Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Jólakveðja frá Djúpavogsskóla

Jólakveðju frá Djúpavogsskóla má finna hér.

Skólastjóri

Jólaball á Hótel Framtíð

Kæru íbúar Djúpavogshrepps

Grunnskólinn, tónskólinn og Hótel Framtíð halda sameiginlegt jólaball á Hótel Framtíð föstudaginn 19. desember.  Ballið stendur yfir frá klukkan 15:00 - 16:00 og eru allir íbúar boðnir hjartanlega velkomnir.

Hvetjum eldri borgara sérstaklega til að mæta og dansa með okkur í kringum jólatréð.

Skólastjóri

Frá tónskólanum - jólatónlistarstund

Kæru íbúar Djúpavogshrepps

Kennarar tónskólans, ásamt nemendum ætla að bjóða uppá notalega jólatónlistarstund í Helgafelli, á morgun þriðjudaginn 16. desember.  Hefst hún klukkan 17:00 og verður boðið uppá kaffi og kökur á eftir.

Allir íbúar eru hjartanlega velkomnir og það er ókeypis inn.

Skólastjóri

Jólaföndur Djúpavogsskóla

Foreldrafélag Djúpavogsskóla býður alla íbúa Djúpavogs velkomna á jólaföndur sunnudaginn 7.desember frá kl 11:00-14:00 í grunnskólanum. Föndrið verður með breyttu sniði í ár þar sem fylgt verður eftir Grænfána-stefnu skólans og því opinn efniviður í boði ásamt efnivið í jólakortagerð - látum hugmyndaflugið ráða för þetta árið :)

Allur efniviður er ókeypis en við hvetjum ykkur til að hafa með að heiman skæri, lím og annað sem þessu viðkemur. Leikhorn fyrir litlu krílin, jólatónlist, jólaskapið og föndur við allra hæfi!

Að venju munu nemendur í 6.-7.bekk vera með veitingasölu til styrktar skólaferðalags og vonum við að bæði föndrarar og þumalputtar mæti og styrki krakkana með kaupum á veitingum.  Veitingasalan verður frá 12:00 - 14:00.

Hlökkum til að sjá sem flesta!

Stjórn foreldrafélagsins.

Árshátíð - Með allt á hreinu!

Árshátíð Djúpavogsskóla fór fram fyrir um mánuði. Settur var upp söngleikurinn Með allt á hreinu! og skein leikgleðin í gegn hjá nemendum allan tímann. Nú loks eru komnar inn myndir frá sýningunni og innan skamms verður hægt að nálgast árshátíðina á geisladiski. 

LDB

05.12.2014

Bréf vegna söfnunar á iPad mini tölvum

Opið bréf til  fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga á Djúpavogi - og annarra velunnarra sem búa nær eða fjær

Bréfið hér að neðan var sent til nokkurra fyrirtækja og félagasamtaka á Djúpavogi  þann 13. nóvember sl.  Eins og þið sjáið er verið að safna fyrir iPad mini tölvum fyrir grunnskólann.  Söfnunin gengur ágætlega en ennþá vantar aðeins uppá að markmiðið okkar náist.  Ég fékk ábendingu um að ég hafi nú ekki sent bréfið á alla þá staði sem hægt hefði verið að senda á og ákvað því að setja bréfið hér á heimasíðuna.

Þeir sem vilja styrkja verkefnið geta haft samband við mig í tölvupósti á netfangið skolastjori@djupivogur.is 

Hægt er að gefa 1- x mörg stykki af tölvu en einnig er hægt að styrkja um ákveðna upphæð og munið að margt smátt gerir eitt stórt.

Með fyrirfram þakklæti,
Halldóra Dröfn

 

Til fyrirtækja / félagasamtaka á Djúpavogi

Kæru forsvarsmenn

Í Djúpavogsskóla, grunnskóla, eru í vetur um 60 nemendur.  Starfsfólk skólans er metnaðarfullt og nemendur einnig.  Við störfum eftir mörgum háleitum markmiðum og leitumst við að uppfylla þau eftir bestu getu. 

Ljóst er að síðustu ár höfum við ekki getað staðið við öll markmiðin að fullu, þar sem engar spjaldtölvur eru til staðar í skólanum og fyrir vikið hefur skólinn dregist töluvert aftur úr í tengslum við kennslu í gegnum slík tæki. Sambærilegir skólar eru flest allir farnir að nýta sér þessi tæki í daglegri kennslu, þó er misjafnt hversu margar tölvur eru í hverjum skóla.

