Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Nemendaráð grunnskólans

Í vikunni var kosið í nýtt nemendaráð grunnskólans.  Alls voru það 8 nemendur sem buðu sig fram.  Kosningu hlutu:  Óliver Ás, Ragnar Sigurður, Anný Mist, Elísabet Ósk og Guðjón Rafn.  Fyrsti varamaður var kjörinn Bjarni Tristan.
Nemendaráð hélt sinn fyrsta fund í morgun og voru skólastjóri og ferða- og menningarmálafulltrúi með þeim á fundinum.  Fundurinn var mjög gagnlegur og skemmtilegur og fóru m.a. fram kosningar.  Nemendaráð skiptir þannig með sér verkum:
Formaður:  Ragnar Sigurður
Varaformaður:  Óliver Ás
Ritari:  Elísabet Ósk
Gjaldkeri:  Anný Mist
Meðstjórnendur:  Guðjón Rafn og Bjarni Tristan.

Eitt af því sem einnig var rætt á fundinum var gerð nýs Æskulýðsdagatals fyrir skólaárið 2011 - 2012.  Skólastjóri tók að sér að senda út póst til ýmissa félagasamtaka á svæðinu, með von um að einhverjir vilji koma að því að hlúa að æskunni á Djúpavogi.  Ef einhverjir, sem ekki fengu póst í dag frá skólastjóra, hafa áhuga á að koma að æskulýðsstarfinu þá er þeim velkomið að hafa samband við formann nemendaráðs, skólastjóra eða ferða- og menningarmálafulltrúa.  Stefnt er að því að gefa út æskulýðsdagatal fyrir haustönnina í næstu Bóndavörðu, sem kemur út í byrjun október.  Einnig á að virkja foreldra til þátttöku og verða þess mál m.a. rædd á væntanlegum kynningarfundi fyrir foreldra sem haldinn verður í grunnskólanum 29. þessa mánaðar.  HDH

Náttúrfræði 5.-7. bekkur

5. 6. og 7. bekkur eru alltaf úti í náttúrufræðitímum á miðvikudögum, fyrir áramót. Það er ýmislegt sem við finnum okkur til dundurs á þeim dögum. Nemendurnir hafa tekið flag í fóstur sem er sárið við sparkvöllinn. Stefna nemendur á að hafa grætt flagið upp við lok skólagöngu. Leiðin sem þeir fundu upp á til að hefja vinnuna var að taka plöntur af þeim stöðum sem ekki er óskað eftir þeim, t.d. í drenmöl, og flytja þær í flagið sitt. Nú 14. september fóru nemendur út að mæla þau tré sem hafa verið gróðursett síðustu tvo áratugina og má sjá þetta ötula rannsóknarfólk að störfum á þessum myndum.  LDB

Haustganga grunnskólans

Í síðustu viku fóru nemendur og starfsfólk í hina árlegu haustgöngu.  Rignt hafði um nóttina og leit ekki allt of vel út með veðrið um morguninn, en síðan birti til og varð hið besta veður á meðan gangan stóð yfr.  Venju samkvæmt skiptum við nemendunum í þrjá hópa.

Yngsta stigið fór upp í Hálsaskóg.  Gengu þeir sem leið lá upp Klifið, inn í Olnboga og þaðan gömlu leiðina inn í Hálsaskóg.  Þar skemmtu nemendur sér við ýmislegt, skoðuðu listaverk leikskólabarnanna, týndu ber, o.mfl.  Myndir frá ferðalaginu þeirra eru hér.

Haustgöngu 5.- 7. bekkjar, ásamt Önnu Láru og Unni, var heitið út á Hvítasand.  Á leiðinni þangað fengu nemendurnir fræðslu um eftirfarandi örnefni:  Brandsvík, Írissker, Vörðurnar, Mönnutanga, Mönnuskot, Fagrahól, Hjaltalínsvík, Íshústjörn, Íshústóft, Fálka-Jónshólma, Fálka-Jónsvík, Manndrápsboða, Svartasker, Skútusund, Mús, Músasund og síðast en ekki síst Hvítasand. 

