Djúpavogshreppur
A A

Leikskóli

Dagatal fyrir desember

Dagatal fyrir desember er komið inn á leikskólasíðuna.  Sérstök athygli er vakin á því að leikskólinn verður lokaður frá og með laugardeginum 24. desember, til og með mánudagsins 2. janúar.  Er þetta í fyrsta sinn sem leikskólinn er lokaður á þessum tíma.  Ástæður eru nokkrar:  í fyrsta lagi teljum við mjög mikilvægt að nemendur fái frí eins og aðrir og hafi tækifæri til að njóta jólahátíðarinnar í faðmi fjölskyldunnar, í öðru lagi hefur starfsólkið líka gott af því að hlaða batteríin auk þess sem verið er að samræma opnunartíma leikskólans að hluta við opnunartíma grunn- og tónskóla, þar sem þetta er orðinn ein og sama stofnunin.  Leikskólinn opnar aftur 3. janúar 2012.  HDH

Foreldrahandbók / starfsáætlun

Þá er foreldrahandbókin / starfsáætlunin fyrir skólaárið 2011 - 2012 loksins tilbúin.
Þar sem við erum Grænfánaskóli ætlum við ekki að prenta hana út til að afhenda foreldrum, heldur verður hún sett hér á síðuna, undir skýrslur og áætlanir.  Einnig verður hún send í tölvupósti til foreldra.  Mikilvægt er að foreldrar lesi efni hennar og kynni sér vel.  HDH

23.11.2011

Venjulegur dagur á leikskólanum

Í dag er þriðjudagur, venjulegur dagur á leikskólanum.  Ég sit hér á skrifstofunni minni og hlusta á börnin spjalla og leika sér.
Ég er ekki viss um að hinn almenni borgari geri sér grein fyrir því fjölbreytta starfi sem fram fer í leikskólum landsins, ég vissi það ekki sjálf fyrr en ég fór að vinna hér í húsinu.  Hafði þó að einhverju leyti gert mér grein fyrir því þar sem ég hef átt tvö börn í leikskóla en það er samt öðruvísi að taka þátt í hringiðunni.
Núna er klukkan 9:30.  Einn hópur af börnum er að vinna í listakrók, þau eru að mála plastflöskur og búa til fiska og fugla, einn hópur er í holukubbum.  Þau eru að byggja hús og bíla og nú standa yfir samningaviðræður milli stúlkna og drengja um byggingarefnið og verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig það endar.  Þriðji hópurinn er að leira.  Þau eru að búa til listaverk (sögðu þau mér) og sýndist mér það vera alveg rétt.  Fjórði hópurinn er í könnunarleik, eitt barn sefur og tvö börn eru í málörvun.  Matráður er í eldhúsinu að taka til ávaxtaskammtinn sem börnin fá klukkan tíu, einn starfsmaður er að undirbúa skuggaleikhús og hinir sinna börnunum í starfinu, þannig að í nógu er að snúast í leikskólanum Bjarkatúni.

Sl. miðvikudag var Dagur íslenskrar tungu.  Á myndinni sem fylgir þessari frétt má sjá þennan fína karl sem var klæddur í buxur, vexti, brók, skó og bætta sokka.  Hann fékk einnig húfutetur og hálsklút.  Elstu nemendur leikskólans eiga heiðurinn af honum.  Kannski verður eitthvert þeirra fatahönnuður.  Hver veit??

Megið þið eiga góðan dag í dag. 

Kveðja frá nemendum og starfsfólki í Bjarkatúni.  HDH

Dagur íslenskrar tungu

Í dag er Dagur íslenskrar tungu.  Krakkarnir í 1. og 2. bekk unnu með ljóð Jónasar í morgun og bjuggu til þetta fína verkefni sem sjá má hér.  HDH

Jibbí - Grænfáninn kominn upp

Frábær dagur í grunn- og leikskólanum, grænfáninn blaktir við báða skólana og við erum afskapleg glöð.

Dagskráin hófst klukkan 10:00 í leikskólanum.  Þar voru elstu börnin með framsögu og síðan sungu börnin á Kríudeild tvö lög.  Þá ræddi Gerður, frá Landvernd við börnin og foreldrana, sagði þeim frá tilurð Grænfánaverkefnisins, útskýrði fyrir þeim myndina á fánanum o.fl.  Síðan skoðuðu foreldrar glæsileg verkefni sem nemendur hafa verið að vinna að sl. vikur, bæði í tengslum við Grænfánann en einnig í tengslum við Daga myrkurs.  Þegar búið var að klæða öll börnin fórum við út í garð þar sem elstu nemendurnir aðstoðuðu Gerði við að draga fánann að hún.  Sungu þau aftur Grænfánalagið af því tilefni.