Við sjáum fyrir okkur að skynsamlegt sé að byrja á svokölluðum bekkjarsettum, þ.e. tvær tölvur á hvern bekk.

Við höfum kannað verð á iPad spjaldtölvum, en þær þykja bestar þegar kemur að kennslu, sé tekið mið af þeim kennsluforritum sem í boði eru.  Við höfum fengið tilboð í 20 iPad-mini tölvur og töskur utan um þær upp á 960.000.- Hver tölva kostar því um 48.000.- með tösku.

Með bréfi þessu langar okkur til að kanna hvort þú og / eða þitt fyrirtæki / félagasamtök sjáið ykkur fært að færa skólanum að gjöf 1 eða 2 tölvur eða styrkja okkur með ákveðinni upphæð að ykkar vali.

Ef af því yrði kæmi nafn ykkar fram sem gefandi á heimasíðu skólans og tölvan / tölvurnar merktar þínu / ykkar nafni.

Þess má geta að nú þegar hefur Kvenfélagið Vaka ákveðið að styrkja verkefnið.

Mér þætti vænt um að fá svar frá ykkur, annað hvort símleiðis, bréfleiðis eða með tölvupósti, eins fljótt og auðið er.

 

Með fyrirfram þakklæti og kærum kveðjum

f.h. nemenda og starfsfólks,

 

____________________________________
Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, skólastjóri

Dagar myrkurs

Nú eru dagar myrkurs að ljúka hér í leikskólanum en við höfum brallað ýmislegt í tilefni daga myrkurs.  Í ár var ákveðið að þemað yrði Greppikló og Greppibarnið.

Greppikló og Greppibarnið eru bækur eftir Axel Scheffler og Julia Donaldson og hafa notið mikilla vinsælda um allan heim undanfarin ár en Þórarinn Eldjárn sá um þýðingu á bókunum

Greppikló? Hvað er greppikló?
Hva, greppikló? Það veistu þó! 
Þetta segir litla músin við refinn, ugluna og slönguna sem hún mætir á göngu sinni um skóginn. Þau verða hrædd og þjóta burt þótt músin viti vel að það er ekki til nein greppikló. Og þó … 

"Engin greppikló má," sagði Greppikló, "gera sér ferð inn í Dimmaskóg..."
Greppiklóin er ekki búin að gleyma músinni ógurlegu sem gabbaði hana eitt sinn og því harðbannar hún Greppibarninu að fara inn í skóginn.
En Greppibarnið óttast ekki neitt og eina dimma vetrarnótt læðist það frá mömmu sinni.

 

Við ákváðum því að nýta þessar sögur á dögum myrkurs og unnum með þær þannig að sögurnar lifnuðu við á veggjum og gólfi leikskólans.

Hér er verið að teikna upp og hanna Greppikló, krakkarnir á Tjaldadeild sáu um það

Fótspor Greppiklóarinnar, Greppibarnsins og músarinar

Enduðum svo á því í morgun að horfa á myndirnar um Greppikló og Greppibarnið

Fleiri myndir eru hér

ÞS

 

 

 

Kökubasar á föstudaginn

Nemendur 9. og 10. bekkjar verða með kökubasar á Dögum myrkurs, föstudaginn 14. nóvember klukkan 16:00 í Samkaup-Strax.  Girnilegar hnallþórur í boði - fyrstur kemur - fyrstur fær.

9. og 10. bekkur

 

Árshátíð grunnskólans

Árshátíð grunnskólans fer fram á Hótel Framtíð föstudaginn 7. nóvember næstkomandi.

Að þessu sinni verður það Með allt á hreinu sem nemendurnir munu sýna.

Sjá nánar í auglýsingu hér að neðan.

ÓB

 

 

 

 

 

Rauði krossinn

Í tilefni af 90 ára afmæli Rauða krossins á Íslandi verða grunnskólar á landinu heimsóttir af sjálfboðaliðum. Tilgangur heimsóknanna er að minna á mikilvægi skyndihjálpar. Egill og Auður komu í heimsókn í grunnskólann þriðjudaginn síðasta til að kynna skyndihjálp fyrir nemendum Djúpavogsskóla. Farið var yfir hver viðbrögð skulu vera þegar slys ber að höndum. Krakkarnir fengu að svara spurningum, koma við dúkkur og elstu fengu bæði kennslu í Heimlich takinu og grunn í hjartahnoði.

