Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Skemmtilegt bréf frá Þýskalandi

Þegar ég mætti til vinnu í morgun var brúnt umslag á borðinu mínu.  Á því var blár miði sem á stóð:  PRIORITAIRE, PARAVION.  Utan á umslaginu stóð:

Grunnskóli Djúpivogur
-skólastjóri eða staðgegill-
ÍS - 765 Djúpivogur
Island
Ísland

Eins og lög gera ráð fyrir opnaði ég umslagið.  Inni í því var kort og var búið að stinga mörgum ljósmyndum inn í kortið.  Í kortinu stóð þetta:

Dr. Ernst-Friedrich Krauss
Im Alten 7
D 79539 Lörrach
Lörrach, 09. desember 2011

Góðu krakkar minir grunnskólans í Djúpuvogi!
Kannski munið þið eftit því?

Í byrjun september í ár var ég í gönguferð í Djúpuvogi á litlum sjónarhól.  Ég för framhjá skólanum.  Klukkan var tólf og skólinn var búinn.  Nemendurnir voru að fara úr skólanum.  Dökkhærður strákur spurði mig á ensku:  "Hvað heitirðu? Og hvadan ertu?"  Ég svarði:  "ég heiti Ernst, ég er Þjóverji."  Strákurinn gladdist og kallaði til bekkjarfélaganna sinn:  "Komiði! Hérna er Þjóðverji! Það er gaman!  Ég var þegar umkringdur af mörgum  litlum íslendingum.  Auðvitað tóku krakkinir eftir því, að ég tala bara lítið í íslensku.  Þessvegna reyndu krakkarnir kenna mér svolítið í íslensku, þessvegna t.d. að telja og svarið að "takk fyrir" - "gerið svo vel".

Þetta var ein af skemmtilegustu reynslum mínum á Ísland.  Ég mun aldrei gleyma og hugsa oft til Djupivogs og til glöðu nemendanna grunnskólans.  Takk fyrir!

Ég hef tekið nokkrar ljósmzndir og sendi ykkur þær.

Ég óska ykkur, fjölskyldum ykkar og kennörunum ykkar skemmtilegrar aðventutiðar, gleðilegrur jóla og farsæls komandi árs 2012!

Bestu kveðjur
Ernst-Friedrich Krauss

Börnin sem hittu þennan almennilega Þjóðverja voru:  Mark, Matti, Anna, Katla, Íris, Camilla, Aldís, Elísa, Laura, Natalía, Ísold og Lilja.  Þessi börn fá sendar ljósmyndir heim.   HDH

 

 

Jólaball fyrir alla

Djúpavogsskóli og Hótel Framtíð vilja minna alla íbúa á jólaballið sem fer fram á Hótel Framtíð, á morgun, föstudaginn 16. desember.  Ballið hefst klukkan 11:00 og því lýkur klukkan 12:00.  Nemendur úr tónskólanum sjá um undirspil, nemendur úr grunnskólanum sjá um forsöng.  Allir velkomnir.  HDH

Jólatónleikar tónskólans

Jólatónleikar tónskólans voru haldnir í Djúpavogskirkju í gær.  Að vanda voru tónleikarnir mjög vel heppnaðir og margir snillingar stigu á stokk.  Sérstaklega er gaman að fylgjast með þeim sem eru að byrja tónlistarnámið sitt og síðan þeim sem eldri eru að spila saman í "litlum hljómsveitum."  Flest lögin voru jólalög en nokkrir "rokkslagarar" í rólegri kantinum fengu að fylgja með.  Dagskráin endaði á því að samsöngskórinn flutti tvö lög.
Við þökkum Andreu og József kærlega fyrir frábæra tónleika.  Meðfylgjandi myndir tók Lilja Dögg.  HDH

