Djúpavogshreppur
A A

Leikskóli

Afmælisbörn ágústmánaðar

Eftir sumarfrí leikskólans tókum við upp á því að halda upp á afmæli barnanna í leikskólanum síðasta föstudag í hverjum mánuði.  Börnin fá þó áfram kórónu á afmælisdaginn, það er sungið fyrir það og síðan ætlum við að Flagga þeagr flaggstöngin verður komin í lag.  Barnið má koma með ávexti á afmælisdaginn sinn og bjóða í ávaxtatímanum sem er kl. 10:00.  Fyrsti afmælisföstudagurinn sem var haldinn með þessu breytta sniði var þann 27. ágúst en þá voru það þrjár stúlkur sem héldu upp á afmælið sitt á Kríudeild.  Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum tókst þetta mjög vel. 

Hér fengu þær að skreyta kökuna sína saman

Síðan var farið með vagnin inn á deild

Afmælisbörnin sátu saman og blésu á kertin, 4, 5 og 5 en þær voru allar með sín afmæliskerti

Auðvitað fengu börnin á deildinni að taka þátt í afmælisföstudeginum með afmælisbörnum ágústmánaðar

Fleiri myndir eru hér en vonandi gefur þetta ykkur innsýn inní það hvernig leikskólinn heldur upp á afmælisdag barnanna í leikskólanum.

ÞS

Foreldrafundur í leikskólanum

Síðastliðinn fimmtudag, 16. september, var haldinn opinn foreldrafundur í leikskólanum.  Fundurinn var vel sóttur bæði af mömmum og pöbbum þó aðalega mömmum.  September hefur verið nýttur til þess að aðlaga inn ný börn og fínisera starfið á deildunum.  Það verða 36 börn í leikskólanum í vetur og hefur fjölgað um 11 börn frá því í fyrra.  Við þurfum því að prófa ýmislegt og þróa annað áður en við sjáum hvort það virkar eða virkar ekki.  Báðar deildirnar eru fullsetnar en 20 börn eru á eldri deildinni og 16 börn á þeirri yngri.  Við munum því nota öll þau rými sem eru í húsinu, listakrók, salinn sem er skipt í tvennt fyrir sitthvora deildina, viðtalsherbergið og ganginn.  Fataklefinn verður jafnvel líka nýttur sem leiksvæði í vetur.  

Í allt sumar auglýstum við eftir leikskólakennara og ekki var mikið um fyrirspurnir né umsóknir en rétt fyrir opnun rættist úr málunum en það stóð þó yfir í stuttan tíma.  Við auglýstum aftur og nú hafa fyrirspurnum rignt inn, bæði heimafólk og aðkomufólk, þó svo að umsóknarfresturinn sé löngu liðinn.  Vanessa byrjaði á Krummadeild í síðustu viku en hún verður í ca. 50% starfi og síðan mun Júlía Hrönn byrja þann 1. október í 100% starfi inn á Kríudeild.  Hafdís ætlar að hætta þá og um leið og við þökkum henni kærlega fyrir þann tíma sem hún var með okkur, óskum við henni alls hins besta.  Hugrún er áfram í sínu námi til leikskólakennara og verður hún eitthvað frá vegna þess en Þórdís mun leysa hana af.  

Vetrarstarfið var kynnt en foreldrar fengu send heim hefti þar sem farið var yfir skipulag vetrarins.  Helstu breytingarnar eru að nú opnum við á báðum deildum kl. 7:45 og það fer að verða mikilvægt að börnin hafi klæðnað við hæfi með sér í leikskólann.  Kuldagalli, regngalli, ullasokkar og 2 pör af vettlingum geta verið nauðsynleg en einnig aukaföt ef þau blotna.  Við erum ekki með neinn fatnað til að lána börnunum og þurfu því að hringja eftir slíku ef þetta vantar hjá barni.  Útivera verður á hverjum degi ef veður leyfir en börnin á Kríudeild fara út eftirhádegi eins og síðastliðin ár og börnin á Krummadeild fara út fyrir hádegi.  Við getum ekki látið báðar deildir út á leiksvæðið á sama tíma vegna fjölda systkina milli deilda og vegna skipulagsins á hópastarfinu á Kríudeild.  Afmæli barna á leikskólanum verða framvegis þannig að barnið fær afmæliskórónu á afmælisdaginn og sungið verður fyrir barnið í samverustundinni kl. 10:00.  Ef barnið vill koma með eitthvað má það koma með ávexti til að bjóða í ávaxtatímanum.  Síðasta föstudag í mánuði verður svo haldið upp á afmæli mánaðarins þar sem afmælisbörn hvers mánaðar fá að blása á kertin og boðið verður upp á eina afmælisköku fyrir afmælisbörnin.  Hægt er að sjá hvenær verður haldið upp á afmælin í skóladagatali leikskólans.  Vegna mistaka þá lenti september-afmælin á fimmtudegi en ekki föstudegi og ætlum við að halda afmælisdögunum eins og þeir eru á skóladagatalinu.  Í október verður Bóndavarðan með nýju sniði og ætlar leikskólinn að senda inn fréttir og upplýsingar í hana eins og hádegismatseðilinn fyrir mánuðinn.

