Djúpavogshreppur
A A

Leikskóli

Sveitaferð

Foreldrafélag leikskólans bauð leikskólabörnum og foreldrum þeirra í sveitaferð inn á Hvannabrekku þann 21. maí sl.  Lagt var af stað frá leikskólanum kl. 13:00 og fóru þeir foreldrar sem gátu á einkabílum og sameinast var í bíla.  Þegar komið var á Hvannabrekku tók húsmóðirin á móti okkur og leiddi okkur inn í fjósið þar sem kýr og kálfar voru.  Eftir að búið var að skoða þær, klappa kálfunum, láta þá sjúga puttann og reyna að gefa þeim hey var haldið af stað í hitt fjósið þar sem nautin voru og eitthvað af stálpaðari kálfum.  Þar var áfram reynt að gefa þeim hey og klappað þeim á kollinn.  Fyrir utan fjósið var kanína í búri sem vakti mikla lukku en líka ýmis landbúnaðartæki sem vöktu einnig mikla lukku meðal nokkurra barna.  Síðan var kíkt á hænurnar sem voru allar hinar litskrúðugustu.  Einnig voru endur á læk og hestar en þeir hlupu í burtu þegar við nálguðumst þá.  En það var nú allt í lagi þar sem við prófuðum bara traktorinn í staðinn.  Eftir að vera búin að kynna okkur það helsta í dýraflórunni þá var gengið að bænum og sest þar niður innan um trén og nestið snætt en nokkrir foreldrar tóku sig til og bökuðu bakkelsi fyrir ferðina.  Allir fengu nægju sína og síðan var haldið heim á leið.  Við þökkum þeim á Hvannabrekku kærlega fyrir að hafa tekið á móti okkur og einnig þökkum við þeim foreldrum sem bökuðu nestið og sáu til þess að allir gætu farið með í ferðina. 

Ætli hún sé að reyna að smakka á mér?

Best að gefa þessari smá tuggu..henni veitir ekki af

Þessir voru agalega litlir og fallegir

Kanínan í búrinu sínu

Vélarnar höfðu líka mikið aðdráttarafl

Þessir voru í því að smala hænum

Hestarnir hlupu bara í burtu og endurnar voru í einhverjum feluleik

Síðan var nestið snætt í lundinum við húsið

Hægt er að sjá myndir úr sveitaferðinni hér

ÞS

31.05.2010

Frá opnu húsi leikskólans Bjarkatúns

Þann 19. maí sl. var leikskólinn Bjarkatún með opið hús þar sem verk barnanna úr vetrarstarfinu voru til sýnis auk þess voru sýndar myndbandsupptökur úr leikskólastarfi og tónlistarstarfi barnanna hjá Andreu.  Verkefni barnanna voru fjölbreytt að vanda en þar mátti sjá gluggalistaverk, vaxmyndir, batikmyndir, fiðrildi, teikningar og klippimyndir úr Fittý.  Ljósmyndir úr starfi vetrarins voru til sýnis auk ljósmyndasyrpa úr sérstökum ferðum eins og 0. bekkjarstarfinu og fuglskoðunarferð Kríudeildar en börnin höfðu farið í fuglaskoðunarferð og bjuggu svo til hreiður með eggjum í eftir ferðina.  Ánægjulegt var hvað opna húsið okkar er alltaf vel sótt en hátt í 70 manns komu.  Sjá má myndir af opnu húsi hér og í myndasafni leikskólans hér til hliðar. 

ÞS

Skólaslit

Skólaslit Grunnskóla Djúpavogs, ásamt útskrift elstu nemenda úr leikskólanum Bjarkatúni fara fram í Djúpavogskirkju, laugardaginn 29. mai klukkan 11:00. 
Að athöfn lokinni verður kaffi í boði foreldrafélags grunnskólans og Djúpavogshrepps, í safnaðarheimilinu.  HDH

Opið hús

Við bjóðum ykkur að koma á opna húsið okkar miðvikudaginn 19. maí milli kl. 17:00-19:00.  Þar verður til sýnis verk úr vetrarstarfinu okkar og því tilvalið að kíkja við og sjá hvað börnin á leikskólanum hafa verið að gera í vetur. 

 

Allir velkomnir

 

Börn og starfsfólk Bjarkatúns

Síminn kominn í lag á leikskólanum

Nú er síminn kominn í lag á leikskólanum

ÞS

Starfsmannafundur kl. 13:00

Starfsmannafundur verður kl. 13:00 þann 14. maí nk.  Leikskólinn lokar þá.

ÞS

12.05.2010

Síminn enn bilaður á leikskólanum

Síminn á leikskólanum er bilaður en svo virðist vera að símstöð inn í leikskólanum hafi gefið sig og mun það taka einhvern tíma að gera við hana þangað til verður hægt að ná í leikskólann í síma 860-7277.  Einnig er hægt að senda í tölvupósti á bjarkatun@djupivogur.is   

ÞS

Skráningar- og innritunarreglur

Sveitarstjórn samþykkti nýverið skráningar- og innritunarreglur fyrir leikskólann Bjarkatún en skólanefnd hafði unnið þær í samráði við leikskólastjóra.  Hægt er að sjá þessar reglur undir "um Bjarkatún" eða hér. 

06.05.2010