Jólapappír til sölu

Foreldrafélagið - leikskóladeild á enn til sölu nokkrar pakkningar af jólapappír.  Þær eru í leikskólanum þessa viku og næstu ef einhverjir hafa áhuga á að styrkja gott málefni.  Einnig eru nokkrar pakkningar eftir af servíettum.
Verðið á jólapappírnum eru 1.800.- (fjórar rúllur og eitthvað dúllerí með).  Servíettur kosta 500.-

Foreldrafélagið

Leynivinavika

Eins og lesendur heimasíðunnar og íbúar á Djúpavogi hafa flestir tekið eftir hafa ýmsir dularfullir atburðir átt sér stað í kringum starfsfólk Djúpavogsskóla sl. viku.  Þetta á sér nú allt saman eðlilegar skýringar en síðustu daga hefur staðið yfir "Leynivinavika."  Þetta byrjaði ósköp sakleysislega.  Hver starfsmaður fékk úthlutað leynivini og áttu menn að vera ósköp góðir við leynivininn sinn mánudag, þriðjudag og miðvikudag.  Fengu allir fallegar gjafir, sem ýmist biðu á skrifborðum fólks á morgnana, voru bornar heim í hús, fengu jafnvel aðstoð frá góðu fólki í þorpinu t.d. sóknarprestinum o.fl.  En á fimmtudaginn fór að færast fjör í leikinn.  Þá átti að hrekkja leynivininn sinn en hrekkurinn mátti ekki vera illgjarn heldur átti að hrekkja "eins við viljum sjálf vera hrekkt."  Hugmyndaflugi fólks eru greinilega lítil takmörk sett því margt fyndið og skemmtilegt kom í ljós.  Frétt var sett á heimasíðuna um draumráðningar, símar voru klættir í plastfilmu, föt og skór voru límd saman, auglýst var ljóðakvöld, settar voru platauglýsingar á Barnaland, blöðrur flutu út úr krókum og kimum og eitt stykki bíll var klæddur í plastfilmu.  Hefur starfsfólkið sést laumast milli bygginga í alls konar erindagjörðum og mikið er búið að hlæja.
Á föstudaginn tók við nýtt verkefni sem stendur til 20:05 í kvöld.  Nú er samkeppni milli starfsmanna grunn- og leikskólans um að prjóna trefil.  Ekki voru mjög flóknar leiðbeiningar um það hvernig trefillinn á að vera:  Fitja skal upp 40 lykkjur og byrja á gulu.  EFtir það var hönnunin frjáls. 

Í kvöld ætlar starfsfólkið að hittast í Löngubúð og halda sína árlegu jólagleði, snæða góðan mat og hlæja mikið.  Þá kemur í ljós hver leynivinurinn er og þá mun dómnefnd skera úr um hver er sigurvegarinn í "treflasamkeppninni."  Ekki er ólíklegt að treflarnir verði myndaðir í bak og fyrir og lesendur fá fregnir af því eftir helgi hvernig keppnin fór.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af sprellinu sl. viku.  HDH

Gestavika

Í gestavikunni, sem haldin var í Djúpavogsskóla um miðjan nóvember komu margir góðir gestir í grunn-. leik- og tónskólann.  Er þetta í fyrsta sinn sem allir skólarnir eru opnir fyrir heimsóknum í heila viku og gafst þetta mjög vel.  Ein af þeim sem kom í heimsókn var Auðbjörg frá Hvannabrekku.  Hún mætti með kanínu með sér og heimsótti marga með kanínuna.
Á Hvannabrekku er rekið býli sem kallast "Opinn landbúnaður" og það merkir að þangað eru allir velkomnir í heimsókn.  Þar er líka margt að skoða og eigum við í Djúpavogsskóla eftir að nýta okkur það vonandi fyrr en síðar.  HDH

Jólaföndur foreldrafélagsins

Verður haldið í grunnskólanum miðvikudaginn 7. desember.  Það hefst klukkan 17:00 og lýkur klukkan 19:00.  Vinsamlegast takið með ykkur tréliti og grófar nálar.

