Djúpivogur
A A

Fuglavefur

Fuglameldingar úr Álftafirði

Í dag melduðu þeir Albert Jensson og Sigurjón Stefánsson einn gráhegra, tvær grágæsir, gulandarstegg, hrossagauk, urtendur, svo og mikla hópa af stokköndum og fleiri algengari fugla í Álftafirði.  AS

 

30.12.2009

Vetrarfuglatalning - hvinendur í Hamarsfirði

Í dag var vetrarfuglatalning sem Náttúrufræðistofnun stendur árlega fyrir á þessum tíma árs, en þá fara menn út af örkinni og telja fugla á ákveðnum afmörkuðum svæðum.  Undirritaður fór að þessu tilefni í dag á svæðið frá Hamarsá að Búlandshöfn í Hamarsfirði og taldi þar ásamt Kristjáni Ingimarssyni og föður hans Ingimar Sveinssyni en Ingimar hefur séð um að telja á þessu svæði í áratugi.  Hér eftir mun undirritaður og Kristján hinsvegar sjá um að telja á þessu svæði og vænti ég að Ingimar verði með okkur áfram í för við talningar.  Mest voru þetta hefðbundnir fuglar sem voru á sveimi í dag en hið gleðilega var hinsvegar undantekning er við sáum tvo hvinandarsteggi og þrjár kollur á sjónum undan Rauðuskriðu.  Að öðru leyti voru þetta mest æðarfugl, hávellur, stokkendur, skarfar. Svo sáum við stakan stelk, slatta af sendlingum og nokkuð stóra hópa af tjaldi en þeir hafast við hér á vetrin inn í Hamarsfirði.  Stokkendur voru líka í töluverðum mæli og aðrir algengari fuglar.  Sem sagt hinn besti dagur og veðrið slapp vel til, en þó var smá éljagangur um það leyti er við byrjuðum að telja.
Afrakstur dagsins munum við svo senda Náttúrufræðistofnun hið fyrsta.  Andrés Skúlason 

 

 

 


Þarna eru hvinendurnar, tveir steggir og þrjá kollur - Ingimar Sveinsson og Andrés Skúlason

 


Hvinandarkall

 Kristján Ingimarsson kíkir yfir HamarsfjörðinnHér gefur á að líta marga dílaskarfa á skeri í dag og þegar betur er að gáð eru þarna líka mjög margir tjaldar
auk annarra fuglategunda.Andrés schopar fjörurnar í HamarfirðinumFeðgarnir Ingimar Sveinsson og Sveinn Kristján Ingimarsson horfa eftir fuglumAndrés Skúlason með sjónaukann á loftiIngimar hefur stundað vetrarfuglatalningu um áratuga skeið inn með Hamarsfirði.

Skarfur langt upp á landi

Ekki er það nú oft sem sjá má skarfa langt inn á landi, en þeir halda sig sem kunnugt er ævinlega fast við sjávarsíðuna, úti á skerjum eða á annesjum, nálægt ætinu.  Í gær og dag hefur hinsvegar dílaskarfur haldið sig á lítilli tjörn við innkeyrslu í bæinn á Djúpavogi.  Fjarlægð frá sjó er ríflega 1 km.  Skarfur þessi er reyndar eitthvað reittur en þó býsna sprækur þegar hann vill svo við hafa.  Ljósmyndari smellti af honum nokkrar myndir í dag sem sjá má hér meðfylgjandi.  AS

 

 

 

10.12.2009

Grágæsir á ferð

Síðastliðinn föstudag meldaði Sigurjón Stefánsson fjórar grágæsir sem höfðu sest um stundarsakir á íþróttavellinum á hér á Djúpavogi en grágæsir hafa ekki verið tíðir gestir hér á þessum árstíma. AS

 

 

09.12.2009

Birds.is verkefnið vekur athygli

Það er gaman að segja frá því að Birds.is verkefnið vekur víða athygli. Nýlega var fulltrúa verkefnisins boðið að koma á Umhverfisþing, sem haldið var á vegum Umhverfisráðuneytisins, og flytja kynningu á verkefninu. Þar fékk verkefnið mikil og jákvæð viðbrögð og sveitarfélaginu hrósað fyrir að stuðla að umhverfisvænni ferðaþjónustu.

