Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Gjöf frá foreldrafélaginu

Á dögunum barst skólanum góð gjöf frá foreldrafélagi skólans.  Um var að ræða glerslípivél sem kemur til með að nýtast mjög vel í glervinnslu á næstu árum.  Foreldrafélaginu eru hér með færðar bestu þakkir fyrir.  Á myndinni má sjá nokkra nemendur með vélina fyrir framan sig.  HDH

Skólaslit

Skólaslit Grunnskóla Djúpavogs, ásamt útskrift elstu nemenda úr leikskólanum Bjarkatúni fara fram í Djúpavogskirkju, laugardaginn 29. mai klukkan 11:00. 
Að athöfn lokinni verður kaffi í boði foreldrafélags grunnskólans og Djúpavogshrepps, í safnaðarheimilinu.  HDH

Heimsókn í Bragðavelli

Í gær bauð Þórunnborg nemendum 1. og 2. bekkjar heim í Bragðavelli.  Með þeim í för var Guðný, sérlegur aðstoðarmaður hópsins!!! 
Nemendur og kennarar gerðu margt skemmtilegt í ferðinni.  Þau skoðuðu hlaðna grjótgarðinn, heimsóttu fjárhúsin, fóru í fjársjóðsleit í garðinum, busluðu í tjörninni, fóru í leiki og fengu svo pönnukökur, ávexti og grænmeti að borða.
Myndir af þessari skemmtilegu heimsókn má finna hér.  HDH

Fuglaferð m. leikskólanum

Nemendur í 1. og 2. bekk, fóru ásamt verðandi fyrstu bekkingum úr leikskólanum í fuglaskoðunarferð í vikunni.  Margt skemmtilegt bar fyrir augun og eins og meðfylgjandi myndir bera með sér þá eru þarna greinilegir fuglaáhugamenn / - konur á ferð.  Myndir eru hér.  HDH

19.05.2010

Listasmiðir í skólanum

Þrjár ungar stúlkur í 8. og 9. hafa nú nýlokið við gerð afar fallegra glerlampa í smíðatímum í vetur.  Þær unnu lampana alveg frá grunni og enduðu á því að setja rafmagnið á nú í vikunni.  Ljóst er að þarna eru framtíðar listamenn á ferð. 

HDH

 

 

 

 

 

 

 

Ratleikur fyrir UNICEF

Ratleikur grunnskólans fór fram sl. föstudag.  Hann var hefðbundinn að mörgu leyti en þó brugðum við út af vananum á fleiri en einn hátt.
Ratleikurinn fór fram í Hálsaskógi og er það í fyrsta sinn sem hann er haldinn þar.  Það vakti almenna lukku og er nokkuð ljóst að við eigum eftir að fá að fara aftur þangað.  Það sem var einnig óvenjulegt að þessu sinni var að við fengum nokkra foreldra og eina ömmu í lið með okkur til að aðstoða og mæltist það mjög vel fyrir.  Þeim eru hér með færðar hinar bestu þakkir fyrir.
Síðast en ekki síst þá brugðum við út af vananum með því að vera með áheitasöfnun fyrir UNICEF á Íslandi.  Nemendur fengu kynningu á starfsemi UNICEF um allan heim, áður en þeir fóru í ratleikinn, horfðu m.a. á myndbönd frá Afríku og Asíu þar sem þeir voru kynntir fyrir börnum sem hafa sömu þrár og væntingar til lífsins og þau sjálf.  Nemendur fóru síðan heim með áheitaumslög og fengu foreldra og nánustu ættingja til að heita á sig.

Ratleikurinn fór fram í logni og rigningu í Hálsaskógi, eins og áður kom fram, en við létum það nú ekki á okkur fá.  Nemendum var skipt upp í 6 lið og þurfti hvert lið að fara á 10 mismunandi stöðvar og leysa margvíslegar þrautir.  Sem dæmi má nefna:  Steinalyftur, brúarhlaup, örnefnaspurningar, pokahlaup með kurl, tröppuhlaup, gestaþraut, fuglaspurningar, trjáspurningar o.m.fl.  Auk þess þurftu þeir að safna munum úr skógræktinni til að undirbúa sig fyrir síðustu þrautina, sem var gerð listaverks úr efniviði skógarins. 

