Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Jólaföndur foreldrafélags Grunnskólans

Foreldrafélag Grunnskólans stendur fyrir jólaföndri í skólanum miðvikudaginn 1. desember frá 17:00 - 19:00.  Allir íbúar sveitarfélagsins eru velkomnir og verður margs konar föndur til sölu. Þá sjá nemendur 9. og 10. bekkjar um kaffihús þar sem margt góðgæti verður á boðstólnum.  

Vonumst til að sjá sem flesta.

Foreldrafélag Grunnskólans

Gestavika

Svokölluð gestavika verður í grunnskólanum í næstu viku 22. - 26. nóvember. Þessa daga geta ættingjar nemenda komið í skólann og fylgst með hefðbundnu skólastarfi. Nemendur og starfsfólk vona að sem flestir sjái sér fært um að koma í heimsókn. BE

Leikskóli í heimsókn

Elstu nemendur leikskólans heimsóttu 1. bekk grunnskólann í gær á Degi íslenskrar tungu. Í íslensku lærðu þau eitt og annað um Jónas Hallgrímsson og eftir frímínútur fóru þau í íþróttir. Var ekki annað að sjá en að allir skemmtu sér vel og áhuginn skein úr hverju andliti. Myndir má sjá með því að smella hér.

Myndir frá árshátíðinni

Eins og allir vita fór árshátíð Grunnskóla Djúpavogs fram sl. föstudag fyrir þéttsetnum hátíðarsal Hótels Framtíðar.

Nú er búið að setja inn myndir frá árshátíðinni, í tveimur albúmum sem má skoða með því að smella hér.

ÓB

Gjöf frá kvenfélaginu

Kvenfélagið Vaka færði heimilisfræðikennara grunnskólans veglega peningajöf til að endurnýja eldhúsáhöld og heimilistæki í skólaeldhúsinu.

Meðal þess sem keypt var voru nokkrir handþeytarar, hnífar, bollasett, sleikjur og fl.  Nemendur í 2. og 3. bekk fengu fyrstir að handleika herlegheitin í morgun.

Skólinn þakkar kvenfélaginu kærlega fyrir.

BE

Verurnar okkar

Vegna Daga myrkurs sem nú standa yfir er sýning Við Voginn eftir nemendur í 4. 5. og 6. bekk grunnskólans.  Verkefnið var unnið í kennslustundum undir heitinu ,,Grenndarnám“  sem er námsgrein þar sem nemendur læra um byggðarlagið sitt. Verkefnið fjallar um þjóðsögur Djúpavogshrepps og hafa nemendurnir föndrað 19 kynjaverur sem allar eiga sér sögu sem tengist Djúpavogshrepp. Myndir af verunum má sjá hér. Unnur

 

Árshátiðin er á morgun - æfingar í fullum gangi

Æfingar fyrir árshátíð grunnskólans, sem fram fer á morgun, eru nú í fullum gangi.

Þemað þetta árið er "Ævintýri Djúpavogshrepps", þar sem stiklað er á stóru í sögu sveitarfélagsins, allt frá Kristnitökunni til Tyrkjaránsins. Dagskráin er einstaklega metnaðarfull og skemmtileg og ætti enginn að verða svikinn af henni.

Eins og áður sagði fer árshátíðin fram á morgun, föstudag. Hefst hún kl. 18:00, aðgangseyrir er 500 krónur og vonast nemendur og kennarar að sjálfsögðu eftir að sjá sem flesta.

ÓB