Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Sjálfsmatsskýrsla 2009

Sjálfsmatsskýrsla Grunnskóla Djúpavogs er nú tilbúin.  Í henni má finna upplýsingar um sjálfsmatsvinnu vetrarins og upplýsingar um úttekt sl. fimm ára á vegum menntamálaráðuneytisins.  Til að lesa skýrsluna þá farið þið inn á heimasíðu grunnskólans, veljið "Sjálfsmat" á stikunni til vinstri og síðan ártalið 2008 - 2009.  Þar má einnig finna fylgiskjölin sem eiga við skýrsluna t.d. þriggja ára áætlun og úrbótalista. 
Skýrslan verður send til sveitarstjórnar og skólanefndar til kynningar.  HDH

Skólaslit

Skólaslitin fóru fram í grunnskólanum sl. laugardag.  Að venju fór athöfnin fram uppi í kirkju.  Leikskólastjóri útskrifaði sína 6 ára nemendur og voru þeir formlega boðnir velkomnir í skólann með því að afhenda þeim bókina:  "Að byrja í grunnskóla."  Þá voru nemendur 10. bekkjar útskrifaðir auk þess sem aðrir nemendur skólans fengu einkunnamöppur sínar afhentar.  Samsöngsnemendur fluttu nokkur lög og athöfnin endaði á því að allir sungu skólasönginn saman.
Síðan var haldið upp í skóla þar sem sýningar voru á verkum nemenda, myndasýning sem sett var saman í tilefni af 120 ára afmæli skólans á síðasta ári.  Nemendur sýndu látbragðsleik í tengslum við ratleikinn sem þeir fóru í um daginn.  Þar léku þeir ýmis örnefni í sveitarfélaginu af stakri snilld.
Skólastjóri vill þakka nemendum og forráðamönnum samveruna hér á heimasíðunni sl. vetur og einnig þeim fjölmörgu sem kíkja reglulega inn á síðuna til að fá fréttir af skólastarfinu.  Skólinn næsta vetur hefst með opnu húsi þann 21. ágúst nk. og verður það auglýst nánar þegar nær dregur. 
Myndir af skólaslitum eru hér.  HDH

02.06.2009