Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Líkami mannsins kannaður í 1. 2. og 3. bekk

Í dag unnu nemendur 1. 2. og 3. bekkjar að því að móta manneskju á pappír. 1. bekkur sá um að lita inn rauða vöðva út um allan líkamann, 2. bekkur sá um að teikna inn og klippa beinagrindina en 3. bekkur sá um líffærakerfin inni í manninum. Mikið fjör var í tímanum eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. LDB.

 

17.09.2010

Glímukynning

Í gær var ólafur Oddur Sigurðsson með glímukynningu fyrir 4.-10. bekk. Nemendur fengu að vita heilmikið um sögu glímunnar og leiðsögn í fangbröðum. Myndirnar sem hér sjást segja allt sem segja þarf. Við þökkum Ólafi kærlega fyrir komuna og þökkum fyrir okkur. BE

15.09.2010

Fjöruferð hjá 4.-6.bekk

Það er ekki til neitt sem heitir vont veður hjá nemendum í 4., 5. og 6. bekk. Þeir fóru í hífandi roki og háflóði í fjöruferð í dag. Mikill galsi og gleði var í hópnum þar sem þau bjuggu til segl úr yfirhöfnum sínum, fengu hvítfissandi ölduúða yfir sig, mokuðu marglyttu í poka og tíndu hin ýmsu fjörudýr. Má þar nefna ranaorma, hrúðurkarla, blöðruþang, þangdoppur og fleiri lindýr. Myndir er hægt að skoða hérLDB

15.09.2010

Frumuskoðun í 9. og 10. bekk


Í náttúrufræðitíma um daginn fengu elstu nemendur skólans sjálfboðaliða til að
blóðga sig svo hægt væri að skoða lifandi blóðfrumur í smásjá. Sjást fleiri en
ein tegund frumna. Það er spurning hvort sjálfboðaliðinn hafi verið sýktur. Eftir það
var farið út og tíndar nokkrar tegundir af plöntum sem voru skornar niður og
einnig skoðaðar í smásjánni. Áhuginn var nokkuð góður eins og sjá má á hér. LDB.

15.09.2010

Heimsókn á Nönnusafn

Eins og fram hefur komið á heimasíðunni stendur nú yfir leikfangasýning á Nönnusafni. Nemendur 4.-6. bekkjar grunnskólans fengu að skoða safnið í gær fimmtudag. Guðríður og Ingunn tóku einstaklega vel á móti nemendum og fylgdarliði. Þær fræddu þá um ævintýri sýningargripanna og leiddu þá um allt sýningarsvæðið. Í eldhúsinu í gamla bænum var boðið upp á mjólk, snúða og kex. Nemendur voru himinsælir þegar þeir komu aftur í skólann. Við þökkum kærlega fyrir skemmtilega sýningu og frábærar móttökur. Myndir úr ferðinn sjást hér.

Göngum í skólann

Nú styttist í að verkefnið Göngum í skólann verði sett þetta haustið.  Grunnskóli Djúpavogs hefur verið með frá upphafi og hefur þátttaka verið mjög góð. Fyrsti dagurinn verður miðvikudagurinn 8. september og stendur átakið til miðvikudagsins 6. október.

Farið var af stað með þetta verkefni til að hvetja börn landsins til að hreyfa sig meira. Hér í litla þorpinu okkar, þar sem umferð er lítil og stutt á milli staða, ætti ekki að þurfa sérstakt átak til að fá nemendur til að ganga í skólann en bílafjöldinn fyrir utan skólann á morgnana og í lok skóladagsins sýna að ekki er vanþörf á. Foreldrar eru hvattir til að ganga með börnum sínum sé þess kostur. Skólabílarnir munu stoppa við Samkaup og hleypa nemendum, sem vilja taka þátt, út til að þeir geti gengið síðasta spölinn. Kennarar skrá hvaða nemendur ganga og verður tilkynnt í lok átaksins hvaða bekkjardeild hefur átt duglegustu göngu- og hjólagarpana því að sjálfsögðu má líka hjóla í skólann. BE