Djúpivogur
A A

Grunnskóli

Jólaball Grunnskólans og Hótel Framtíðar

Sameiginlegt jólaball Grunnskóla Djúpavogs og Hótel Framtíðar fór fram nú í morgun. Undirritaður brá sér niður á hótel og skaut af nokkrum myndum þar sem dansinn í kringum jólatréð dunaði undir framúrskarandi undirleik Józsefs, tónskólanemendanna Auðar og André og forsöngvarans Berglindar. Stuttu seinna reimaði Bryndís á sig dansskóna og tók fleiri myndir.

Myndir má sjá með því að smella hér.

Texti: ÓB
Myndir: ÓB/BR

 

 

 

 

 

Gleðileg jól

Starfsfólk og nemendur Grunnskóla Djúpavogs óska íbúum Djúpavogshrepps og öðrum velunnurum sveitarfélagsins, gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.  Jólakveðjur frá okkur öllum.  HDH

18.12.2009

Jólaball fyrir alla

Hótel Framtíð og Grunnskóli Djúpavogs ætla að halda sameiginlegt jólaball á hótelinu, föstudaginn 18. desember.  Ballið hefst klukkan 10:30 og því lýkur um klukkan 12:00. 
Hugmynd þessi kviknaði fyrir nokkrum árum og hefur nú verið ákeðið að koma henni í framkvæmd.  Allir íbúar eru boðnir velkomnir.  Nemendur grunnskólans, ásamt Berglind og József leiða sönginn, lesin verða jólaljóð og jólasaga auk þess sem við erum búin að senda boðskort til jólasveinanna.  Vonumst við til þess að einhverjir þeirra gefi sér tíma til að kíkja í heimsókn með góðgæti í poka.  Hótelið býður gestum upp á kaffi, te og djús. 
Vonumst til að sjá sem flesta. 
Starfsfólk Hótels Framtíðar og Grunnskóla Djúpavogs. 

Grunnskólaheimsókn

Í morgun fóru elstu börnin í leikskólanum í heimsókn upp í grunnskóla en tilgangur ferðarinnar var að hitta 1. og 2. bekkinga og gera með þeim jólaföndur.  sjá má myndir frá heimsókninni hér.

ÞS

Námshestar í nóvember

Námshestar nóvembermánaðar hittust í heimilisfræðinni í morgun.  Verðlaunin að þessu sinni voru það að skreyta piparkökur.  Það fór þannig fram að nemendum var skipt í þrjá hópa og átti hver hópur að velja ákveðið þema fyrir sínar kökur.  Gefin voru stig fyrir samvinnu, frumleika, nýtni, frágang o.fl. 
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er hugmyndaauðgi barnanna ótrúleg.  Einn hópurinn valdi þemað:  "Bleikt og blátt," annar valdi "Skraut" og sá þriðji "Fána." 
Á meðan á skreytingunni stóð fengum við gestadómarann Rökkva Pálmason til að aðstoða okkur og var greinilegt að hann langaði mikið til að smakka.
Næstu námshestaverðlaun verða veitt fyrir desember og janúar.  Sérstök verðlaun verða veitt á foreldraviðtölum, til þeirra barna sem hafa einn eða engan punkt eftir önnina.  Myndir eru hér.  HDH

Frá bókasafninu

Vegna óviðráðanlegra orsaka verður bókasafnið lokað á fimmtudaginn, 10. desember.
Opið verður eins og venjulega fram að jólum.
Bókasafnsvörður

1. bekkur kom í heimsókn

Í síðustu viku kom fyrsti bekkur í heimsókn í leikskólann með bekkjarkennara sínum.  Tóku tilvonandi nemendur fyrsta bekkjar á móti þeim en í ár eru tveir nemendur í leikskólanum sem fara í grunnskóla næsta vetur.  Spjölluðum við saman um hvernig væri að vera í skóla og leikskóla og síðan fengu nemendurnir að byggja úr einingakubbum.  Urðu til margar flottar byggingar eins og sjá má á myndunum sem hér fylgja en fleiri myndir eru hér.

