Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Frá Grunnskóla Djúpavogs

 

 

Starfsmaður óskast til liðveislu við fatlaðan nemanda í u.þ.b. 50% starf frá 3. janúar. Umsóknarfrestur er til 27. desember. Nánari upplýsingar veitir skólastjóri í síma 478-8246 og 863-8380.

 

Ævintýri Djúpavogshrepps

Leikritið Ævintýri Djúpavogshrepps í uppfærslu Grunnskóla Djúpavogs er nú komið á mynddisk. Hægt er að kaupa diskinn í skólanum eða í Bakkabúð og kostar hann kr. 1500. Allur ágóði rennur til nemenda skólans. BE

Slökkviliðsmenn í heimsókn

Fimmtudaginn 2. desember kíktu þeir Baldur Pálsson, slökkviliðsstjóri og Guðlaugur Birgisson, varðstjóri í heimsókn til okkar í skólann. Fóru þeir með nemendum yfir brunavarnir og það sem hafa ber í huga þegar elds verður vart. Eins leyfðu þeir nemendum að prófa slökkviliðisbúnað og er óhætt að segja að það hafi vakið mikla hrifningu nemendanna.

Hægt er að skoða myndir af heimsókninni með því að smella hér.

ÓB

07.12.2010

Jólaföndur foreldrafélags Grunnskólans

Foreldrafélag Grunnskólans stendur fyrir jólaföndri í skólanum miðvikudaginn 1. desember frá 17:00 - 19:00.  Allir íbúar sveitarfélagsins eru velkomnir og verður margs konar föndur til sölu. Þá sjá nemendur 9. og 10. bekkjar um kaffihús þar sem margt góðgæti verður á boðstólnum.  

Vonumst til að sjá sem flesta.

Foreldrafélag Grunnskólans

Gestavika

Svokölluð gestavika verður í grunnskólanum í næstu viku 22. - 26. nóvember. Þessa daga geta ættingjar nemenda komið í skólann og fylgst með hefðbundnu skólastarfi. Nemendur og starfsfólk vona að sem flestir sjái sér fært um að koma í heimsókn. BE

Leikskóli í heimsókn

Elstu nemendur leikskólans heimsóttu 1. bekk grunnskólann í gær á Degi íslenskrar tungu. Í íslensku lærðu þau eitt og annað um Jónas Hallgrímsson og eftir frímínútur fóru þau í íþróttir. Var ekki annað að sjá en að allir skemmtu sér vel og áhuginn skein úr hverju andliti. Myndir má sjá með því að smella hér.

Myndir frá árshátíðinni

Eins og allir vita fór árshátíð Grunnskóla Djúpavogs fram sl. föstudag fyrir þéttsetnum hátíðarsal Hótels Framtíðar.

Nú er búið að setja inn myndir frá árshátíðinni, í tveimur albúmum sem má skoða með því að smella hér.

ÓB

Gjöf frá kvenfélaginu

Kvenfélagið Vaka færði heimilisfræðikennara grunnskólans veglega peningajöf til að endurnýja eldhúsáhöld og heimilistæki í skólaeldhúsinu.

Meðal þess sem keypt var voru nokkrir handþeytarar, hnífar, bollasett, sleikjur og fl.  Nemendur í 2. og 3. bekk fengu fyrstir að handleika herlegheitin í morgun.

Skólinn þakkar kvenfélaginu kærlega fyrir.

BE

Verurnar okkar

Vegna Daga myrkurs sem nú standa yfir er sýning Við Voginn eftir nemendur í 4. 5. og 6. bekk grunnskólans.  Verkefnið var unnið í kennslustundum undir heitinu ,,Grenndarnám“  sem er námsgrein þar sem nemendur læra um byggðarlagið sitt. Verkefnið fjallar um þjóðsögur Djúpavogshrepps og hafa nemendurnir föndrað 19 kynjaverur sem allar eiga sér sögu sem tengist Djúpavogshrepp. Myndir af verunum má sjá hér. Unnur

 

Árshátiðin er á morgun - æfingar í fullum gangi

Æfingar fyrir árshátíð grunnskólans, sem fram fer á morgun, eru nú í fullum gangi.

Þemað þetta árið er "Ævintýri Djúpavogshrepps", þar sem stiklað er á stóru í sögu sveitarfélagsins, allt frá Kristnitökunni til Tyrkjaránsins. Dagskráin er einstaklega metnaðarfull og skemmtileg og ætti enginn að verða svikinn af henni.

