Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Síðasti dagur útikennsluviku

Í síðustu viku voru útikennsludagar í grunnskólanum.  Elstu nemendur leikskólans eru í heimsókn hjá okkur nú í tvær vikur og tóku þátt að miklu leyti.  Síðasta daginn fórum við öll saman í gönguferð út á sanda.  Alls um 65 nemendur grunnskólans, 9 nemendur leikskólans ásamt starfsfólki.

Við gengum sem leið lá eftir gamla veginum og þaðan út á sanda.  Þar fórum við í "Að hlaupa í skarðið" og í boðhlaup.  Eftir það gekk hópurinn út í Sandey og á leiðinni fundum við skeljar og margan fjársjóðinn, spiluðum fótbolta, létum öldurnar elta okkur o.m.fl.  Þegar við komum út í Sandey voru allir orðnir banhungraðir þannig að við fengum okkur nesti.  Síðan fórum við í feluleik, bjuggum til sandkastala, skoðuðum hellinn í Sandey og lékum okkur í frjálsum leik.  Þegar fór að líða að hádegi röltum við til baka og komum beint í hádegismat.

Veðrið hefði getað verið betra, það var pínu kalt en það kom ekki að sök.  Allir voru glaðir og sáttir og nutu þess að vera úti í náttúrunni í sátt og samlyndi við menn og dýr.

Myndir úr ferðalaginu má finna hér.

Skólastjóri

Vortónleikar 1.-4. bekkjar

Vortónleikar 1.-4. bekkjar verða í Djúpavogskirkju þriðjudaginn 24. maí klukkan 18:00.

Hvetjum alla til að mæta, aðgangur ókeypis.

Skólastjóri.

LAUFBLAÐIÐ

Ágætu íbúar.

Laufblaðið 2016 mun að öllum líkindum líta dagsins ljós um helgina. Nemendur í 6. og 7. bekk hafa unnið hörðum höndum að því að safna efni, skrifa og hanna - auk þess að selja auglýsingar. Í kvöld munu drengirnir í þessum bekkjum ganga í hús og bjóða styrktarlínur. Þá fá þeir sem kaupa slíka línu nafn sitt birt í blaðinu og leturstærðin fer eftir upphæð sem greidd er. Tökum vel á móti krökkunum og einnig þegar þau ganga í hús um helgina til að selja LAUFBLAÐIÐ. Allur ágóði af blaðinu fer í að greiða kostnað við jarðfræðiferð sem farin er eftir helgi.

Kveðja Lilja Dögg

Kökubasar í dag !!!!!!!!

Nemendur 8.-10. bekkjar halda kökubasar í dag í Samkaup-Strax.  Frá klukkan 16:00.
Margar girnilegar Eurovision bombur í boði.  Fyrstur kemur, fyrstur fær.

8.-10. bekkur

Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva - fyrri hluti

Í morgun var gerð Eurovision-könnun hjá nemendum í 3. til 10. bekk (40 nemendur alls) í Djúpavogsskóla. Könnunin snérist um það hvaða 10 lög væru líklegust til þess að komast áfram í fyrri undankeppninni í kvöld (þann 10 maí). Nemendur hlýddu á part úr hverju lagi fyrir sig og skráðu hjá sér niðurstöður sínar. Mikil stemmning var í hópnum og sungið hástöfum með laginu hennar Grétu Salóme.

Eftirfarandi lög telja nemendur að muni komast áfram í keppninni í kvöld. Það verður gaman að sjá hversu sannspá við erum í Djúpavogsskóla.

Síðast en ekki síst:
Áfram Ísland!!!

 

Ísland (Hlaut 28 stig)

Azerbaijan (Hlaut 28 stig)

Rússland (Hlaut 28 stig)

Cyprus (Hlaut 26 stig)

Moldova (Hlaut 24 stig)

Finland (Hlaut 23 stig)

Malta (Hlaut 23 stig)

Armenia (Hlaut 18 stig)

Hungary (Hlaut 17 stig)

Croatia (Hlaut 15 stig)

 

 

 

UMJ

Frá Djúpavogsskóla

Ég minni foreldra og aðra aðstandendur á að láta skólastjóra vita ef það eru fyrirhugaðar breytingar á skráningu nemenda í skólann á næsta skólaári.  Vinsamlegast hafið samband sem allra fyrst því skipulag vegna næsta skólaárs stendur nú sem hæst.

Skólastjóri