í íþróttahúsið og sprellaði og skemmti börnunum í góða stund.  Hann fékk alla krakkana til að hreyfa sig, hoppa og skoppa og gera alls konar æfingar.  Þau fóru í fjársjóðsleit eins og sjóræningjar, teygðu sig og toguðu, fóru í splitt, spörkuðu í ímyndaða bolta og margt fleira.


Það var greinilegt að flest börnin þekkja íþróttaálfinn og félaga hans í Latabæ vel og kunnu þau margar hreyfingar og takta sem íþróttaálfurinn er þekktur fyrir.  Einhverjir söknuðu Sollu stirðu og er aldrei að vita nema hægt verði að fá hana í heimsókn síðar meir.

Leikskólabörnin og nemendur 1.-3. bekkjar þakka foreldrafélaginu kærlega fyrir frábæra skemmtun.  Myndir frá heimsókninni eru hér.  HDH

Haustgangan

Haustganga Djúpavogsskóla var farin þriðjudaginn 25. september í einmuna blíðu.

Yngstu nemendur gengu sem leið lá upp Klifið og inn að Olnboga. Þar settist hópurinn niður og borðað nesti og lék sér aðeins í klettunum. Frá Olnboga var gengið yfir að Hermannastekkum og inn í Hálsaskóg. Þar léku nemendur sé í frjálsum leik eða hvíldu sig í blíðunni. Hópurinn gekk svo alla leið heim aftur. Ferðin gekk vel enda frábært veður og góð stemming í hópnum.

 Nemendur í 5. 6. og 7. bekk fóru saman í hóp. Ferðinni var heitið í Æðarsteinsvita. Á leiðinni var komið við íbátasmiðjunni Rán og var Villi á staðnum og leyfði hann nemendum að skoða bátinn þeirra og prófa að klifra upp í hann. Nesti var tekið við Bræðsluna í skjóli og svo var farið í fjörugöngu að Æðarsteinsvita. Sumir brögðuðu á skarfakáli en aðrir skoðuðu hella við sjávarminnið. Eftir klifur í vitann fór hópurinn í skemmtilegan flækjuleik og þaðan í gamla fjárrétt rétt hjá vitanum. Endastöðin var æfingahúsnæði Tónleikafélags Djúpavogs og snertu nokkrir nemendur lítillega á hljóðfærum.

Unglingarnir gengu sem leið lá suður eftir flugbrautinni og síðan yfir í Kiðhólma.  Margt var skoðað og rætt á leiðinni og þegar farið var tilbaka var gengið inn með ströndinni og síðan upp með Borgargarðsvatni.

Í öllum ferðalögum á vegum skólans er fjallað um örnefni og sögu eins og kennarar hafa vitneskju til.  

Haustgangan í ár var í alla staði mjög skemmtileg eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.   HDH (og starfsfólk)

Skólamjólkurdagurinn

Skólamjólkurdagurinn var þann 27. september sl.  Að því tilefni fengu krakkarnir á leikskólanum mjólk með hádegismatnum en vanalega fá þau vatn með matnum.  

Skálað í mjólk

 

Fleiri myndir af skólamjólkurdeginum eru hér

ÞS