Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Jólaball

Opið jólaball verður haldið á Hótel Framtíð á morgun, frá 15:00 - 16:00.  Ballið er samstarfsverkefni grunnskólans, tónskólans og hótelsins. 
Allir íbúar eru hjartanlega velkomnir.

HDH

Jólatónleikar tónskólans

Jólatónleikar tónskólans verða haldnir í dag og á morgun í Djúpavogskirkju. 

Nemendur 1.-4. bekkjar, ásamt nemendum forskólans flytja sína tónleika í dag klukkan 17:00 og nemendur 5.-10. bekkjar flytja sína tónleika á morgun klukkan 17:00. 

Tónleikarnir eru opnir öllum og hvetjum við alla áhugamenn um tónlist til að mæta. 


HDH og JBK

Grænfáni dreginn að húni í annað sinn.

Stór dagur var í Djúpavogsskóla þegar Gerður og Katrín, starfsmenn Landverndar, mættu í skólana til að taka út það starf sem fram hefur farið síðustu tvö ár. Þær byrjuðu á því að funda með umhverfisnefnd skólans og á eftir var þeim fylgt um skólann til að skoða þau verkefni sem nemendur eru að vinna að í dag og þau verk sem eru til sýnis á veggjum skólans. Þá sungu nemendur skólasönginn fyrir þær. Gerður afhenti Halldóru fánann og útskýrði fyrir okkur starfsmönnum og nemendum fyrir hvað hann stendur og þá óskrifuðu framtíð sem við tökum þátt í að móta.

Að því loknu fylgdu þær skólastjóranum niður í leikskóla þar sem sjá mátti fjölmörg skemmtileg verkefni tengd náttúru og endurvinnslu. Ræddu þær við nemendur um náttúruvernd og Grænfánann. Börnin sungu nokkur lög fyrir þær og starfsmenn og að því loknu afhenti Gerður grænfánann niður á leikskóla.

Þetta er í annað sinn sem Djúpavogsskóli fær Grænfánann afhentann. Sækja þarf um endurnýjun á fánanum á tveggja ára fresti og fáum við þá heimsókn frá Landvernd þar sem farið er yfir okkar störf. Það má segja að nemendur og starfsfólk hafi tileinkað sér vinnubrögð sem auka virðingu fyrir umhverfi og náttúru.

Myndir sem fylgja fréttinni eru hér.

LDB

Heimsókn á Seyðisfjörð

 

5.-7. bekkur í Djúpavogsskóla og Grunnskóla Breiðdalshrepps fóru í heimsókn til Seyðfirðinga í Skaftfell og Tækniminjasafnið í dag. Þar fengu þau leiðsögn og tóku þátt í listsmiðju í þeirra boði. Þeir útveguðu rútu frá Tanna Travel sem beið okkar þegar við mættum í skólann.  

Í Skaftfelli tók Hanna Sigurkarlsdóttir á móti okkur og fengum við leiðsögn um sýninguna "Hnallþóra í sólinni" sem eru grafíkverk eftir svissneska listamanninn Dieter Roth. Eftir leiðsögnina tókum við þátt í listsmiðju sem hefur verið útfærð í tengslum við sýninguna, tvíhandarteikningum og að vinna með bókstafastimpla eins og sjá má á myndum sem fylgja hér með.

Á Tækniminjasafninu tók Pétur Kristjánsson forstöðumaður safnsins á móti okkur og lagði áherslu á prentverkstæði safnsins sem m.a. hefur að geyma pressur frá Dieter Roth. Hann sýndi okkur í verki hvernig vélarnar virka og sýndi dæmi um hvernig maður prentar grafíkverk. 

Okkur fannst  þetta mjög skemmtilegt og áhugavert. Löng ferð í rútu var líka skemmtileg og við þökkum kærlega fyrir okkur.

LDB, 5. – 7. bekkur

11.12.2013

Unnið úr trjáberki

Krakkarnir í 3. og 4. bekk hafa verið að vinna tálguverkefni í skólanum.  Ekki má uppljóstra hvað þau voru að búa til en í dag voru þau að leika sér með afganga, trjábörk og ýmislegt fleira.  Margt skemmtilegt og sniðugt kom út úr þeirri vinnu.  Myndir eru hér.  HDH

Jólaföndur foreldrafélagsins

Foreldrafélag Djúpavogsskóla stendur fyrir jólaföndri í grunnskólanum á morgun, fimmtudaginn 5. desember.  Föndrað verður frá 17:00 - 19:00.  Allir íbúar eru hjartanlega velkomnir, hvort sem þeir eiga börn eða ekki í Djúpavogsskóla.
Föndrarar eru beðnir að hafa með sér liti, skæri, lím, heftara og pening til að versla föndurvörur af foreldrafélaginu.