Eins og áður sagði fer árshátíðin fram á morgun, föstudag. Hefst hún kl. 18:00, aðgangseyrir er 500 krónur og vonast nemendur og kennarar að sjálfsögðu eftir að sjá sem flesta.

ÓB

 

 

 

 

 

Kökubasar í dag

Í dag 22. október verður kökubasar í Samkaup Strax klukkan 15:00 til styrktar námsferðar 7.-10. bekkjar.

Hvetjum alla til að koma og kíkja við :)

Nemendur 7.-10. bekkjar

Æskulýðsdagatal Grunnskólans 2010 - 2011

Vakin er athygli á því að inn á vef Grunnskóla Djúpavogs hefur verið sett inn æskulýðsdagatal þar sem finna má helstu viðburði á vegum skólans og einnig viðburði sem Nemendafélag Grunnskólans og UMF Neisti standa fyrir. Auk þess eru þar upplýsingar um þá foreldra eða félagasamtök sem koma að viðburðunum auk annarra upplýsinga.

Dagatalið má finna með því að smella hér 

Framvegis mun æskulýðsdagatal hvers mánaðar fylgja Bóndavörðunni og er það von okkar að sem flestir nýti sér það  hvort heldur er til þess að koma á framfæri upplýsingum um viðburði fyrir börn á grunnskólaaldri eða foreldrar / forráðamenn barna.

Þar sem Bóndavarðan var þegar komin út í október þegar dagatalið var tilbúið verða hér settir inn þeir viðburðir sem eiga við októbermánuð.

22. okt.  - Starfsdaggur / Fimleikanámskeið í íþróttahúsinu.

23. okt. - Fimleikanámskeið í íþróttahúsinu.

24. okt. - Fimleikanámskeið í íþróttahúsinu.

27. okt. - Skemmtilegt í íþróttahúsinu - eldri krakkar. Umsjón: Klara, Kristborg Ásta og Guðrún.

30. okt. - Svd. Bára með fræðslu - og skemmtidag  - eldri krakkar.

BR

Pennasala

Nemendur 7. – 10. bekkjar munu ganga í hús þessa vikuna og selja penna til styrktar Félagi heyrnarlausra. Penninn kostar 1.500 kr. Af þeim fara 450 kr í ferðasjóð bekkjanna en áætlað er að fara í skólaferð 8. – 9. nóvember. Farið verður suður að Hoffellsjökli og unnin líffræði og jarðfræðiverkefni á leiðinni. Þau munu gista í Lóni því þetta verður tveggja daga vinnuferð. Áhugasömum sem ekki hafa fengið tilboð um pennakaup er bent á að hafa samband við nemendurna eða Lilju í síma 8679182. Vinsamlega takið vel á móti krökkunum.LDB

 

 

Góðar gjafir

Rétt áður en nemendur grunnskólans voru ræstir af stað í Norræna skólahlaupið á fimmtudaginn kom Guðný Helga og færði skólanum endurskinsvesti á alla nemendur og starfsmenn að gjöf frá Vátryggingafélagi Íslands og Sparisjóðnum. Þessi vesti koma sér einstaklega vel og er mikið öryggisatriði að hafa nemendur vel sýnilega þegar þeir fara út fyrir skólalóðina. Við þökkum VÍS og Sparisjóðnum kærlega fyrir þessa nytsömu gjöf.

BE

 

 

 

 


Guðný Helga Baldursdóttir afhendir Berglind Einarsdóttur skólastjóra vestin


Börnin komin í vestin, skólahlaupið að byrja

Norræna skólahlaupið 2010

Veðurguðirnir sýndu örlitla miskunn og drógu ský frá himni á fimmtudaginn þegar nemendur skólans hlupu um bæinn og nágrenni en þennan dag fór fram Norræna skólahlaupið.

Þeir sem lengst hlupu voru keyrðir inn að Urðateigi en þaðan eru 10 km. Þeir sem hlupu 5 km. skokkuðu að skógræktinni og til baka og yngstu nemendurnir sprettu til og frá flugbrautinni, eða 2, 5 km.

Það liðu ekki nema 20 mín. þegar fyrstu nemendur komu í íþróttahúsið en þar var boðið upp á ávexti og djús. Eftir hressinguna skelltu börnin sér í sund.

