Djúpivogur
A A

Fuglavefur

Kjói og lóuþræll

Þá er Sigurjón fuglaglöggi mættur á svæðið og byrjaður að melda á fullu en í dag sá hann bæði lóuþræl og kjóa á Búlandsnesi og eru þetta fyrstu tilkynningar á þessu ári um komur þessara fugla hér á svæðinu. AS

 

 

 

 

 


Lóuþræll


Kjói

 

 

 

 

 

28.04.2010

Leiðrétting bókfinka á Fossárdal

Björn Arnarsson benti heimasíðunni á að ranglega hafði verið fært inn nafn á fugli í frétt þessari sem við birtum fyrir nokkrum dögum og breytum við því hér með fjallafinkunni í bókfinku sem réttara er.  En bókfinka þessi hefur haldið sig til við bæinn í Fossárdal, sjá hér myndir sem Guðný Gréta Eyþórsdóttir sendi heimasíðunni og þökkum við henni hér með fyrir þessa góðu sendingu. Sömuleiðis þökkum við Birni fyrir vökult auga. AS

 

 

 

 

 

 

 

 

28.04.2010

Spóinn mættur

Í gær meldaði Albert Jensson fyrsta spóann á þessu vori og þá eru nú flestir fuglarnir okkar mættir, þó vantar ennþá kríu og svo óðinshanann sem jafnan kemur síðastur inn á svæðið.  AS

 

 

27.04.2010

Fuglaskoðunarferð

Fuglaskoðun á vegum birds.is
Á síðasta laugardag var farið í fuglaskoðun á vegum birds.is en fuglaskoðunarferð að vori hefur verið árviss viðburður síðustu árin.  Fámennur en góðmennur hópur fór út að vötnunum, út á sanda og meðfram sjónum og á tveimur tímum náðist að sjá 27 fuglategundir.  Það sem stóð upp úr var að Skeiðandarpar sást á Fýluvogi í fyrsta sinn á þessu vori og greinilegt er að fuglum á svæðinu er smátt og smátt að fjölga.  Ekki var þó mikið að sjá af þeim vaðfuglum sem venjulega eru á svæðinu en ef til vill gerir frostið síðustu daga það að verkum að þeir hafa fært sig úr stað í leit að æti.  Mikið sást af skúföndum, rauðhöfðaöndum og urtöndum auk þess sem meira virðist vera af gæs á svæðinu en áður.  Þá var ánægjulegt að komast í návígi við Straumendur og Hávellur.

26.04.2010

Maríuerlan mætt

Stefán Guðmundsson íbúi á Djúpavogi meldaði maríerlu ofan Gleðivíkur við Djúpavog fyrir stundu og taldi Stefán að með komu erlunnar þá væri sumarið hér með gengið í garð.  AS

20.04.2010

Helsingjar

Umtalsvert hefur verið af helsingjum á svæðinu og í morgun var t.d. einn á gangi á íþróttavellinum á Djúpavogi, sjá hér. AS

 

 

17.04.2010

Jaðrakan við Breiðavoginn

Í dag má sjá einn jaðrakan við Breiðavog hér á Búlandsnesi en þetta er sá fyrsti sem sést hér á þessu vori.  AS

 

17.04.2010

Hrossagaukurinn mættur

Fyrir tveimur dögum meldaði Stefán Guðmundsson fyrsta hrossagaukinn sem sést hefur á þessu vori og síðan hafa fleiri gaukar sést á svæðinu.  AS

17.04.2010

Brandendur í tilhugalífinu

Set hér inn nýtt myndskeið af brandöndunum þar sem ég var með rangar upplýsingar í hinu fyrra sem ég setti inn, sjá hér nýtt, myndskeið. http://www.youtube.com/watch?v=rZ5AXrNAuKc
Stofnstærð var skráð röng í fyrra myndskeiði en mikil fjölgun hefur verið í stofninum á síðustu árum og má áætla að nokkur hundruð pör séu nú árvissir gestir á landinu. Þá er dvalartími allt frá apríl, en fyrst hefur brandöndin sést 28 mars hér í nágrenni Djúpavogs.  AS 

16.04.2010

Brandendur í tilhugalífinu myndskeið

Hér má sjá myndskeið http://www.youtube.com/watch?v=VLPhnfkRXgo sem tekið var í dag á Búlandsnesi af nokkrum brandöndum í tilhugalífinu. AS