 

ÞS

Ígulker í heimsókn

Starfsfólkið í Ósnesi var svo elskulegt að senda okkur margs konar sýnishorn af botnlífverum, sem veiðst hafa sl. daga.  Margt skemmtilegt var að skoða, t.d. ígulker, krossfiskur, kuðungakrabbar, beitukóngur, kórallar o.fl.  Kennarar nýttu grenndarnámstímana í dag, í að skoða lífverurnar hjá nemendum og vöktu þær mikla lukku eins og sjá má á myndunum hér.  Við þökkum starfsfólkinu í Ósnesi kærlega fyrir.  HDH

Frá grunnskólanum / foreldrafélaginu

Ákveðið hefur verið, af stjórn foreldrafélagsins að árlegt jólaföndur fari fram í grunnskólanum, þriðjudaginn 1. desember, frá klukkan 17:00 - 19:00.  Hægt verður að kaupa föndur á staðnum.  Einnig verður kaffihús á vegum 6. og 7. bekkjar á sama tíma.  Allir íbúar eru hjartanlega velkomnir.

Einnig stendur til að selja geisladiska með árshátíðum sl. tveggja ára, þ.e. Grease og Kardemommubæinn.  Nemendur grunnskólans fá senda miða heim, þar sem foreldrar geta lagt inn pöntun en einnig verða sett pöntunareyðublöð í Samkaup-Strax og Við Voginn þar sem fólk getur lagt inn pöntun.  Verður þetta gert á allra næstu dögum. 

Þá verður foreldrafélagið með "bás" á markaði kvenfélagsins í Löngubúð þann 28. nóvember þar sem geisladiskarnir og lakkrís verða til sölu.  HDH / foreldrafélagið

 

Gestavika

Nú stendur yfir Gestavika í skólanum.  Aðstandendur barnanna eru sérstaklega boðnir velkomnir í heimsókn þessa vikuna.  Í morgun lék undirrituð mömmu og fór í tjáningartíma hjá Berglind.  Þar voru fleiri foreldrar og vorum við svo einstaklega heppin að læra að dansa "Thriller" dans með Michael Jackson.  Sýndum við ótrúlega tilburði.
Foreldrar hafa einnig fylgst með samsöng, farið í smíðatíma og tölvutíma auk stærðfræði, íslensku o.fl.  HDH

Fleiri myndir frá árshátíð

Hún Dröfn Freysdóttir var svo almennileg að senda okkur fleiri myndir frá árshátíðinni.  Þær má finna hér.  HDH

Árshátíð

Eins og flestir vita fór árshátíðin í grunnskólanum fram sl. föstudag.  Húsfyllir var og voru gestir komnir víða að.  Greinilegt að hróður ræningjanna þriggja og Soffíu frænku hefur borist víða.  Ljóst er að svona sýning getur ekki orðið að veruleika nema allir hjálpist að og er gaman að sjá hversu öruggir krakkarnir eru orðnir á sviðinu og syngja og dansa eins og þau hafi aldrei gert annað.  Þegar eru komnar upp hugmyndir að efni fyrir næstu árshátíð og verður spennandi að sjá hvað verður fyrir valinu.  Myndir eru hér.  (Ef erfitt er að nálgast myndirnar í gegnum þessa frétt má alltaf fara inn á síðu skólans, velja þar MYNDASÍÐU - Myndir 2009 - Nóvember - Árshátíð).  HDH

Baujunámskeið

Nú hafa nægilega margir skráð sig á Baujunámskeiðið til að hægt sé að halda það, nk. fimmtudag eins og auglýst var.  Það hefst klukkan 20:00 í Grunnskólanum.  Þátttökugjald er 1.000.- krónur en auk þess styrkja grunnskólinn, leikskólinn og foreldrafélög skólanna námskeiðið.  Enn er pláss fyrir fleiri ef áhugi er fyrir hendi.  Þátttaka tilkynnist til Dóru á dora@djupivogur.is eða Guðrúnar á gudrun@djupivogur.is   HDH

Árshátíð

Góðir Djúpavogsbúar og nærsveitungar.
Á morgun, föstudag verður árshátíð Grunnskóla Djúpavogs á Hótel Framtíð.  Hún hefst klukkan 18:00 og kostar 500.- krónur inn.  Ókeypis er fyrir börn á leikskóla og eldri borgara.  Sýnt verður leikritið Kardemommubærinn.
Vonumst til að sjá sem flesta.  Starfsfólk og nemendur.

