Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Páskafrí og foreldraviðtöl

Nemendur og starfsfólk grunnskólans eru nú komnir í páskafrí.
Starfsfólk skólans mætir til vinnu, þriðjudaginn 6. apríl, en nemendur mæta skv. stundaskrá miðvikudaginn 7. apríl.  Kennt verður fram að hádegi.  Eftir hádegi verða foreldraviðtöl og eiga fundarboð að hafa borist heim til foreldra. 

Við óskum ykkur öllum gleðilegra páska.  Megið þið njóta hátíðarinnar og koma endurnærð til starfa að afloknu fríi.  Skólastjóri.

Húsaskoðun 5

Þá hafa nemendur 1.-5. bekkjar, ásamt Þórunnborgu og Gesti lokið skoðunarferð sinni um þorpið.  Þau hafa skoðað eldri húsin í þorpinu og fræðst um sögu þeirra.  Síðustu ferðina fóru þau sl. miðvikudag og heimsóttu þau:  Mela, Sunnuhvol, Hlíð, sumarbústaðinn í Hlíð, Ás, Borg, Borgargarð, Borgargerði og Sólheima.  Myndir eru hér.  HDH

Frá bókasafninu

Bókasafnið verður lokað þriðjudaginn 30. mars, eins og áður hefur komið fram.

Bókasafnið verður lokað á skírdag en það verður opið þriðjudaginn 6. apríl.

Bókasafnsvörður

Í skólanum er skemmtilegt að vera

Í morgun fóru þrír gallvaskir nemendur leikskólans upp í grunnskóla til að taka þátt í og kynnast starfi því hvernig það sé nú að vera í 1. bekk.  Lagt var af stað kl. 8:00 þar sem stefnt var að því að mæta í samsöng með 1-7 bekk.  Leikskólabörnin lögðu af stað á móti vindi og fannst hann heldur sterkur svona beint í fangið en á áfangastað komust við að lokum og flýttum okkur að klæða okkur úr útifötunum og taka þátt í samsögnum þar sem allir nemendurnir voru þegar komnir á svæðið og biðu eftir okkur.  Byrjað var á upphitunaræfingum og síðan var tekið lagið og sungum við mörg lög bæði sem við þekktum en líka lög sem við lærðum bara á staðnum. 

 

Eftir samsöng var farið í röð þar sem við gengum prúð og stillt inn í 1. og 2. bekkjar stofuna.  Við fengum okkur sæti en búið var að koma fyrir þremur nýju borðum í stofuna fyrir okkur leikskólabörnin.  Þórunnborg lét okkur fá verkefnabók til að vinna í og nemendurnir í 1. bekk og 2. bekk tóku upp sínar verkefnabækur.  Við unnum í bókunum fram að nestistíma þá gengum við frá og tókum upp nestið okkar og borðuðum það.  Eftir nestið komu frímínútur og auðvitað drifum við okkur með í þær og fengum að taka þátt í leikjum og líka að prófa leiktækin við grunnskólann. 

Mark Anthony að vega salt við hverja..

við Kira Lauru sem er ekki eins hrifin þar sem hún er uppi..

En hún Elísa Rán kemur og hjálpar henni og þá er Mark uppi.

Þegar bjallan hringdi og frímínúturnar voru búnar þustu allir krakkarnir í röð við sinn inngang en við fylgdum 1. og 2. bekk sem áttu að fara í tjáningu í íþróttahúsinu.  Þar þurfum við að klæða okkur úr útifötunum og fara niður í salinn.  Í tjáningu er krakkarnir að dansa.  Byrjað var á upphitun sem voru nokkrir hreyfileikir, síðan tókum við okkur stöðu tvö og tvö saman og dönsuðum klappdansinn.  Eftir hann æfðum við bíladansinn og í lokinn fórum við í leikinn um eyjurnar.  Þá var tíminn búinn og við fórum í röð og gengum svo fallega upp til að klæða okkur í útifötin.  Við þökkuðum fyrir okkur því nú átti að halda af stað út í leikskóla aftur. 