Myndir frá þessum skemmtilega degi má sjá hér

 

 

BE

Sundnámskeiði frestað

Fyrirhuguð sundnámskeið sem áttu að vera í sundlaug Djúpavogs um helgina frestast því miður um óákveðinn tíma vegna veikinda þjálfara.
 
Haft verður samband við þá sem búnir voru að skrá sig vegna nýrrar tímasetningar.

Norræna skólahlaupið 2010

 Verkefninu Göngum í skólann lýkur formlega 6. október og að því tilefni er Norræna skólahlaupið  daginn eftir,  fimmtudaginn 7. október. Nemendur 1. – 2. bekkjar hlaupa 2,5 km, nemendur 3. - 5. bekkjar geta valið um tvær vegalengdir, 2,5 km og 5 km en nemendur 6. – 10. bekkjar geta valið um 5 km og 10 km. 

Mömmum, pöbbum, ömmum, öfum , frændum og frænkum er velkomið að taka þátt. Boðið verður upp á ávexti og djús að hlaupi loknu og síðan er öllum boðið í sundlaugapartý.  Mikilvægt er að nemendur komi í góðum skóm og klæddir eftir veðri og  MUNI EFTIR SUNDFÖTUM. BE

 

 

 

 

Fundarboð

Fimmtudaginn 7. október verður fundur í Grunnskóla Djúpavogs kl. 20.  Fyrri hluti fundarins er hefðbundin skólakynning þar sem farið verður yfir handbók grunnskólans og skóladagatal.  Áætlað er að þeim hluta ljúki um 20:30.

Í seinni hlutanum verður gerð tilraun til að efla æskulýðsmál á Djúpavogi. Fulltrúar frá sveitarfélaginu, slysavarnafélaginu, Neista og kirkjunni mæta. Farið verður lauslega yfir hvað er í boði fyrir börn og unglinga hreppsins og hverju er hægt að bæta við. Hugmyndin er að fá foreldra til samstarfs.  Til þess að skapa fjölbreytt og heilbrigt æskulýðstarf hér á Djúpavogi þurfa allir að leggja sig fram.

Aðalfundur Foreldrafélags Grunnskóla Djúpavogs verður eftir seinni hlutann.  Á dagskrá verða venjuleg aðalfundarstörf.

Skólastjóri

Ómskoðun

 

Á þriðjudaginn var bauðst nemendum í 10. bekk að fara  á Fossárdal og taka þátt í ómskoðun á sæðingafé (lambhrútum og gimbrum undan sæðingahrútum). Nemendurnir unnu hörðum höndum við að smala fénu í króna, vigta þær og skrá. Halda á meðan ómskoðun fór fram og einnig  þegar féið var þuklað og metið. Útskýrt var hvað var verið að skoða og hvað þykir gott ef maður er ásetningaær.  Best er að hafa hrygginn vel vænan af vöðvum. Þegar þessu var lokið fóru nemendur sjálfir á vogina og í ómskoðun þar sem fitulag og vöðvar við neðri hryggjarliði voru skoðaðir. Eigum við mjög heilbrigða og ásetjanlega unglinga hér á Djúpavogi. Þegar því var lokið hófst þuklkeppni. Nemendur þreifuðu lærvöðva á þremur gimbrum og gáfu þeim einkunn miðað við þykkt vöðva. Að lokum vorum við leyst út með mjólk, skúffuköku og Wasa kexi. Kærar þakkir fyrir móttökurnar. LDB Fleiri myndir má sjá hér.

Líkami mannsins kannaður í 1. 2. og 3. bekk

Í dag unnu nemendur 1. 2. og 3. bekkjar að því að móta manneskju á pappír. 1. bekkur sá um að lita inn rauða vöðva út um allan líkamann, 2. bekkur sá um að teikna inn og klippa beinagrindina en 3. bekkur sá um líffærakerfin inni í manninum. Mikið fjör var í tímanum eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. LDB.

