Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Gestavika

Nú stendur yfir gestavika í grunnskólanum og hvetjum við alla til að koma í heimsókn fylgjast með skólastarfinu.

ÓB

Söngvakeppni sjónvarpsins

Í morgun gerðu nemendur 4.,5. og 6. bekkjar  könnun á því hvaða lag í Söngvakeppni sjónvarpsins væri vinsælast meðal nemenda og kennara. Samkvæmt þeirri könnun var lagið ,,Aftur heim“ í fyrsta sæti með 17 stig. Flytjendur lagsins eru: Gunnar Ólason, Vignir Snær Vigfússon, Pálmi Sigurhjartarson, Matthías Matthíasson, Hreimur Örn Heimisson og Benedikt Brynleifsson.  Lagið ,,Eldgos“ lenti í öðru sæti með 10 stig. Flytjendur lagsins eru Matthías Matthíasson og Erla Björg Káradóttir.  Í þriðja sæti voru tvö lög jöfn með 8 stig en það voru lögin ,,Ég trúi á betra líf“ sem flutt er af  Jógvan Hansen og ,,Nótt“ sem flutt er af Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur. Það verður gaman að sjá hver úrslitin verða í raun og veru annað kvöld, laugardagskvöldið 12. febrúar. UMJ

 

Æskulýðsdagatal - vorönn 2011

Í haust tóku nemendur, foreldrar og fulltrúar frá ýmsum félagasamtökum í sveitarfélaginu sig saman og skipulögðu æskulýðsstarf á haustönn. Fjölbreytt dagskrá var í boði og þátttaka góð. Mánudaginn 24. janúar var aftur fundað með nemendum, foreldrum, fulltrúum frá félagasamtökum og nemendaráði skólans og var þá vorönnin skipulögð. Fjölmargir skemmtilegur viðburðir verða í boði fyrir börn á grunnskólaaldri á önninni en þá má sjá hér í meðfylgjandi dagatali.

Æskulýðsdagatalið var sent út til allra heimila í sveitarfélaginu með Bóndavörðunni í síðustu viku en framvegis verður hægt að ganga að því vísu á heimasíðu grunnskólans. Nemendaráð sér um að skipuleggja viðburðina og aðstoða foreldra við skipulagningu.

Dagatalið smá sjá með því að smella hér

BR

Vinnustaðaheimsókn hjá 9.-10. bekk

Undanfarin misseri hafa nemendur í Grunnskóla Djúpavogs verið í skipulögðu grenndarnámi þar sem þeir læra um sitt nánasta umhverfi. Í því fellst m.a. að læra örnefni í Djúpavogshreppi, sögu hans, hvað náttúran hefur að bjóða, hvaða bátar eiga heimahöfn hér, o.m.fl. Nemendur í 9. og 10. bekk eru um þessar mundir að skoða atvinnulíf hreppsins. Síðasta þriðjudag fóru þeir í fyrstu vinnustaðaheimsókn vetrarins. Hver nemandi hafði valið sér fyrirtæki eða stofnun sem hann hafði  áhuga á að kynna sér. Vinnustaðirnir sem urðu fyrir valinu að þessu sinni voru Rafstöð ehf, Arfleifð, leikskólinn, grunnskólinn og íþróttamiðstöðin. Auk þess að skoða viðkomandi staði fengu þeir að taka þátt í hinum ýmsu störfum. Án efa eiga þessar heimsóknir eftir að víkka sjóndeildarhring nemendanna og þökkum við kærlega fyrir góðar móttökur sem nemendur fengu. BE og UMJ

Myndir má sjá með því að smella hér.

Gjöf frá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness

Við fengum höfðinglega gjöf frá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness í síðustu viku. Gjöfin  var Galíleó stjörnusjónauki sem gerir okkur kleift að skoða himintunglin eins og Galíleó sá þau. Nemendur í 9. og 10. bekk fengu það flókna verkefni að setja sjónaukann saman og gaf það þeim innsýn í það hvernig sjónaukar virka. Einnig fengum við mynddisk um þróun stjörnusjónaukans síðustu 400 árin og bók fyrir stjörnuáhugafólk. Bæði mynddiskurinn og bókin eru á bókasafninu þar sem áhugasamir sjörnuskoðarar geta nálgast þetta spennandi efni.

Með kærri þökk fyrir okkur, Grunnskóli Djúpavogs. LDB

Myndir má sjá hér.

Eðlisfræði hjá 7. og 8. bekk

Í eðlisfræði hjá 7. og 8. bekk reynum við að hafa verklega tíma ekki sjaldnar en á tveggja vikna fresti. Síðasta þriðjudag gerðum við tilraunir með rafmagn. Nemendur athuguðu hvaða hlutir leiddu rafmagn. Fram kom að Guðjón leiddi t.d. rafmagn vel en ekki strokleður. Við skoðuðum hvernig stöðurafmagn er fangað í blöðru, hvernig jólasería er tengd saman þannig að það logi á öllum perum og hvernig stöðurafmagn dregur að sér vatn. Nemendur gátu þannig beygt vatnsbunu bæði með blöðru og greiðu.

Myndir má sjá með því að smella hér.

LDB

03.02.2011