Undirbúningur fyrir árshátíð

Undirbúningur fyrir árshátíð stendur nú sem hæst.  Segja má að allt sé á áætlun þó svo að við höfum lent í töluverðum vandræðum með ræningjagengi sem herjað hefur á skólann.  Er um að ræða þrjá dularfulla náunga sem bera nöfnin Kasper, Jesper og Jónatan og er fólk beðið um að hafa varann á og læsa húsum á kvöldin.  Það sem verra er að þeir eru ekki einir á ferð, heldur hafa með sér þrjú risastór og grimm ljón, sér til fulltingis.
Starfsfólkið og nemendurnir hafa þó ekki látið ræningjagengið trufla sig við undirbúninginn og má sjá myndir af skólastarfinu þessa vikuna hér.  HDH

Baujunámskeið

BAUJUNÁMSKEIÐ

Solveig Friðriksdóttir hefur áhuga á að vera með „Baujunámskeið“ fyrir foreldra á Djúpavogi, fimmtudaginn 12. nóvember, ef næg þátttaka fæst.

Baujunámskeiðið er sjálfsstyrkinganámskeið þar sem frætt er um tilfinningar okkar og hvernig þær hafa áhrif á hegðun og líðan. Kenndar verða einfaldar aðferðir til að takast á við erfiðar tilfinningar í dagsins önn svo og slökunaröndun.

Námskeiðið er í fyrirlestrarformi, engin einstaklings- eða hópverkefni og enginn þarf að óttast að þurfa að standa upp fyrir framan hóp og tala. Námskeiðið tekur um tvo tíma.

Hægt er að fræðast nánar um Baujuna á
www.baujan.is


Solveig er með B.A. próf í sálfræði, jógakennari og hefur unnið við kennslu sl. 11 ár. Hún hefur kennt Baujuna fyrir nemendur í Grunnskólanum á Stöðvarfirði (sex námskeið). Þá hefur hún haldið tvö námskeið fyrir nemendur á Fáskrúðsfirði, eitt námskeið fyrir foreldra Grunnskólans á Stöðvarfirði, tvö námskeið fyrir starfshópa og eitt fyrir kennara á Kennaraþingi ásamt því að hafa haldið eigin fræðslufyrirlestra til persónuuppbyggingar.  (Síðasti fyrirlestur sem hún hélt var fyrir rúmlega 100 manns).

Foreldri greiðir 1.000.- kr. fyrir námskeiðið en ef báðir foreldrar koma saman kostar það 1.500.- kr.-  Grunnskólinn / leikskólinn og foreldrafélögin greiða það sem upp á vantar.  Lágmarksþátttaka eru 8 manns.

Áhugasamir hafi samband við Halldóru (dora @djupivogur.is) – 478-8246 eða Guðrúnu (gudrun@djupivogur.is) – 478-8832 fyrir 6. nóvember nk.

 

Lesblindudagurinn 2009

Lesblindudagurinn  30. október 2009.
Dagskráin verður í Fróðleiksmolanum
(Aflshúsinu á Reyðarfirði Búðareyri 1).

 

