Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Forvarnardagurinn og alþjóðlegi skólamjólkurdagurinn

Dagurinn í dag er tileinkaður tveimur verkefnum; forvarnardeginum og alþjóðlega skólamjólkurdeginum.
Í morgun tóku nemendur 9. bekkjar þátt í verkefnum forvarnardagsins, horfðu á myndband og skiluðu inn niðurstöðum úr hópvinnu.  Síðan fóru þeir heim með verkefni til að skila á netinu en möguleikar eru á góðum vinningum.
Þá var alþjóðlegi skólamjólkurdagurinn sem felst annars vegar í myndasamkeppni fyrir 4. bekk og hins vegar í því að nemendur skólans fá mjólk gefins.  Mjólkin verður afhent á morgun, fimmtudag.   HDH

30.09.2009

Foreldrakynning / Aðalfundur foreldrafélags

Hin árlega foreldrakynning / Aðalfundur foreldrafélagsins verður haldin miðvikudaginn 30. september í grunnskólanum.  Foreldrakynningin hefst klukkan 17:30 og aðalfundur klukkan 18:30.  Miðar fóru heim í töskur barnanna sl. föstudag.  HDH

28.09.2009

Réttarferð

Í dag, klukkan 13:45 ætlum við að hittast við grunnskólann og fara inn í Hamarssel í réttarferð.  Hefð er komin á þessa ferð og vonumst við til þess að sem flestir foreldrar / forráðamenn sjái sér fært að mæta með börnunum sínum.
Gert er ráð fyrir því að börnin hafi með sér nesti og séu klædd í skjólgóð föt.  Heimkoma er óráðin en líklegt er að hún verði milli 16:00 og 17:00. 
Hringt verður í alla foreldra, nú fyrir hádegið og þeir látnir vita formlega.  HDH

Gönguferð hjá 3.-5. bekk

Í vikunni fór Gestur með 3., 4. og 5. bekk í gönguferð í góða veðrinu.  Eins og myndirnar hérna sýna, var veðrið alveg dásamlegt og börnin hin kátustu.  Góða helgi.  HDH

Bókasafnið auglýsir

Vorum að fá mjög skemmtilegar spennusögur á bókasafnið:
Stúlkan sem lék sér að eldinum, eftir Stieg Larsson
Ísprinsessan, eftir Camillu Läckberg
Predikarinn, eftir Camillu Läckberg
Steinsmiðurinn, eftir Camillu Läckberg.  Fyrstur kemur fyrstur fær.   KBG

Neisti sigurvegari á meistaramóti UÍA í sundi

Óhætt er að segja að sunddeild UMF Neista hafi komið, séð og sigrað á meistaramóti UÍA í sundi sem haldið var um helgina. Neisti vann stigakeppnina og þar með mótið með miklum yfirburðum. Bjarni Tristan Vilbergsson varð stigahæstur í sínum flokki.

Við á heimasíðunni óskum Neista innilega til hamingju með frábæran árangur.

Textinn hér að neðan er tekinn af heimasíðu UÍA:

Meistaramót UÍA í sundi var haldið á Eskifirði dagana 19. og 20. september.

Mótið er hið fyrsta sem haldið er samkvæmt nýju mótafyrirkomulagi Sundráðs UÍA þar sem gert er ráð fyrir fjórum sundmótum á vegum UÍA árlega. Framkvæmd mótanna er sameiginleg með sunddeildunum sem mynda ráðið og skrifstofu UÍA.

Meistaramótið er aldursflokkamót og voru keppendur að þessu sinni um 50 talsins á aldrinum 7-14 ára. Veittar voru viðurkenningar fyrir stigahæstu sundmenn í hverjum flokk og urðu það eftirfarandi:

Bjarni Tristan Vilbergsson Neista í flokki sveina 11-12 ára með 60 stig Rebekka Sól Aradóttir Leikni í flokki meyja 11-12 ára með 46 stig Einar Bjarni Hermannsson Hetti í flokki drengja 13-14 ára með 66 stig Þórunn Egilsdóttir Þrótti í flokki telpna 13-14 ára með 44 stig

Í flokki telpna urðu Þórunn og Vala Jónsdóttir úr Austra raunar jafnar að stigum en úrskurðargrein þeirra á milli var 100 metra fjórsundið og þar hafði Þórunn haft betur.

