Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Stjörnuskoðun

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn sendu nemendum í 5. 6. og 7. bekk stjörnukort. Fengu þeir kortin afhent í dag með leiðbeiningum um hvernig á að nota þau. Viljum við hvetja fólk til að horfa til himins og njóta þeirrar fegurðar sem dimmustu mánuðirnir bjóða uppá. Á bókasafninu er hægt að fá lánaðar bækur og mynddiska um stjörnufræði og viljum við einnig benda stjörnufræðivefina www.stjornufraedi.is og www.astro.is. Það eru vefir þeirra sem gáfu stjörnukortin og Galíleósjónaukann í fyrra.

Mjög áhugasömum vil ég einnig benda á forritið Stellarium (www.astro.is/stellarium/)  sem er bráðskemmtilegt, ókeypis og fræðandi stjörnufræðiforrit á íslensku.

Að lokum viljum við þakka kærlega fyrir vel veittar gjafir.  LDB

Gjöf frá kvenfélaginu

Þær kvenfélagskonur láta aldeilis ekki deigan síga.  Þær hafa verið duglegar að gefa skólanum ýmsar gjafir og nú síðast voru þær svo rausnarlegar að gefa grunnskólanum allan ágóða af síðasta bingói.  Þær höfðu áhuga á að keyptar yrðu vélar í smíðastofuna og var það gert nú á haustdögum.
Keyptar voru fjórar vélar:
Mjög öflug tifsög, með aukahlutum, lítill rennibekkur, ásamt fylgihlutum, lítil slípivél og tæki og tól til að spreyja á litla hluti, svokallað "airspray." 
Formaður og gjaldkeri heimsóttu smíðastofuna í gær þar sem 2. bekkur var á fullu að saga út jólatré.  Gáfu konurnar og börnin sér tíma til að sitja fyrir og má sjá myndir hér

Starfsfólk og nemendur þakka kvenfélagskonum kærlega fyrir allar góðu gjafirnar sem þær hafa gefið okkur síðustu ár.  Hafið bestu þakkir fyrir.  HDH

Venjulegur dagur á leikskólanum

Í dag er þriðjudagur, venjulegur dagur á leikskólanum.  Ég sit hér á skrifstofunni minni og hlusta á börnin spjalla og leika sér.
Ég er ekki viss um að hinn almenni borgari geri sér grein fyrir því fjölbreytta starfi sem fram fer í leikskólum landsins, ég vissi það ekki sjálf fyrr en ég fór að vinna hér í húsinu.  Hafði þó að einhverju leyti gert mér grein fyrir því þar sem ég hef átt tvö börn í leikskóla en það er samt öðruvísi að taka þátt í hringiðunni.
Núna er klukkan 9:30.  Einn hópur af börnum er að vinna í listakrók, þau eru að mála plastflöskur og búa til fiska og fugla, einn hópur er í holukubbum.  Þau eru að byggja hús og bíla og nú standa yfir samningaviðræður milli stúlkna og drengja um byggingarefnið og verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig það endar.  Þriðji hópurinn er að leira.  Þau eru að búa til listaverk (sögðu þau mér) og sýndist mér það vera alveg rétt.  Fjórði hópurinn er í könnunarleik, eitt barn sefur og tvö börn eru í málörvun.  Matráður er í eldhúsinu að taka til ávaxtaskammtinn sem börnin fá klukkan tíu, einn starfsmaður er að undirbúa skuggaleikhús og hinir sinna börnunum í starfinu, þannig að í nógu er að snúast í leikskólanum Bjarkatúni.

Sl. miðvikudag var Dagur íslenskrar tungu.  Á myndinni sem fylgir þessari frétt má sjá þennan fína karl sem var klæddur í buxur, vexti, brók, skó og bætta sokka.  Hann fékk einnig húfutetur og hálsklút.  Elstu nemendur leikskólans eiga heiðurinn af honum.  Kannski verður eitthvert þeirra fatahönnuður.  Hver veit??

Megið þið eiga góðan dag í dag. 

