Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Skemmtilegt bréf frá Þýskalandi

Þegar ég mætti til vinnu í morgun var brúnt umslag á borðinu mínu.  Á því var blár miði sem á stóð:  PRIORITAIRE, PARAVION.  Utan á umslaginu stóð:

Grunnskóli Djúpivogur
-skólastjóri eða staðgegill-
ÍS - 765 Djúpivogur
Island
Ísland

Eins og lög gera ráð fyrir opnaði ég umslagið.  Inni í því var kort og var búið að stinga mörgum ljósmyndum inn í kortið.  Í kortinu stóð þetta:

Dr. Ernst-Friedrich Krauss
Im Alten 7
D 79539 Lörrach
Lörrach, 09. desember 2011

Góðu krakkar minir grunnskólans í Djúpuvogi!
Kannski munið þið eftit því?

Í byrjun september í ár var ég í gönguferð í Djúpuvogi á litlum sjónarhól.  Ég för framhjá skólanum.  Klukkan var tólf og skólinn var búinn.  Nemendurnir voru að fara úr skólanum.  Dökkhærður strákur spurði mig á ensku:  "Hvað heitirðu? Og hvadan ertu?"  Ég svarði:  "ég heiti Ernst, ég er Þjóverji."  Strákurinn gladdist og kallaði til bekkjarfélaganna sinn:  "Komiði! Hérna er Þjóðverji! Það er gaman!  Ég var þegar umkringdur af mörgum  litlum íslendingum.  Auðvitað tóku krakkinir eftir því, að ég tala bara lítið í íslensku.  Þessvegna reyndu krakkarnir kenna mér svolítið í íslensku, þessvegna t.d. að telja og svarið að "takk fyrir" - "gerið svo vel".

Þetta var ein af skemmtilegustu reynslum mínum á Ísland.  Ég mun aldrei gleyma og hugsa oft til Djupivogs og til glöðu nemendanna grunnskólans.  Takk fyrir!

Ég hef tekið nokkrar ljósmzndir og sendi ykkur þær.

Ég óska ykkur, fjölskyldum ykkar og kennörunum ykkar skemmtilegrar aðventutiðar, gleðilegrur jóla og farsæls komandi árs 2012!

Bestu kveðjur
Ernst-Friedrich Krauss

Börnin sem hittu þennan almennilega Þjóðverja voru:  Mark, Matti, Anna, Katla, Íris, Camilla, Aldís, Elísa, Laura, Natalía, Ísold og Lilja.  Þessi börn fá sendar ljósmyndir heim.   HDH

 

 

Jólaball fyrir alla

Djúpavogsskóli og Hótel Framtíð vilja minna alla íbúa á jólaballið sem fer fram á Hótel Framtíð, á morgun, föstudaginn 16. desember.  Ballið hefst klukkan 11:00 og því lýkur klukkan 12:00.  Nemendur úr tónskólanum sjá um undirspil, nemendur úr grunnskólanum sjá um forsöng.  Allir velkomnir.  HDH

Jólatónleikar tónskólans

Jólatónleikar tónskólans voru haldnir í Djúpavogskirkju í gær.  Að vanda voru tónleikarnir mjög vel heppnaðir og margir snillingar stigu á stokk.  Sérstaklega er gaman að fylgjast með þeim sem eru að byrja tónlistarnámið sitt og síðan þeim sem eldri eru að spila saman í "litlum hljómsveitum."  Flest lögin voru jólalög en nokkrir "rokkslagarar" í rólegri kantinum fengu að fylgja með.  Dagskráin endaði á því að samsöngskórinn flutti tvö lög.
Við þökkum Andreu og József kærlega fyrir frábæra tónleika.  Meðfylgjandi myndir tók Lilja Dögg.  HDH

Jólapappír til sölu

Foreldrafélagið - leikskóladeild á enn til sölu nokkrar pakkningar af jólapappír.  Þær eru í leikskólanum þessa viku og næstu ef einhverjir hafa áhuga á að styrkja gott málefni.  Einnig eru nokkrar pakkningar eftir af servíettum.
Verðið á jólapappírnum eru 1.800.- (fjórar rúllur og eitthvað dúllerí með).  Servíettur kosta 500.-