Þegar allir hóparnir höfðu lokið við þrautirnar söfnuðumst við saman í Aðalheiðarlundi.  Þar fengu alllir hressingu, kókómjólk og kex og síðan tóku nemendur til við að útbúa listaverkið sitt.  Keppnin var jöfn og spennandi og voru það FURURNAR sem stóðu uppi sem sigurvegarar.  Þær fá að lauum ísveislu í Við Voginn.

Ekki er enn komið í ljós hversu miklu við náðum að safna þar sem um helmingur nemenda á eftir að skila inn umslögunum, en vonandi verður það dágóð upphæð.  Upplýsingar þess efnis verða settar inn á heimasíðuna þegar öll umslögin eru komin í hús.

Myndir af ratleiknum má finna hér.  HDH

Ratleikur 2010

Sælir foreldrar / forráðamenn

Þrátt fyrir að það líti út fyrir einhverja rigningu á föstudaginn höfum við ákveðið að hafa ratleikinn eins og auglýst hefur verið, klukkan 8:30 í Hálsaskógi.
Nemendur hafa nú allir fengið áheitaumslög með sér heim og þætti okkur vænt um ef þið aðstoðuð þau við að safna áheitum hjá sínum nánustu.  Ekki þarf að heita háum upphæðum, hver króna skiptir máli.
Aðeins eitt foreldri hefur haft samband og boðið fram aðstoð sína á föstudaginn.  Mjög gott væri ef 2-3 í viðbót sæju sér fært að koma og taka þátt í þessu með okkur.  Ekki er um flókin verkefni að ræða, aðeins yfirseta á einni stöð.  
Mikilvægt er að börnin séu í regnfötum og gúmmískóm / stigvélum og með gott nesti.
Boðið verður upp á eitthvað lítilræði í lok ratleiks á föstudaginn.  HDH

Skráning nemenda á nýju skólaári

Til foreldra / forráðamanna
Nú erum við í grunnskólanum farin að huga að stundatöflugerð fyrir næsta skólaár.  Til þess að það gangi sem best fyrir sig er nauðsynlegt fyrir okkur að fá upplýsingar um allar breytingar á nemendaskráningu fyrir næsta ár.  Því er hér með farið á leit við foreldra / forráðamenn að þeir hafi samband við skólastjóra eigi síðar en 18. maí óski þeir eftir því að skrá barn / börn í, eða úr skólanu.  HDH

Heimsókn til Jóns Friðriks

Nemendur 3. - 5. bekkjar fóru, ásamt Gesti, umsjónarkennara, í heimsókn til Jóns Friðriks í morgun.  Tilgangurinn var að skoða steinasafn Jóns og verkstæði en þar er hann að vinna að ótrúlegustu hlutum.  Kynningin var hluti af grenndarnámi bekkjarins og má með sanni segja að Jón búi yfir ótrúlega mörgum fallegum hlutum sem hann hefur safnað að sér og er að vinna ýmsar gersemar úr.  Grunnskólinn vill þakka Jóni kærlega fyrir að taka svona vel á móti nemendunum.  Myndir eru hér.  HDH

Fuglaskoðun 1. og 2. bekkur

Nemendur 1. og 2. bekkjar fóru ásamt umsjónarkennar í fuglaskoðunarferð í góða veðrinu í gær.  Myndir eru hér.  HDH