Þá verða nemendur 8. og 9. bekkjar með kaffisölu á sama tíma.

 

Allir hjartanlega velkomnir.

Foreldrafélagið

Stjörnuskoðun

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn sendu nemendum í 5. 6. og 7. bekk stjörnukort. Fengu þeir kortin afhent í dag með leiðbeiningum um hvernig á að nota þau. Viljum við hvetja fólk til að horfa til himins og njóta þeirrar fegurðar sem dimmustu mánuðirnir bjóða uppá. Á bókasafninu er hægt að fá lánaðar bækur og mynddiska um stjörnufræði og viljum við einnig benda stjörnufræðivefina www.stjornufraedi.is og www.astro.is. Það eru vefir þeirra sem gáfu stjörnukortin og Galíleósjónaukann í fyrra.

Mjög áhugasömum vil ég einnig benda á forritið Stellarium (www.astro.is/stellarium/)  sem er bráðskemmtilegt, ókeypis og fræðandi stjörnufræðiforrit á íslensku.

Að lokum viljum við þakka kærlega fyrir vel veittar gjafir.  LDB

Gjöf frá kvenfélaginu

Þær kvenfélagskonur láta aldeilis ekki deigan síga.  Þær hafa verið duglegar að gefa skólanum ýmsar gjafir og nú síðast voru þær svo rausnarlegar að gefa grunnskólanum allan ágóða af síðasta bingói.  Þær höfðu áhuga á að keyptar yrðu vélar í smíðastofuna og var það gert nú á haustdögum.
Keyptar voru fjórar vélar:
Mjög öflug tifsög, með aukahlutum, lítill rennibekkur, ásamt fylgihlutum, lítil slípivél og tæki og tól til að spreyja á litla hluti, svokallað "airspray." 
Formaður og gjaldkeri heimsóttu smíðastofuna í gær þar sem 2. bekkur var á fullu að saga út jólatré.  Gáfu konurnar og börnin sér tíma til að sitja fyrir og má sjá myndir hér

Starfsfólk og nemendur þakka kvenfélagskonum kærlega fyrir allar góðu gjafirnar sem þær hafa gefið okkur síðustu ár.  Hafið bestu þakkir fyrir.  HDH

Venjulegur dagur á leikskólanum

Í dag er þriðjudagur, venjulegur dagur á leikskólanum.  Ég sit hér á skrifstofunni minni og hlusta á börnin spjalla og leika sér.
Ég er ekki viss um að hinn almenni borgari geri sér grein fyrir því fjölbreytta starfi sem fram fer í leikskólum landsins, ég vissi það ekki sjálf fyrr en ég fór að vinna hér í húsinu.  Hafði þó að einhverju leyti gert mér grein fyrir því þar sem ég hef átt tvö börn í leikskóla en það er samt öðruvísi að taka þátt í hringiðunni.
Núna er klukkan 9:30.  Einn hópur af börnum er að vinna í listakrók, þau eru að mála plastflöskur og búa til fiska og fugla, einn hópur er í holukubbum.  Þau eru að byggja hús og bíla og nú standa yfir samningaviðræður milli stúlkna og drengja um byggingarefnið og verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig það endar.  Þriðji hópurinn er að leira.  Þau eru að búa til listaverk (sögðu þau mér) og sýndist mér það vera alveg rétt.  Fjórði hópurinn er í könnunarleik, eitt barn sefur og tvö börn eru í málörvun.  Matráður er í eldhúsinu að taka til ávaxtaskammtinn sem börnin fá klukkan tíu, einn starfsmaður er að undirbúa skuggaleikhús og hinir sinna börnunum í starfinu, þannig að í nógu er að snúast í leikskólanum Bjarkatúni.