Í dag birtist svo umfjöllun um fuglaskoðunarverkefnið Birds.is í nýjasta blaði Bændablaðsins en þá frétt má sjá með því að smella hér

Það er mikilvægt fyrir verkefni sem þetta á fá slík tækifæri til þess að vekja athygli birds.is verkefninu og einnig skapar þetta sveitarfélaginu jákvæða ímynd.

BR

Kjarnbítur við bæinn Ask

Í gær sá heimilisfólk að bænum Aski flækingsfugl sem ber það fallega nafn, kjarnbítur.
Bærinn Askur stendur í útjaðri Skógræktar Djúpavogs og við bæinn er einkar fjölskrúðugur og fallegur garður sem hefur lokkað margan flækingsfuglinn að á liðnum árum.  Skúli Benediktsson náði staðfestingarmyndum af fuglinum sjá hér en erfitt var að ná góðum myndum þar sem fuglinn er kvikur og svo var tekið að halla af degi.  Birti því einnig aðra mynd sem er í eigu Björns Arnarssonar á Höfn.  AS

 

 

 

 

 


Kjarnbítur / ljósm. Björn Arnarsson Höfn


Kjarnbítur.  Ljósm. Skúli B.


Kjarnbítur.  Ljósmynd Skúli B.

 

22.10.2009

Fuglarnir í garðinum

Það hefur verið líflegt um að litast í húsagörðum á Djúpavogi eins og áður hefur komið fram. Í síðustu viku tók Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir myndir af fuglum í garðinum sínum en hún á einmitt einn allra besta smáfuglagarðinn í þéttbýlinu ef svo má segja, en þar má oftar en ekki sjá ýmsa flækinga á ferð. Við þökkum Önnu að sjálfsögðu fyrir myndirnar sem eru teknar allar sama daginn.  AS

 

 

 

 

 


Glóbrystingur
Laufsöngvari


Svartþrastarkerling


Fjallafinka

19.10.2009

Fuglarnir í garðinum

Nú er sá tími að fara í hönd að smáfuglarnir sækja í húsagarða í þéttbýlinu í leit að æti. Viðeigandi er því fyrir íbúa og að setja út ýmisskonar mat til handa fuglunum út í garðinn nú þegar kuldinn sækir á og vetur konungur gengur í garð.
Það er ýmislegt sem fuglarnir borða og hægt að setja margskonar matarafganga út í garðinn til handa fuglunum m.a. brauðafganga, fitu og ávexti ýmiskonar og margt fl.
Mikið hefur verið um smáfugla í görðum á Djúpavogi að undanförnu.  Má þar nefna auðnutittlinga, skógarþresti, svartþresti, gráþresti. Þá hafa glóbrystingar einnig verið á ferðinni.  AS

 

 

 

 

 

 

18.10.2009

Fuglalandsmót á Höfn í Hornarfirði - frestað

Helgina 9.-11.október verður landsmót fuglaáhugamanna haldið á Höfn.

Nánari upplýsingar veitir Björn í síma 846-7111 eða bjorn@hornafjordur.is

05.10.2009

Selur og fuglar við sanda

Ljósmyndari birds.is fór á stúfana í dag út á sandana við Búlandsnes og náði þá myndum af landsel sem var á dóli innan um stóra æðarfuglshópa.  Þá voru toppendur þar einnig á sveimi og svo einn flórgoði að auki.  Sjá myndir. AS

 

 

 

 

 


Landselur, æðarfugl í fjarska


Landselurinn syndir í átt að toppandarkerlingu


Landselur


Flórgoði

04.10.2009

Aðmíráll var það heillin!!