Nemendur í 8. og 9. bekk verða með kaffihús þar sem margar girnilegar kökur verða í boði.

Engin skylda er að föndra.  Þeir sem vilja mega koma og rölta um húsið, spjalla við fólk og hlusta á jólalög og setjast síðan inn á kaffihúsið og fá sér eitthvað gott í gogginn.  Vonumst til að sjá sem flesta. 

HDH og foreldrafélagið

Árshátíðardiskurinn til sölu

Nú ætlum við að fara að selja árshátíðardiskinn okkar, "Footloose."  Þeir sem hafa áhuga eru beðnir að leggja inn pöntun á skolastjori@djupivogur.is Einnig er hægt að hringja í grunnskólann og panta þar í síma:  478-8836
Verð á diskinum eru kr. 1.500.-

Skólastjóri

Spurningakeppni grunnskólanna

Þeir Ragnar Sigurður, Óliver Ás og Guðjón Rafn tóku þátt í spurningarkeppni grunnskólanna, fyrir okkar hönd, sem haldin var í Egilsstaðarskóla. Strákarnir stóðu sig með mikilli prýði og unni fyrri riðil sinn á móti Nesskóla, 15 - 11. Í seinni riðli kepptu þeir á móti Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar sem þeir unnu örugglega, 19 -4. Þar með erum við komin í 16 liða úrslit á LANDSVÍSU.

Næsta keppni mun fara fram eftir áramót líklega í gegnum fjarfundarbúnað.

Við bíðum spennt eftir því og hrópum ÁFRAM DJÚPAVOGSSKÓLI!

LDB

21.11.2013

Footloose

Það gátu allir verið sammála um það að vel hafi tekist til hjá nemendum Djúpavogsskóla við uppsetningu á dans og söngleiknum Footloose. U.þ.b. 100 gestir mættu á sýninguna sem tók góða tvo tíma. Myndirnar með fréttinni tala sínu máli.

LDB

11.11.2013

Dagur gegn einelti

Dagurinn 8.nóvember er helgaður baráttunni gegn einelti í samfélaginu.  Í dag er hann haldinn hátíðlegur í þriðja sinn og er markmiðið með deginum að vekja sérstaka athygli á málefninu og hversu alvarlegt einelti er.
Við hvetjum alla til að nýta daginn til að hugleiða hvernig hægt er að stuðla að jákvæðara samfélagi fyrir alla og beina athyglinni að því að koma í veg fyrir og uppræta það þjóðarböl sem einelti er.

Hægt er að undirrita þjóðarsáttmála gegn einelti á:  www.gegneinelti.is og hvet ég okkur öll til að sýna samhug í verki.

Munum svo að "öll dýrin í skóginum eiga alltaf að vera vinir."

HDH

Árshátíð Djúpavogsskóla

Söngleikurinn FOOTLOOSE verður settur á svið föstudaginn kemur kl. 18:00 á Hótel Framtíð.

Miðaverð

Fyrir einn     800  kr

Fyrir tvo     1.500 kr

Fyrir þrjá    2.000 kr

Frítt fyrir 0 - 16 ára og eldri borgara.

Vonumst til að sjá sem flesta.

Nemendur og starfsfólk grunnskólans.

Æfingar fyrir Footloose

Þessa dagana standa yfir æfingar á söng og dansleiknum Footloose. Allir nemendur taka á einhvern hátt þátt í sýningunni, ýmist með leik, dansi, fréttapistlum, sviðsmynd og leikmunagerð. Á meðfylgjandi myndum má sjá hve skemmtilegt er hjá okkur í undirbúningi á árshátíð.

24.10.2013

Norræna skólahlaupið

Nemendur Djúpavogsskóla hlupu í dag 2,5 – 5 eða 10 km. Eftir hlaupið var boðið upp á ávexti og fóru nemendur að því loknu í sund. Veðrið var með besta móti eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Eftirfarandi upplýsingar eru teknar af vef ÍSÍ.

 

Norræna skólahlaupið fór fyrst fram á Íslandi árið 1984, en allir grunnaskólar á Norðurlöndunum geta tekið þátt í hlaupinu á hverju hausti.