Við þökkum sjálfboðaliðunum kærlega fyrir heimsóknina og má sjá myndir með fréttinni hér.

LDB

 

Efnafræði

Nemendur á unglingastigi hafa verið að læra efnafræði. Stór hluti kennslunar fer fram í gegnum tilraunir - sem hægt væri að gera heima í eldhúsi. Við skoðum hvernig kert brennur, hjartarsalt og matarsódi virka og einnig efnahvörf þegar við blöndum saman matarsóda og ediki. Þetta er mun skemmtilegra en það hljómar eins og sjá má á myndunum.

LDB

27.10.2014

Norræna skólahlaupið - göngum í skólann

Norræna skólahlaupið – göngum í skólann

Í gær var lag til að takast á við norræna skólahlaupið. Bæði var veður okkur hagstætt og mengun í lágmarki miðað við það sem hefur verið núna í haust.

Norræna skólahlaupið fór fyrst fram á Íslandi árið 1984, en allir grunnskólar á Norðurlöndunum geta tekið þátt í hlaupinu á hverju hausti.

Markmið - með Norræna skólahlaupinu er leitast við að:

  • Hvetja nemendur til þess að æfa hlaup og auka með því útiveru og hreyfingu
  • Kynna og skýra nauðsyn þess að hreyfa sig, reyna á líkama sinn og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan

Var það því vel við hæfi að hafa lokahykkinn á „Göngum í skólann“ átakinu þó svo að við hvetjum nemendur og aðra starfsmenn Djúpavogsskóla til að koma fyrir eigin afli til starfa.

Nemendur völdu á milli hlaupalengda sem voru 2,5 km, 5 km og 10 km. Eftir hlaupið var boðið upp á ávexti og fóru allir þátttakendur í sund á eftir.

Myndir má sjá með því að smella hér.

LDB

17.10.2014

Tónlist fyrir alla og naggrís í heimsókn

Það má eiginlega segja að nemendur í  grunnskólanum hafi farið í ferðalag með tónlistamönnum sem kalla sig „Skuggamyndir frá Býsans“. Þeir tóku okkur með í tónlistarferð til Balkanskagans og léku stórskemmtileg lög á fremur óvenjuleg hljóðfæri frá öllum löndum við Balkanskaga. Ásamt lögum var kynning á löndum, höfuðborgum og menningu þessara landa. Þeir tónlistarmenn sem heimsóttu okkur voru...

Haukur Gröndal - leiðsögumaður, klarinett, saxófónn, kaval- og ney flauta
Ásgeir Ásgeirsson - bouzouki, tamboura, saz baglama
Þorgrímur Jónsson - bassi og tölvutækni
Erik Qvick - darbouka, tapan og annað slagverk

Við viljum þakka þeim fyrir frábært ferðalag og samsöngsnemendur þökkuðu fyrir sig með söng á þekktu lagi frá austanverðri Evrópu.

 

Fyrr um morguninn komu tveir naggrísir í heimsókn í 1. bekk. Þeir heita Sýróp og Hrói. Nemendur fengu að klappa þeim og gefa þeim grænmeti að éta. Þetta var mjög skemmtileg stund í skólanum hjá þeim og spurning hvort alla langi í naggrís sem gæludýr eftir þennan dag.

Linkur á myndir sem tengjast þessari frétt er hér.

15.10.2014

Lúsasöngur

Nú þegar er hafinn undirbúningur fyrir Árshátíð sem haldin verður 7. nóvember. Settur verður upp söngleikurinn "Með allt á hreinu". Börn í samsöng æfa lögin en nú þegar lúsafaraldur gengur yfir er aðeins öðruvísi yfirbragð á sönghópnum - allir eru með þessi fínu buff.

Um leið og við óskum ykkur góðrar helgar viljum við hvetja bæjarbúa og sérstaklega nemendur að lúsakemba sig og vonandi erum við að stöðva þennan litla lúsafaraldur okkar.

LDB

10.10.2014

Frímínútur

Það er nóg að gera hjá nemendum grunnskólans hvort sem er í leik eða starfi. Á meðfylgjandi myndum má sjá nemendur í yngstu bekkjum búa til áveituskurði í frímínútum, teikna upp líkama og setja saman tölvur. Sumir tímar hjá eldri verða einnig að leikjatímum sérstaklega þegar samræmd próf eru hjá félögum þeirra. Hér má sjá þau vera í kubb úti og 5. bekkingar í öðrum leikjum.

