Djúpivogur
A A

Grunnskóli

1. bekkur kom í heimsókn

Í síðustu viku kom fyrsti bekkur í heimsókn í leikskólann með bekkjarkennara sínum.  Tóku tilvonandi nemendur fyrsta bekkjar á móti þeim en í ár eru tveir nemendur í leikskólanum sem fara í grunnskóla næsta vetur.  Spjölluðum við saman um hvernig væri að vera í skóla og leikskóla og síðan fengu nemendurnir að byggja úr einingakubbum.  Urðu til margar flottar byggingar eins og sjá má á myndunum sem hér fylgja en fleiri myndir eru hér.

 

ÞS

Ígulker í heimsókn

Starfsfólkið í Ósnesi var svo elskulegt að senda okkur margs konar sýnishorn af botnlífverum, sem veiðst hafa sl. daga.  Margt skemmtilegt var að skoða, t.d. ígulker, krossfiskur, kuðungakrabbar, beitukóngur, kórallar o.fl.  Kennarar nýttu grenndarnámstímana í dag, í að skoða lífverurnar hjá nemendum og vöktu þær mikla lukku eins og sjá má á myndunum hér.  Við þökkum starfsfólkinu í Ósnesi kærlega fyrir.  HDH

Frá grunnskólanum / foreldrafélaginu

Ákveðið hefur verið, af stjórn foreldrafélagsins að árlegt jólaföndur fari fram í grunnskólanum, þriðjudaginn 1. desember, frá klukkan 17:00 - 19:00.  Hægt verður að kaupa föndur á staðnum.  Einnig verður kaffihús á vegum 6. og 7. bekkjar á sama tíma.  Allir íbúar eru hjartanlega velkomnir.

Einnig stendur til að selja geisladiska með árshátíðum sl. tveggja ára, þ.e. Grease og Kardemommubæinn.  Nemendur grunnskólans fá senda miða heim, þar sem foreldrar geta lagt inn pöntun en einnig verða sett pöntunareyðublöð í Samkaup-Strax og Við Voginn þar sem fólk getur lagt inn pöntun.  Verður þetta gert á allra næstu dögum. 

Þá verður foreldrafélagið með "bás" á markaði kvenfélagsins í Löngubúð þann 28. nóvember þar sem geisladiskarnir og lakkrís verða til sölu.  HDH / foreldrafélagið

 

Gestavika

Nú stendur yfir Gestavika í skólanum.  Aðstandendur barnanna eru sérstaklega boðnir velkomnir í heimsókn þessa vikuna.  Í morgun lék undirrituð mömmu og fór í tjáningartíma hjá Berglind.  Þar voru fleiri foreldrar og vorum við svo einstaklega heppin að læra að dansa "Thriller" dans með Michael Jackson.  Sýndum við ótrúlega tilburði.
Foreldrar hafa einnig fylgst með samsöng, farið í smíðatíma og tölvutíma auk stærðfræði, íslensku o.fl.  HDH

Fleiri myndir frá árshátíð

Hún Dröfn Freysdóttir var svo almennileg að senda okkur fleiri myndir frá árshátíðinni.  Þær má finna hér.  HDH

Árshátíð

Eins og flestir vita fór árshátíðin í grunnskólanum fram sl. föstudag.  Húsfyllir var og voru gestir komnir víða að.  Greinilegt að hróður ræningjanna þriggja og Soffíu frænku hefur borist víða.  Ljóst er að svona sýning getur ekki orðið að veruleika nema allir hjálpist að og er gaman að sjá hversu öruggir krakkarnir eru orðnir á sviðinu og syngja og dansa eins og þau hafi aldrei gert annað.  Þegar eru komnar upp hugmyndir að efni fyrir næstu árshátíð og verður spennandi að sjá hvað verður fyrir valinu.  Myndir eru hér.  (Ef erfitt er að nálgast myndirnar í gegnum þessa frétt má alltaf fara inn á síðu skólans, velja þar MYNDASÍÐU - Myndir 2009 - Nóvember - Árshátíð).  HDH

