Djúpavogshreppur
A A

Leikskóli

Hreiður

Þegar börn og starfsfólk mætti til vinnu sinnar einn morgun í maí blasti við þeim hreiður alveg við innganginn ofan á útiljósinu.  Það hafði verið ein af þessum löngu helgarfríum  og þá hafði skógarþröstur gert sér lítið fyrir og komið upp hreiðri og verpt í það 4 eggjum.  Við héldum að nú myndi hann yfirgefa hreiðrið þegar allt í einu yrði umgangur og skellir í útihurðinni en svo var nú ekki og fylgdumst við með því þegar Þrösturinn kom upp 3 ungum.  Þegar við kíktum í hreiðrið sáum við að einn unginn hafði dáið í hreiðrinu sínu. Fleiri myndir hér.

 

ÞS

Slökkviliðið heimsótt

Í byrjun júní heimsóttu elstu nemendur leikskólans slökkviliðið en það er einn liður í samstarfsverkefni leikskólans og brunaliðs Austurlands.  Nemendurnir voru 3 talsins auk þess sem Íris Dögg fylgdi hópnum.  Í heimsókninni fengu krakkarnir að skoða búnað slökkviliðsins, prófa að sprauta úr slöngunni og fóru einn rúnt á slökkvilðisbílnum um þorpið.  Eftir þessa heimsókn útskrifuðust börnin sem aðstoðarmaður slökkviliðsins og fengu það staðfest með viðurkenningarskjali.  En myndirnar tala sínu máli svo endilega skoðið þær.   Myndir hér. 

 

ÞS

Hrekkjalómur á ferð í Borgarlandinu

Í morgun þegar íbúi nokkur í Borgarlandi ætlaði að setjast inn í bílinn sinn sá hann sér til mikillar undrunar að það var búið að pakka bílnum  inn í filmuumbúðir.  Eftir harðvítuga baráttu við plastið, með skærum og hnífabrögðum komst eigandinn inn í bílinn, þá orðin allt of seinn til vinnu.   
Nú spyrja íbúar í Borgarlandinu sig hvaða hrekkjalómur hefur verið á ferð síðastliðna nótt með plastfilmu þessa og sömuleiðis spyrja menn sig hvort hann muni láta til skarar skríða aftur í nótt.  

 

 

 

 

 

 

Skógardagur Bjarkatúns

Skógardagur Bjarkatúns verður á laugardaginn, 20. júní kl. 14:00.  Málað verður á steina og þeim komið fyrir við göngustíginn síðan verður gengið um skógræktina og listaverk Bjarkatúnsbarna skoðuð.  Í Aðalheiðarlundi verður síðan hægt að borða nesti.  Hvetjum við alla til að koma og eiga góðan dag saman.

ÞS

Starfsmannabreytingar

Ég, (Þórdís) hef lokið fæðingarorlofi mínu og mun ég starfa í 50% starfi næstu 5 mánuðina og er Guðrún áfram staðgengill minn þegar ég er ekki.  

Verið er að ganga frá ráðningum fyrir veturinn en enginn faglærður umsækjandi sótti um þær stöður sem auglýstar voru í vor.  Fyrir liggur að þrír starfsmenn munu hætta í haust, þær Ásdís, Ólöf Rún og Íris B. auk þess sem ekki var búið að ganga frá ráðningu deildarstjóra fyrir Kríudeild.  

Eins og staðan er í dag þá er ekki alveg komið í ljós með vistunartíma og barnafjölda næsta vetrar og því mjög mikilvægt að foreldrar sæki um breytingu eða pláss fyrir barnið sem fyrst svo það lendi ekki á biðlista eins og útlit er fyrir að geti orðið.  

Nýir starfsmenn næsta haust verða Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir sem deildarstjóri en hún hefur lokið 3 árum af 4 sem grunnskólakennari auk þess sem hún hefur kennt einn vetur í grunnskólanum.  Hugrún Malmquist Jónsdóttir sem leiðbeinandi en hún er með stúdentspróf af sálfræðibraut og uppeldisbraut og er að byrja í námi við HÍ á leikskólakennarabraut.  Hafdís Gunnarsdóttir leiðbeinandi.

ÞS

18.06.2009

Afmælisbarn dagsins

Afmælisbarn dagsins er Natalía Lind.  Hún er fjögra ára í dag og óskum við henni innilega til hamingju með daginn.

15.06.2009

Afmælisbarn dagsins

Afmælisbarn dagsins er Hans Elías. Hann er þriggja ára í dag og óskum við honum innilega til hamingju með afmælið.

ÞS

11.06.2009

Sumar í leikskólanum

Þó svo að vetrarstarf leikskólans sé lokið þá er sumarstarfið tekið við af fullum krafti.  Börnin eru byrjuð á skógarverkefnunum sínum og svo nýta þau auðvitað  veðurblíðuna sem búin er að vera undanfarna daga til að leika sér úti og fara í gönguferðir. 

Skógardagurinn verður haldinn þann 20. júní inn í Hálsaskógi, kl. 14:00.   Börnin fá að mála steina inn í skógræktinni og koma þeim fyrir við göngustíginn og síðan verður gengið um skóginn og listaverk barnanna skoðuð.  Þegar komið verður í Aðalheiðarlund munum við borða nestið saman.  Eigum góðan dag saman.  Listaverkin verða svo til sýnis í sumar.

ÞS 

08.06.2009

Foreldrar nýrra barna í leikskóla

Verið er að ganga frá ráðningu og skipulagningu starfs fyrir næsta vetur og því er mjög mikilvægt að allar umsóknir nýrra barna berist í leikskólann sem fyrst. 

Hægt er að sækja um leikskólapláss á skrifstofu leikskólastjóra ennfremur er gott að láta vita ef vistunartími barna mun taka breytingum næsta vetur. 

Aðlögun nýrra barna mun fara fram frá 17. ágúst til 15 september

ÞS

Útskriftarferð

Í leikskólanum eru 5 nemendur sem hætta nú í haust og fara í grunnskólann.  Eins og venja er þegar stórum áfanga í skólagöngu barns hefur verið náð er farið í útskriftarferðalag.  Útskrift hafði farið fram á laugardeginu 30. maí en þar með luku börnin sínu fyrsta skólastigi og þá var bara eftir að fara í útskriftarferðalagið sem farið var þann 2. júní.  Í ár var byrjað á því að fara inn að Teigarhorni og heimsækja hana Jónínu okkar sem er búin að vera að vinna á leikskólanum í vetur.  Hún sýndi okkur steinasafnið sitt og við fengum að sjá hesta og hænur.  Merkilegast fannst okkur þó að fá að hitta hana Hröfnu Hönnu Elísu idol stjörnuna okkar.  Við fengum að leika okkur í bát sem var líka rosalega skemmtilegt.  Eftir heimsóknina  var brunað inn í Geitadal og þar lékum við okkur í klettunum og grilluðum pylsur sem voru sko alveg hreint rosalega góðar.  Að endingu var svo farið út í Við voginn og fengum við ís í brauði enda veðurblíðan með eindæmum.  Þessi fyrsta útskriftarferð okkar var rosalega skemmtileg og stefnum við öll á að fara í margar útskriftarferðir um ævina.  Fleiri myndir hér.

 

Heimsóttum Teigarhorn

Hittum idolstjörnuna okkar sem var sko rosa gaman

Fórum inn í Geitadal

og fengum ís

 

AE, GLE, ÍAÓ, KRM, ÞA, og ÞS