Deildarstjórar sögðu frá því að farið verði í bókasafnið á föstudögum í vetur með börnin á Kríudeild, eldri börnin á Krummadeild og börnin á Kríudeild fara annan hvern miðvikudag í íþróttahúsið en hinn miðvikudaginn fer Kríudeildin í vettvangsferðir um nágrennið.  Haldið verður áfram með öðruvísi föstudaga þar sem börnin mega koma í, með eða gert verður eitthvað sérstakt þann föstudaginn.  Deildarnar ætla að taka upp þemastarf þar sem ákveðið þema mun fara í gegnum allt starfið á báðum deildum.   

Fyrirspurnir frá foreldrum komu um verkefnin í listakrók, þar sem mætti vera fjölbreytni og tók starfsfólkið vel í þá hugmynd og ætlar að leggja sig fram um að finna nýjar og fleiri hugmyndir fyrir listakrókinn.  Einnig var útivera barna á Kríudeild rædd en bæði Neistatímar og forskólatímar fyrir elsta árganginn eru eftir hádegi þegar útivera leikskólans er.  Börnin á Kríudeild munu hins vegar fara út fyrirhádegi þó ekki verði farið á leiksvæðið þar sem bæði verður farið í tónlist upp í tónskóla og í íþróttahúsið.  Síðan eru það vettvangsferðirnar aðra hverja viku.  Neistatímar og forskóli Tónskólans er val foreldranna og er því miður á sama tíma og útiveran er hjá deildinni en útiveran er til kl. 14:30 þannig að flest börnin í elsta árgangnum sem eru allan daginn í leikskólanum ættu að fá einhverja útiveru á hverjum degi.  

Foreldrafélagið gaf út lítinn bækling þar sem stiklað var á stóru yfir það sem var gert í vetur.  Síðast verk fráfarandi stjórnar var svo að gefa leikskólanum nýja digital myndavél og þökkum við þeim kærlega fyrir en hún mun koma að góðum notum í vetur.  Ný stjórn var kosin og í henni starfa Íris Dögg og Kristján, Inga og Óli, Hafdís og Baddi og Vanessa og Gunnar.  

ÞS

20.09.2010

Laus staða í leikskólanum

Leikskólinn Bjarkatún, Djúpavogi auglýsir eftir leikskólakennara/leiðbeinanda.  Auglýst er eftir kennara/leiðbeinanda í 100% stöðu með vinnutíma 8:00-16:00.  Umsækjandinn þarf að geta sýnt sjálfstæð vinnubrögð, hæfni í mannlegum samskiptum, ábyrgð, frumkvæði og metnað í starfi.   Þarf að geta hafið störf sem fyrst og er umsóknarfresturinn til 10. september 2010.

 

Samkvæmt lögum nr. 87/2008;2 kafli, 3 gr.

Rétt til að nota starfsheitið leikskólakennari og starfa við leikskóla á vegum opinberra aðila eða aðra hliðstæða skóla hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamála-ráðherra.  Leyfi til þess að nota starfsheitið leikskólakennari má aðeins veita þeim sem lokið hefur:

  1. meistaraprófi frá háskóla sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra á grundvelli laga um háskóla, nr. 63/2006, á fræðasviði sem ráðherra viðurkennir til kennslu á leikskólastigi; eða
  2. öðru námi sem jafngildir meistaraprófi skv. 1. tölul. og ráðherra viðurkennir til kennslu á leikskólastigi.