Munum við birta myndir af og til í vetur af nemendum í leik og starfi í vetur.

LDB

30.09.2014

Haustgöngu frestað

Við ætlum að fresta haustgöngunni, sem átti að vera á morgun, þriðjudag um óákveðinn tíma.  Látum vita um leið og nýr dagur hefur verið ákveðinn.

Skólastjóri

29.09.2014

Matur í grennd

Í grenndartímum hjá Unni er lögð áhersla á ýmislegt í heimabyggð. 6. og 7. bekkur fengu það verkefni að finna mat úr heimabyggð og mættu með hann á hlaðborð sem haldið var í byrjun september. Nemendur sóttu mat á hina ýmsu staði hér í bæ og afraksturinn var mjólk, egg, hákarl, sultur, kartöflur og margt fleira. Myndir af nemendum og hlaðborði má sjá hér.

LDB

24.09.2014

Landvörður

Halla Ólafsdóttir Landvörður kom í heimsókn í Djúpavogsskóla í september. Hún hefur starfað sem landvörður við Herðubreiðarlindir en þar sem eldgos hófst í Holuhrauni var hún send þaðan. Hún kynnti Vatnajökulsþjóðgarð fyrir nemendum í 4. og 5. bekk. Þar var rætt um spendýr og fugla sem lifa í garðinum, einkenni þeirra og einnig um þjóðgarðinn sjálfann og einmitt um nafnið þjóð-garður, garður sem þjóðin á og við viljum að eigi um ókomna framtíð. Náttúruvernd og eldgos var nemendum ofarlega í huga í þessari heimsókn. Takk Halla fyrir að koma til okkar. Myndir fylgja þessari frétt.

LDB

24.09.2014

Göngum í skólann - Haustganga

Það er gaman að fylgjast með öllum þeim nemendum sem koma fyrir eigin afli í skólann og jafnvel í fylgd gangandi foreldra. Við viljum hvetja nemendur til að halda því áfram og helst sem flesta í bæjarfélaginu að draga úr bílanotkun á þessum fallegu haustmorgnum. Göngum í skólann átakið stendur yfir til 8. október.

Á þriðjudaginn í næstu viku er áætlað að fara í hina árlegu haustgöngu. Viljum við hvetja áhugasama foreldra, sem hafa tækifæri til, að koma með okkur í gönguna.

LDB

23.09.2014

Landvörður

Halla Ólafsdóttir, landvörður, kom í heimsókn í Djúpavogsskóla í september. Hún hefur starfað sem landvörður við Herðubreiðarlindir en þar sem eldgos hófst í Holuhrauni var hún send þaðan burt. Hún kynnti Vatnajökulsþjóðgarð fyrir nemendum í 4. og 5. bekk. Þar var rætt um spendýr og fugla sem lifa í garðinum, einkenni þeirra og einnig um þjóðgarðinn sjálfann og einmitt um nafnið þjóð-garður, garður sem þjóðin á og við viljum að eigi um ókomna framtíð. Náttúruvernd og eldgos var nemendum ofarlega í huga í þessari heimsókn. Takk Halla fyrir að koma til okkar. Myndir fylgja þessari frétt.

LDB

Foreldrafundur

Við viljum minna á foreldrakynningu fyrir alla foreldrar sem eiga börn í Djúpavogsskóla.
Hún verður í grunnskólanum klukkan 17:00, í dag.

Við minnum einnig á verkefnið "Göngum í skólann" sem hófst í dag og eru nemendur hvattir til að ganga eða hjóla í skólann þann tíma sem verkefnið stendur yfir og alltaf þegar veður og færð leyfa.

HDH

Í skólanum

Fyrsti grunnskóladagur þessa skólaárs rann upp á fallegum haustdegi hér á Djúpavogi í síðustu viku. Glaðir og einbeittir krakkar streymdu að og byrjaði skóladagurinn á samsöng undir stjórn Andreu og Józsefs. Því næst fóru nemendur í hinar ýmsu kennslustundir þar sem teknar voru myndir af þeim við hin ýmsu störf eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

LDB

10.09.2014

Skólabyrjun

Kæru nemendur og forráðamenn

 

Nú líður að því að skóli hefjist að nýju að afloknu sumarfríi.  Vil ég bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin til starfa.