05.05.2010

Námshestar í maí

Námshestaverðlaun fyrir aprílmánuð voru afhent í gær.  Tveir kennarar fóru inn í Hálsaskóg, ásamt vöskum hópi nemenda.  Þar var hópnum skipt upp í þrjú lið; gula liðið, bláa liðið og bleika liðið.  Síðan gengu liðin í fylkingu inn í Aðalheiðarlund þar sem beðið var frekari fyrirmæla.  Annar kennarinn beið átekta og þegar allir voru komnir í hvarf faldi hann dýrindis fjársjóð milli trjánna.  Þegar því var lokið kepptust liðin við að finna fjársjóðinn og koma honum á ákveðinn stað í Aðalheiðarlundinum. 
Okkur tókst að fara í þrjá leiki og var ferðin á allan hátt mjög skemmtileg.  Nemendur skemmtu sér hið besta og má sjá á myndunum hér að mikil keppni var stundum um að komast heilu og höldnu með fjársjóðinn á áfangastað.  Að keppni lokinni fengum við okkur kex og safa og nutum veðurblíðunnar og þessa yndislega svæðis sem Hálsaskógur er.  HDH

Listasmíði

Nemendur í 8.-10. bekk vinna að ýmsum verkefnum í smíðatímum.  Í gær kom smíðakennarinn með þessa fallegu bréfahnífa sem þrír drengir eiga heiðurinn af.  HDH

Lært úti

Nemendur 3. - 5. bekkjar notuðu góða veðrið um daginn og reiknuðu úti.  Myndir eru hér.  HDH

05.05.2010

Skólaráð

Skólaráð fundaði öðru sinni í apríl sl.  Fundargerðir þessa árs eru nú komar undir tengil hér til vinstri sem heitir Skólaráð.  Þar verða fundargerðir vistaðar framvegis.  HDH

04.05.2010

Fjöruferð 3. - 5. bekkur

3. - 5. bekkur nýttu góða veðrið sl. föstudag til að fara í fjöruferð.  Við gengum sem leið lá út á Hvítasand og grömsuðum í fjörunum á leiðinni.  Horfðum eftir fuglum og sáum margt áhugavert.
Úti á Hvítasandi fundum við margt skemmtiegt og þar borðuðum við einnig nestið (í Selhaus).  Eins og alltaf í svona ferðum var tíminn of naumur og þurftum við því að drífa okkur heim.  Allar skeljarnar sem við fundum bíða frekari greiningar en við stefnum að því að fara aftur í fjöruferð næsta föstudag.  Myndir eru hér.  HDh

Heimsókn frá Skaftfelli

Sl. þriðjudag fengum við góða heimsókn frá Skaftfelli, menningarmiðstöð á Seyðisfirði.  Um var að ræða kennsluferkefni þar sem ennaranir fóru með nemendunum í einfaldar æfingar þar sem ferli hugmyndavinnu var rannsakað og nemendum voru kynntar mismunandir aðferðir til skapandi nálgunar við hversdagsleg viðfangsefni. Námskeiðinu var ætlað að víkka sjóndeildarhring nemendanna og auka á fagurfræðilegt læsi þeirra auk þess að gera þau færari um frumlega nálgun og úrlausnir.

Tveir kennarar komu í skólann og unnu með nemendum 8. - 10. bekkjar í fjórar kennslustundir.  Unnið var með mjólkurfernur og sköpuðu nemendur mörg skemmtileg listaverk á ótrúlega stuttum tíma. 

Námskeiðið er hluti af fræðsluverkefnaröð Skaftfells – miðstöðvar myndlistar á Austurlandi og stendur öllum grunnskólunum á Austurlandi til boða þeim að kostnaðarlausu.

Við viljum þakka þeim Seyðfirðingum kærlega fyrir frábært framtak og hlökkum til að hitta þau á næsta ári.  Myndir eru hér.  HDH

 

Heimsókn í Vísi

Nemendur 1. og 2. bekkjar, fóru ásamt umsjónarkennara í heimsókn í Vísi í síðustu viku.  Eins og alltaf var mjög vel tekið á móti börnunum og fengu þau góðan rúnt um húsin í leiðsögn Reynis Arnórssonar.  Myndir eru hér.  HDH