Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Söfnun fyrir æfingatækjum

Sl. tvö ár hefur grunnskólinn tekið þátt í Skólahreysti.  Fyrsta árið lentum við í 9. sæti en í fyrra lentum við í 4. sæti.  Mikill áhuga er hjá mörgum nemendum að taka þátt í þessu verkefni og hefur það virkað hvetjandi á marga að hreyfa sig meira og styrkja.
Það hefur þó staðið okkur fyrir þrifum að æfingaaðstaðan, fyrir þessi sérhæfðu verkefni, mætti vera betri.  Nú er hægt að festa kaup á sérstökum æfingatækjum sem eru sniðin að þörfum þeirra sem eru að æfa fyrir Skólahreysti.  Tækin kosta um 150.000.- með vsk. og hafa grunnskólinn og Neisti áhuga á að festa kaup á slíkum tækjum.  Ljóst er að kostnaðurinn er þó töluverður og er því hér með óskað eftir styrkjum frá fyrirtækjum og félagasamtökum sem hafa áhuga á að leggja þessu málefni lið.  Hægt er að lesa um tækin og skoða myndir af þeim á síðunni hér fyrir neðan.

http://www.skolahreysti.is/Xodus.aspx?id=111&MainCatID=26&CatID=0

Að lokum má geta þess að austurlandsriðillinn fer fram á Egilsstöðum 15 mars 2012, klukkan 14:00. 

Þeim sem hafa áhuga á að leggja málinu lið er bent á að hafa samband við Halldóru í grunnskólanum.  HDH

Samstarf leik- og grunnskóla

Samstarf milli leik- og grunnskólans hefur alltaf verið gott.  Elstu nemendur leikskólans komu í fyrstu heimsóknina í grunnskólann fyrir nokkru.  Nemendur 1. og 2. bekkjar gengu um skólann og fræddu þau um starfsemina sem fer fram í grunnskólanum.  M.a. lentu börnin inn í tónmenntatíma hjá 3. og 4. bekk og tóku þau lagið þar með Andreu og börnunum.  Síðan lá leiðin á bókasafnið þar sem margt var að skoða. 
Fljótlega mun 1. bekkur heimsækja gamla leikskólann sinn og rifja upp góðar minningar þar.  Myndir frá heimsókninni eru hér.  HDH

Ná hýenurnar að hertaka þorpið??

Mikil vá vofir yfir Djúpavogshreppi.  Hýenur sem eiga heimkynni í Fílakirkjugarðinum ganga lausum hala undir forystu svikaljónsins Skara!!!
Nei, bara grín - nemendur í grunnskólanum eru nú á fullu að undirbúa hina árlegu árshátíð sem fram fer á Hótel Framtíð föstudaginn 4. nóvember.  Að þessu sinni verður sett upp leikritið Konungur ljónanna (Lion King) og eru allir íbúar hvattir til að taka kvöldið frá.  Nánar auglýst síðar.  HDH

Frá bókasafninu

Bókasafnið verður lokað í kvöld, fimmtudaginn 13. október.  Bókasafnsvörður

Bleikur dagur á föstudaginn

Föstudagurinn 7. október er bleikur dagur í grunnskólanum og leikskólanum.  Þann dag hvetjum við nemendur og starfsfólk til að mæta í einhverju bleiku eða með eitthvað bleikt í skólana.
Í októbermánuði vill Krabbameinsfélag Íslands vekja athygli á brjóstakrabbameini og mikilvægi þess að konur fari reglulega í skoðun.  Viljum við með bleika deginum sína hug okkar í verki.  Við hvetjum aðra íbúa í sveitarfélaginu til að gera slíkt hið sama.  HDH