Markmið - með norræna skólahlaupinu er leitast við:

 • Að hvetja nemendur til þess að æfa hlaup og auka með því útiveru og hreyfingu
 • Að kynna og skýra nauðsyn þess að hreyfa sig, reyna á líkama sinn og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan

Keppni:

Með norræna skólahlaupinu er keppt að því að sem flestir (helst allir) séu þátttakendur. Hver skóli sendir ÍSÍ skilagrein um árangur sinn þar sem fram kemur hve margir tóku þátt í hlaupinu og hve langt hver þátttakandi hljóp.

 

Þátttakendur geta valið hve langt þeir hlaupa þ.e. 2.5 km, 5 km eða 10 km. Að hlaupinu loknu fær hver þátttakandi og hver skóli viðurkenningarskjal. Það skal tekið fram að fyrst og fremst er lögð áhersla á holla hreyfingu og að allir taki þátt. Mjólkursamsalan, MS, hefur styrkt útgáfu viðurkenningarskjala á myndarlegan hátt og samstarfsaðili að þessu verkefni er Íþróttakennarafélag Íslands.

LDB

10.10.2013

Námshestaverðlaun fyrir september 2013

Námshestar

Námshestaverðlaunin fyrir september voru afhent í dag. Fóru nemendur út í skógrækt þar sem nemendum var skipt í lið í fjársjóðsleit. Fyrst var þeim skipt í tvö lið og síðan í þrjú lið. Mjög ójafnt var þegar skipt var eftir aldri en skemmtilegri keppni þegar þrjú blönduð lið börðust um að koma fjársjóðnum í Aðalheiðarlundinn. Fjársjóðurinn var kassi með 10 ósoðnum hænueggjum. Að lokum fengu allir námshestar súkkulaði og sleikjó og var síðan ekið aftur í skólann í hefðbundna kennslu.

Myndir úr keppninni, og listrænar skógarmyndir teknar af nemanda, má sjá hér.  

07.10.2013

Tónlist fyrir alla

 

Fimmtudaginn 19. september heimsóttu okkur Laufey og Páll, hljóðfæraleikarar á vegum verkefnisins, Tónlist fyrir alla. Spiluðu þau á fiðlu og gítar. Nemendur hlustuðu á klassísk verk frá ýmsum tímum.

Mikilvægt er fyrir nemendur að fá tækifæri til að hlusta á vel spilaða tónlist. Eykur það áhuga nemenda á tónlist. Einnig er það mjög hvetjandi fyrir nemendur að fá að hlusta á mismunandi tegund tónlistar.

Nemendur voru einstaklega prúðir og gleyptu í sig mál tónlistarinnar.

Það er mikilvægt fyrir litla skóla eins og okkur að fá tækifæri til að taka þátt í verkefni sem þessu.

Fáeinar myndir má sjá hér.

LDB

23.09.2013

Haustganga 2013

Haustganga Djúpavogsskóla var farin fimmtudaginn 5. september. Ástæða þess að haustgöngu var flýtt var að nýta landvörð á svæðinu, Brynju Davíðsdóttur.

Lagt var af stað frá grunnskólanum í fyrstu kennslustund og gengu allir nema yngstu nemendurnir. Þeim var keyrt út að Hjöllum.

Ferðin inn að Teygahorni tók rúmlega eina og hálfa klukkustund og var byrjað á því að snæða nesti og hlýða á fróðleik frá Brynju. Hún sagði okkur frá nýju steinasafni sem verið er að byggja upp, veiði í Búlandsá og fórum við svo í göngutúr með henni þar sem við sáum holufyllingar í björgum.

Myndir af ferð okkar má sjá hér.

20.09.2013

Fundargerð foreldrafundar

Fundargerð

Almennur foreldrafundur var haldinn í Djúpavogsskóla þriðjudaginn 10. september 2013.  Á fundinn mættu 28 foreldrar og áttu 59% nemenda fulltrúa sinn á fundinum.

1.      Fjöldi nemenda og starfsfólks

Skólastjóri fór yfir fjölda nemenda og starfsfólks.  Í leikskólanum eru 43 nemendur, í grunnskólanum eru 64 nemendur og í tónskólanum eru 52 nemendur, þ.a. 5 í forskóla.

Starfsmenn eru 31 í rúmlega 28 stöðugildum.

2.      Skóladagatal

Skólastjóri fór yfir skóladagatalið sem er að mestu leyti hefðbundið.  Þó eru nokkrar breytingar fyrirhugaðar og eru foreldrar hvattir til að hafa skóladagatalið á góðum stað yfir skólaárið, t.d. á ísskápnum.

 3.      Kynning á starfi íþrótta – og æskulýðsfulltrúa

Skólastjóri kynnti stuttlega nýjan íþrótta- og æskulýðsfulltrúa og fór yfir hlutverk hans.  Mikið fagnaðarefni er að fá hann og fjölskylduna hans hingað í sveitarfélagið og eru miklar væntingar varðandi íþrótta- og æskulýðsstarf vetrarins.