Í upphitun

Í bíladansinum

Í eyjaleiknum

Grunnskólakrakkar og kennarar takk kærlega fyrir okkur þetta var rosalega skemmtilegur tími og við hlökkum til að koma til ykkar í haust og byrja í fyrsta bekk.

Fleiri myndir hér

ERB;MARG;KLK;

ÞS

Gestavika

Gestavikan í skólanum stendur nú sem hæst.  Góð þátttaka hefur verið hjá forráðamönnum, sérstaklega yngri barnanna.  Börnin hafa fengið heimsóknir í smíðatíma, heimilisfræði, tjáningu, inni í stofu, samsöng o.m.fl.
Hann Brynjar Dagur, sem sést hér á myndinni, hefur verið duglegur að heimsækja systkini sín og skemmti sér hið besta í samsöngnum í morgun, þar sem hann bæði dansaði og söng.  Enn eru tæpir tveir skóladagar eftir þannig að enn er svigrúm til að heimsækja börnin.  HDH

Lífsleikni hjá 1. og 2. bekk

Nemendur í 1. og 2. bekk fóru í lífsleikni í gær, eins og lög gera ráð fyrir.  Greinilegt var að þau þurftu á hvíld að halda því sum þeirra léku hvolpa sem hvíldu sig vel og vandlega í dágóða stund.  Önnur spiluðu á spil og fengu aðstoð foreldra, enda stendur Gestavikan nú yfir.  Myndir eru hér.  HDH

18.03.2010

Gestavika í Neistatímunum

Þessa vikuna (15.-19.mars) er gestavika í grunnskólanum okkar, þar sem öllum er frjálst að kíkja í heimsókn og kynna sér hvað er börnin eru að gera í skólanum.

Neistatímar eru beint í framhaldi af skóladegi barnanna og því fannst okkur tilvalið að hafa líka gestaviku hjá okkur.

Því bjóðum við hér með alla sérstaklega velkomna að kíkja í heimsókn í íþróttahúsið að fylgjast með æfingum barnanna þessa viku.

Sjáumst, þjálfarar og stjórn Neista

Dásamlegur dagur

Eins og aðrir íbúar hér á Austurlandi hafa Djúpavogsbúar baðað sig í góða veðrinu undanfarna daga.  Dagurinn í dag er engin undantekning og hefur veðrið verið alveg dásamlegt.  Í grunnskólanum hefur margt verið brallað í dag.  Nemendur 3.-5. bekkjar, fóru ásamt undirritaðri og Þórunnborgu í Hálsaskóg í morgun.  Nemendur hafa verið að læra um tré undanfarið í náttúrufræðinni, muninn á barrtrjám og lauftrjám, þeir hafa lært hvað brum er, árhringir, lært um lyng o.m.fl.  Það var því tilvalið að fara í skóginn og kanna hversu vel kennslustundirnar sitja í börnunum.  Þau kunnu allt upp á 10, eins og við var að búast.  Við fundum rauðgreni, blágreni, sitkagreni, aspir, furu, lerki, reynitré, lyng o.m.fl.  Auk þess sáum við mikið af fýl, auk þess sem tvær rjúpur heiðruðu okkur með nærveru sinni.  Ekki sáum við ugluna, sem verið hefur í skógræktinni, en heyrðum líklegast í auðnutittlingum.

Nemendur 1. og 2. bekkjar kláruðu verkefni sem þeir hafa verið að vinna að í kristinfræði með Þórunnborgu og Ingu (sem verið hefur hér í vettvangsnámi sl. vikur). 

Eftir hádegið voru börnin í viðverunni út að kríta og krakkarnir sem eru að æfa fótbolta hjá Neista, drifu sig á stuttbuxurnar og höfðu æfinguna úti á sparkvellinum.

