Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Jólaball

Opið jólaball verður haldið á Hótel Framtíð á morgun, frá 15:00 - 16:00.  Ballið er samstarfsverkefni grunnskólans, tónskólans og hótelsins. 
Allir íbúar eru hjartanlega velkomnir.

HDH

Jólatónleikar tónskólans

Jólatónleikar tónskólans verða haldnir í dag og á morgun í Djúpavogskirkju. 

Nemendur 1.-4. bekkjar, ásamt nemendum forskólans flytja sína tónleika í dag klukkan 17:00 og nemendur 5.-10. bekkjar flytja sína tónleika á morgun klukkan 17:00. 

Tónleikarnir eru opnir öllum og hvetjum við alla áhugamenn um tónlist til að mæta. 


HDH og JBK

Grænfáni dreginn að húni í annað sinn.

Stór dagur var í Djúpavogsskóla þegar Gerður og Katrín, starfsmenn Landverndar, mættu í skólana til að taka út það starf sem fram hefur farið síðustu tvö ár. Þær byrjuðu á því að funda með umhverfisnefnd skólans og á eftir var þeim fylgt um skólann til að skoða þau verkefni sem nemendur eru að vinna að í dag og þau verk sem eru til sýnis á veggjum skólans. Þá sungu nemendur skólasönginn fyrir þær. Gerður afhenti Halldóru fánann og útskýrði fyrir okkur starfsmönnum og nemendum fyrir hvað hann stendur og þá óskrifuðu framtíð sem við tökum þátt í að móta.

Að því loknu fylgdu þær skólastjóranum niður í leikskóla þar sem sjá mátti fjölmörg skemmtileg verkefni tengd náttúru og endurvinnslu. Ræddu þær við nemendur um náttúruvernd og Grænfánann. Börnin sungu nokkur lög fyrir þær og starfsmenn og að því loknu afhenti Gerður grænfánann niður á leikskóla.

Þetta er í annað sinn sem Djúpavogsskóli fær Grænfánann afhentann. Sækja þarf um endurnýjun á fánanum á tveggja ára fresti og fáum við þá heimsókn frá Landvernd þar sem farið er yfir okkar störf. Það má segja að nemendur og starfsfólk hafi tileinkað sér vinnubrögð sem auka virðingu fyrir umhverfi og náttúru.

Myndir sem fylgja fréttinni eru hér.

LDB

Heimsókn á Seyðisfjörð

 

5.-7. bekkur í Djúpavogsskóla og Grunnskóla Breiðdalshrepps fóru í heimsókn til Seyðfirðinga í Skaftfell og Tækniminjasafnið í dag. Þar fengu þau leiðsögn og tóku þátt í listsmiðju í þeirra boði. Þeir útveguðu rútu frá Tanna Travel sem beið okkar þegar við mættum í skólann.  

Í Skaftfelli tók Hanna Sigurkarlsdóttir á móti okkur og fengum við leiðsögn um sýninguna "Hnallþóra í sólinni" sem eru grafíkverk eftir svissneska listamanninn Dieter Roth. Eftir leiðsögnina tókum við þátt í listsmiðju sem hefur verið útfærð í tengslum við sýninguna, tvíhandarteikningum og að vinna með bókstafastimpla eins og sjá má á myndum sem fylgja hér með.

Á Tækniminjasafninu tók Pétur Kristjánsson forstöðumaður safnsins á móti okkur og lagði áherslu á prentverkstæði safnsins sem m.a. hefur að geyma pressur frá Dieter Roth. Hann sýndi okkur í verki hvernig vélarnar virka og sýndi dæmi um hvernig maður prentar grafíkverk. 

Okkur fannst  þetta mjög skemmtilegt og áhugavert. Löng ferð í rútu var líka skemmtileg og við þökkum kærlega fyrir okkur.

LDB, 5. – 7. bekkur

11.12.2013

Unnið úr trjáberki

Krakkarnir í 3. og 4. bekk hafa verið að vinna tálguverkefni í skólanum.  Ekki má uppljóstra hvað þau voru að búa til en í dag voru þau að leika sér með afganga, trjábörk og ýmislegt fleira.  Margt skemmtilegt og sniðugt kom út úr þeirri vinnu.  Myndir eru hér.  HDH

Jólaföndur foreldrafélagsins

Foreldrafélag Djúpavogsskóla stendur fyrir jólaföndri í grunnskólanum á morgun, fimmtudaginn 5. desember.  Föndrað verður frá 17:00 - 19:00.  Allir íbúar eru hjartanlega velkomnir, hvort sem þeir eiga börn eða ekki í Djúpavogsskóla.
Föndrarar eru beðnir að hafa með sér liti, skæri, lím, heftara og pening til að versla föndurvörur af foreldrafélaginu.

Nemendur í 8. og 9. bekk verða með kaffihús þar sem margar girnilegar kökur verða í boði.

Engin skylda er að föndra.  Þeir sem vilja mega koma og rölta um húsið, spjalla við fólk og hlusta á jólalög og setjast síðan inn á kaffihúsið og fá sér eitthvað gott í gogginn.  Vonumst til að sjá sem flesta. 

HDH og foreldrafélagið

Árshátíðardiskurinn til sölu

Nú ætlum við að fara að selja árshátíðardiskinn okkar, "Footloose."  Þeir sem hafa áhuga eru beðnir að leggja inn pöntun á skolastjori@djupivogur.is Einnig er hægt að hringja í grunnskólann og panta þar í síma:  478-8836
Verð á diskinum eru kr. 1.500.-

Skólastjóri