Sl. miðvikudag var Dagur íslenskrar tungu.  Á myndinni sem fylgir þessari frétt má sjá þennan fína karl sem var klæddur í buxur, vexti, brók, skó og bætta sokka.  Hann fékk einnig húfutetur og hálsklút.  Elstu nemendur leikskólans eiga heiðurinn af honum.  Kannski verður eitthvert þeirra fatahönnuður.  Hver veit??

Megið þið eiga góðan dag í dag. 

Kveðja frá nemendum og starfsfólki í Bjarkatúni.  HDH

Útikennslustofa

Haustið hefur farið í að hanna og skipuleggja útikennslustofu í vali hjá 8. - 10. bekk. Nemendur völdu að hafa eldstæði ofan við sparkvöllinn og hafa síðustu þrjár vikur farið í vinnu við uppbyggingu eldstæðis. Nemendur í 5. - 7. bekk eru einnig í útinámi og hafa þeir einnig hjálpað til við mokstur til að byggja eldstæðið upp. Það þarf nefnilega að fyrirbyggja það  að eldur berist að gróðri eða fari á ötula nemendur.

Uppskeran var svo eftir hádegi í dag (föstudag) þegar við kveiktum upp í kolum og grilluðum okkur sykurpúða. Nemendur í 5. - 7. bekk munu svo elda á miðvikudaginn kemur ef veður verður gott.   Myndir eru hér.  LDB

Skólahreysti

Fyrir nokkru setti ég frétt inn á heimasíðuna þar sem ég óskaði eftir styrktaraðilum til að festa kaup á æfingatækjum fyrir Skólahreysti.  Neisti ætlar að leggja málinu lið og einnig hafa forsvarsmenn Samkaupa-Strax, fyrir tilstuðlan hennar Írisar Daggar, ákveðið að gefa grunnskólanum gjafabréf í verslunum sínum, að andvirði 75.000.-
Ljóst er að tækin munu gagnast öllum nemendum skólans til æfinga og börnum í Neistatímum og auka þrek og styrk barna á Djúpavogi. 

Auglýsi ég hér með til sölu gjafabréf í grunnskólanum.  Hvert gjafabréf hljóðar uppá 5.000.- og er hægt að kaupa eins mörg og hver og einn óskar.  Kortið gildir í Samkaup-úrval, Samkaup-strax, Nettó og Kaskó. 

Kortin eru til sölu hjá skólastjóra í grunnskólanum.  HDH

 

Dagur íslenskrar tungu

Í dag er Dagur íslenskrar tungu.  Krakkarnir í 1. og 2. bekk unnu með ljóð Jónasar í morgun og bjuggu til þetta fína verkefni sem sjá má hér.  HDH

Árshátíð 2011

Þá eru loksins komnar myndir af árshátíð grunnskólans sem fram fór 4. nóvember sl.  Ekki þarf, held ég, að hafa mörg orð um þær - ein mynd segir meira en þúsund orð.  Njótið vel, myndirnar eru hér.  HDH

Æfingar fyrir árshátíð

Æfingar fyrir árshátíð gengu mjög vel.  Ýmislegt var fest á filmu, einnig tókum við myndir þegar verið var að "sminka" börnin fyrir árshátíðina sjálfa.  Myndir af æfingum og sminki eru hér.  Myndir af árshátíð koma von bráðar.  HDH

Árshátíðin tókst ljómandi vel

Sl. föstudag sýndu nemendur grunnskólans "Konung ljónanna" fyrir fullu húsi á Hótel Framtíð.  Eins og venjulega stóðu börnin sig afskaplega vel og mörg unnu leiksigra, ýmist með leik eða söng og jafnvel hvoru tveggja.  Nemendur 1.-5. bekkjar fengu úthlutað verkefnum en 6.-10. bekkur gat valið hvort þau léku / sungu eða unnu í sviðsmynd, leikmunum, búningum og tæknimálum.
Starfsfólkið hefur komið sér upp ákveðnni sérþekkingu og hjálpast allir að við að láta verkefnið ganga upp.  Nú er verið að vinna úr efni sem tekið var upp á myndavél og vonandi verður hægt að setja diskana í sölu sem fyrst.  Myndir af árshátíðinni eru hér.  HDH

Árshátíðarundirbúningur

Margar skemmtilegar myndir eru alltaf teknar í skólanum þegar verið er að undirbúa árshátíð.  Þær má finna hér.  HDH

10.11.2011

Jibbí - Grænfáninn kominn upp

Frábær dagur í grunn- og leikskólanum, grænfáninn blaktir við báða skólana og við erum afskapleg glöð.