Hún Irene okkar var nú fljót að bera kennsl á fiðrildið sem var að flögra hér um í morgun.  Það mun heita aðmíráll og þekkist víða í Evrópu og Norður Afríku.  Eftirfarandi upplýsingar fann ég inni á vef Náttúrustofu Norðausturlands. 

Um aðmírálsfiðrildi hefur Gísli Már Gíslason, prófessor við Líffræðiskor Háskóla Íslands, skrifað á vísindavef háskólans (http://visindavefur.hi.is/?id=2131). Þar var spurt: "Geta aðmírálsfiðrildin sem berast hingað með heitum vindi lifað af sumarið á íslenskum blómum eða eru þau of auðveld bráð?" Svar Gísla fer hér á eftir:

"Fullvaxin fiðrildi lifa aðeins á blómasykri og ekki er ósennilegt að aðmírálsfiðrildi (Vanessa atalanta) geti sogið blómasykur úr blómum á Íslandi, sérstaklega stórum blómum í görðum. Náttúrulegt útbreiðslusvæði aðmírálsfiðrilda er í Suður-Evrópu, Norður-Afríku, á Mið-Atlantshafseyjum og í Norður-Ameríku. Aðalútbreiðslusvæði þeirra er í Norður-Afríku og þaðan fara þau í göngum norður til Evrópu. Þau geta tímgast á Bretlandseyjum og myndað sumarkynslóð, en lifa ekki af veturinn. Á Íslandi eru aðmírálsfiðrildi aðeins flækingar, fjölga sér ekki og lifa að sjálfsögðu veturinn ekki af, frekar en annars staðar í N-Evrópu.  HDH

Furðu-fiðrildi

Í morgun þegar skólastjóri var úti ásamt nemendum 8.-10. bekkjar sáum við stórt fiðrildi flögra við skólann.  Við eltum það dágóða stund þar til það kom sér makindalega fyrir á einum vegg skólahúsnæðisins.  Skólastjórinn spretti úr spori og dreif sig inn til að sækja myndavél.  Þegar hann kom út aftur, skömmu síðar, var fiðrildið enn á sínum stað.  Þegar hann læddist nær til að ná mynd, þá breiddi fiðrildið út vængina og flögraði af stað aftur.  Við héldum í humátt á eftir því og náðum að fylgja því eftir á skólalóðinni.  Við vorum svo heppin að það kom auga á undurfagran fífil í blóma og settist á það til að gæða sér á gómsætu hunangi blómsins.  Þar náðist þessi fína mynd.  Þeir sem vita hvað þetta fiðrildi heitir, eru vinsamlegast beðnir um að senda okkur línu á dora@djupivogur.is  HDH

Gömul frétt um storm- og sjósvölur í Papey

Til fróðleiks er hér birt gömul DV. grein frá 1989 um fuglarannsóknir í Papey, sótt á tímarit.is.  

Leiðangursmenn sóttir i Papey, bretar rannsaka svölur í Papey efni tekið saman af Sigurði  Ægissyni fyrir DV  Djúpavogi árið 1989: 

Í byrjun ágúst vora hér á ferðinni nokkrir breskir fuglafræðingar er hugðust rannsaka hvort svölumar íslensku, þ.e.a.s. stomsvala og sjósvala, verptu í Papey. Þessir fuglar eru eingögnu á ferli að næturþeli en halda sig í holum sinum á daginn. Bretarnir voru að koma úr Ingólfshöfða eftir að hafa verið þar við rannsóknir og merkingar á áðurnefndum svölutegundum. Þeir voru ekki að leggja i Papeyjarferð í fyrsta  sinn því árið 1985 höfðu þeir gist þar og náð örfáum svölum í net og merkt. En nú vildu þeir sannreyna hvort fugiar þessir væru þar að staðaldri. Höfðu þeir með sér kallhljóð svalanna á segulbandi og spiluðu þau út í myrkrið en höfðu áður sett upp sérstök net, kölluð mistnet eöa slæðunet, við tækið. Er skemmst frá því að segja að þeir gistu í eyjunni tvær nætur og náðu þar 19 stormsvölum og 1 sjósvölu. Ein stormsvalanna var með breskt hringmerki á fæti sem hlýtur að teljast ákaflega merkilegt. Þá voru sumir fuglanna með svokallaðan varpblett sem bendir eindregið til að þeir hafi verið með unga í hreiðri en þessir fuglar grafa sér holur eins og lundinn og skrofan. Það má því telja næsta víst að svölutegundirnar tvær séu varpfuglar í Papey en hvort svo hefur alltaf verið er ógerningur að segja til um e.t.v. eru þær nýlegir landnemar sem flúið hafa úr fyrri heimkynnum því að fuglafræðingarnir sem hafa verið með þetta rannsóknarverkefni í um 10 ár, höfðu það á orði aö tegundunum hefði fækkað mikið í ingólfshöfða.  AS

