Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Jólakveðja frá Djúpavogsskóla

Jólakveðju frá Djúpavogsskóla má finna hér.

Skólastjóri

Jólaball á Hótel Framtíð

Kæru íbúar Djúpavogshrepps

Grunnskólinn, tónskólinn og Hótel Framtíð halda sameiginlegt jólaball á Hótel Framtíð föstudaginn 19. desember.  Ballið stendur yfir frá klukkan 15:00 - 16:00 og eru allir íbúar boðnir hjartanlega velkomnir.

Hvetjum eldri borgara sérstaklega til að mæta og dansa með okkur í kringum jólatréð.

Skólastjóri

Frá tónskólanum - jólatónlistarstund

Kæru íbúar Djúpavogshrepps

Kennarar tónskólans, ásamt nemendum ætla að bjóða uppá notalega jólatónlistarstund í Helgafelli, á morgun þriðjudaginn 16. desember.  Hefst hún klukkan 17:00 og verður boðið uppá kaffi og kökur á eftir.

Allir íbúar eru hjartanlega velkomnir og það er ókeypis inn.

Skólastjóri

Jólaföndur Djúpavogsskóla

Foreldrafélag Djúpavogsskóla býður alla íbúa Djúpavogs velkomna á jólaföndur sunnudaginn 7.desember frá kl 11:00-14:00 í grunnskólanum. Föndrið verður með breyttu sniði í ár þar sem fylgt verður eftir Grænfána-stefnu skólans og því opinn efniviður í boði ásamt efnivið í jólakortagerð - látum hugmyndaflugið ráða för þetta árið :)

Allur efniviður er ókeypis en við hvetjum ykkur til að hafa með að heiman skæri, lím og annað sem þessu viðkemur. Leikhorn fyrir litlu krílin, jólatónlist, jólaskapið og föndur við allra hæfi!

Að venju munu nemendur í 6.-7.bekk vera með veitingasölu til styrktar skólaferðalags og vonum við að bæði föndrarar og þumalputtar mæti og styrki krakkana með kaupum á veitingum.  Veitingasalan verður frá 12:00 - 14:00.

Hlökkum til að sjá sem flesta!

Stjórn foreldrafélagsins.

Árshátíð - Með allt á hreinu!

Árshátíð Djúpavogsskóla fór fram fyrir um mánuði. Settur var upp söngleikurinn Með allt á hreinu! og skein leikgleðin í gegn hjá nemendum allan tímann. Nú loks eru komnar inn myndir frá sýningunni og innan skamms verður hægt að nálgast árshátíðina á geisladiski. 

LDB

05.12.2014

Bréf vegna söfnunar á iPad mini tölvum

Opið bréf til  fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga á Djúpavogi - og annarra velunnarra sem búa nær eða fjær

Bréfið hér að neðan var sent til nokkurra fyrirtækja og félagasamtaka á Djúpavogi  þann 13. nóvember sl.  Eins og þið sjáið er verið að safna fyrir iPad mini tölvum fyrir grunnskólann.  Söfnunin gengur ágætlega en ennþá vantar aðeins uppá að markmiðið okkar náist.  Ég fékk ábendingu um að ég hafi nú ekki sent bréfið á alla þá staði sem hægt hefði verið að senda á og ákvað því að setja bréfið hér á heimasíðuna.

Þeir sem vilja styrkja verkefnið geta haft samband við mig í tölvupósti á netfangið skolastjori@djupivogur.is 

Hægt er að gefa 1- x mörg stykki af tölvu en einnig er hægt að styrkja um ákveðna upphæð og munið að margt smátt gerir eitt stórt.

Með fyrirfram þakklæti,
Halldóra Dröfn

 

Til fyrirtækja / félagasamtaka á Djúpavogi

Kæru forsvarsmenn

Í Djúpavogsskóla, grunnskóla, eru í vetur um 60 nemendur.  Starfsfólk skólans er metnaðarfullt og nemendur einnig.  Við störfum eftir mörgum háleitum markmiðum og leitumst við að uppfylla þau eftir bestu getu. 

Ljóst er að síðustu ár höfum við ekki getað staðið við öll markmiðin að fullu, þar sem engar spjaldtölvur eru til staðar í skólanum og fyrir vikið hefur skólinn dregist töluvert aftur úr í tengslum við kennslu í gegnum slík tæki. Sambærilegir skólar eru flest allir farnir að nýta sér þessi tæki í daglegri kennslu, þó er misjafnt hversu margar tölvur eru í hverjum skóla.

Við sjáum fyrir okkur að skynsamlegt sé að byrja á svokölluðum bekkjarsettum, þ.e. tvær tölvur á hvern bekk.

Við höfum kannað verð á iPad spjaldtölvum, en þær þykja bestar þegar kemur að kennslu, sé tekið mið af þeim kennsluforritum sem í boði eru.  Við höfum fengið tilboð í 20 iPad-mini tölvur og töskur utan um þær upp á 960.000.- Hver tölva kostar því um 48.000.- með tösku.

Með bréfi þessu langar okkur til að kanna hvort þú og / eða þitt fyrirtæki / félagasamtök sjáið ykkur fært að færa skólanum að gjöf 1 eða 2 tölvur eða styrkja okkur með ákveðinni upphæð að ykkar vali.

Ef af því yrði kæmi nafn ykkar fram sem gefandi á heimasíðu skólans og tölvan / tölvurnar merktar þínu / ykkar nafni.

Þess má geta að nú þegar hefur Kvenfélagið Vaka ákveðið að styrkja verkefnið.

Mér þætti vænt um að fá svar frá ykkur, annað hvort símleiðis, bréfleiðis eða með tölvupósti, eins fljótt og auðið er.

 

Með fyrirfram þakklæti og kærum kveðjum

f.h. nemenda og starfsfólks,

 

____________________________________
Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, skólastjóri