Stigakeppni liða var óútreiknanleg en lið Austra hafði haldið stigabikarnum frá árinu 2006. Þegar upp var staðið máttu þó heimamenn sætta sig við annað sæti og lið Neista stóð uppi sem sigurvegari. Frábær árangur hjá ungu liði Neista. Úrslit stigakeppninnar voru þessi:

1. Neisti 360 stig
2. Austri 258 stig
3. Höttur 172 stig
4. Þróttur 126 stig
5. Leiknir 122 stig

ÓB 

 


Lið Neista á meistaramóti UÍA


Bjarni Tristan Vilbergsson, stigahæstur í flokki sveina 11-12 ára

Aðmíráll var það heillin!!

Hún Irene okkar var nú fljót að bera kennsl á fiðrildið sem var að flögra hér um í morgun.  Það mun heita aðmíráll og þekkist víða í Evrópu og Norður Afríku.  Eftirfarandi upplýsingar fann ég inni á vef Náttúrustofu Norðausturlands. 

Um aðmírálsfiðrildi hefur Gísli Már Gíslason, prófessor við Líffræðiskor Háskóla Íslands, skrifað á vísindavef háskólans (http://visindavefur.hi.is/?id=2131). Þar var spurt: "Geta aðmírálsfiðrildin sem berast hingað með heitum vindi lifað af sumarið á íslenskum blómum eða eru þau of auðveld bráð?" Svar Gísla fer hér á eftir:

"Fullvaxin fiðrildi lifa aðeins á blómasykri og ekki er ósennilegt að aðmírálsfiðrildi (Vanessa atalanta) geti sogið blómasykur úr blómum á Íslandi, sérstaklega stórum blómum í görðum. Náttúrulegt útbreiðslusvæði aðmírálsfiðrilda er í Suður-Evrópu, Norður-Afríku, á Mið-Atlantshafseyjum og í Norður-Ameríku. Aðalútbreiðslusvæði þeirra er í Norður-Afríku og þaðan fara þau í göngum norður til Evrópu. Þau geta tímgast á Bretlandseyjum og myndað sumarkynslóð, en lifa ekki af veturinn. Á Íslandi eru aðmírálsfiðrildi aðeins flækingar, fjölga sér ekki og lifa að sjálfsögðu veturinn ekki af, frekar en annars staðar í N-Evrópu.  HDH

Fyrsta grunnskólaheimsóknin

Elstu nemendur leikskólans fóru í árlegu grunnskólaheimsókn í síðastliðinni viku.  Þetta var fyrsta heimsókn vetrarins en í henni hitta kennara 1. bekkjar og nemendur sem sýna þeim skólann. Nemendur leikskólans hittu skólastjórann sem og aðra nemendur grunnskólans, þau borðuðu nesti og fóru í frímínútur.

 

Við borðuðum nesti og hlustuðum á sögu á meðan

Svo var farið í frímínútur

Við hittum skólastjóra grunnskólans

En þetta fannst okkur rosalega skrítið og spennandi

 

Fleiri myndir er hægt að sjá hér

 

ÞS

Saft

Nemendur 1. og 2. bekkjar fóru í berjamó fyrir skemmstu.  Eins og lög gera ráð fyrir þá gerðu börnin saft úr afurðunum sem þau fengu síðan að taka með sér heim.  Myndir eru hér.  HDH

21.09.2009

Furðu-fiðrildi

Í morgun þegar skólastjóri var úti ásamt nemendum 8.-10. bekkjar sáum við stórt fiðrildi flögra við skólann.  Við eltum það dágóða stund þar til það kom sér makindalega fyrir á einum vegg skólahúsnæðisins.  Skólastjórinn spretti úr spori og dreif sig inn til að sækja myndavél.  Þegar hann kom út aftur, skömmu síðar, var fiðrildið enn á sínum stað.  Þegar hann læddist nær til að ná mynd, þá breiddi fiðrildið út vængina og flögraði af stað aftur.  Við héldum í humátt á eftir því og náðum að fylgja því eftir á skólalóðinni.  Við vorum svo heppin að það kom auga á undurfagran fífil í blóma og settist á það til að gæða sér á gómsætu hunangi blómsins.  Þar náðist þessi fína mynd.  Þeir sem vita hvað þetta fiðrildi heitir, eru vinsamlegast beðnir um að senda okkur línu á dora@djupivogur.is  HDH

