Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Lestrarátakið

Nú hefur lestrarátakið staðið yfir í rúmar tvær vikur og eins og þið sjáið á myndinni sem fylgir með þessari frétt, fjölgar laufblöðunum óðum á trjánum, enda er farið að vora og einhver tré eflaust farin að bruma. 
Við ætlum að halda áfram allan marsmánuð og verður gaman að sjá hvernig tréð mun líta út þá.  HDH

Undankeppni upplestrarhátíðar

Nemendur 7. bekkjar héldu æfingu fyrir Stóru upplestrarhátíðina í kirkjunni sl. föstudag.  Venjulega þurfa þeir að ganga í gegnum undankeppni til að velja tvo þátttakendur úr bekknum, en þar sem nemendur bekkjarins eru aðeins þrír, kveða reglur keppnir á um það að allir skuli taka þátt.  Er það einnig við hæfi að Djúpavogsskóli fái að senda þrjá keppndur í ár þar sem lokakeppnin verður haldin í Djúpavogskirkju þann 7. mars næstkomandi.  Verður sá viðburður auglýstur nánar þegar að honum kemur.

Athöfnin í kirkjunni á föstudaginn var mjög notalega og er frábært að sjá hvað nemendurnir taka alltaf miklum framförum undir öruggri leiðsögn Berglindar Einarsdóttur.  Foreldrar upplesaranna mættu í kirkjuna, auk þess sem nemendum 5.-10. bekkjar var boðið sem áhorfendum.  Myndir eru hér.  HDH

Öskudagssprell

Þriðji keppnisdagurinn var á öskudaginn.  Nemendur Djúpavogsskóla og Grunnskóla Breiðdalshrepps kepptu í síðustu keppnisgreininni, sem var hæfileikakeppni.  Fengu þeir ákveðin verkefni og höfðu um 2 klst. til að klára atriðið sitt.  Mjög gaman var að sjá hversu fjölbreytt atriðin voru og skemmtileg.
Sigurvegarar í heildarkeppni yngri nemenda voru "Djúpalingarnir"og sigurvegarar eldri nemenda voru "Friends."  Þau lið sem hlutu háttvísiverðlaun voru "Djúpalingarnir" og "Gígantísk græn sápa."

Eftir hæfileikakeppnina var húllumhæ í íþróttasalnum og var þátttaka foreldra og annarra fullorðinna mjög góð þetta árið.  Myndir eru hér.  HDH

Öskudagssprell

Klukkan 10:30 hefst öskudagssprell í íþróttahúsinu. Nemendur grunnskólans sýna atriði sem er ein keppnisgreinin á Keppnisdögunum og úrslit verða kynnt.  Síðan verður ball og húllumhæ á eftir.

Allir íbúar, foreldrar og aðrir eru velkomnir.

HDH

Annar keppnisdagur

Keppnin á Keppnisdögunum hélt áfram í dag.  Mikið fjör var í skólanum og var gaman að fyljgast með flottum krökkum vinna margs konar verkefni.  Myndir dagsins eru hér.  HDH

Keppnisdagar 2012

Jæja þá eru hinir árlegu Keppnisdagar í grunnskólanum í fullum gangi aftur.  Þeir hófust í dag og eins og venjulega fengum við góða gesti úr Grunnskóla Breiðdalshrepps til að taka þátt í þeim með okkur.  Keppnisgreinarnar í ár eru:
Heimilisfræði, sund, íþróttir, hæfileikakeppni, listsköpun og náttúrufræði.
Í dag kepptu yngri nemendur í íþróttum og æfðu sig síðan fyrir hæfileikakeppnina.  Eldri nemendurnir fóru í heimilsfræði, þar sem þeir bökuðu tebollur og þaðan í sund þar sem þeir þurftu að leysa margs konar þrautir eins og brettaboðsund, flot, körfubolta, blak o.fl.  Síðan fóru þeir í náttúrufræði þar sem gera þurfti tilraunir, greina fugla, steina o.fl. og síðan í listsköpun þar sem þeir unnu listaverk úr afgöngum.

Á morgun víxlast verkefnin og á öskudaginn verður uppskeruhátíð í íþróttahúsinu.  Hún hefst klukkan 10:30 og eru allir íbúar sveitarfélagsins velkomnir.

Myndir af fyrsta keppnisdegi eru hér.  HDH

Skólahreystitækin

Eins og þið vitið auglýsti ég, fyrir jól, eftir styrktaraðilum vegna kaupa á tækjum til að æfa fyrir Skólahreysti.  Skemmst er frá því að segja að Samkaup - Strax og Umf. Neisti brugðust skjótt við og styrktu grunnskólann samtals um 150.000.- þ.e. 75.000.- krónur hvor aðili.

Tækin komu fyrir nokkru og í vikunni fékk ég þær Sóleyju Dögg, formann Neista og Írisi Dögg, verslunarstjóra Samkaupa-Strax á Djúpavogi í heimsókn í íþróttahúsið til að taka af þeim þessa fínu mynd.  Með þeim á myndinni eru upprennandi "skólahreystikeppendur."  Undankeppni Skólahreysti fer fram á Egilsstöðum 15. mars nk. og eru unglingarnir okkar á fullu að undirbúa sig fyrir það.

