Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Árshátíðin er eftir tvo daga - myndir og myndband

Árshátíð Grunnskólans fer fram föstudaginn 2. nóvember kl. 18:00 á Hótel Framtíð.

Hér að neðan fylgir smá myndband af æfingum og undirbúningi fyrir árshátíðina.

Þá eru hér einnig nokkrar myndir sem teknar voru á æfingu í gær.

ÓB

 

 

 

 

 

 

Handbók 2012-2013

Grunnskólahandbókin fyrir 2012-2013 er komin á heimasíðuna.  Hana má finna undir "Handbók" hér til vinstri.  HDH

25.10.2012

Reglur í tónskólanum

Sl. vor var ákveðið að búa til ramma í kringum tónskólann og nám barnanna þar.  Slíkar reglur hafa aldrei verið til og þótti skólastjóra, deildarstjóra tónskólans, staðgengli skólastjóra og fleiri aðilum mikilvægt að setja niður og búa til reglur sem unnið verður eftir.  Eins og aðrar reglur í Djúpavogsskóla verða þær til stöðugrar endurskoðunar en það þarf alltaf að byrja einhvers staðar.

Búið er að stofna undirsíðu á heimasíðu grunnskólans sem heitir "Málefni tónskólans."  Þar verða settar inn upplýsingar sem eiga sérstaklega við tónskólann.  Hinar nýju reglur, sem samþykktar voru af fræðslu- og jafnréttisnefnd, þann 17. október sl. má finna þar.  HDH

25.10.2012

Það styttist í árshátíð Grunnskólans - myndband

Hér að neðan er auglýsing fyrir árshátíð Grunnskólans, en hún fer fram 2. nóvember nk.

ÓB

 

 

 

 

 

 

 

 

Árshátíðarundirbúningur

Til foreldra / forráðamanna

Í morgun fengu börnin í grunnskólanum að vita hvaða hlutverk þau fá í Bugsy Malone, leikritinu sem við ætlum að setja upp á árshátíðinni.

Eins og alltaf þegar verið er að velja hlutverk er í mörg horn að líta.  Sumir sem fengu stórt hlutverk í fyrra fá kannski minna hlutverk núna - aðrir eru fæddir í eitthvað hlutverk sem er verið að vinna með akkúrat núna o.s.frv.  Þegar valið er í hlutverkin er einnig reynt að skoða sterkar hliðar barnanna og koma til móts við þau, þar sem þau eru best.  Auðvitað er það samt þannig að aldrei er hægt að gera öllum til hæfis en við vonum að þau sem voru kannski pínu ósátt í morgun átti sig á því að þau gegna öll lykilhlutverki í leikritinu.
Einnig vil ég benda á að þó setningarnar séu kannski ekki margar, sem barnið þarf að segja, þá getur verið að það sé heilmikið uppi á sviði í mörgum atriðum, jafnvel að syngja eða dansa.

Við ætlum að hafa eitthvað heimanám fram undir miðja næstu viku.  Eftir það fer að draga úr.  Vil ég samt biðja ykkur um að láta börnin byrja strax á morgun að lesa handritin, læra línurnar sínar og líka skoða hvar þau eiga að koma inn á sviðið, eiga þau að dansa, hreyfa sig o.s.frv.  Það er ekki síður mikilvægt að læra það.

Í næstu viku höfum við samlestur á mánudegi og þriðjudegi hjá 4.-10. bekk.  Á miðvikudaginn hefjast æfingar fyrir hádegi, lítið hjá yngstu bekkjunum til að byrja með en þær detta á af fullum þunga í þarnæstu viku.

Í næstu viku verður kennsla eftir hádegi og Neistatímar og tónskóli skv. stundaskrá.

Ég sendi annan póst í lok næstu viku til að fara yfir málin þá.

Megið þið öll eiga góða helgi.
Dóra og starfsfólk grunnskólans

19.10.2012

Íþróttaálfurinn í heimsókn

Foreldrafélag Djúpavogs bauð leikskólabörnum og nemendum 1.-3. bekkjar uppá skemmtilega heimsókn í gær.  Íþróttaálfurinn sjálfur kom í íþróttahúsið og sprellaði og skemmti börnunum í góða stund.  Hann fékk alla krakkana til að hreyfa sig, hoppa og skoppa og gera alls konar æfingar.  Þau fóru í fjársjóðsleit eins og sjóræningjar, teygðu sig og toguðu, fóru í splitt, spörkuðu í ímyndaða bolta og margt fleira.


Það var greinilegt að flest börnin þekkja íþróttaálfinn og félaga hans í Latabæ vel og kunnu þau margar hreyfingar og takta sem íþróttaálfurinn er þekktur fyrir.  Einhverjir söknuðu Sollu stirðu og er aldrei að vita nema hægt verði að fá hana í heimsókn síðar meir.

Leikskólabörnin og nemendur 1.-3. bekkjar þakka foreldrafélaginu kærlega fyrir frábæra skemmtun.  Myndir frá heimsókninni eru hér.  HDH

Haustgangan

Haustganga Djúpavogsskóla var farin þriðjudaginn 25. september í einmuna blíðu.

Yngstu nemendur gengu sem leið lá upp Klifið og inn að Olnboga. Þar settist hópurinn niður og borðað nesti og lék sér aðeins í klettunum. Frá Olnboga var gengið yfir að Hermannastekkum og inn í Hálsaskóg. Þar léku nemendur sé í frjálsum leik eða hvíldu sig í blíðunni. Hópurinn gekk svo alla leið heim aftur. Ferðin gekk vel enda frábært veður og góð stemming í hópnum.

 Nemendur í 5. 6. og 7. bekk fóru saman í hóp. Ferðinni var heitið í Æðarsteinsvita. Á leiðinni var komið við íbátasmiðjunni Rán og var Villi á staðnum og leyfði hann nemendum að skoða bátinn þeirra og prófa að klifra upp í hann. Nesti var tekið við Bræðsluna í skjóli og svo var farið í fjörugöngu að Æðarsteinsvita. Sumir brögðuðu á skarfakáli en aðrir skoðuðu hella við sjávarminnið. Eftir klifur í vitann fór hópurinn í skemmtilegan flækjuleik og þaðan í gamla fjárrétt rétt hjá vitanum. Endastöðin var æfingahúsnæði Tónleikafélags Djúpavogs og snertu nokkrir nemendur lítillega á hljóðfærum.

Unglingarnir gengu sem leið lá suður eftir flugbrautinni og síðan yfir í Kiðhólma.  Margt var skoðað og rætt á leiðinni og þegar farið var tilbaka var gengið inn með ströndinni og síðan upp með Borgargarðsvatni.

Í öllum ferðalögum á vegum skólans er fjallað um örnefni og sögu eins og kennarar hafa vitneskju til.  

Haustgangan í ár var í alla staði mjög skemmtileg eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.   HDH (og starfsfólk)