Fuglavefur
Hláturmáfur
Í dag tilkynnti Sigurjón Stefánsson hláturmáf á hafskipabryggjunni á Djúpavogi. Þegar ljósmyndari mætti á svæðið sat máfurinn hinn spakasti á bryggjukantinum og lét sér hvergi bregða þegar ljósmyndari nálgaðist hann og smellti nokkrum af honum. Hláturmáfar eru sjaldgæfir flækingar. AS
http://ruv.is/frett/hlaturmavur-a-djupavogi
Branduglur og eyruglur á ferðinni
Óvenjulega mikið hefur verið um uglur hér á Djúpavogi að undanförnu og hefur mátt sjá bæði brand- og eyruglur.
Um helgina mátti m.a. sjá 4 branduglur, liklega fjölskylda á ferðinni fljúga fram og aftur milli húsagarða í bænum og voru þær mest áberandi í görðum við götuna Hamra. Þá kom húsfreyjan á Bragðavöllum Þórunnborg færandi hendi með eyruglu í dag sem hafði flogið á rúðu á bænum og lá dauð við útidyrnar í morgun. AS
Hettusöngvari
Töluvert er af flækingsfuglum á ferðinni í húsagörðum á Djúpavogi þessa dagana. Ásdís Þórðardóttir tilkynnti m.a. hettusöngvara í garði sínum í vikunni þar sem hann var að gogga í epli, en Ásdís er einmitt mjög dugleg að setja út í garðinn ýmiskonar fæði fyrir smáfuglana. AS
Ljósmynd. Sigurður Ægisson
Smáfuglar á ferð
Að undanförnu hefur verið töluvert á ferðinni af algengum smáfuglaflækingum í húsagörðum hér á Djúpavogi og í nágrenni. Sigurjón Stefánsson tilkynnti m.a. hóp af störrum, svo og nokkra svartþresti auk gráþrastar. Albert J. tilkynnti 2 fjallafinkur, gráþröst og svartþresti í dag og svo fréttist af branduglu og dauðri vepju um borð í línuveiðara sem kom að landi hér í síðustu viku. AS
Svartþrestirnir mættir
Í dag mátti sjá töluvert af svartþröstum fljúga á milli húsagarða á Djúpavogi. AS
Glókollar á ferð í Hálsaskógi
Að undanförnu hafa nokkrir glókollar verið á sveimi í Hálsaskógi en þessum minnstu landnemum í fuglafánunni hefur fjölgað nokkuð ört hér á landi á síðustu árum. Nú hefur að auki verið staðfest varp glókolls í Hálsaskógi og er það að sjálfsögðu fagnaðarefni. Í gær þegar þessar myndir voru teknar í Hálsaskógi mátti sjá am.k. fjóra glókolla á sveimi á fremur litlu svæði. AS
Toppskarfar í Papey með unga
Í dag sendi Stefán Guðmundsson hafnarvörður á Djúpavogi heimsíðunni fágætar myndir af toppskarfi sem heldur til í Papey og ekki nóg með það heldur náði hann myndum af skarfinum á hreiðri með tvo unga sér við hlið. Á síðasta ári var staðfest að toppskarfur hefði sést í eyjunni á hreiðri en nú hafa þar sést tvö hreiður. Toppskarfar eru fáséðir hér austur á fjörðum en þeir halda sig að mestu við Breiðafjörð. Má með sanni segja að hér sé um kærkomna viðbót að ræða við hið fjölskrúðuga fuglalíf á svæðinu og er vonandi að toppskarfurinn sé komin til að vera í Papey. Heimasíðan þakkar hér með Stefáni kærlega fyrir myndirnar. AS
Krían
Krían er nú að verða meira áberandi á svæðinu en stakar kríur hafa til þessa sést á undanförnum vikum.