Kveðja frá nemendum og starfsfólki í Bjarkatúni.  HDH

Útikennslustofa

Haustið hefur farið í að hanna og skipuleggja útikennslustofu í vali hjá 8. - 10. bekk. Nemendur völdu að hafa eldstæði ofan við sparkvöllinn og hafa síðustu þrjár vikur farið í vinnu við uppbyggingu eldstæðis. Nemendur í 5. - 7. bekk eru einnig í útinámi og hafa þeir einnig hjálpað til við mokstur til að byggja eldstæðið upp. Það þarf nefnilega að fyrirbyggja það  að eldur berist að gróðri eða fari á ötula nemendur.

Uppskeran var svo eftir hádegi í dag (föstudag) þegar við kveiktum upp í kolum og grilluðum okkur sykurpúða. Nemendur í 5. - 7. bekk munu svo elda á miðvikudaginn kemur ef veður verður gott.   Myndir eru hér.  LDB

Skólahreysti

Fyrir nokkru setti ég frétt inn á heimasíðuna þar sem ég óskaði eftir styrktaraðilum til að festa kaup á æfingatækjum fyrir Skólahreysti.  Neisti ætlar að leggja málinu lið og einnig hafa forsvarsmenn Samkaupa-Strax, fyrir tilstuðlan hennar Írisar Daggar, ákveðið að gefa grunnskólanum gjafabréf í verslunum sínum, að andvirði 75.000.-
Ljóst er að tækin munu gagnast öllum nemendum skólans til æfinga og börnum í Neistatímum og auka þrek og styrk barna á Djúpavogi. 

Auglýsi ég hér með til sölu gjafabréf í grunnskólanum.  Hvert gjafabréf hljóðar uppá 5.000.- og er hægt að kaupa eins mörg og hver og einn óskar.  Kortið gildir í Samkaup-úrval, Samkaup-strax, Nettó og Kaskó. 

Kortin eru til sölu hjá skólastjóra í grunnskólanum.  HDH

 

Dagur íslenskrar tungu

Í dag er Dagur íslenskrar tungu.  Krakkarnir í 1. og 2. bekk unnu með ljóð Jónasar í morgun og bjuggu til þetta fína verkefni sem sjá má hér.  HDH

Árshátíð 2011

Þá eru loksins komnar myndir af árshátíð grunnskólans sem fram fór 4. nóvember sl.  Ekki þarf, held ég, að hafa mörg orð um þær - ein mynd segir meira en þúsund orð.  Njótið vel, myndirnar eru hér.  HDH

Æfingar fyrir árshátíð

Æfingar fyrir árshátíð gengu mjög vel.  Ýmislegt var fest á filmu, einnig tókum við myndir þegar verið var að "sminka" börnin fyrir árshátíðina sjálfa.  Myndir af æfingum og sminki eru hér.  Myndir af árshátíð koma von bráðar.  HDH

Árshátíðin tókst ljómandi vel

Sl. föstudag sýndu nemendur grunnskólans "Konung ljónanna" fyrir fullu húsi á Hótel Framtíð.  Eins og venjulega stóðu börnin sig afskaplega vel og mörg unnu leiksigra, ýmist með leik eða söng og jafnvel hvoru tveggja.  Nemendur 1.-5. bekkjar fengu úthlutað verkefnum en 6.-10. bekkur gat valið hvort þau léku / sungu eða unnu í sviðsmynd, leikmunum, búningum og tæknimálum.
Starfsfólkið hefur komið sér upp ákveðnni sérþekkingu og hjálpast allir að við að láta verkefnið ganga upp.  Nú er verið að vinna úr efni sem tekið var upp á myndavél og vonandi verður hægt að setja diskana í sölu sem fyrst.  Myndir af árshátíðinni eru hér.  HDH

Árshátíðarundirbúningur

Margar skemmtilegar myndir eru alltaf teknar í skólanum þegar verið er að undirbúa árshátíð.  Þær má finna hér.  HDH

10.11.2011

Jibbí - Grænfáninn kominn upp

Frábær dagur í grunn- og leikskólanum, grænfáninn blaktir við báða skólana og við erum afskapleg glöð.

Dagskráin hófst klukkan 10:00 í leikskólanum.  Þar voru elstu börnin með framsögu og síðan sungu börnin á Kríudeild tvö lög.  Þá ræddi Gerður, frá Landvernd við börnin og foreldrana, sagði þeim frá tilurð Grænfánaverkefnisins, útskýrði fyrir þeim myndina á fánanum o.fl.  Síðan skoðuðu foreldrar glæsileg verkefni sem nemendur hafa verið að vinna að sl. vikur, bæði í tengslum við Grænfánann en einnig í tengslum við Daga myrkurs.  Þegar búið var að klæða öll börnin fórum við út í garð þar sem elstu nemendurnir aðstoðuðu Gerði við að draga fánann að hún.  Sungu þau aftur Grænfánalagið af því tilefni.