Dagskráin hófst klukkan 10:00 í leikskólanum.  Þar voru elstu börnin með framsögu og síðan sungu börnin á Kríudeild tvö lög.  Þá ræddi Gerður, frá Landvernd við börnin og foreldrana, sagði þeim frá tilurð Grænfánaverkefnisins, útskýrði fyrir þeim myndina á fánanum o.fl.  Síðan skoðuðu foreldrar glæsileg verkefni sem nemendur hafa verið að vinna að sl. vikur, bæði í tengslum við Grænfánann en einnig í tengslum við Daga myrkurs.  Þegar búið var að klæða öll börnin fórum við út í garð þar sem elstu nemendurnir aðstoðuðu Gerði við að draga fánann að hún.  Sungu þau aftur Grænfánalagið af því tilefni.

Næst lá leiðin upp í grunnskóla.  Þar var mjög svipað fyrirkomulag.  12 nemendur, sem nú sitja í nýkjörnu umhverfisráði sögðu frá starfinu í grunnskólanum fram að þessu auk þess sem þau tæptu á því sem okkur langar að vinna í framhaldinu.  Þá sungu samsöngsnemendur tvö lög, við undirleik og stjórn Józsefs og Andreu auk þess sem nokkrir nemendur úr tónskólanum léku einnig undir.  Síðan ræddi Gerður við börnin og foreldrana, eins og á leikskólanum og að því loknu fórum við út og fyrstu bekkingarnir aðstoðuðu hana við að draga fánann upp.  Þá fór öll hersingin inn aftur þar sem við gæddum okkur á dýrindis skúffukökum með grænu kremi í boði foreldrafélagsins og skoðuðum öll fallegu verkefnin sem börnin hafa verið að vinna í grenndarnáminu.

Ég er mjög stolt og glöð í dag.  Stolt af börnunum í skólanum mínum, Djúpavogsskóla, stolt af starfsfólkinu og stolt af foreldrunum.  Ég er líka ánægð með forsvarsmenn sveitarfélagsins sem hafa sett flokkun og umhverfismál mjög ofarlega í forgangsröð þeirra mörgu verkefna sem þarf að sinna.  Ég trúi því að við séum í sameiningu að ala upp börn og unglinga sem eru meðvituð um hversu mikilvæg við erum, hvert og eitt og hvað við öll skiptum miklu máli með því að taka réttar ákvarðanir í þágu umhverfisins. 

Meðfylgjandi myndir tók Andrés Skúlason.  HDH

Grænfáninn dreginn að húni

Á morgun, þann 10. nóvember verður mikill gleðidagur í Djúpavogsskóla.  Þá mun fulltrúi frá Landvernd afhenda grunn- og leikskólunum Grænfánann, sem viðurkenningu fyrir að standa sig vel í umhverfismálum.
Af því tilefni ætlum við að hafa stuttar athafnir í báðum skólunum.  Allir íbúar og velunnarar skólanna eru hjartanlega velkomnir til að fagna þessu tilefni með okkur.
Athöfnin hefst klukkan 10:00 í leikskólanum.  Þar munu leikskólabörnin segja frá því sem þau hafa gert, þau syngja tvö lög og fulltrúi Landverndar flytur ávarp.  Þá sýna börnin verkefni sem þau hafa verið að vinna að sl. vikur.  Síðan verður fáninn dreginn að húni.
Athöfnin í grunnskólanum hefst klukkan 10:45.  Þar munu grunnskólabörnin kynna sína vinnu, samsöngsnemendur syngja tvö lög, fulltrúi landverndar flytur ávarp og fáninn verður dreginn að húni.  Að því loknu verður kaffi, djús og kaka í boði fyrir alla og gestir geta skoðað verkefni sem nemendur hafa unnið að sl. vikur.