Garðaskotta
Garðaskotta hefur haldið sig á undanförnum dögum í garðinum hjá Stefáni Guðmundssyni en ljósmyndari hefur ekki náð af henni mynd enn sem komið er. AS
Merkt margæs
Í gær mátti sjá merkta margæs við flugvöllinn á Búlandsnesi, sjá meðfylgjandi mynd og bókstafinn P á hægri færi, ekki gafst ráðrúm að lesa af merkinu áður en fuglinn tók sig aftur til flugs. AS
Súla
Í síðustu viku synti súla inn í Djúpavogshöfn og settist þar upp í fjöru. Súlan var mjög róleg og var greinilegt að eitthvað hrjáði hana, enda kom á daginn að fuglinn var nokkru síðar allur. Skúli Benediktsson tók þessar myndir af súlunni á síðustu andartökunum ef svo má segja. AS
Rákönd
Sigurjón Stefánsson meldaði rákönd á Hvaleyjarvatni í dag þar sem hún hélt sig innan um urtendur sem henni svipar sannarlega til. Aðeins hvít rák á búk framan við væng. AS
Grafönd - kjói - maríuerla
Í dag sá Kristján Ingimarsson, grafönd og kjóa við Nýjalón og eru líklega nýlega mætt á svæðið, og síðan maríuerlu við bræðsluna við Gleðivík. AS
Lífið á leirunum - Álftafjörður
Gríðarlega mikið og fjölbreytt fuglalíf er í Álftafirði eins og áður hefur komið fram, þar er þó lífríkið sýnu mest á leirunum sem sjá má vel yfir frá þjóðveginum við botn fjarðarins. Álftafjörðurinn er mjög grunnur og því koma leirurnar vel upp þegar fjarar út þannig að svæðið er sannarlega kjörlendi fugla sem gogga upp lirfur og fl. Meðfylgjadi myndir eru teknar á leirunum fyrir fjórum dögum og má vel sjá hve gríðarlegur fjöldi fugla sópast þarna að svæðinu, en jaðrakan er þarna í miklum meirihluta ásamt minni vaðfuglum, lóuþræl, sandlóu, stelkum og fl og fl. AS
Albinói - heiðagæs í Álftafirði
Í dag tilkynnti Rúnar Gunnarsson bóndi á Hnaukum um sérkennilega gæs á túni við Selá í Álftafirði. Þegar ljósmyndari mætti á staðinn seinni partinn í dag kom í ljós að þarna var á ferð heiðagæs - albinói í mjög ljósum búning. Sjá meðfylgjandi myndir. Heimasíðan þakkar Rúnari hér með fyrir tilkynninguna. AS
Fjallafinka
Í dag náði ljósmyndari heimsíðunnar mynd af fjallafinku í garði við húsið Sólhól á Djúpavogi. AS
Lundi
Að undanförnu hefur sést til lunda í Berufirði þannig að búast má við að hann sé farin að setjast upp í Papey.
Kristján Ingimarsson tilkynnti fyrsta lundann fyrir nokkru síðan í Berufirði og hefur þeim fjölgað töluvert síðan. AS
Steindepilinn mættur
Í dag tilkynnti Albert Jensson fyrsta steindepilinn á þessu vori, auk þess sem hann sá 10 hvinendur, 7 gargendur og skeiðandarpar á vötnunum við Búlandsnes. AS
Grákráka á Hnaukum
Í dag meldaði Skúli Benidiktsson grákráku við bæinn Hnauka í Álftafirði, en krákan hélt sig þar framundir miðjan dag þegar hún lét sig hverfa og náðust ekki myndir af henni, en aldrei að vita nema hún láti sjá sig aftur. AS
Hrossagaukarnir flykkjast inn
Töluvert mikið hefur sést að hrossagauk að undanförnu, en rúm vika er síðan fyrstu gaukarnir voru tilkynntir hér fyrst inn á þessu vori. AS
Bláheiðir ?
Albert Jensson tilkynnti ránfugl á flugi við gatnamót þjóðvegar og Djúpavogsafleggjara í dag og taldi allt eins líklegt að þar hefði getað verið bláheiðir á ferð en gat þó ekki staðfest það, en fluglinn flaug suður í blá áður en hann náði að henda reiður á hvað þarna var á ferð. Það er því ágætt ef menn hefðu augun opin á þessu svæði næstu daga ef vera kynni að fuglinn léti sjá sig aftur. AS
Flórgoðinn mættur
Í morgun mátti sjá tvö flórgoðapör á Fýluvogi og voru þeir greinilega að velja sér varpstað miðað við atferlið. AS