19.09.2009

Margæsir í Eyfreyjunesvík

Í gær mátti sjá 24 margæsir við fjöruborðið í Eyfreyjunesvík sem er falleg vík við sunnanverðan Berufjörð.
Fyrstu margæsirnar koma til landsins fyrri hluta apríl og fjölgar þeim ört uns hámarki er náð um miðjan maí. Síðustu viku maí mánaðar halda þær svo áfram áleiðis til varpstöðvanna m.a. á Grænlandi.

Á haustin fara margæsirnar aftur um Ísland á tímabilinu frá byrjun september til byrjunar nóvember á leið sinni til Írlands..  Margæsir stoppa oft við í fjörum gæða sér á ýmsum þarategundum sem er nú kannski ekki hefðbundinn fæða fugla. En hér má sjá myndir af hópnum í Eyfreyjunesvíkinni í gær.  AS

 

 

 

Margæsir í Eyfreyjunesvík 17 sept 2009

18.09.2009

Til umhugsunar

Það er mál manna sem heimsótt hafa Djúpavog á liðnum árum að bærinn okkar sé snyrtilegur og umfram allt fallegur og yfir því eigum við að sjálfsögðu öll að vera stolt, því með með góðri umgengni og snyrtimennsku styrkjum við ímynd okkar bæði inn á við sem út á við.  
En um leið og gleðjast má yfir fegurð bæjarins og góðri umgengni í flesta staði finnast undantekningar og nú finnst undirrituðum full ástæða til að gera að umtalsefni hér á vefnum okkar ákveðið efni sem getur ekki verið yfir umræðu hafið á þessum opinbera vettvangi okkar.  Hér skal því gert að umtalsefni miður góð umgengni um ákveðin verðmæti í eigu sveitarfélagsins og önnur óbein verðmæti sem okkur snertir.  Nú háttar þannig til að einhver/einhverjir virðast finna jöfnum höndum hjá sér hvöt að skemma hluti sem lagðir hafa verið bæði mikil vinna og fjármunir í á liðinum árum.  
Eins og bæjarbúum er kunnugt var fyrir nokkuð margt löngu settir niður fallegir ljósastaurar með göngustígum í bænum nánar tiltekið frá versluninni Við Voginn og yfir Bjargstúnið og annarsvegar upp Klifið.
Nú er svo komið að flestir þessara dýrkeyptu staura sem settir voru niður til fegrunar á sínum tíma hafa verið skemmdir mikið  á liðnum árum og má heita að sumir þeirra séu nú ónýtir með öllu þar sem þeir hafa verið grýttir mjög illa og eða notað á þá barefli einhversskonar.
Fyrir liggur að mjög erfitt er að útvega nýja skerma og ljós á þessa staura og er því skaðinn umtalsverður. 
Í annan stað virðist það nánast árleg uppákoma að ljóskastarar við listaverkið sem felldir hafa verið ofan í stallinn hafa verið brotnir og það gerist því miður ekki óvart.  Glerið í ljósakösturum þessum er sérstaklega sterkt, en það þolir hinsvegar ekki hvað sem er og þegar grjóthnullungum er kastað endurtekið ofan á gler þessi þá gefa þau sig á endanum og þá tvístrast glersallinn út um nærsvæði listaverksins með þeim umhverfisspjöllum sem því fylgir.  
Fyrir skemmstu var einmitt gler brotið í einum kastaranum við listaverkið og hlýtur það að teljast afskaplega dapurlegt að enn og aftur skuli þurfa að endurnýja þennan búnað með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn, auk þrifa á glersallanum á svæðinu.  Hvernig sem á því stendur virðist þessi þráhyggja viðkomandi að skemma endurtekið sömu hlutina hér í bænum benda til þess að sömu aðilar eigi oft í hlut og þá líklegast þeir sömu og virðast hafa þráhyggju fyrir því að mæta reglulega inn á vegagerðarlóð sem við köllum og brjóta þar reglulega rúður í bifreiðum sem þar standa ýmist til geymslu eða bíða þess að verða settir í brotajárn.  Sem dæmi var settur fólksbíll nú síðsumars inn á lóðina í geymslu og þá liðu ekki margir dagar þangað til allar rúður höfðu verið brotnar í honum og var bíllinn dældaður að auki.  Í alla staði er hér um alvarlega verknaði að ræða því bæði er erfitt að laga það sem skemmt hefur verið og í mörgum tilfellum mjög kostnaðarsamt.   