 

Samkvæmt lögum nr. 87/2008;6 kafli, 17 gr.

Sæki enginn leikskólakennari um auglýst leikskólakennarastarf, leikskólastjórastarf eða aðstoðarleikskólastjórastarf, sbr. 2. mgr. 9. gr., þrátt fyrir endurtekna auglýsingu er heimilt að lausráða í starfið til bráðabirgða, að hámarki til eins árs í senn, einstakling sem ekki er leikskólakennari. Hið sama gildir ef umsækjandi uppfyllir ekki þau almennu skilyrði sem nauðsynleg teljast til þess að fá ráðningu í starf. Nú hefur starf starfsmanns verið auglýst í tvígang án þess að leikskólakennari hafi fengist og er þá heimilt að ráða hann í starfið samkvæmt nánari fyrirmælum sveitarstjórnarlaga og hlutaðeigandi kjarasamnings. Starfsmaður sem ráðinn er vegna framangreindra aðstæðna má ekki bera starfsheitið leikskólakennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar. 

 

Upplýsingar er hægt að nálgast hjá leikskólastjóra, Þórdís í síma 478-8832 eða í tölvupósti, bjarkatun@djupivogur.is

 

Umsóknum má skila í tölvupósti á bjarkatun@djupivogur.is, eða í lokuðu umslagi merktu Leikskólinn á skrifstofu Djúpavogshrepps.  Umsóknareyðublöð má fá á skrifstofu Djúpavogshrepps eða á heimasíðu Djúpavogs undir eyðublöð.  Farið verður með allar umsóknir sem trúnaðarmál

Starfsdagur í leikskólanum

Starfsdagur verður í leikskólanum á morgun og verður því leikskólinn lokaður.

ÞS

09.09.2010

Starwars röðin

Á eldri deildinni fara krakkarnir oft á dag í röð eins og þegar farið er í fataklefann, áður en farið er út og þegar komið er inn eftir útiverunni.  Það er misjafnt hversu auðvelt börn eiga með að standa í röð og hefur það til dæmis sýnt sig að strákar eiga mun erfiðara með þetta heldur en stelpur.  En æfingin skapar meistarann og til þess að allt fari nú ekki í vitleysu þá notum við kennararnir ýmsa leiki til að dreifa huganum og láta börnunum finnast það auðvelt að standa í röð.  Við förum með vísur þar sem við teljum börnin eins og "einn og tveir, inn komu þeir" þrír og fjórir, furðu stórir og svo framvegis.  Síðan höfum við raðað þeim upp í aldursröð þar sem elsti er fyrstur og yngsti síðastur en þá þarf maður að vera með á hreinu hvað allir eru gamlir og í hvaða mánuði þeir eru fæddir í.  Síðan snýr maður röðinni við og hefur þann yngsta fyrst og elsta síðast en það er alltaf mikil keppni hjá þeim eldri að komast fremst í röðina.  Ein röð er þó skemmtilegust og það er "star wars röðin" eins og krakkarnir kalla hana en heitir reyndar stafrófsröðin en vegna þessa nafnabrengls hefur hún orðið agalega vinsæl.  En eins og nafnið gefur til kynna er börnunum raðað eftir stafrófsröð ýmist frá byrjun eða öfuga röð. 

ÞS

Gönguferð upp á Bóndavörðu

Eftir að hafa fylgst með uppsetningu nýs masturs á Bóndavörðunni ákváðu nemendur Kríudeildar að fara í gönguferð upp á Bóndavörðu og skoða nýja mastrið.  Börnin höfðu séð bláan vörubíl koma með farm sem hann hífði með krana af pallinum.  Daginn eftir kom stærðarinnar kranabíll sem fór að hífa upp nýja mastrið. Þegar mastrið var risið ákváðum við að fara og skoða þetta nánar.  

Það er sko fallegt að sjá ofan af Bóndavörðu og hringsjáin er alltaf spennandi

Það voru menn að vinna í mastrinu


mastrið er mjög hátt

Hér má sjá myndir af ferðinni

ÞS