Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Undankeppni Stóru upplestrarkeppninnar

Undankeppni Stóru upplestrarkeppninnar var haldin í Djúpavogskirkju í morgun.  Fimm nemendur úr 7. bekk kepptu um tvö laus sæti, til að fara sem fulltrúar skólans í aðalkeppnina sem haldin verður í Hornafjarðarkirkju þann 4. mars nk. 
Keppnin var mjög hörð og og spennandi og stóðu allir nemendurnir sig frábærlega vel.  Þeir sem báru sigur úr bítum voru Bergsveinn Ás og Jens og verður Kamilla Marín til vara. 
Óskum við þeim hjartanlega til hamingju.  Myndir eru hér. HDH

Músik Festival 2013 !!!

Opið bréf til fyrirtækja og félagasamtaka á Djúpavogi

Þann 19. apríl nk. ætla nemendur tónskólans að efna til tónlistarveislu á Hótel Framtíð.

Tilgangurinn er fyrst og fremst að safna fyrir hljóðfærum í tónskólann, en einnig að skemmta áhorfendum með gleði og hljóðfæraleik.

Töluverður kostnaður er því samfara að halda slíka tónleika og til þess að aðgangseyririnn geti runnið óskiptur til hljóðfærakaupa þá langar okkur að óska eftir styrk frá fyrirtækjum og félagasamtökum á Djúpavogi, ýmist 5.000.- eða 10.000.- krónur, frá hverju fyrir sig.  Stærri styrkir eru að sjálfsögðu vel þegnir, ef fyrirtæki vilja t.d. styrkja tónskólann fyrir ákveðnu hljóðfæri.

Þeir sem hafa áhuga á að leggja þessu góða málefni lið eru beðnir um að hafa samband við Halldóru í síma 899-6913 eða á netfangið skolastjori@djupivogur.is.

Nánari upplýsingar um tímasetningu og fyrirkomulag hátíðarinnar verður auglýst síðar.

Halldóra Dröfn, József og nemendur tónskólans

Auglýsingu má sjá hér

 

 

Keppnisdagar 2013

Keppnisdögum í grunnskólanum lauk nú í dag, en þeir hafa staðið yfir síðan á mánudag.

Börn og kennarar úr grunnskólanum á Breiðdalsvík tóku þátt með okkur eins og síðastliðin ár. Mikið er búið að ganga á þessa daga og dásamlegt að fylgjast með því hversu skemmtilegir og hæfileikaríkir þessir krakkar eru. Hápunkturinn var í morgun en þá var hæfileikakeppni í íþróttahúsinu og svo húllumhæ á eftir.

Myndir frá keppnisdögum má sjá með því að smella hér.

ÓB

Öskudagssprell

Á morgun er öskudagur.  Eins og hefð er fyrir ætla nemendur og starfsfólk í grunnskólanum og Grunnskóla Breiðdalshrepps að sprella saman í íþróttahúsinu og ljúka Keppnisdögunum sem staðið hafa yfir síðan á mánudaginn.  Dagskráin hefst klukkan 10:30 og eru allir velkomnir.  Við munum enda á því að dansa saman og hvetjum við foreldra, ömmur og afa og alla sem langar til, að koma og vera með okkur.

Skólastjóri

Dagur leikskólans

Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins 6. febrúar ár hvert. Þetta er merkisdagur í íslenskri leikskólasögu því þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Tilgangurinn er að auka jákvæða umræðu um leikskólann, vekja umræðu um hlutverk leikskóla og starf leikskólakennara og kynna starfsemi leikskóla út á við.

Í tilefni dagsins, sem nú verður haldinn í sjötta sinn, mun mennta- og menningarmálaráðherra veita þeim sem þótt hafa skarað fram úr og unnið ötullega í þágu leikskóla og/eða leikskólabarna viðurkenninguna Orðsporið 2013.
Félagsmenn í Félagi leikskólakennara og Félagi stjórnenda leikskóla sendu inn tilnefningar til verðlaunanna til sérstakrar valnefndar. Hægt var að tilnefna einstakan leikskólakennara, kennarahóp, verkefni, leikskóla, leikskólastjóra, stefnumótun, skipulag, foreldrasamstarf, sérkennslu, forvarnir, sveitarfélag eða annað sem vel hefur verið gert og er til fyrirmyndar varðandi leikskólastarf og aðkomu að því. Valnefndin er skipuð fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytis, Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, Sambands Íslenskra Sveitarfélaga og Heimilis og skóla.

Allir sem koma að málefnum leikskólans á einn eða annan hátt eru hvattir til að halda degi leikskólans á lofti og fylgjast sérstaklega vel með starfsemi leikskóla þennan dag. Látum dag leikskólans verða okkur hvatning til að kynna okkur það mikilvæga starf sem þar fer fram.

Í verslun Samkaups-Strax á Djúpavogi má nú sjá sýningu af listaverkum sem nemendur hafa unnið að í vetur.  Við hvetjum alla til að leggja leið sína þangað og skoða þessi fallegu og skemmtilegu verkefnin.  Sýningin mun hanga uppi í nokkrar vikur.  HDH

Heimsókn í grunnskólann

Elstu nemendur leikskólans eru búin að fara í eina heimsókn til 1.bekkjar á þessu ári.  Þau fóru í ensku og grennd þar sem þau fengu að skoða og snerta dýr.  Einnig fara elstu nemendurnir aðra hverja viku í íþróttatíma með 1. bekk og byrjaði það líka eftir áramót.  Þetta er liður í því að brúa bilið milli þessarar tveggja skólastiga, leikskóla og grunnskóla. 

Í skólastofunni

Að læra um dýrin í Grennd

Að strjúka dýrunum

 

Fleiri myndir eru hér

ÞS

Spáð í söngvakeppnina

Fimmtudaginn 31. janúar gerðu nemendur 4. og 5. bekkjar skoðanakönnun í Djúpavogsskóla til þess að spá um úrslitin í Söngvakeppni Sjónvarpsins n.k. laugardag. Nemendurnir þeystust um allan skóla og fengu að vita eftirlætis lag nemenda og starfólks skólans. Útkoman úr könnun 4.-5. bekkjar var eftirfarandi:

1. sæti: Birgitta – Meðal andanna (33 atkvæði)

2. sæti: Magni – Ekki líta undan (12 atkvæði)

3. sæti: Unnur – Ég syng! (10 atkvæði)

4. sæti: Eyþór Ingi – Ég á líf og Svavar Knútur og Hreindís Ylfa – Lífið snýst (5 atkvæði (á hvort lag))

5. sæti: Jógvan og Stefanía – Til þín (3 atkvæði)

6. sæti: Halli Reynis – Vinátta (0 atkvæði)

Það verður spennandi að sjá hvort spá Djúpavogsskóla rætist að þessu sinni.

Meðfylgjandi er mynd af 4.og 5. bekk og þess má geta að mikill meirihluti þeirra halda með Birgittu Haukdal í keppninni í ár.

UMJ og nem. 4.-5. b.

Fundargerð skólaráðs

Fundur var haldinn í skólaráði Djúpavogsskóla 24. janúar sl.  Fundargerðina má finna hér.  HDH

01.02.2013