Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Kökubasar í dag

Í dag 22. október verður kökubasar í Samkaup Strax klukkan 15:00 til styrktar námsferðar 7.-10. bekkjar.

Hvetjum alla til að koma og kíkja við :)

Nemendur 7.-10. bekkjar

Æskulýðsdagatal Grunnskólans 2010 - 2011

Vakin er athygli á því að inn á vef Grunnskóla Djúpavogs hefur verið sett inn æskulýðsdagatal þar sem finna má helstu viðburði á vegum skólans og einnig viðburði sem Nemendafélag Grunnskólans og UMF Neisti standa fyrir. Auk þess eru þar upplýsingar um þá foreldra eða félagasamtök sem koma að viðburðunum auk annarra upplýsinga.

Dagatalið má finna með því að smella hér 

Framvegis mun æskulýðsdagatal hvers mánaðar fylgja Bóndavörðunni og er það von okkar að sem flestir nýti sér það  hvort heldur er til þess að koma á framfæri upplýsingum um viðburði fyrir börn á grunnskólaaldri eða foreldrar / forráðamenn barna.

Þar sem Bóndavarðan var þegar komin út í október þegar dagatalið var tilbúið verða hér settir inn þeir viðburðir sem eiga við októbermánuð.

22. okt.  - Starfsdaggur / Fimleikanámskeið í íþróttahúsinu.

23. okt. - Fimleikanámskeið í íþróttahúsinu.

24. okt. - Fimleikanámskeið í íþróttahúsinu.

27. okt. - Skemmtilegt í íþróttahúsinu - eldri krakkar. Umsjón: Klara, Kristborg Ásta og Guðrún.

30. okt. - Svd. Bára með fræðslu - og skemmtidag  - eldri krakkar.

BR

Pennasala

Nemendur 7. – 10. bekkjar munu ganga í hús þessa vikuna og selja penna til styrktar Félagi heyrnarlausra. Penninn kostar 1.500 kr. Af þeim fara 450 kr í ferðasjóð bekkjanna en áætlað er að fara í skólaferð 8. – 9. nóvember. Farið verður suður að Hoffellsjökli og unnin líffræði og jarðfræðiverkefni á leiðinni. Þau munu gista í Lóni því þetta verður tveggja daga vinnuferð. Áhugasömum sem ekki hafa fengið tilboð um pennakaup er bent á að hafa samband við nemendurna eða Lilju í síma 8679182. Vinsamlega takið vel á móti krökkunum.LDB

 

 

Góðar gjafir

Rétt áður en nemendur grunnskólans voru ræstir af stað í Norræna skólahlaupið á fimmtudaginn kom Guðný Helga og færði skólanum endurskinsvesti á alla nemendur og starfsmenn að gjöf frá Vátryggingafélagi Íslands og Sparisjóðnum. Þessi vesti koma sér einstaklega vel og er mikið öryggisatriði að hafa nemendur vel sýnilega þegar þeir fara út fyrir skólalóðina. Við þökkum VÍS og Sparisjóðnum kærlega fyrir þessa nytsömu gjöf.

BE

 

 

 

 


Guðný Helga Baldursdóttir afhendir Berglind Einarsdóttur skólastjóra vestin


Börnin komin í vestin, skólahlaupið að byrja

Norræna skólahlaupið 2010

Veðurguðirnir sýndu örlitla miskunn og drógu ský frá himni á fimmtudaginn þegar nemendur skólans hlupu um bæinn og nágrenni en þennan dag fór fram Norræna skólahlaupið.

Þeir sem lengst hlupu voru keyrðir inn að Urðateigi en þaðan eru 10 km. Þeir sem hlupu 5 km. skokkuðu að skógræktinni og til baka og yngstu nemendurnir sprettu til og frá flugbrautinni, eða 2, 5 km.

Það liðu ekki nema 20 mín. þegar fyrstu nemendur komu í íþróttahúsið en þar var boðið upp á ávexti og djús. Eftir hressinguna skelltu börnin sér í sund.

Myndir frá þessum skemmtilega degi má sjá hér

 

 

BE

Sundnámskeiði frestað

Fyrirhuguð sundnámskeið sem áttu að vera í sundlaug Djúpavogs um helgina frestast því miður um óákveðinn tíma vegna veikinda þjálfara.
 
Haft verður samband við þá sem búnir voru að skrá sig vegna nýrrar tímasetningar.

Norræna skólahlaupið 2010

 Verkefninu Göngum í skólann lýkur formlega 6. október og að því tilefni er Norræna skólahlaupið  daginn eftir,  fimmtudaginn 7. október. Nemendur 1. – 2. bekkjar hlaupa 2,5 km, nemendur 3. - 5. bekkjar geta valið um tvær vegalengdir, 2,5 km og 5 km en nemendur 6. – 10. bekkjar geta valið um 5 km og 10 km. 

Mömmum, pöbbum, ömmum, öfum , frændum og frænkum er velkomið að taka þátt. Boðið verður upp á ávexti og djús að hlaupi loknu og síðan er öllum boðið í sundlaugapartý.  Mikilvægt er að nemendur komi í góðum skóm og klæddir eftir veðri og  MUNI EFTIR SUNDFÖTUM. BE

 

 

 

 

Fundarboð

Fimmtudaginn 7. október verður fundur í Grunnskóla Djúpavogs kl. 20.  Fyrri hluti fundarins er hefðbundin skólakynning þar sem farið verður yfir handbók grunnskólans og skóladagatal.  Áætlað er að þeim hluta ljúki um 20:30.

Í seinni hlutanum verður gerð tilraun til að efla æskulýðsmál á Djúpavogi. Fulltrúar frá sveitarfélaginu, slysavarnafélaginu, Neista og kirkjunni mæta. Farið verður lauslega yfir hvað er í boði fyrir börn og unglinga hreppsins og hverju er hægt að bæta við. Hugmyndin er að fá foreldra til samstarfs.  Til þess að skapa fjölbreytt og heilbrigt æskulýðstarf hér á Djúpavogi þurfa allir að leggja sig fram.

Aðalfundur Foreldrafélags Grunnskóla Djúpavogs verður eftir seinni hlutann.  Á dagskrá verða venjuleg aðalfundarstörf.

Skólastjóri

Ómskoðun

 

Á þriðjudaginn var bauðst nemendum í 10. bekk að fara  á Fossárdal og taka þátt í ómskoðun á sæðingafé (lambhrútum og gimbrum undan sæðingahrútum). Nemendurnir unnu hörðum höndum við að smala fénu í króna, vigta þær og skrá. Halda á meðan ómskoðun fór fram og einnig  þegar féið var þuklað og metið. Útskýrt var hvað var verið að skoða og hvað þykir gott ef maður er ásetningaær.  Best er að hafa hrygginn vel vænan af vöðvum. Þegar þessu var lokið fóru nemendur sjálfir á vogina og í ómskoðun þar sem fitulag og vöðvar við neðri hryggjarliði voru skoðaðir. Eigum við mjög heilbrigða og ásetjanlega unglinga hér á Djúpavogi. Þegar því var lokið hófst þuklkeppni. Nemendur þreifuðu lærvöðva á þremur gimbrum og gáfu þeim einkunn miðað við þykkt vöðva. Að lokum vorum við leyst út með mjólk, skúffuköku og Wasa kexi. Kærar þakkir fyrir móttökurnar. LDB Fleiri myndir má sjá hér.