Grunnskólinn þakkar fyrrnefndum styrktaraðilum kærlega fyrir frábæra gjöf, sem á eftir að nýtast öllum nemendum skólans á næstu árum. 

HDH

 

 

Stattu upp!!

Skoðanakannanir, vegna Evróvision, voru gerðar af tveimur bekkjardeildum í dag.  Annars vegar 3.-4. bekkjar og hins vegar 5.-7. bekkjar.  Niðurstöður eru hér fyrir neðan:

STATTU UPP!
Nemendur 3. - 4. bekkjar (ásamt Unni kennara) spáðu í dag fyrir um úrslit í Söngvakeppni Sjónvarpsins.
Börnin fengu að fara inn í tíma hjá öllum nemendum skólans og einnig á kennarastofuna til þess að fá álit allra á því hvaða lag við Íslendingar eigum að senda í Evrovision keppnina í Azerbaijan í maí n.k.

Niðurstaðan varð eftirfarandi:

1.  Stattu upp - með 26 atkvæði
2.  Hugarró – með 9 atkvæði
3.  Hjartað brennur - með 7 atkvæði
4.  Hey – með 3 atkvæði
5.  Mundu eftir mér – með 2 atkvæði
6.  & 7.  Aldrei sleppir mér og Stund með þér – hlutu engin atkvæði

Nemendur 3.-4. bekkjar Djúpavogsskóla spá því laginu ,,Stattu upp“ sigri í keppninni annað kvöld!
Fylgjumst öll spennt með og höfum gaman af!     
                                                                            UMJ og 3.-4.b

Hjá 5. og 6. bekk var niðurstaðan keimlík. 

1.  Stattu upp - með 27 atkvæði
2.- 3.  Hugarró og Hjartað brennur - 6 atkvæði
4.  Hey - með 3 atkvæði
5.-6. Mundu eftir mér og
Aldrei sleppa mér
7. Oj (ætla ekki að horfa) - 1 atkvæði
8.  Stund með þér - 0 atkvæði

Þau tóku sig einnig til og gerðu súlurit og er hægt að sjá myndir af því
hér.                                                                                                                                            ALH og 5.-7. b

Lestrarátak í grunnskólanum

Í gær hófst lestrarátak í grunnskólanum.  Starfsfólk skólans hefur undanfarið fylgst með umræðum í þjóðfélaginu um læsi (ólæsi) barna á Íslandi og fannst okkur ómögulegt annað en að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að reyna að koma í veg fyrir ólæsi barna á Djúpavogi.  Bókasafnsvörður Djúpavogshrepps hafði einnig lýst áhyggjum sínum vegna þess hversu lítið færi út af bókum á safninu, þá sérstaklega hjá unglingunum.

Var því ákveðið að blása til sóknar og nú er átakið hafið.  Við lögðum höfuð okkar í bleyti til að finna út hvernig best væri að standa að þessu og niðurstaðan varð sú að við fengum lánaða trjágrein í garði hér í næsta nágrenni og erum búin að "planta" henni hér innanhúss.  Fyrirkomulagið verður þannig að í hvert sinn sem nemandi klárar bók skráir hann á laufblað nafn bókar, nafn höfundar, fjölda blaðsíðna, nafn sitt og gefur síðan bókinni einkunn.  Laufblaðið klippir hann síðan út og hengir á tréð.  Hver bekkjardeild hefur sinn lit:  1.og 2. bekkur eru græn, 3. og 4. bekkur eru gul, 5. - 7. bekkur eru bleik og 8.-10. bekkur eru fjólublá.

Einu sinni í viku ætla ég síðan að taka mynd af trénu og setja hana hér á heimasíðuna þannig að þið getið fylgst með.  Lestrarátakið stendur fram að páskum og eftir páska ætla elstu nemendurnir að taka niður laufblöðin og vinna verkefni í stærðfræði, taka saman fjölda lesinna bóka, fjölda blaðsíðna o.m.fl.  HDH

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn verður haldinn hátíðlegur í níunda sinn í dag, 7. febrúar. Þemað í ár er „Tengjum kynslóðir” og munu yfir 60 þjóðir um allan heim standa fyrir skipulagðri dagskrá þennan dag þar sem til umfjöllunar verða ýmis verkefni þar sem tæknin tengir kynslóðir saman. Áhersla verður lögð á að kynslóðir miðli af þekkingu sinni og reynslu milli kynslóða, en þannig má stuðla að jákvæðri og öruggri notkun Netsins.

Netöryggismiðstöðvar 30 Evrópuþjóða, sem mynda Insafe netverkið (www.saferinternet.org), og nærri 40 önnur lönd munu þennan dag leiða saman ungt fólk og fullorðna til þess að vekja athygli á og ræða um Netið. Netverkið hefur látið framleiða stutta auglýsingu til þess að styðja við átakið, en hún verður aðgengileg á Netinu (www.saft.is ) og sýnd í sjónvarpi næstu daga.

Í grunnskólanum verður í dag og næstu daga, farið yfir netöryggi og ýmislegt annað unnið í framhaldinu af þessum degi.  Foreldrar eru hvattir til að kynna sér málið og þau tæki sem í boði eru til að stuðla að öruggri netnotkun barna sinna.  HDH