 4.      Kosningar

 1. Í sundráð:  Í sundráði voru fyrir Claudia Gomez Vides og Dröfn Freysdóttir og þeim til viðbótar voru kosin Kristborg Ásta Reynisdóttir og Gunnar Sigurðsson
 2. Í yngriflokkaráð:  Í yngriflokkaráði voru fyrir Hafdís Reynisdóttir og Lilja Dögg Björgvinsdóttir og þeim til viðbótar voru kosnar Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir og Auður Ágústsdóttir
 3. Í skólaráði 2013 - 2015 eru:
  Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, Berglind Einarsdóttir, Þórdís Sigurðardóttir, Þórir Stefánsson, Ágústa Arnardóttir, Ólöf Rún Stefánsdóttir, G. Aðalheiður Guðmundsdóttir, Klara Bjarnadóttir, Óliver Ás Kristjánsson, Ragnar Sigurður Kristjánsson
  1. Í umhverfisráði 2013 – 2015 eru.
   Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, Lilja Dögg Björgvinsdóttir, Elva Sigurðardóttir
   Júlía Hrönn Rafnsdóttir, Helga Björk Arnardóttir, Auðbjörg Elísa Stefánsdóttir
   Hugrúm M. Jónsdóttir, Guðrún Anna Eðvaldsdóttir, nemendur grunn- og leikskólans
  2. Foreldrafélag

Dröfn Freysdóttir, Bergþóra Birgisdóttir, Bergþóra Valgeirsdóttir, Freydís Ásta Friðriksdóttir, Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir

 5.      Önnur mál

Rætt um mögulegt húsnæði fyrir félagsstarfið.  Ýmsar hugmyndir komu fram og verður unnið úr þeim.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 18:55.

Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, fundarritari

Foreldrafundur

Fundarboð

Boðað er til almenns foreldrafundar í Djúpavogsskóla.  Fundurinn verður haldinn í grunnskólanum þriðjudaginn 10. september og hefst klukkan 18:00

Dagskrá

1.       Innlögn frá skólastjóra, farið yfir skóladagatal o.fl.

2.       Kosning í skólaráð.  Kosið var til tveggja ára haustið 2011.  Í skólaráði starfa nú:

Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir
Berglind Einarsdóttir
Þórdís Sigurðardóttir
Elísabet Guðmundsdóttir
Þórir Stefánsson
Berglind Elva Gunnlaugsdóttir
Helga Rún Guðjónsdóttir
Óliver Ás Kristjánsson
Ragnar Sigurður Kristjánsson

Í skólaráði þurfa að vera fulltrúar stjórnenda og geri ég ráð fyrir því að Halldóra, skólastjóri, Berglind staðgengill í grunnskóla og Þórdís staðgengill í leikskóla starfi áfram.  Einnig verða formaður og varaformaður nemendaráðs í skólaráði.  Fyrsti fundur nemendaráðs verður miðvikudaginn 11. september og mun nemendaráð þá skipta með sér verkum.

Í skólaráð vantar því fjóra frambjóðendur.

3.       Kosning í umhverfisráð

Í umhverfisráði voru:

Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir
Lilja Dögg Björgvinsdóttir
Gunnlaug Fía Aradóttir
Svala Bryndís Hjaltadóttir
Berglind Elva Gunnlaugsdóttir
Ágústa Arnardóttir
Hafdís Reynisdóttir / Sigurður Ágúst Jónsson
Kristborg Ásta Reynisdóttir / Stefán Kjartansson
Auðbjörg Elísa Stefánsdóttir

Ásamt fjölmörgum nemendum grunnskólans og elsta árgangi leikskólans

Lilja Dögg, Halldóra, Elva og Júlía hafa gefið kost á sér í nýtt ráð.

4.       Kynning á starfi nýs íþrótta- og æskulýðsfulltrúa

Framboð í sund- og frjálsíþróttaráð

Í því eru nú:  Claudia og Dröfn

Framboð í yngriflokkaráð

Í því eru nú Hafdís og Lilja

5.       Aðalfundur foreldrafélagsins

Í stjórn voru sl. skólaár: 

Dröfn Freysdóttir

Júlía Hrönn Rafnsdóttir

María Dögg Línberg

Helga Björk Arnardóttir

Rannveig Þórhallsdóttir

Bergþóra Valgeirsdóttir

6.       Önnur mál

 

Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, skólastjóri

 

Skólinn byrjar

Þá er skólastarf formlega hafið í Djúpavogshreppi. Nemendur mættu til starfa í blíðskaparveðri í morgun, hressir og kátir og tilbúnir fyrir veturinn. Það er fátt betra en að hefja skólaárið á því að synga kröftuglega en það er akkúrat það sem nemendur 1.-6. bekkjar gerðu í samsöng. Nemendur 7.-9. skelltu sér beint í lærdóminn á meðan aldursforsetarnir slökuðu á og lögðu á ráðin um hvað gera skyldi í smíðum í vetur.

