Fuglavefur
Vepjur á Berufjarðarströnd
Í dag sá Albert Jensson tvær vepjur í nágrenni þjóðvegarins við Kross á Berufjarðarströnd. Þó nokkuð er síðan þessi fugl hefur sést hér um slóðir svo vitað sé.
Vepjur eru algengir fuglar víða í evrópu en eru hinsvegar flækingar hér og koma þá hér helst við á veturna eða undir vorið. Vepjuvarp hefur aðeins verið staðfest 15 sinnum á Íslandi. Þá hafa fuglarnir verpt seinni hluta maímánuðar. Varplendi vepjunnar eru á bersvæði eða mó- eða mýrlendi. Hér á landi sjást vepjur einkum í fjörum eða á túnum og eru þá stundum stakar en stundum í hópum. Vepjur lifa aðallega á skordýrum, s.s. bjöllum og ýmsum lirfum, en einnig á bobbum og marflóm í fjörum. AS
Grafendurnar mættar á svæðið
Í gær meldaði Albert Jensson tvö grafandarpör sem voru í skurði með stokköndum fyrir neðan bæinn Rannveigastaði í Álftafirði. Telja verður að þetta hljóti að vera með allra fyrstu komum grafandar til landsins en ekkert hefur þó verið staðfest í þeim efnum. AS