Foreldrafélagið

Leynivinavika

Eins og lesendur heimasíðunnar og íbúar á Djúpavogi hafa flestir tekið eftir hafa ýmsir dularfullir atburðir átt sér stað í kringum starfsfólk Djúpavogsskóla sl. viku.  Þetta á sér nú allt saman eðlilegar skýringar en síðustu daga hefur staðið yfir "Leynivinavika."  Þetta byrjaði ósköp sakleysislega.  Hver starfsmaður fékk úthlutað leynivini og áttu menn að vera ósköp góðir við leynivininn sinn mánudag, þriðjudag og miðvikudag.  Fengu allir fallegar gjafir, sem ýmist biðu á skrifborðum fólks á morgnana, voru bornar heim í hús, fengu jafnvel aðstoð frá góðu fólki í þorpinu t.d. sóknarprestinum o.fl.  En á fimmtudaginn fór að færast fjör í leikinn.  Þá átti að hrekkja leynivininn sinn en hrekkurinn mátti ekki vera illgjarn heldur átti að hrekkja "eins við viljum sjálf vera hrekkt."  Hugmyndaflugi fólks eru greinilega lítil takmörk sett því margt fyndið og skemmtilegt kom í ljós.  Frétt var sett á heimasíðuna um draumráðningar, símar voru klættir í plastfilmu, föt og skór voru límd saman, auglýst var ljóðakvöld, settar voru platauglýsingar á Barnaland, blöðrur flutu út úr krókum og kimum og eitt stykki bíll var klæddur í plastfilmu.  Hefur starfsfólkið sést laumast milli bygginga í alls konar erindagjörðum og mikið er búið að hlæja.
Á föstudaginn tók við nýtt verkefni sem stendur til 20:05 í kvöld.  Nú er samkeppni milli starfsmanna grunn- og leikskólans um að prjóna trefil.  Ekki voru mjög flóknar leiðbeiningar um það hvernig trefillinn á að vera:  Fitja skal upp 40 lykkjur og byrja á gulu.  EFtir það var hönnunin frjáls. 

Í kvöld ætlar starfsfólkið að hittast í Löngubúð og halda sína árlegu jólagleði, snæða góðan mat og hlæja mikið.  Þá kemur í ljós hver leynivinurinn er og þá mun dómnefnd skera úr um hver er sigurvegarinn í "treflasamkeppninni."  Ekki er ólíklegt að treflarnir verði myndaðir í bak og fyrir og lesendur fá fregnir af því eftir helgi hvernig keppnin fór.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af sprellinu sl. viku.  HDH

Gestavika

Í gestavikunni, sem haldin var í Djúpavogsskóla um miðjan nóvember komu margir góðir gestir í grunn-. leik- og tónskólann.  Er þetta í fyrsta sinn sem allir skólarnir eru opnir fyrir heimsóknum í heila viku og gafst þetta mjög vel.  Ein af þeim sem kom í heimsókn var Auðbjörg frá Hvannabrekku.  Hún mætti með kanínu með sér og heimsótti marga með kanínuna.
Á Hvannabrekku er rekið býli sem kallast "Opinn landbúnaður" og það merkir að þangað eru allir velkomnir í heimsókn.  Þar er líka margt að skoða og eigum við í Djúpavogsskóla eftir að nýta okkur það vonandi fyrr en síðar.  HDH

Jólaföndur foreldrafélagsins

Verður haldið í grunnskólanum miðvikudaginn 7. desember.  Það hefst klukkan 17:00 og lýkur klukkan 19:00.  Vinsamlegast takið með ykkur tréliti og grófar nálar.

Þá verða nemendur 8. og 9. bekkjar með kaffisölu á sama tíma.

 

Allir hjartanlega velkomnir.

Foreldrafélagið