 

Djúpavogsskóli hefst föstudaginn 29. ágúst og mánudaginn 1. september með opnu húsi:

 

  • Nemendur 1. bekkjar koma föstudaginn 29. ágúst  klukkan 10:00.  Foreldrar og nemendur hitta umsjónarkennara sem gengur með þeim um skólann og sýnir þeim húsakynni.  Að því loknu verður fundur í bekkjarstofu þar sem farið verður yfir stundaskrá, bækur og ýmis hagnýt atriði.
  • Nemendur 2.-10. bekkjar koma mánudaginn 1. september milli 10:00 og 14:00, þegar þeim hentar.  Nemendur og forráðamenn hitta umsjónarkennara, ásamt öðru starfsfólki skólans, fá afhentar stundatöflur, bækur o.fl. 
  • Boðið verður upp á kaffi og djús.

 

Kennsla hefst skv. stundaskrá, þriðjudaginn 2. september, kl. 8:05.

Athugið, haustþing kennara á austurlandi verður 5. september og því eru nemendur í fríi þann dag.

Vakin er athygli á því að innkaupalistar hafa verið uppfærðir og þá má finna á heimasíðu skólans.  Einnig er vakin athygli á því að beiðni um leyfi þarf að sækja um til umsjónarkennara og má finna eyðublað á heimasíðu skólans.  Einnig er hægt að fá þau í skólanum.

Ýmis eyðublöð hafa verið send heim sem þið eruð beðin um að fylla út og skila í síðasta lagi 1. september, þegar þið mætið á „opna húsið“.  Um er að ræða ýmis nauðsynleg atriði, s.s. skráningu í mötuneyti, viðveru, upplýsingar frá tónskólanum, reglur tónskólans o.fl.

 

Mötuneyti hefst þriðjudaginn 2. september.

 

Umsjónarkennarar í vetur verða sem hér segir:

Jóhanna Reykjalín verður með 1. bekk

Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir með 2. og 3. bekk

Þorbjörg Sandholt með 4. og 5. bekk

Sigríður Ósk Atladóttir með 6. og 7. bekk

Lilja Dögg Björgvinsdóttir með 8., 9. og 10. bekk

 

Við hér í grunnskólanum hlökkum til að starfa með ykkur í vetur og vonumst til að samstarfið verði ánægjulegt og árangursríkt eins og það hefur verið fram að þessu.

 

Bestu kveðjur,

f.h. starfsfólks grunnskólans,

Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir,

skólastjóri

Kennara vantar við grunnskólann

Kennara vantar við grunnskólann skólaárið 2014-2015. Um 80-90% starf er að ræða, kennslu í ensku og dönsku á mið- og unglingastigi auk samfélagsfræðikennslu á unglingastigi.

Umsóknareyðublað má finna á heimasíðu grunnskólans, http://djupivogur.is/grunnskoli/

Umsóknum skal skila í tölvupósti á netfangið skolastjori@djupivogur.is.  Umsóknarfrestur er til 18. ágúst.   Frekari upplýsingar veitir skólastjóri í síma 899-6913.  Laun eru skv. kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands.

Halldóra Dröfn, skólastjóri Djúpavogsskóla

Frá bókasafninu

Þriðjudaginn 24. júní er síðasti opnunardagur bókasafnsins fyrir sumarfrí.  Opið frá 18:00 - 20:00.  Vil hvejta fólk endilega til að koma og skila bókum fyrir sumarfrí.  Minni á að útlánstími bóka er 30 dagar, eftir það reiknast dagsektir.

Bókasafnsvörður

Skóladagatal

Skóladagatal fyrir 2014 - 2015 er komið inn á síður grunn- og leikskólans.

HDH

Skólaslit

Síðastliðinn laugardag voru skólaslit í Djúpavogsskóla. Þá var elsti árgangur leikskólans útskrifaður sem og 10. bekkur grunnskólans. Skólastjóri hélt stutta ræðu um skólastarf, Hörður lofaði og kvaddi 10. bekk og Ragnar Sigurður hélt eftirminnilega ræðu frá þeim bekkjarfélögum. Því næst fengu nemendur einkunnamöppur sínar afhentar og sungnir voru skemmtilegir söngvar undir stjórn Andreu. 

Opið hús var bæði í grunn- og leikskóla og fóru nemendur og aðrir gestir á þá staði til að skoða afrakstur vetrarins. Hér má sjá myndir sem teknar voru í kirkjunni.

LDB