ÓB

 

 

 

 

 

03.09.2013

Skólabyrjun

Til foreldra / forráðamanna barna í grunn- og tónskólanum

Ég vil minna á að grunnskólinn og tónskólinn hefjast mánudaginn 2. september með opnu húsi.
Nemendur 1. bekkjar mæta klukkan 9:30 í grunnskólann
Nemendur 2. bekkjar mæta milli 10:30 og 14:00 í grunnskólann, þegar þeim hentar
Nemendur 3. - 10. bekkjar mæta milli 10:00 og 14:00 í grunnskólann,  þegar þeim hentar

Innritun í tónskólann fer fram frá 10:00 - 16:00 í tónskólanum.  Mikilvægt er að foreldrar mæti með börnum sínum og velji hljóðfæri, auk þess sem skráð er í veltitíma o.fl.

Kennsla hefst skv. stundaskrá þriðjudaginn 3. september klukkan 8:05.

Á miðvikudag eða fimmtudag fá foreldrar bréf í venjulegum pósti, með nánari upplýsingum, auk þess sem hefðbundnir skráningarmiðar í mötuneyti, lengda viðveru (1.-4. bekkur), drykkjarmiðar, upplýsingar um skráningu í tónskóla og Neistamiðar fylgja með.

Hlökkum til að starfa með ykkur í vetur,
f.h. starfsfólks grunn- og tónskólans,

Halldóra Dröfn, skólastjóri

Aukafundur í sveitarstjórn

Aukafundur verður haldinn í sveitarstjórn í Geysi miðvikudaginn 14.ágúst kl 16:00.
Eina dagskrármálið  

1.  Tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 -2020 ásamt umhverfisskýrslu
  vegna Axarvegar milli  Háabrekku og Reiðeyri.  

                                                                                                               Sveitarstjóri

Myndir frá grunnskólanum

Vegna anna hefur lítið verið sett inn af myndum frá grunnskólanum.  Það breytir þó ekki því að nóg var um að vera í maí og hef ég nú sett inn fjögur myndasöfn.

Það fyrsta er frá ratleiknum sem haldinn var í Hálsaskógi í maí. Smellið hér.

Næsta er frá heimsókn Reynis Arnórssonar, en hann var með kynningu á notkun reiðhjólahjálma. Smellið hér

Þriðja myndasafnið er frá Vordögunum, þegar nemendur 4. og 5. bekkjar fór inn á Teigarhorn með Rannveigu umsjónarkennaranum sínum.  Smellið hér.

Síðasta myndasafnið er frá gróðursetningu elris en nokkrir nemendur úr 4. og 5. bekk buðust til að hjálpa skólastjóra við að gróðursetja tré, sem skólinn fékk úr Yrkjusjóðnum.  Smellið hér.

HDH

Upptaka af Músik Festivali

Nú er hægt að panta DVD diska með upptöku af hinu frábæra Músik Festivali 2013.
Áhugasamir sendi póst á skolastjori@djupivogur.is eða hringi í síma 478-8836.
Diskarnir verða afhentir um 20. júní.

Skólastjóri 

Skóladagatal 2013 - 2014

Skóladagatal næsta skólaárs hefur verið sett á heimasíður grunn- og leikskólans.  HDH

Skólaslit og útskrift

Kæru íbúar Djúpavogshrepps

Laugardaginn 1. júní verða skólaslit grunn- og tónskólans, ásamt útskrift elstu nemenda leikskólans í Djúpavogskirkju. Athöfnin hefst klukkan 11:00 og eru allir velkomnir.
Að athöfn lokinni verða opin hús í grunn- og leikskólanum ásamt því að foreldrafélagið býður uppá grillaðar pylsur fyrir alla gesti, við leikskólann.

Skólastjóri 

Smíði

Stelpurnar í 5. bekk hafa verið að smíða þessi fallegu tímaritabox núna eftir áramót.  Þær voru skælbrosandi og fallegar hér fyrir utan skólann áðan, alsælar með nýju boxin sín.  HDH

21.05.2013