 

17.09.2010

Glímukynning

Í gær var ólafur Oddur Sigurðsson með glímukynningu fyrir 4.-10. bekk. Nemendur fengu að vita heilmikið um sögu glímunnar og leiðsögn í fangbröðum. Myndirnar sem hér sjást segja allt sem segja þarf. Við þökkum Ólafi kærlega fyrir komuna og þökkum fyrir okkur. BE

15.09.2010

Fjöruferð hjá 4.-6.bekk

Það er ekki til neitt sem heitir vont veður hjá nemendum í 4., 5. og 6. bekk. Þeir fóru í hífandi roki og háflóði í fjöruferð í dag. Mikill galsi og gleði var í hópnum þar sem þau bjuggu til segl úr yfirhöfnum sínum, fengu hvítfissandi ölduúða yfir sig, mokuðu marglyttu í poka og tíndu hin ýmsu fjörudýr. Má þar nefna ranaorma, hrúðurkarla, blöðruþang, þangdoppur og fleiri lindýr. Myndir er hægt að skoða hérLDB

15.09.2010

Frumuskoðun í 9. og 10. bekk


Í náttúrufræðitíma um daginn fengu elstu nemendur skólans sjálfboðaliða til að
blóðga sig svo hægt væri að skoða lifandi blóðfrumur í smásjá. Sjást fleiri en
ein tegund frumna. Það er spurning hvort sjálfboðaliðinn hafi verið sýktur. Eftir það
var farið út og tíndar nokkrar tegundir af plöntum sem voru skornar niður og
einnig skoðaðar í smásjánni. Áhuginn var nokkuð góður eins og sjá má á hér. LDB.

15.09.2010

Heimsókn á Nönnusafn

Eins og fram hefur komið á heimasíðunni stendur nú yfir leikfangasýning á Nönnusafni. Nemendur 4.-6. bekkjar grunnskólans fengu að skoða safnið í gær fimmtudag. Guðríður og Ingunn tóku einstaklega vel á móti nemendum og fylgdarliði. Þær fræddu þá um ævintýri sýningargripanna og leiddu þá um allt sýningarsvæðið. Í eldhúsinu í gamla bænum var boðið upp á mjólk, snúða og kex. Nemendur voru himinsælir þegar þeir komu aftur í skólann. Við þökkum kærlega fyrir skemmtilega sýningu og frábærar móttökur. Myndir úr ferðinn sjást hér.

Göngum í skólann

Nú styttist í að verkefnið Göngum í skólann verði sett þetta haustið.  Grunnskóli Djúpavogs hefur verið með frá upphafi og hefur þátttaka verið mjög góð. Fyrsti dagurinn verður miðvikudagurinn 8. september og stendur átakið til miðvikudagsins 6. október.

Farið var af stað með þetta verkefni til að hvetja börn landsins til að hreyfa sig meira. Hér í litla þorpinu okkar, þar sem umferð er lítil og stutt á milli staða, ætti ekki að þurfa sérstakt átak til að fá nemendur til að ganga í skólann en bílafjöldinn fyrir utan skólann á morgnana og í lok skóladagsins sýna að ekki er vanþörf á. Foreldrar eru hvattir til að ganga með börnum sínum sé þess kostur. Skólabílarnir munu stoppa við Samkaup og hleypa nemendum, sem vilja taka þátt, út til að þeir geti gengið síðasta spölinn. Kennarar skrá hvaða nemendur ganga og verður tilkynnt í lok átaksins hvaða bekkjardeild hefur átt duglegustu göngu- og hjólagarpana því að sjálfsögðu má líka hjóla í skólann. BE

 

 

Haustganga

Haustganga Grunnskóla Djúpavogs verður miðvikudaginn 1. september kl. 9:40 eða eftir fyrri frímínútur. Kennt verður tvo fyrstu tímana samkvæmt stundatöflu sem og tímann eftir hádegismat.  Nemendur þurfa að taka með sér gott nesti sem snætt verður á leiðinni, klæða sig eftir veðri og vera í góðum skóm eða stígvélum. BE  

Opið hús

Hið hefðbundna opna hús var í grunnskólanum í gær. Sú nýbreytni var að fyrstu bekkingum var boðið að mæta fyrr þar sem skólastjóri og kennarar bekkjarins tóku á móti þeim, sýndu þeim húsakynni skólans og fóru yfir það helsta sem framundan er. Umsjónarkennarar hinna bekkjanna tóku á móti sínum nemendum og forráðamönnum þeirra frá 10:00 til 14:00. Mæting var mjög góð og ekki annað að sjá en að nemendur og kennarar kæmu vel undan sumri og bíða spenntir eftir að takast á við verkefni vetrarins. BE