Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Gjöf til grunnskólans

Fyrir nokkru koma Alda Jónsdóttir, bóndi á Fossárdal, færandi hendi með gjöf til grunnskólans.  Um var að ræða rennibekk, sem Eyþór Guðmundsson, heitinn, átti og fannst henni við hæfi að gefa grunnskólabörnum færi á að fá hann til eignar.

Rennibekkurinn hefur nú fengið sinn stað í smíðastofunni og hafa nemendur og kennari prufukeyrt hann og lofar afraksturinn góðu.

Við þökkum Öldu kærlega fyrir höfðinglega gjöf en gjafir sem þessar eru skólanum, börnunum og starfinu hér mikils virði.

HDH

Sólmyrkvi

Það hefur tæpast farið fram hjá nokkrum að á föstudagsmorgunn verður sólmyrkvi á Íslandi sem sést best frá Djúpavogi (ef veðrið lofar). Hér ætti myrkvinn að ná yfir 99 % sólarinnar sem þýðir að skuggi fellur á jörðina þar sem tunglið fer fyrir sólu. Við í grunnskólanum höfum fengið gleraugu til að fylgjast með sólmyrkvanum þar sem geislar sólarinnar eru hættulegir sjón okkar. Við stefnum á að vera úti við Bóndavörðu og þar í kring, öll saman frá kl. 8:45. Það væri gaman að aðrir kæmu til að upplifa þennan viðburð með okkur og við munum að sjálfsögðu leyfa öðrum að nota gleraugun okkar. Við mælum með hlýjum fatnaði miðað við veður og jafnvel heitu kakói á brúsa. Hlökkum til að eyða morgninum með ykkur.

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér þetta betur er bent á Stjörnufræðivefinn!

LDB

Starfsáætlun 2014-2015

Þá hefur starfsáætlun Djúpavogsskóla fyrir skólaárið 2014-2015 loksins litið dagsins ljós.  Vinna við hana hefur staðið í tæp tvö ár og hefur hún verið kynnt og hlið umræðu hjá starfsfólki, skólaráði og í fræðslunefnd.
Áætlunin er ekki fullmótið, í hana vantar enn rýmingaráætlun, fullmótaða símenntunaráætlun og lög sameiginlegs foreldrafélags en ákveðið var að kynna áætlunina fyrir foreldrum og fræðslunefnd eins og hún er núna og setja það sem uppá vantar inn í áætlun næsta árs.  Allar ábendingar eru vel þegnar og má senda þær á netfangið skolastjori@djupivogur.is.

Áætlunina má finna á heimasíðu leikskólans undir flipanum "Skýrslur og áætlanir" og á heimasíðu grunnskólans undir flipanum "Áætlanir"

Skólastjóri

Heimili og skóli í heimsókn

Á morgun, fimmtudaginn 5. mars verða fulltrúar frá Heimili og skóla og SAFT með foreldrakynningu í grunnskólanum.  Hún hefst klukkan 18:00 og tekur um eina klukkustund.  

Yfirskriftin er:  Börn - snjalltæki - samfélagsmiðlar: Í erindinu er farið yfir notkun barna og unglinga á netinu. Fjallað um helstu samfélagsmiðla sem börn og ungmenni eru að nota í dag og hvað þau gera á þeim, miðla eins og Facebook, Snapchat, Instagram, Ask.Fm og fleiri.  Einnig er fjallað um neteinelti, myndbirtingar og ofnotkun svo fátt eitt sé nefnt. Foreldrar gegna lykilhlutverki hvað þetta varðar og fá góð ráð um rafrænt uppeldi.

Skólinn greiðir fyrir þetta erindi þannig að kostnaður foreldra er enginn.  Á föstudagsmorguninn verður einnig fræðsla fyrir 5.-7. bekk annars vegar og síðan 8.-10. bekk hins vegar.

Ég hvet ykkur öll til að mæta því það er mikilvægt að við foreldrar séum ábyrg þegar kemur að þessum málum og hjálpum börnum okkar að umgangast þessi tæki með virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum að leiðarljósi.

Skólastjóri