Frá bókasafninu

Ég vil minna ykkur á að nú er vetraropnun bókasafnsins komin í gildi og verður í vetur opið eins og í fyrra, þ.e. á þriðjudögum frá 17:00 - 19:00 og fimmtudögum frá 19:30 - 21:30.  Töluvert hefur verið keypt af nýjum bókum og eigum við nú allar bækurnar í bókaseríunni eftir Anna B. Ragde (Berlínaraspirnar, Kuðungakrabbarnir og Á grænum grundum).  Fleiri bækur væntanlegar.  KBG

Skólaheilsugæsla

Sl. fimmtudag kom Jónína Óskarsdóttir, skólahjúkrunarfræðingur í heimsókn í skólann.  Hún fræddi nemendur m.a. um inflúensu A(H1N1).  Fjallaði hún m.a. um mikilvægi hreinlætis, handþvottar o.fl.  Frekara upplýsingar um inflúensuna má finna á:  http://influensa.is/  HDH

09.09.2009

Til umhugsunar

Það er mál manna sem heimsótt hafa Djúpavog á liðnum árum að bærinn okkar sé snyrtilegur og umfram allt fallegur og yfir því eigum við að sjálfsögðu öll að vera stolt, því með með góðri umgengni og snyrtimennsku styrkjum við ímynd okkar bæði inn á við sem út á við.  
En um leið og gleðjast má yfir fegurð bæjarins og góðri umgengni í flesta staði finnast undantekningar og nú finnst undirrituðum full ástæða til að gera að umtalsefni hér á vefnum okkar ákveðið efni sem getur ekki verið yfir umræðu hafið á þessum opinbera vettvangi okkar.  Hér skal því gert að umtalsefni miður góð umgengni um ákveðin verðmæti í eigu sveitarfélagsins og önnur óbein verðmæti sem okkur snertir.  Nú háttar þannig til að einhver/einhverjir virðast finna jöfnum höndum hjá sér hvöt að skemma hluti sem lagðir hafa verið bæði mikil vinna og fjármunir í á liðinum árum.  
Eins og bæjarbúum er kunnugt var fyrir nokkuð margt löngu settir niður fallegir ljósastaurar með göngustígum í bænum nánar tiltekið frá versluninni Við Voginn og yfir Bjargstúnið og annarsvegar upp Klifið.
Nú er svo komið að flestir þessara dýrkeyptu staura sem settir voru niður til fegrunar á sínum tíma hafa verið skemmdir mikið  á liðnum árum og má heita að sumir þeirra séu nú ónýtir með öllu þar sem þeir hafa verið grýttir mjög illa og eða notað á þá barefli einhversskonar.
Fyrir liggur að mjög erfitt er að útvega nýja skerma og ljós á þessa staura og er því skaðinn umtalsverður. 
Í annan stað virðist það nánast árleg uppákoma að ljóskastarar við listaverkið sem felldir hafa verið ofan í stallinn hafa verið brotnir og það gerist því miður ekki óvart.  Glerið í ljósakösturum þessum er sérstaklega sterkt, en það þolir hinsvegar ekki hvað sem er og þegar grjóthnullungum er kastað endurtekið ofan á gler þessi þá gefa þau sig á endanum og þá tvístrast glersallinn út um nærsvæði listaverksins með þeim umhverfisspjöllum sem því fylgir.  
Fyrir skemmstu var einmitt gler brotið í einum kastaranum við listaverkið og hlýtur það að teljast afskaplega dapurlegt að enn og aftur skuli þurfa að endurnýja þennan búnað með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn, auk þrifa á glersallanum á svæðinu.  Hvernig sem á því stendur virðist þessi þráhyggja viðkomandi að skemma endurtekið sömu hlutina hér í bænum benda til þess að sömu aðilar eigi oft í hlut og þá líklegast þeir sömu og virðast hafa þráhyggju fyrir því að mæta reglulega inn á vegagerðarlóð sem við köllum og brjóta þar reglulega rúður í bifreiðum sem þar standa ýmist til geymslu eða bíða þess að verða settir í brotajárn.  Sem dæmi var settur fólksbíll nú síðsumars inn á lóðina í geymslu og þá liðu ekki margir dagar þangað til allar rúður höfðu verið brotnar í honum og var bíllinn dældaður að auki.  Í alla staði er hér um alvarlega verknaði að ræða því bæði er erfitt að laga það sem skemmt hefur verið og í mörgum tilfellum mjög kostnaðarsamt.   