Í fjörunni á Hvítasandi borðuðu nemendurnir nestið sitt, skoluðu tærnar í köldum sjónum, tíndu bláskeljar, hörpudiska og pínulitlar olnbogaskeljar, kepptust um að kasta steinum sem lengst út á hafið ásamt því að skreyta fjöruna með listaverkum úr skeljum og gróðri.  Á leiðinni aftur upp í skóla var mikið spáð í innsiglinguna að Djúpavogshöfn; Æðarsteinsvita, baujurnar og innsiglingarljósin á Brenniklettum. Einnig voru örnefnin sem voru talin upp hér að ofan rifjuð upp og fest betur í minni.  Myndir eru hér.  UMJ & ALH

Haustganga 8.-10. bekkjar:
Okkur var keyrt inn að Framnesi og við byrjuðum á því að labba frá gamla Eyfreyjunessbænum upp svokallað Eyfreyjunesskletta. Frá Eyfreyjunessklettum gengum við eftir Norðurbrúnum út Ytri-Hálsa, við príluðum niður Valahjalla og gengum út á Rakkabergið og skoðuðum Sjónarsviftir. Gengum eftir gamla veginum út á Djúpavog, gegnum Klessuklif og Olnboga. Síðan lá leiðin út á Miðmorgunsþúfu þar sem öll hersingin klifraði upp á þúfuna og stilti sér upp fyrir hópmyndatöku. Þegar við vorum að leggja af stað út í skóla hittum við Erlu Ingimundardóttur. Við sögðum henni frá ferðalaginu okkar hún skammaði Albert fyrir að tala um Hvítusanda og sagði okkur að hið rétta væri Hvítisandur. Síðan löbbuðum við niður klifið og fórum út í skóla. RSK. Myndir má sjá hér.

Grunn- og leikskóli lokaðir á föstudaginn

Foreldrar / forráðamenn vinsamlegast athugið

Vegna haustsþings leikskólakennara, grunnskólakennara og annarra starfsmanna í grunnskólanum föstudaginn 16. september verða leikskólinn og grunnskólinn lokaðir þennan dag.

Skólastjóri

Kartöfluuppskeran!!

Þrátt fyrir kuldatíð í byrjun sumars og ekki allt of mikla sól fengu krakkarnir í 3. og 4. bekk frábæra kartöfluuppskeru.  Þau fóru í gær, ásamt Þórunnborgu og tóku upp allar kartöflurnar og voru býsna ánægð með afraksturinn, eins og sjá má á myndinni.  Það sem gerist næst er að Guðný mun búa til góða kartöflurétti með nemendunum í heimilisfræðinni og njóta því börnin góðs af.  HDH

Völundarsmíð

Eins og foreldrar grunn- og leikskólabarna hafa tekið eftir er búið að festa upp skilti við grunn- og leikskólann sem á stendur:  Vinsamlegast drepið á bílnum.  Skiltin voru smíðuð af þeim Axel, André og Adam og var vinnan unnin í tengslum við Grænfánann.  Í morgun komu þeir Bjarni Tristan og Guðjón Rafn, ásamt smíðakennara, í heimsókn á leikskólann til að festa skiltið upp.  Gekk það mjög vel, eins og sést á meðfylgjandi mynd.  Viljum við því hvetja alla foreldra og aðra sem stöðva bíla sína framan við grunn- og leikskólann að drepa á þeim!!!   HDH

Göngum í skólann

Skólastjóri vill minna nemendur og foreldra í grunnskólanum á að verkefnið Göngum í skólann 2011 hefst miðvikudaginn 7. september.  Nemendur eru hvattir til að ganga eða hjóla í skólann.  Verkefnið stendur formlega yfir í einn mánuð, en við hvetjum að sjálfsögðu alla til að ganga / hjóla í skólann eins lengi og veður og færð leyfa.
Ökumenn eru beðnir um að sýna ennþá meiri tillitssemi en vanalega.
Foreldrar / forráðmann eru hvattir til að ganga / hjóla með börnum sínum á leið til vinnu.  HDH