Í ljósi þessa eru íbúar beðnir um að hafa augun opin og gera viðvart ef þeir verða vitni að skemmdarverkum sem þessum því hér er um sameiginlegar eigur okkar íbúana að ræða og því sárt að horfa endurtekið upp slíkt virðingarleysi gagnvart þeim verðmætum sem hér eru í bænum.    
Markmið okkar hlýtur í hvert sinn þegar slíkt kemur upp á að reyna að finna hver er valdur að skemmdum sem þessum svo hægt verði að kalla eftir að sá er tjóni veldur bæti það að fullu. Ef hinsvegar ábendingar berast ekki um skemmdarverk af þessu tagi er einsýnt að leikurinn heldur áfram með öllu því tjóni sem af hlýst. 
Tökum því höndum saman og reynum að uppræta slíka umgengni í eitt skipti fyrir öll. 

                         Með umhverfiskveðjum
                         Form.Umhverfisnefndar Djúpavogshr.
                         Andrés Skúlason


Þessi staur er lítið augnayndi í dag og svona eru þeir margir hverjir útlítandi


Ljóskerið undir listaverkinu fær jöfnum höndum að kenna á því

   
 Í þúsund molum og glersalli á víð og dreif, hverjum líður betur með þetta ? 

                                                                               

  Þessi bíll var óskemmdur fyrir mánuði síðan, skyldi gerandi verið reiðubúin að greiða fyrir tjónið ? Það má kannski gera við fyrir þrjúhundruðþúsund.                                                                                             

Listaverkið í Gleðivík

Verk Sigurðar Guðmundssonar listamanns var sem kunnugt er vígt með formlegum hætti við Gleðivík síðastliðinn föstudag.  Að því tilefni er ekki úr vegi að birta hér nokkrar myndir frá undirbúningi, vígsludeginum svo og af listaverkinu sjálfu lesendum síðunnar til yndisauka.
Fyrir hönd sveitarfélagsins vill undirritaður nota tækifærið hér og þakka listamanninum sérstaklega skemmtilega og gefandi tíma meðan hann dvaldi í Himnaríkinu sínu hér á Djúpavogi.  AS.

