Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Skólaskipið Dröfn

Síðasta fimmtudag fóru nemendur í 9. og 10. bekk grunnskólans í vettvangsferð með skólaskipinu Dröfn. Í ferðinni voru nemendur fræddir um sjávarútveg og vistkerfi hafsins áður en haldið var út í Berufjörð þar sem trolli var dýft í sjóinn. Nemendur voru mjög vel upplýstir um hinar ýmsu lífverur sem finna má í sjónum og áttu í litlum vandræðum með að nefna hinar ýmsu tegundir sem fiskifræðingur frá Hafró spurði þau um. Þegar haldið var inn í Berufjörð var trollinu svo dýft í sjóinn. Aflinn var góður, um hálft tonn og er þetta næst stærsti aflinn sem Dröfn hefur veitt á þessu ári. Var þá farið í að kanna aflann og skemmtu nemendur sér konunglega við það.  Að lokum fengu svo allir með sér heim fulla poka af góðgæti hafsins.

Myndir má sjá hér.

HIÞ

Kennara vantar

Við Grunnskóla Djúpavogs vantar kennara í eftirfarandi stöður næsta skólaár:

Íþróttir og sund um 12 kst., heimilisfræði, um 8 kst., textílmennt um 6 kst., myndmennt um 6 kst., upplýsinga- og tæknimennt um 12 kst., tónmenntakennslu 4 kst., tungumál um 16 kst. Einnig vantar afleysingakennara í kennslu yngri barna um 18 kst.

Umsóknarfrestur er t.o.m. 19. apríl 2011 og skulu umsækjendur taka fram, um hvaða stöðu / kennslugreinar sótt er um og einnig hversu háu stöðuhlutfalli óskað er eftir.

Umsóknareyðublöð má finna á heimasíðu skólans.  Nánari upplýsingar veitir skólastjóri, Berglind Einarsdóttir, berglind@djupivogur.is  eða í síma 478-8246.