 • 12:30– 12:40 Setning:  Stefanía Kristinsdóttir.
 • 12:40 – 13:20 Auður B. Kristinsdóttir ræðir orsakir leshömlunar og úrræði.
 •  13:20 – 13:40 Reynslusaga:  Hvernig er að lifa með lesblindu?  Stefán Már Guðmundsson aðstoðarskólastjóri  Grunnskólans á Reyðarfirði.
 • 13:40 – 13:50 Kynning á þjónustu ÞNA við fullorðið fólk  með lesblindu: Bergþóra Hlín Arnórsdóttir starfsmaður ÞNA.
 • 13:50 – 14:15 Hvernig geta lesblindir nýtt sér vef Námsgagnastofnunnar og efni Blindrabókasafnsins?  Halldóra Baldursdóttir sérkennari frá Skólaskrifstofu Austurlands.
 • 14:15 – 14:35 Hver er stuðningur verkalýðsfélaga við lesblinda aðildarfélaga sína. Ragna Hreinsdóttir frá Verkalýðsfélaginu  Afli.
 • 14:35 – 14:55 kaffi.
 • 14:55-15:10 Hlutverk Skólaskrifstofunnar. Snemmtæk íhlutun, skimanir:  Jarþrúður Ólafsdóttir, Skólaskrifstofa Austurlands.
 • 15:10 – 15:25 Hugbúnaður í tölvur: Snævar Ívarsson frá Félagi lesblindra kynnir Easy tutur.
 • 15:25 – 15:45 Hvert snýr einstaklingur sér sem telur sig vera lesblindan?  Eru í boði námskeið: hraðlestrarnámskeið, „lestu betur“  o.sfr.: Snævar Ívarsson frá Félagi lesblindra ræðir stöðu lesblindra og úrræði.
 • 15:45 – 16:15 Davis leiðrétting:  Ásta Ólafsdóttir frá Vopnafirði.
 • 16:15 – 16:35 Hvernig bregst skólinn við.  Sérkennarar/námsráðgjafar – námstækni: Kolbrún Björnsdóttir náms- og starfsráðgjafi  ME.
 • 16:35 – 16:50 Kynning á Logos greiningartæki ; Björg Þorvaldsdóttir sérkennari Nesskóla.
 • 16:50 – 17:20 Opið hús spjall og frekari kynning á þeirri þjónustu sem lesblindum býðst uppá.
 • 17:20 – 17:30 Samantekt og slit

Norrænt skólahlaup

Í morgun hlupu nemendur Norrænt skólahlaup.  Fjórir foreldrar sáu sér fært að mæta og hlupu nemendur ýmist 2,5 km, 5 km eða 10 km.  Að hlaupinu afloknu bauð ÍMD nemendum í sund og skólinn bauð upp á ávexti og djús.  Ekki er annað að sjá en að nemendur hafi skemmt sér hið besta eins og sést á myndum hér.  HDH

Kennarahallæri

Sl. föstudag var kennarahallæri í skólanum.  Skólastjóri þurfti að kenna, 1., 2., 6. og 7. bekk saman og fékk nemendur 6.-7. bekkjar til að aðstoða sig.  Þau stóðu sig með mikilli prýði, eins og sjá má hér.  HDH

27.10.2009

Gróðursetning

Nemendur 3.-5. bekkjar gróðursettu fræ sl. föstudag.  Það verður fróðlegt að sjá hvort við fáum epli, appelsínur, vínber, mangó o.fl. með vorinu.  Myndir eru hér.  HDH

27.10.2009

Norrænt skólahlaup

Norrænt skólahlaup

Á morgun, þriðjudag 27. október, verður hlaupið Norrænt skólahlaup.  Hlaupið hefst klukkan 9:40 og að því loknu fá allir að fara í sund, þar sem boðið verður upp á ávexti og djús.

1.– 2. bekkur hlaupa 2,5 km
3.– 5. bekkur mega velja 2,5 eða 5 km
6. – 10. bekkur mega velja 5 km eða 10 km 
Þeir nemendur sem hlaupa 2,5 km eru í sundi til 11:00, aðrir til 12:00.

Allir foreldrar og aðrir íbúar eru velkomnir.

Nemendur mæti í góðum skóm og skjólfatnaði.  Einnig að muna eftir sundfötum.