Af þessu tilefni ætlum við í Djúpavogsskóla að hafa grænan dag á morgun.  Við ætlum að mæta í grænum fötum í skólana, eða með eitthvað grænt á okkur.  Hvetjum við alla íbúa til að gleðjast með okkur og gera slíkt hið sama.  HDH

Árshátíð grunnskólans

Kæru íbúar / foreldrar

Á morgun, föstudaginn 4. nóvember verður árshátíð grunnskólans haldin á Hótel Framtíð.  Hún hefst klukkan 18:00 og kostar 700.- inn fyrir 16 ára og eldri.  Þeir sem eru 15 ára og yngri, og eldri borgarar, fá frítt inn.

Foreldrar vinsamlegast sendið börnin ykkar í grunnskólann, sem hér segir:
5.-10. bekkur klukkan 16:00
1.-2. bekkur klukkan 16:30
3.-4. bekkur klukkan 17:00

Allir hjartanlega velkomnir.  HDH

Söfnun fyrir æfingatækjum

Sl. tvö ár hefur grunnskólinn tekið þátt í Skólahreysti.  Fyrsta árið lentum við í 9. sæti en í fyrra lentum við í 4. sæti.  Mikill áhuga er hjá mörgum nemendum að taka þátt í þessu verkefni og hefur það virkað hvetjandi á marga að hreyfa sig meira og styrkja.
Það hefur þó staðið okkur fyrir þrifum að æfingaaðstaðan, fyrir þessi sérhæfðu verkefni, mætti vera betri.  Nú er hægt að festa kaup á sérstökum æfingatækjum sem eru sniðin að þörfum þeirra sem eru að æfa fyrir Skólahreysti.  Tækin kosta um 150.000.- með vsk. og hafa grunnskólinn og Neisti áhuga á að festa kaup á slíkum tækjum.  Ljóst er að kostnaðurinn er þó töluverður og er því hér með óskað eftir styrkjum frá fyrirtækjum og félagasamtökum sem hafa áhuga á að leggja þessu málefni lið.  Hægt er að lesa um tækin og skoða myndir af þeim á síðunni hér fyrir neðan.

http://www.skolahreysti.is/Xodus.aspx?id=111&MainCatID=26&CatID=0

Að lokum má geta þess að austurlandsriðillinn fer fram á Egilsstöðum 15 mars 2012, klukkan 14:00. 

Þeim sem hafa áhuga á að leggja málinu lið er bent á að hafa samband við Halldóru í grunnskólanum.  HDH

Samstarf leik- og grunnskóla

Samstarf milli leik- og grunnskólans hefur alltaf verið gott.  Elstu nemendur leikskólans komu í fyrstu heimsóknina í grunnskólann fyrir nokkru.  Nemendur 1. og 2. bekkjar gengu um skólann og fræddu þau um starfsemina sem fer fram í grunnskólanum.  M.a. lentu börnin inn í tónmenntatíma hjá 3. og 4. bekk og tóku þau lagið þar með Andreu og börnunum.  Síðan lá leiðin á bókasafnið þar sem margt var að skoða. 
Fljótlega mun 1. bekkur heimsækja gamla leikskólann sinn og rifja upp góðar minningar þar.  Myndir frá heimsókninni eru hér.  HDH

Ná hýenurnar að hertaka þorpið??

