Djúpavogshreppur
A A

Leikskóli

Íþróttasprell hjá 0. - 2. bekk

Hefð er fyrir því að elstu nemendur leikskólans heimsæki grunnskólann síðasta árið sitt í leikskólanum.  Mjög gott er að byrja aðlögun barnanna sem fyrst þannig að þau verði búin að kynnast sem flestum þáttum grunnskólans þegar þau hefja skólastarið 6 ára gömul.

Sl. mánudag fóru þau í heimsókn í íþróttatíma með nemendum 1. og 2. bekkjar.  Verður farið annan hvorn mánudag í allan vetur og fylgir starfsmaður af leikskólanum börnunum í íþróttahúsið og aðstoðar við tímann þar. 

Á mánudagsmorguninn mættu börnin mjög spennt í leikskólann, öll tilbúin með íþróttatöskurnar sínar og klár í slaginn.  Eins og sést á meðfylgjandi myndum þá gáfu þau eldri börnunum ekkert eftir í fimi og lipurð og höfum við fengið fregnir af því að foreldarnir hafi fengið íþrótakennslu þegar komið var heim. 

Myndir frá fyrsta íþróttatímanum eru hér.

HDH

Starf á Kríudeild

Fjölbreytt starf hefur einnig farið fram á Kríudeild í janúar.  Myndir eru hér.  HDH

26.01.2012

Þorrablót á leikskólanum

Hefð er fyrir því að halda Þorrablót á leikskólanum.  Ekki var brugðið út af þeirri venju í ár og fór blótið nokkuð vel fram.  Byrjað var á dansleik, þar sem hefðbundin leikskólalög voru spiluð auk þess sem Justin Bieber fékk að taka nokkra slagara við misjafnan fögnuð þeirra sem á hlýddu.  Að balli loknu var farið í slökun til að safna kröftum fyrir átið og lásu börnin bækur til að róa sig niður eftir tjúttið.  Starfsfólkið opnaði milli deilda og raðaði borðunum upp í langborð þannig að allir gætu nú verið saman í partýinu.  Þorramaturinn var síðan á borð borinn og að því loknu var ís í eftirmat.  Myndir frá þessum skemmtilega degi eru hér.  HDh

Starf á Krummadeild

Hér má sjá nemendur Krummadeildar við hin fjölbreyttustu störf sl. vikur.  Þau hafa verið í búningaleik, fóru út að leika þegar veðrið var til friðs, máluðu hatta til að hafa á Þorrablóti o.m.fl.  Flottir krakkar þar á ferð.  HDH

24.01.2012

Litlu jólin

Betra er seint en aldrei, segir einhvers staðar og á það vel við nú.  Hér má finna myndir frá "Litlu jólunum" sem voru haldin í leikskólanum 16. desember sl.  Fóru þau fram á hefðbundinn hátt.  HDH

24.01.2012

Foreldrafundur á Kríudeild

Þriðjudaginn 19. janúar var haldinn foreldrafundur á Kríudeild.  Þátttaka foreldra var nokkuð góð, 10 foreldrar mættu og áttu 13 börn af 22 fulltrúa sinn á fundinum, eða 59% 
Engin formleg dagskrá var en deildarstjóri hóf fundinn á því að segja frá nýjungum í hreyfingu.  Ákveðið hefur verið að fara í samstarf við grunnskólann og mun elsti árgangurinn fara annan hvorn mánudag í íþróttir með 1. og 2. bekk.  Íþróttakennari grunnskólans heldur utan um tímana en starafsmaður frá leikskólanum fer með börnunum og aðstoðar þau.
Þá var rætt um skólastarfið hjá elsta árganginum, Sögugrunnur var kynntur en það er verkefnakassi sem foreldrafélög leik- og grunnskólans keyptu saman sl. vor.  Í þessum kassa eru myndir og orð og er ætlast til að börnin semji sögur o.m.fl.  Þá var rætt um Numicon, stærðfræðikubbana en þeir eru einnig sameiginleg eign skólanna.
Þá var rætt um rólu-/gæsluvöllinn sem starfræktur var sl. sumar og virðist vera áhugi á því hjá foreldrum að sveitarfélagið bjóði uppá slíka þjónustu einnig í sumar.  Halldóra tók að sér að kanna það mál.
Rætt var um lokunina á leikskólanum milli jóla og nýárs og var ekki annað að heyra en að allir foreldrarnir, sem mættir voru á þennan fund, hafi verið ánægðir með hana.

Næsta þriðjudag verður foreldrafundur hjá Krummadeild, frá 17:00 - 18:00.  Foreldrar eru hvattir til þess að mæta.  HDH

19.01.2012