14.04.2010

Fuglafréttir ásamt vinsamlegum ábendingum

Hér með er lesendum heimasíðunnar sem áhuga hafa á að fylgjast með fuglalífinu hér á svæðinu bent á að síðustu daga hafa verið færðar inn reglulegar fréttir af komu ýmissa fuglategunda hér inn á landið,  sjá nánar á heimasíðu okkar http://djupivogur.is/fuglavefur/  Jafnframt eru áhugasamir  hvattir til að tilkynna fuglasíðunni ef þeir sjá farfugla koma inn á svæðið sem ekki hafa þegar verið skráðir inn á fuglafréttirnar.  Markmið fuglasíðunnar er m.a. að skrá og halda utan um komur fugla og hvað margar tegundir halda sig árlega hér á svæðinu.  Hið ánægjulega er að á síðustu árum hafa nýjir landnemar fugla verið að hreiðra um sig á svæðinu og því mjög áhugavert að fylgjast með þróun fuglalífsins milli ára.  Leiða má að því líkum að ástæða þessarar jákvæðu þróunar fuglalífsins hér í nágrenninu sé ekki síst sú að íbúarnir hafa tryggt með góðri umgengni um svæðið vöxt og viðgang fuglalífsins.
Þeir sem ekki vita má til gamans geta þess að í mjög mörgum tilfellum eru þetta sömu fuglarnir sem eru að koma hér ár eftir ár t.d. hér í nágrenni vatnanna og velja þeir sér þá gjarnan sömu hreiðurstæðin hafi varp lukkast árinu áður. Þá er tímaskyn fuglanna ótrúlega nákvæmt en nokkur skráð dæmi eru fyrir því hér á heimasíðu fuglanna að þessir sömu fuglar eru að koma nákvæmlega upp á sama dag hér á svæðið milli ára.

Að síðustu eru íbúar sem og aðrir beðnir um að sýna fuglalífinu tilhlýðilega virðingu þegar vorið og varptíminn nálgast  t.d. að sleppa ekki hundum lausum á svæðinu og eða valda fuglalífinu með öðrum hætti óþarfa ónæði sem truflað getur varp m.a. sjaldgæfra fuglategunda. Njótum því okkar frábæra útivistarsvæðis á Búlandsnesi áfram sem og hingað til í sátt við umhverfið og lífríkið á svæðinu.  AS

Sandlóur og stelkar

Sífellt bætist í fuglafánuna á Búlandsnesi, í dag mátti meðal annars sjá sandlóur og stelka í Grunnasundi og þar voru einnig hópur af heiðlóum dansandi um sandana.  Brandendurnar eru nú samtals átta á svæðinu og var ein þeirra á rölti út í Grunnasundi innan um grágæsahóp.  AS

 

 

 

 

 

 


Sandlóa

13.04.2010

Lóan er komin að kveða burt snjóinn

Í morgun tilkynnti Ásdís Þórðardóttir hóp af heiðlóum sem mættur var við íþróttavöllinn á Djúpavogi. Ekkert veit nú annars meira á sumarkomuna en blessuð heiðlóan og því göngum við auðvitað út frá því að sumarið sé komið frá og með þessum degi.  AS

12.04.2010

Brandöndin og flórgoðin mætt

Í gærkvöldi var brandöndin mætt og mátti sjá tvö pör þar á svæðinu í dag.  Þá var flórgoðinn sömuleiðs mættur á Fýluvoginn 2 stk þar og síðan var stakur flórgoði á Bóndavörðuvatni, en þar var sömuleiðis mikið líf í dag, rauðhöfðar í miklu magni, stokkendur, toppendur og síðast en ekki síst eitt lómapar til viðbótar við það sem nú syndir um Fýluvoginn. Það er því orðið mikið fuglalíf á svæðinu og í kvöld héldu grágæsirnar áfram að búnkast inn yfir landið. AS

 

 

 

 

 


Brandönd kk


Flórgoði

11.04.2010

Grágæsin hópast inn

Nú seinni partinn í dag hefur grágæsin verið að hópast inn yfir svæðið. AS

10.04.2010

Lómurinn og fleiri fuglar mættir

Nú hefur einkennisfuglinn okkar mætt á svæðið þ.e. lómurinn en fyrsta parið var mætt á Fýluvoginn í morgun.
Hettumáfurinn var sömuleiðis komin á svæðið, rauðhöfðar í nokkru magni, auk þess sem álftir, gargendur, stokkendur, toppendur, urtendur, hávellur og fleiri fallegir fuglar lífga upp á vatnasvæðið okkar hér í nágrenni Djúpavogs. 
Fylgst verður náið með komum fleiri fugla á næstunni og verða þeir meldaðir hér inn á heimasíðuna okkar jöfnum höndum eftir því sem þeir mæta á svæðið, AS

10.04.2010

Lundinn mættur

Síðastliðinn miðvikudag sá Kristján Ingimarsson lunda inn í Berufirði en þessi snemmkoma lundans veit vonandi á gott en umtalsverð fækkun hefur orðið í lundastofninum hér við land á síðustu árum eins og kunnugt er.  AS

10.04.2010

Líf að lifna á vötnum

Í dag mátti sjá fyrsta skúfandarparið á þessu ári á Fýluvogi og í kvöld var að auki einn gargandarsteggur mættur á Breiðavoginn.   Mikið af stokkönd á vötnunum.  Vorið er því á næsta leyti.  AS

 

 

 

 

 

 


Gargönd


Skúfendur

 

08.04.2010

Skógarþrösturinn mættur í hópum

Í morgun mátti sjá hópa af skógarþröstum í görðum hér á Djúpavogi og vill heimasíðan hér með nota tækifærið og bjóða þessa góðu vini okkar velkomna til landsins.  AS

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

05.04.2010

Barrfinka við Starmýri 1 í Álftafirði í dag

Guðmundur Eiríksson bóndi á Starmýri hringdi í undirritaðan í gær og tilkynnti um fugl í garði sínum sem hann kannaðist ekki við.  Við nánari skoðun ljósmyndara fuglasíðunnar í dag kom í ljós að þarna var barrfikna á ferð.
Sjá meðfylgjandi myndir.  AS

 

 

 

 

 

01.04.2010