Djúpavogshreppur
A A

Leikskóli

Matseðill og dagatalið

Vil benda foreldrum á að búið er að setja inn dagatal maímánaðar og matseðil maímánaðar inn á heimasíðuna. Einnig er búið að bæta við myndum í myndasafn leikskólans.

ÞS

29.04.2011

Brúðkaup aldarinnar ?

Börnin á leikskólanum Bjarkatúni fyljast sko alveg með því sem er að gerast úti í hinum stóra heimi enda varla fjallað um annað þessa dagana en brúðkaup þeirra William og Kate í Bretlandi.  Þegar börnin mættu í morgunsárið snérist umræðan milli barnanna um prinsessuna Kate og William prins.  Þessi mikli áhugi þeirra varð til þess að kennarar deildarinnar fóru að finna myndir af þeim tilvonandi hjónakornum sem börnin gætu litað og var það auðfundið á netinu.  Síðan var sjónvarpið sett upp í salnum svo börnin gætu nú fylgst með þessu konunglega brúðkaupi.  Ekki voru nú samt allir með á nótunum þó áhuginn hafi smitað út frá sér en einn strákurinn á Kríudeild spurði kennarann sinn að því hvenær þau ætluðu eiginlega að fara að horfa á þessa prinsessumynd?  En það var greinilegt að stúlkurnar voru aðeins áhugasamari heldur en strákarnir. 

Eins og meðfylgjandi myndir sýna þá skín áhuginn á þessu úr hverju andliti.


Börn sitja og fylgjast með komu Kate til kirkjunnar


Það var mikil umræða um það hvernig kjóllinn hennar yrði á litinn..bleikur, rauður eða ??


Bæði stórir og smáir fylgdust með

Þs

Starfsdagur

Starfsdagur verður í leikskólanum á föstudaginn, 8. apríl.  Leikskólinn er lokaður þennan dag.  Foreldraviðtöl hefjast svo í næstu viku og því mun skipulagt starf eitthvað raskast. 

ÞS

06.04.2011

Leikskólakennara vantar

  Leikskólakennari

Leikskólinn Bjarkatún, Djúpavogi auglýsir eftir leikskólakennurum frá og með 15. ágúst 2011.  Auglýst er í eina stöðu deildarstjóra og þrjár stöður leikskólakennara inn á deildum.  Um mismunandi stöðuhlutfall er að ræða allt frá 50% upp í 100 % stöður. 

Samkvæmt lögum nr. 87/2008;2 kafli, 3 gr.

Rétt til að nota starfsheitið leikskólakennari og starfa við leikskóla á vegum opinberra aðila eða aðra hliðstæða skóla hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra.  Leyfi til þess að nota starfsheitið leikskólakennari má aðeins veita þeim sem lokið hefur:

  1. meistaraprófi frá háskóla sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra á grundvelli laga um háskóla, nr. 63/2006, á fræðasviði sem ráðherra viðurkennir til kennslu á leikskólastigi; eða
  2. öðru námi sem jafngildir meistaraprófi skv. 1. tölul. og ráðherra viðurkennir til kennslu á leikskólastigi.

Samkvæmt lögum nr. 87/2008;6 kafli, 17 gr.

Sæki enginn leikskólakennari um auglýst leikskólakennarastarf, leikskólastjórastarf eða aðstoðarleikskólastjórastarf, sbr. 2. mgr. 9. gr., þrátt fyrir endurtekna auglýsingu er heimilt að lausráða í starfið til bráðabirgða, að hámarki til eins árs í senn, einstakling sem ekki er leikskólakennari. Hið sama gildir ef umsækjandi uppfyllir ekki þau almennu skilyrði sem nauðsynleg teljast til þess að fá ráðningu í starf. Nú hefur starf starfsmanns verið auglýst í tvígang án þess að leikskólakennari hafi fengist og er þá heimilt að ráða hann í starfið samkvæmt nánari fyrirmælum sveitarstjórnarlaga og hlutaðeigandi kjarasamnings. Starfsmaður sem ráðinn er vegna framangreindra aðstæðna má ekki bera starfsheitið leikskólakennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar.

Upplýsingar er hægt að nálgast hjá leikskólastjóra, Þórdís í síma 478-8832/860-7277 eða í tölvupósti, bjarkatun@djupivogur.is

Umsóknarfrestir er t.o.m. 20. Apríl 2011  Umsóknum má skila í tölvupósti á bjarkatun@djupivogur.is eða í lokuðu umslagi merktu Leikskólinn á skrifstofu Djúpavogshrepps.  Umsóknareyðublöð má fá á skrifstofu Djúpavogshrepps eða á heimasíðu Djúpavogs undir eyðublöð.  Farið verður með allar umsóknir sem trúnaðarmál.