Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Músik Festival

Músik Festival 2016 - sjá auglýsingu hér.

Skólastjóri

3.-5. bekkur safnaði fyrir ABC barnahjálp

Í síðusu viku gengum við í hús og söfnuðum peningum fyrir ABC barnahjálp svo hægt sé að veita fátækum börnum í þróunarlöndunum menntun. Söfnunin gekk frábærlega og alls safnaðist rúmar 70.000 krónur. Takk fyrir að taka vel á móti okkur og styrkja þetta málefni. Peningurinn er komin inn á reikning ABC.

3. - 5. bekkur í Djúpavogsskóla

 

 

 

 

 

 


Drífa hellir afrakstrinum í peningateljarann

Músíkfestivali frestað!

Músíkfestivali tónskólans, sem halda átti 14. apríl, hefur verið frestað þar til í lok apríl.

Nánar auglýst síðar.

ÓB

13.04.2016

Afreksfólk Neista 2015

Hér að neðan eru upplýsingar um afreksfólk Neista 2015, sem tilkynnt var um á uppskeruhátíð Neista í Löngubúð um miðjan mars.

Djúpavogshreppur óskar eftirtöldum einstaklingum innilega til hamingju og hvetur þau og aðra áfram til dáða.

 

Íþróttamenn ársins: Jens Albertsson & Bergsveinn Ás Hafliðason

Báðir æfa knattspyrnu af miklum metnaði með Neista og Fjarðarbyggð. Spiluðu síðasta sumar undir formerkjum UÍA og tóku einnig þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ. Þeir mæta gríðarlega vel á æfingar og leggja sig fram í hvert einasta skipti. Þeir eru frábærar fyrirmyndir í einu og öllu og sýna mikinn metnað í öllu sem þeir taka sér fyrir hendur. Einnig má til gamans geta að þeir tóku að sér að þjálfa þegar vantaði þjálfara hjá Neista. Óeigingjarnt og göfugt framtak.

 

Fótboltaneistinn 2015: Diljá Ósk Snjólfsdóttir.

Diljá er metnaðarfull íþróttakona á öllum sviðum. Hún æfir knattspyrnu hjá Neista ásamt því að gera sér ferð á Höfn reglulega til að æfa með jafnöldrum hjá Sindra. Hún sótti fótboltamót með Sindra síðasta sumar og fór til dæmis til Vestmanneyja að keppa á einu stærsta móti sumarsins í stúlknafótbolta. Hún er jákvæð og hvetjandi einstaklingur sem er góð fyrirmynd fyrir yngri krakkana hjá Neista sem ætlar sér greinilega stóra hluti í framtíðinni. Við hvetjum Diljá til að halda áfram á sömu braut.

 

Fótboltaástundun & framfarir 2015: Ragnar Björn Ingason.

Ragnar byrjaði að æfa knattspyrnu árið 2015. Framfarirnar hafa aldeilis ekki leynt sér. Hann hefur vaxið gríðarlega sem leikmaður og bætt sig á öllum sviðum knattspyrnu. Hann sýnir einnig mikil tilþrif í markinu og aldrei að vita nema þarna sé framtíðar markmaður á ferð. Ragnar sýnir okkur að það er heilmikið sem getur gerst á einu ári ef krakkar eru dugleg að æfa sig, sýna íþróttinni áhuga og æfa sig aukalega. Við hvetjum Ragnar til að halda áfram að æfa sig og þannig mun hann verða enn betri og betri.

 

Sundneistinn 2015: Þór Albertsson.

Þór átti frábært sundár í fyrra. Hann var stigahæstur í sínum aldursflokki á Sumarhátið UÍA en þar var hann gríðarlega sigursæll. Hann landaði þremur gullverðlaunum á Unglingalandsmóti UMFÍ; í 100m bringusundi, 50m bringusundi og 100m fjórsundi í flokki 11-12 ára. Ásamt því að vera mjög duglegur að æfa hjá Neista. Þór er frábær íþróttamaður, hann leggur hart af sér og mjög duglegur í íþróttasalnum og lauginni. Þór er flott fyrirmynd fyrir yngri Neista krakka og hvetjum við hann til að halda áfram að synda af svona miklu metnaði og áhuga.

 

Sundástundun & framfarir 2015: Diljá Ósk Snjólfsdóttir.

Diljá er metnaðarfull íþróttakona. Hún var gríðarlega sterk í lauginni árið 2015. Hún var stigahæst í sínum aldursflokki UÍA en vann einnig til verðlauna á Unglingalandsmóti UMFÍ. Hún mætir mjög vel allar æfingar sem Neisti býður upp á í sundi og leggur sig samviskusamlega fram á þeim. Við hvetjum Diljá til að synda áfram af kappi.

UMF Neisti

 

Afreksfólk Neista 2015
Frá vinstri: Diljá Ósk Snjólfsdóttir, Ragnar Björn Ingason, Þór Albertsson, Jens Albertsson og Bergsveinn Ás Hafliðason

Djúpavogsskóli fær styrk fyrir innleiðingu Cittaslow

 

Þær gleðifréttir bárust okkur í Djúpavogsskóla þann 5. apríl s.l. að Sprotasjóður Mennta- og menningarráðuneytisins muni styrkja okkur um 2,1 milljónir króna við innleiðingu hugmyndafræði Cittaslow í skólana. Þessa önn hafa starfsmenn verið að undirbúa þetta spennandi þróunarstarf og verður styrkurinn til þess að auðvelda okkur að ýta verkefninu af stað með nemendum og að halda vel utan um verkefnið næsta vetur. Í rökstuðningi við gerð umsóknar segir m.a. ,,Hugmyndafræði Cittaslow fjallar um eina mikilvægustu þætti mannlífsins í dag, umhverfismál, náttúruvernd, samskipti, heilbrigt líferni og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins. Verkefnið leggur einnig áherslu á að efla nýsköpunar- og frumkvöðlamennt þar sem nemendum er hjálpað við að koma eigin hugviti í framkvæmd með það að markmiði að efla sjálfbært skapandi samfélag."

Sprotasjóði er ætlað að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik- grunn- og framhaldsskólum landsins . Gaman er að geta þess að sótt var um styrki í sjóðinn að þessu sinni að upphæð rúmlega 300 mkr. en sjóðurinn hafði aðeins  um 60 mkr. til ráðstöfunar. Af þeim fengum við 2.1 milljón sem segir okkur að fleiri hafa trú á þessu verkefni en skólafólkið í Djúpavogsskóla, sem gefur okkur byr undir báða vængi. Frétt og lýsing á þróunarverkefninu er í Bóndavörðunni sem kom út í vikunni.

Þar sem verkefnið mun teygja anga sína víða inn í samfélagið og hafa þannig jákvæð áhrif á einstaklinga, hópa og fyrirtæki á staðnum segi ég ,,til hamingju öll".

 

 

Bryndís Skúladóttir verkefnastjóri