Næst lá leiðin upp í grunnskóla.  Þar var mjög svipað fyrirkomulag.  12 nemendur, sem nú sitja í nýkjörnu umhverfisráði sögðu frá starfinu í grunnskólanum fram að þessu auk þess sem þau tæptu á því sem okkur langar að vinna í framhaldinu.  Þá sungu samsöngsnemendur tvö lög, við undirleik og stjórn Józsefs og Andreu auk þess sem nokkrir nemendur úr tónskólanum léku einnig undir.  Síðan ræddi Gerður við börnin og foreldrana, eins og á leikskólanum og að því loknu fórum við út og fyrstu bekkingarnir aðstoðuðu hana við að draga fánann upp.  Þá fór öll hersingin inn aftur þar sem við gæddum okkur á dýrindis skúffukökum með grænu kremi í boði foreldrafélagsins og skoðuðum öll fallegu verkefnin sem börnin hafa verið að vinna í grenndarnáminu.

Ég er mjög stolt og glöð í dag.  Stolt af börnunum í skólanum mínum, Djúpavogsskóla, stolt af starfsfólkinu og stolt af foreldrunum.  Ég er líka ánægð með forsvarsmenn sveitarfélagsins sem hafa sett flokkun og umhverfismál mjög ofarlega í forgangsröð þeirra mörgu verkefna sem þarf að sinna.  Ég trúi því að við séum í sameiningu að ala upp börn og unglinga sem eru meðvituð um hversu mikilvæg við erum, hvert og eitt og hvað við öll skiptum miklu máli með því að taka réttar ákvarðanir í þágu umhverfisins. 

Meðfylgjandi myndir tók Andrés Skúlason.  HDH

Útivera í október

Þrátt fyrir að rigningin hafi verið besti vinur okkar í október, þá hafa komið góðir dagar þar sem börnin hafa getað verið úti að leika sér, án þess að verða rennandi blaut. Hér eru nokkrar útimyndir.  HDH

09.11.2011

Háfur

Hann Pálmi Fannar kom færandi hendi, hér síðasta föstudag.  Hann kom með þennan fallega háf, til að sýna börnunum.  Þau höfðu mikinn áhuga á háfnum og spurðu margs konar spurninga.  Mjög mikilvægt er fyrir börnin að sjá dýr í eigin skinni.  Þannig gera þau sér mikið betur grein fyrir eðli þeirra og útliti og læra að þekkja sitt nánasta umhverfi og lífríki þess.  Við þökkum Pálma kærlega fyrir.  Myndir eru hér.  HDH

09.11.2011

Sr. Sjöfn í heimsókn

Sr. Sjöfn ætlar að heimsækja leikskólann einu sinni í mánuði í vetur.  Fyrsta heimsóknin var fyrir nokkru og tókst hún afskaplega vel.  Sjöfn sagði börnunum sögur, þau sungu og síðan fékk hún Helgu Björk til að aðstoða sig við að leika leikrit.  Af myndum sem finna má hér má sjá að börnin skemmtu sér hið besta og sátu stillt og prúð allan tímann.  HDH

09.11.2011

Grænfáninn dreginn að húni

Á morgun, þann 10. nóvember verður mikill gleðidagur í Djúpavogsskóla.  Þá mun fulltrúi frá Landvernd afhenda grunn- og leikskólunum Grænfánann, sem viðurkenningu fyrir að standa sig vel í umhverfismálum.
Af því tilefni ætlum við að hafa stuttar athafnir í báðum skólunum.  Allir íbúar og velunnarar skólanna eru hjartanlega velkomnir til að fagna þessu tilefni með okkur.
Athöfnin hefst klukkan 10:00 í leikskólanum.  Þar munu leikskólabörnin segja frá því sem þau hafa gert, þau syngja tvö lög og fulltrúi Landverndar flytur ávarp.  Þá sýna börnin verkefni sem þau hafa verið að vinna að sl. vikur.  Síðan verður fáninn dreginn að húni.
Athöfnin í grunnskólanum hefst klukkan 10:45.  Þar munu grunnskólabörnin kynna sína vinnu, samsöngsnemendur syngja tvö lög, fulltrúi landverndar flytur ávarp og fáninn verður dreginn að húni.  Að því loknu verður kaffi, djús og kaka í boði fyrir alla og gestir geta skoðað verkefni sem nemendur hafa unnið að sl. vikur.

Af þessu tilefni ætlum við í Djúpavogsskóla að hafa grænan dag á morgun.  Við ætlum að mæta í grænum fötum í skólana, eða með eitthvað grænt á okkur.  Hvetjum við alla íbúa til að gleðjast með okkur og gera slíkt hið sama.  HDH