Baujunámskeið

Nú hafa nægilega margir skráð sig á Baujunámskeiðið til að hægt sé að halda það, nk. fimmtudag eins og auglýst var.  Það hefst klukkan 20:00 í Grunnskólanum.  Þátttökugjald er 1.000.- krónur en auk þess styrkja grunnskólinn, leikskólinn og foreldrafélög skólanna námskeiðið.  Enn er pláss fyrir fleiri ef áhugi er fyrir hendi.  Þátttaka tilkynnist til Dóru á dora@djupivogur.is eða Guðrúnar á gudrun@djupivogur.is   HDH

Árshátíð

Góðir Djúpavogsbúar og nærsveitungar.
Á morgun, föstudag verður árshátíð Grunnskóla Djúpavogs á Hótel Framtíð.  Hún hefst klukkan 18:00 og kostar 500.- krónur inn.  Ókeypis er fyrir börn á leikskóla og eldri borgara.  Sýnt verður leikritið Kardemommubærinn.
Vonumst til að sjá sem flesta.  Starfsfólk og nemendur.

Undirbúningur fyrir árshátíð

Undirbúningur fyrir árshátíð stendur nú sem hæst.  Segja má að allt sé á áætlun þó svo að við höfum lent í töluverðum vandræðum með ræningjagengi sem herjað hefur á skólann.  Er um að ræða þrjá dularfulla náunga sem bera nöfnin Kasper, Jesper og Jónatan og er fólk beðið um að hafa varann á og læsa húsum á kvöldin.  Það sem verra er að þeir eru ekki einir á ferð, heldur hafa með sér þrjú risastór og grimm ljón, sér til fulltingis.
Starfsfólkið og nemendurnir hafa þó ekki látið ræningjagengið trufla sig við undirbúninginn og má sjá myndir af skólastarfinu þessa vikuna hér.  HDH

Baujunámskeið

BAUJUNÁMSKEIÐ

Solveig Friðriksdóttir hefur áhuga á að vera með „Baujunámskeið“ fyrir foreldra á Djúpavogi, fimmtudaginn 12. nóvember, ef næg þátttaka fæst.

Baujunámskeiðið er sjálfsstyrkinganámskeið þar sem frætt er um tilfinningar okkar og hvernig þær hafa áhrif á hegðun og líðan. Kenndar verða einfaldar aðferðir til að takast á við erfiðar tilfinningar í dagsins önn svo og slökunaröndun.

Námskeiðið er í fyrirlestrarformi, engin einstaklings- eða hópverkefni og enginn þarf að óttast að þurfa að standa upp fyrir framan hóp og tala. Námskeiðið tekur um tvo tíma.

Hægt er að fræðast nánar um Baujuna á
www.baujan.is


Solveig er með B.A. próf í sálfræði, jógakennari og hefur unnið við kennslu sl. 11 ár. Hún hefur kennt Baujuna fyrir nemendur í Grunnskólanum á Stöðvarfirði (sex námskeið). Þá hefur hún haldið tvö námskeið fyrir nemendur á Fáskrúðsfirði, eitt námskeið fyrir foreldra Grunnskólans á Stöðvarfirði, tvö námskeið fyrir starfshópa og eitt fyrir kennara á Kennaraþingi ásamt því að hafa haldið eigin fræðslufyrirlestra til persónuuppbyggingar.  (Síðasti fyrirlestur sem hún hélt var fyrir rúmlega 100 manns).

Foreldri greiðir 1.000.- kr. fyrir námskeiðið en ef báðir foreldrar koma saman kostar það 1.500.- kr.-  Grunnskólinn / leikskólinn og foreldrafélögin greiða það sem upp á vantar.  Lágmarksþátttaka eru 8 manns.

Áhugasamir hafi samband við Halldóru (dora @djupivogur.is) – 478-8246 eða Guðrúnu (gudrun@djupivogur.is) – 478-8832 fyrir 6. nóvember nk.