Myndir af þessum viðburðaríka degi má finna hér.  HDH

Húsaskoðun 4

Enn voru Gestur og Þórunnborg á ferðinni í dag með nemendur 1.-5. bekkjar.  Til stóð að klára yfirferðina um eldri húsin á Djúpavogi í dag, en þau lentu í heimsókn til hans Vilmundar í Hvarfi og gleymdu sér í ævintýraveröldinni sem hann er að búa til þar.  Önnur hús sem þau heimsóttu voru:  Gamla sláturhúsið, gamla frystihúsið, gamla mjólkurstöðin, Rjóður, Steinsstaðir, Melar og Sólheimar.  Krakkarnir og kennararnir vilja þakka Vilmundi sérstaklega fyrir mjög góðar móttökur og allan fróðleikinn.  Myndir eru hér.  HDH

Upplestrarhátíð

Eins og undanfarin ár hafa nemendur 7. bekkjar æft sig fyrir Stóru-upplestrarkeppnina undanfarnar vikur.  Þar sem nemendur bekkjarins eru aðeins tveir, var ekki nauðsynlegt að hafa undankeppni í skólanum í ár, eins og við erum vön.  Þess í stað var ákveðið að hafa upplestraræfingu fyrir nemendurna í kirkjunni, til að hrista úr þeim mesta hrollinn.  Að venju var aðstandendum þeirra boðið til að fylgjast með, auk þess sem nemendur 6.-10. bekkjar komu líka.  Þeir Anton og Bjartur stóðu sig með mikilli prýði og fara þeir sem fulltrúar skólans til Hornafjarðar miðvikudaginn 17. mars en þá fer lokahátíðin fram.  Myndir eru hér.  HDH

Bekkjarkvöld

Bekkjarkvöld var haldið hjá nemendum 1. og 2. bekkjar fyrir viku.  Margt skemmtilegt var í boði.  Börnin voru með leiksýningu, danssýningu, spiluðu á blokkflautu og sungu.  Foreldrarnir voru með myndasýningu og spunaleikþátt um Rauðhettu og úlfinn.  Í lokin buðu foreldrarnir upp á kaffi og kökur.
Mjög góð mæting var á bekkjarkvöldið og var það mjög skemmtilegt.  Myndir eru hér.  HDH

Gestavika

Við viljum minna á að vikuna 15. - 19. mars verður seinni Gestavikan á þessu skólaári.  Þá viku eru forráðamenn, frænkur og frændur, afar og ömmur sérstaklega boðin velkomin í heimsókn.  Fólki er frjálst að mæta í þær kennslustundir sem það óskar eftir.  Ekki þarf að gera boð á undan sér.  HDh

Leiðrétting

Hér með leiðréttist auglýsing frá grunnskólanum sem birt var sl. föstudag.  Þar stendur að það vanti afleysingar í heimilisfræði og myndmennt, hið rétta er að það vantar afleysingar í heimilisfræði og handmennt, auk viðveru eftir hádegið.  Þetta leiðréttist hér með og er beðist velvirðingar á þessum mistökum.  HDH

Starfsmann vantar í afleysingar

Vegna væntanlegs veikindaleyfis vantar starfsmann í afleysingar í grunnskólann, í allt að 6 vikur.  Auglýsinguna má lesa alla með því að smella hér.   HDH

Smíði 8.-10. bekkur

Nemendur í smíði í 8.-10. bekk hafa verið að vinna þessa fallegu lampa í kennslustundum.  Þeir eru unnir úr gleri og læra nemendur þá aðferð auk þess að vinna í rafmagninu.  Myndir eru hér.  HDH

Húsaskoðun 3

Þann 24. febrúar sl. héldu nemendur 1.-5. bekkjar áfram yfirreið sinni um þorpið og skoðuðu eldri hús bæjarins.  Að vanda voru Þórunnborg og Gestur með í för.  Að þessu sinni skoðuðu þau:  Bjarg, Hammersminni, Sjólyst, Birkihlíð og Holt.  Myndir eru hér.  HDH