Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Uppstigningardagur

Í tilefni af uppstigningardegi unnu nemendur 3. og 4. bekkjar verkefni hjá Unni í kristinfræðitíma.  Eins og sjá má af myndunum var mikill áhugi hjá börnunum og veggspjaldið sem þau bjuggu til, hið glæsilegasta.  HDH

22.05.2009

Ratleikur 2009

Hinn árlegi ratleikur í skólanum fór fram fyrir viku.  Nú loksins er skólastjórinn búinn að koma því í verk að fara í gegnum myndirnar og koma þeim á heimasíðuna. 
Mjög gaman var í leiknum að þessu sinni, eins og reyndar alltaf.  Nemendum skólans var skipt í sex lið, þvert á bekki.  Þemað að þessu sinni var grenndarnám.  Nemendur þurftu að fara á 11 mismunandi stöðvar í þorpinu og fengu vísbendingar á hverri stöð um það hvert skyldi halda næst.  Á hverri stöð fyrir sig þurftu krakkarnir að leysa ákveðin verkefni, t.d. greina fiska á Fiskmarkaðnum, tré í trjálundinum hjá Erlu og Ingimar, steina í Steinagötunni, skordýr við Fýluvog, fjöll uppi á Bóndavörðu, fuglahljóð inni í skóla, egg við fuglasafnið o.s.frv. 
Þegar allir hóparnir voru komnir upp í skóla tók síðasta þrautin við uppi á sparkvelli.  Þar þurftu liðin að leika eitt örnefni hvert.  Örnefnin sem hóparnir drógu um voru:  Fýluvogur, Hvíldarklettur, Kýrklettur, Hlauphólar, Hamarsá og Gleðivík.  Útfærslur hópanna á örnefnunum voru alveg frábærar og greinilegt að hugmyndaflugi þeirra eru engin takmörk sett.  Sigurvegarnir fengu að launum ísveislu í Við Voginn.  Myndir eru hér.  HDH

Langafi prakkari

Möguleikhúsið heimsótti nemendur grunn- og leikskólans sl. föstudag.  Þar voru þau á ferðinni með sýninguna "Langafi prakkari."  Mjög gaman var á sýningunni og eru myndirnar hér.  HDH

19.05.2009

Tónlist fyrir alla - Hundur í óskilum

Í gær heimsótti grunnskólann dúettinn Hundur í óskilum. Heimsóknin er liður í verkefninu Tónlist fyrir alla og er óhætt að segja að þeir félagar hafi vakið mikla lukku meðal nemenda og kennara með stórkostlegum flutningi á klassískum tónlistarperlum, sem þeir voru aðeins búnir að lagfæra eftir sinni uppskrift.

Við þökkum þeim Eiríki og Hjörleifi kærlega fyrir tónleikana og vonumst til að fá þá aftur sem fyrst í heimsókn.

Myndir má sjá hér.

ÓB

 

Fuglatalning 7. og 8.

Nemendur 7. og 8. bekkjar fóru í fuglatalningarferð með Albert.  Er það hluti af grenndarnámi bekkjarins.  Myndir eru hér.  HDH

18.05.2009

Könnun hjá 5. og 6. bekk

Í dag voru strákarnir í 5. og 6. bekk mjög spenntir fyrir úrslitum í Idol keppninni í kvöld og Eurovision keppninni á morgun.  Þeir tóku sig til og gerðu könnun í bekknum og síðan fengu Gestur, Unnur og Dóra að vera með þar sem þau voru að fylgjast með því sem fram fór.  Niðurstaðan er sú að allir eru á því að Hrafna sigri í Idolinu, Flestir spá Noregi sigri í Eurovision og síðan er dreifingin á því hvar menn halda að Ísland endi annað kvöld, frá 1. - 16. sæti.  Könnunin er hér fyrir neðan.  HDH

Nafn

Idol

Eurovision

Sæti Íslands í Eurov.

Ragnar

Hrafna

Noregur

8

Óliver

Hrafna

Noregur

9

Tómas

Hrafna

Tyrkland

7

Bjartur

Hrafna

Noregur

10

Sævar

Hrafna

Noregur

8

Anton

Hrafna

Finnland

14

Guðjón

Hrafna

Noregur

9

Gestur

Hrafna

Bosnia

16

Unnur

Hrafna

Ísland

1

Dóra

Hrafna

Albanía

7

15.05.2009

Námshestar í apríl

Námshestaverðlaun fyrir aprílmánuð voru veitt í gær.  Það er gaman að segja frá því að frá því verkefnið fór af stað í febrúar hefur bæting ástundunar og hegðunar verið mikil.  Í febrúar voru 53% nemenda Námshestar, í mars 58% og nú í apríl voru það 79% nemenda sem unnu sér inn verðlaun.
Unnur og Halldóra voru búnar að undirbúa leik og nesti og fóru með 19 nemendur 5. - 9. bekkjar inn í Hálsaskóg.  Þar skiptu þær krökkunum í fjögur lið.  Leikurinn fólst í því að finna fjársjóð sem var falinn á milli trjánna og klettanna.  En það var ekki það eina, því á meðan leitin að fjársjóðnum stóð yfir máttu nemendur "fella" meðlimi hinna liðanna, með því að rífa af þeim einkennismerki liðsins.  Þegar búið var að útskýra leikinn fyrir krökkunum (og fela fjársjóðinn) þá fengu liðin fyrirmæli um að fela sig á ákveðnum stöðum í skóginum.  Svo var byrjað.  Ekki leið á löngu þar til græna liðinu tókst fyrirhafnarlítið að skila fjársjóðnum á tiltekinn stað.  Hinum liðunum fannst þetta nú ekki nógu gott og báðu um annan leik.  Það var auðsótt.  Halldóra dreif sig aftur af stað með fjársjóðinn, á meðan Unnur tók liðamyndir.  Síðan var aftur öskrað "byrja" og heldur var þessi leikur fjörugri en sá fyrri.  Eins og sjá má af myndunum hér á eftir endaði seinni leikurinn á æsispennandi keppni, þar sem bláa liðið fann fjársjóðinn en með harðfylgi tókst græna liðinu að fella nokkra liðsmenn bláa liðsins, ná fjársjóðnum og standa aftur uppi sem sigurvegarar.
Að keppninni lokinni fengum við okkur kex og Svala og röltum síðan til baka.  Skemmtilegur dagur og skemmtilegar myndir eru hér.  HDH og UMJ

1. og 2. bekkur í könnunarleiðangri

Fyrir nokkru fóru nemendur 1. og 2. bekkjar í könnunarleiðangur hér upp í klettana.  Eins og við var að búast var margt að skoða, vetrarblóm, steinar, mold, mosi o.m.fl.  Hér má finna skemmtilegar myndir úr ferðinni.  HDH

07.05.2009