Mikil vá vofir yfir Djúpavogshreppi.  Hýenur sem eiga heimkynni í Fílakirkjugarðinum ganga lausum hala undir forystu svikaljónsins Skara!!!
Nei, bara grín - nemendur í grunnskólanum eru nú á fullu að undirbúa hina árlegu árshátíð sem fram fer á Hótel Framtíð föstudaginn 4. nóvember.  Að þessu sinni verður sett upp leikritið Konungur ljónanna (Lion King) og eru allir íbúar hvattir til að taka kvöldið frá.  Nánar auglýst síðar.  HDH

Frá bókasafninu

Bókasafnið verður lokað í kvöld, fimmtudaginn 13. október.  Bókasafnsvörður

Bleikur dagur á föstudaginn

Föstudagurinn 7. október er bleikur dagur í grunnskólanum og leikskólanum.  Þann dag hvetjum við nemendur og starfsfólk til að mæta í einhverju bleiku eða með eitthvað bleikt í skólana.
Í októbermánuði vill Krabbameinsfélag Íslands vekja athygli á brjóstakrabbameini og mikilvægi þess að konur fari reglulega í skoðun.  Viljum við með bleika deginum sína hug okkar í verki.  Við hvetjum aðra íbúa í sveitarfélaginu til að gera slíkt hið sama.  HDH

Nemendaráð grunnskólans

Í vikunni var kosið í nýtt nemendaráð grunnskólans.  Alls voru það 8 nemendur sem buðu sig fram.  Kosningu hlutu:  Óliver Ás, Ragnar Sigurður, Anný Mist, Elísabet Ósk og Guðjón Rafn.  Fyrsti varamaður var kjörinn Bjarni Tristan.
Nemendaráð hélt sinn fyrsta fund í morgun og voru skólastjóri og ferða- og menningarmálafulltrúi með þeim á fundinum.  Fundurinn var mjög gagnlegur og skemmtilegur og fóru m.a. fram kosningar.  Nemendaráð skiptir þannig með sér verkum:
Formaður:  Ragnar Sigurður
Varaformaður:  Óliver Ás
Ritari:  Elísabet Ósk
Gjaldkeri:  Anný Mist
Meðstjórnendur:  Guðjón Rafn og Bjarni Tristan.

Eitt af því sem einnig var rætt á fundinum var gerð nýs Æskulýðsdagatals fyrir skólaárið 2011 - 2012.  Skólastjóri tók að sér að senda út póst til ýmissa félagasamtaka á svæðinu, með von um að einhverjir vilji koma að því að hlúa að æskunni á Djúpavogi.  Ef einhverjir, sem ekki fengu póst í dag frá skólastjóra, hafa áhuga á að koma að æskulýðsstarfinu þá er þeim velkomið að hafa samband við formann nemendaráðs, skólastjóra eða ferða- og menningarmálafulltrúa.  Stefnt er að því að gefa út æskulýðsdagatal fyrir haustönnina í næstu Bóndavörðu, sem kemur út í byrjun október.  Einnig á að virkja foreldra til þátttöku og verða þess mál m.a. rædd á væntanlegum kynningarfundi fyrir foreldra sem haldinn verður í grunnskólanum 29. þessa mánaðar.  HDH

Náttúrfræði 5.-7. bekkur

5. 6. og 7. bekkur eru alltaf úti í náttúrufræðitímum á miðvikudögum, fyrir áramót. Það er ýmislegt sem við finnum okkur til dundurs á þeim dögum. Nemendurnir hafa tekið flag í fóstur sem er sárið við sparkvöllinn. Stefna nemendur á að hafa grætt flagið upp við lok skólagöngu. Leiðin sem þeir fundu upp á til að hefja vinnuna var að taka plöntur af þeim stöðum sem ekki er óskað eftir þeim, t.d. í drenmöl, og flytja þær í flagið sitt. Nú 14. september fóru nemendur út að mæla þau tré sem hafa verið gróðursett síðustu tvo áratugina og má sjá þetta ötula rannsóknarfólk að störfum á þessum myndum.  LDB