Í ljósi þessa eru íbúar beðnir um að hafa augun opin og gera viðvart ef þeir verða vitni að skemmdarverkum sem þessum því hér er um sameiginlegar eigur okkar íbúana að ræða og því sárt að horfa endurtekið upp slíkt virðingarleysi gagnvart þeim verðmætum sem hér eru í bænum.    
Markmið okkar hlýtur í hvert sinn þegar slíkt kemur upp á að reyna að finna hver er valdur að skemmdum sem þessum svo hægt verði að kalla eftir að sá er tjóni veldur bæti það að fullu. Ef hinsvegar ábendingar berast ekki um skemmdarverk af þessu tagi er einsýnt að leikurinn heldur áfram með öllu því tjóni sem af hlýst. 
Tökum því höndum saman og reynum að uppræta slíka umgengni í eitt skipti fyrir öll. 

                         Með umhverfiskveðjum
                         Form.Umhverfisnefndar Djúpavogshr.
                         Andrés Skúlason


Þessi staur er lítið augnayndi í dag og svona eru þeir margir hverjir útlítandi


Ljóskerið undir listaverkinu fær jöfnum höndum að kenna á því

   
 Í þúsund molum og glersalli á víð og dreif, hverjum líður betur með þetta ? 

                                                                               

  Þessi bíll var óskemmdur fyrir mánuði síðan, skyldi gerandi verið reiðubúin að greiða fyrir tjónið ? Það má kannski gera við fyrir þrjúhundruðþúsund.                                                                                             

Leikjanámskeið Neista - umfjöllun og myndir

Umf. Neisti hefur í sumar haldið 3 leikjanámskeið fyrir börn á aldrinum 4-7 ára. Þátttaka hefur verið góð og alltaf er mikið stuð í tímunum, þar sem börnin skemmta sér í ýmsum leikjum og gönguferðum.

Síðasta leikjanámskeið sumarsins var í síðustu viku, en þá var endað á því að fara í ferð út á sanda að gera sandkastala. Hjálpuðust börnin að við að gera einn stórann sandkastala, skreyta hann með beinum og ýmsu öðru tilfallandi en einnig var lagður vegur að kastalanum. Þegar búið var að mynda hópinn hjá kastalanum var “auðvitað“ næst á dagskrá að rífa bygginguna ... og því var kastalinn jafnaður við jörðu (með miklum látum) áður en við héldum heim.

Hér má sjá myndir úr ferðinni.

SDB

Göngum í skólann 2009

Á morgun, miðvikudaginn 9. september hefst átakið "Göngum í skólann" í þriðja sinn.  Nemendur eru hvattir til að ganga eða hjóla í skólann í heilan mánuð.  Haldið verður utan um þátttökuna í skólanum og það skráð samviskusamlega hverjir taka þátt.
Börnum úr dreifbýli verður hleypt úr skólabílunum við Samkaup-Strax, þannig að þau geta tekið fullan þátt í verkefninu.
Á morgun eru foreldrar / forráðamenn sérstaklega hvattir til að ganga / hjóla með börnunum í skólann, til að hefja átakið sem lýkur formlega 9. október nk.  Dagskrá þann dag verður auglýst síðar.
Með von um góða þátttöku.  HDH

Haustganga

Haustgangan var farin 1. september sl.  Nemendur 1.-5. bekkjar fóru upp í Hálsaskóg, en nemendur 6. - 10. bekkjar fóru út á sanda.  Myndir eru hér.  HDH

07.09.2009

Gönguferð í góða veðrinu

Nemendur 1. og 2. bekkjar fóru í gönguferð í góða veðrinu um daginn.  Hér eru myndir.  HDH

07.09.2009

Kartöfluuppskeran!!

Í vor settu þáverandi nemendur 1. og 2. bekkjar niður 8 kartöflur, eina á mann.  Í síðustu viku fóru börnin, ásamt núverandi fyrstu bekkingum og Þórunnborgu til að vitja um uppskerinu.  Heldur voru þau hróðug þegar þau bönkuðu upp á skrifstofu skólastjóra til að sýna mér afraksturinn.  Þótti við hæfi að taka mynd af herlegheitunum.  Guðný og börnin munu síðan útbúa gómsæta kartöflurétti í heimilisfræðinni í haust.  HDH

07.09.2009