Næst lá leiðin upp í grunnskóla.  Þar var mjög svipað fyrirkomulag.  12 nemendur, sem nú sitja í nýkjörnu umhverfisráði sögðu frá starfinu í grunnskólanum fram að þessu auk þess sem þau tæptu á því sem okkur langar að vinna í framhaldinu.  Þá sungu samsöngsnemendur tvö lög, við undirleik og stjórn Józsefs og Andreu auk þess sem nokkrir nemendur úr tónskólanum léku einnig undir.  Síðan ræddi Gerður við börnin og foreldrana, eins og á leikskólanum og að því loknu fórum við út og fyrstu bekkingarnir aðstoðuðu hana við að draga fánann upp.  Þá fór öll hersingin inn aftur þar sem við gæddum okkur á dýrindis skúffukökum með grænu kremi í boði foreldrafélagsins og skoðuðum öll fallegu verkefnin sem börnin hafa verið að vinna í grenndarnáminu.

Ég er mjög stolt og glöð í dag.  Stolt af börnunum í skólanum mínum, Djúpavogsskóla, stolt af starfsfólkinu og stolt af foreldrunum.  Ég er líka ánægð með forsvarsmenn sveitarfélagsins sem hafa sett flokkun og umhverfismál mjög ofarlega í forgangsröð þeirra mörgu verkefna sem þarf að sinna.  Ég trúi því að við séum í sameiningu að ala upp börn og unglinga sem eru meðvituð um hversu mikilvæg við erum, hvert og eitt og hvað við öll skiptum miklu máli með því að taka réttar ákvarðanir í þágu umhverfisins. 

Meðfylgjandi myndir tók Andrés Skúlason.  HDH

Grænfáninn dreginn að húni

Á morgun, þann 10. nóvember verður mikill gleðidagur í Djúpavogsskóla.  Þá mun fulltrúi frá Landvernd afhenda grunn- og leikskólunum Grænfánann, sem viðurkenningu fyrir að standa sig vel í umhverfismálum.
Af því tilefni ætlum við að hafa stuttar athafnir í báðum skólunum.  Allir íbúar og velunnarar skólanna eru hjartanlega velkomnir til að fagna þessu tilefni með okkur.
Athöfnin hefst klukkan 10:00 í leikskólanum.  Þar munu leikskólabörnin segja frá því sem þau hafa gert, þau syngja tvö lög og fulltrúi Landverndar flytur ávarp.  Þá sýna börnin verkefni sem þau hafa verið að vinna að sl. vikur.  Síðan verður fáninn dreginn að húni.
Athöfnin í grunnskólanum hefst klukkan 10:45.  Þar munu grunnskólabörnin kynna sína vinnu, samsöngsnemendur syngja tvö lög, fulltrúi landverndar flytur ávarp og fáninn verður dreginn að húni.  Að því loknu verður kaffi, djús og kaka í boði fyrir alla og gestir geta skoðað verkefni sem nemendur hafa unnið að sl. vikur.

Af þessu tilefni ætlum við í Djúpavogsskóla að hafa grænan dag á morgun.  Við ætlum að mæta í grænum fötum í skólana, eða með eitthvað grænt á okkur.  Hvetjum við alla íbúa til að gleðjast með okkur og gera slíkt hið sama.  HDH

Árshátíð grunnskólans

Kæru íbúar / foreldrar

Á morgun, föstudaginn 4. nóvember verður árshátíð grunnskólans haldin á Hótel Framtíð.  Hún hefst klukkan 18:00 og kostar 700.- inn fyrir 16 ára og eldri.  Þeir sem eru 15 ára og yngri, og eldri borgarar, fá frítt inn.

Foreldrar vinsamlegast sendið börnin ykkar í grunnskólann, sem hér segir:
5.-10. bekkur klukkan 16:00
1.-2. bekkur klukkan 16:30
3.-4. bekkur klukkan 17:00

Allir hjartanlega velkomnir.  HDH