Skólastjóri

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Norræni loftslagsdagurinn

Norræni loftslagsdagurinn verður haldinn 11. nóvember nk.  Nánar upplýsingar má finna hér.  HDH

19.10.2009

Fuglaskoðunarferð 3.-5. bekkjar

Í morgun fóru nemendur 3.-5. bekkjar í fuglaskoðunarferð, ásamt kennara.  Tilgangurinn var að athuga hvaða fugla helst væri að finna í þéttbýlinu á þessum árstíma.  Ekki vissum við svo sem, þegar við lögðum af stað, á hverju við ættum von en það gladdi okkur að sjá alls átta tegundir og heyra í þeirri níundi.  Fuglarnir sem við sáum voru:  hrafnar, gæsir, skógarþröstur, sendlingar, máfar, þ.m.t. hettumáfur, æðarfuglar, dílaskarfur og svo heyrðum við í hávellum.  Við fórum niður á smábátabryggju og síðan yfir í Ytri-Gleðivík.  Þar var margt að sjá einnig.  Á leiðinni þangað hittum við Snæbjörn og hvolpinn hans og vakti hann mikla lukku.  Á heimleiðinni kíktum við í fuglasafnið og renndum okkur nokkrum sinnum niður brekkuna við Klörubúð.  Þetta var mjög skemmtileg og lærdómsrík ferð, eins og sjá má hér.  HDH

Sundlaugarpartý

Föstudaginn, fyrir viku, voru fyrstu Námshestaverðlaunin veitt.  Nemendur sem höfðu einn eða engan punkt í september fengu að fara í sundlaugarpartý í sundlauginni.  Boðið var uppá ávexti og djús og var starfsfólkið í ÍMD svo almennilegt að leyfa krökkunum að borða í lauginni.  Eins og myndirnar hér bera með sér var mikið fjör í lauginni.  HDH

16.10.2009

Stærðfræði 5. bekkur

Nemendur 5. bekkjar voru í stærðfræðispili í morgun.  Fengu að skreyta töfluna í lokin.  Myndir eru hér.  HDH

07.10.2009

Tölvugjafir í skólann

Fyrir nokkru sendi skólastjóri "betlibréf" til helstu fyrirtækja og félagasamtaka sem hafa aðsetur og / eða starfsemi í Djúpavogshreppi.  Tilgangurinn var að biðja fyrrnefnda aðila um að vera svo elskulegir að gefa skólanum andvirði 1-2 tölva.
 
Forsaga málsins er sú að eitt af markmiðum skólans er að bjóða nemendum upp á tölvukennslu "eins og best verður á kosið hverju sinni".  Síðustu 2-3 ár má segja að við höfum ekki náð að koma til móts við þessi markmið, þar sem gömlu tölvurnar voru orðnar mjög hægvirkar og náðu ekki að keyra öll þau forrit sem ætlast er til að börnin læri á í dag.  Ljóst var að skólinn hefði ekki bolmagn til að ráðast í verkefnið, að þessu sinni og því var "betlibréfsleiðin" valin.

Send voru út fjórtan bréf og í raun vissum við ekki hverjar viðtökurnar yrðu.  En í ljós kom að hér í sveitarfélaginu eru fyrirtæki og félagasamtök sem hafa metnað fyrir hönd skólans síns og bera hag barnanna fyrir brjósti.  Alls náðist að safna fyrir 7,5 tölvum.  Þau fyrirtæki sem gáfu okkur tölvur eru:

Samkaup - Strax, 2 tölvur
Ósnes, 2 tölvur
Kvenfélagið Vaka, 2 tölvur
Lionsklúbbur Djúpavogs, 1 tölva
Styrktaraðili sem ekki vill láta nafns síns getið, 30.000.-


Við hér í skólanum sendum forsvarsmönnum þessara fyrirtækja / félagasamtaka hinar bestu þakkir fyrir og óskum þeim velfarnaðar við leik og störf.  HDH

Forvarnardagurinn og alþjóðlegi skólamjólkurdagurinn

Dagurinn í dag er tileinkaður tveimur verkefnum; forvarnardeginum og alþjóðlega skólamjólkurdeginum.
Í morgun tóku nemendur 9. bekkjar þátt í verkefnum forvarnardagsins, horfðu á myndband og skiluðu inn niðurstöðum úr hópvinnu.  Síðan fóru þeir heim með verkefni til að skila á netinu en möguleikar eru á góðum vinningum.
Þá var alþjóðlegi skólamjólkurdagurinn sem felst annars vegar í myndasamkeppni fyrir 4. bekk og hins vegar í því að nemendur skólans fá mjólk gefins.  Mjólkin verður afhent á morgun, fimmtudag.   HDH

30.09.2009