 

 

 

 

 


Eggin komu í þessum trékössum alla leið frá starfstöð listamannsins í Kína

 


Egill vandar sig við að koma fyrsta egginu á stöpulinn sinn


Bryndís Reynisdóttir menningar- og ferðamálafulltrúi með Sigurði listamanni við fyrsta eggið (lundaeggið)

 


Það tóku margar röskar hendur þátt í uppsetningunni og gekk verkið vonum framar


Hér er stóra lómseggið á leiðinni á stallinn, starfsmenn áhaldahússins vanda til verka


Og svo var eggið stóra híft á síðasta stöpulinnSigurður Guðmundsson og kona hans Ineke stilla sér stolt upp við lómseggiðÁ vígsludaginn, Andrés Skúlason oddviti og listamaðurinn Sigurður Guðmundsson afhjúpa verkið


Björn Hafþór Guðmundsson sveitarstjóri heiðrar hjónin á vígsludegi


Og færir þeim tvær myndir að gjöf


Listamaðurinn flytur ávarp í tilefni dagsins


Svo er spjallað um listina milli atriða


Björn Hafþór Guðmundsson sveitarstjóri og Hlíf Herbjörnsdóttir taka sig vel út við egg skógarþrastarinsSvo gengu menn með 200 m löngu listaverkinu og skoðuðu hvert egg fyrir sig

 


Ingimar Sveinsson og listamaðurinn á góðu spjalli


Svo var grillað á eftir


Meira grill


Andrés Skúlason oddviti ásamt listamanninum við egg óðinshanans


Ineke og Sigurður bregða á leik við egg steindepilsins


Listamaðurinn og steindepilseggið


Horft yfir höfnina og listaverkið ofan af lýsistanknum


Eggin ólík að lit og formi

 


Egg skógarþrastarins


Lómseggið í forgrunni


Eggin skarta sínu fegursta við Gleðivíkina


Strandafjöllin eru flott í bakgrunni eggjanna


Sigurður og Ineke alsæl að vígsludegi loknum úti á svölum í Himnaríki ( nafn á heimili listamansins)

 

Hér fyrir neðan má sjá kynningarbækling um eggin í Gleðivík, unninn af ferða- og menningarmálafulltrúa Djúpavogshrepps og sveitarstjóra Djúpavogshrepps.

Smellið hér til að skoða hann

Súluungi í vandræðum

Í gær þegar ljósmyndari birds.is var á gangi á sandi í fjörum austan við Þvottárskriður gekk hann fram á súlu unga sem átti í umtalsverðum vandræðum.  Um gogg ungans var sem sagt vafinn eldrauður spotti, marga vafninga og í enda hans var lítill plastpoki.
Greiðlega gekk að ná unganum þrátt fyrir að hann reyndi að höggva aðeins frá sér, en þegar fuglinum var náð og byrjað var að losa um bandið varð hann mjög rólegur og beið þess bara rólegur að losna við bandið enda hefur það vafalaust verið búið að trufla hann við veiðarnar.  Líklegt má þykja að fuglinn hafi haldið að rauði spottinn væri æti og stungið goggnum í hann og fest hann með þessum afleiðingum.  Þó skal ekki útilokað að bandinu hafi verið komið fyrir af mannavöldum því það var vafið mjög reglulega og fast utan um gogginn, en við skulum þó vona að menn séu ekki að gera slíkt að leik sínum.
Fuglinn var svo frelsinu fegin eftir að spottinn hafði verið losaður og mun eflaust ná sér að fullu.  AS

 

 

 

 

 

 

 

 

11.08.2009

Himbrimi

Í dag var himbrima komið til aðstoðar þar sem hann var á polli við þjóðveginn eitthvað slompaður. Eftir skoðun kom þó í ljós að ekkert virtist ama að fuglinum en hér er ungfugl á ferð. Fuglinum var sleppt á tjörn út við flugvöllinn á Búlandsnesi þar sem hægt er að skoða hann þar sem hann syndir rólega um pollinn og kafar á milli.
Sjá meðfylgjandi myndir af fuglinum frá því í dag.  AS

 

 

 

 

 

 

 

21.07.2009

Teistuhreiður um borð í skipi í Berufirði

Þann 16 júlí sendi Kristján Ingimarsson vefnum þessar skemmtilegu og jafnframt óvenjulegu myndir sem teknar voru um borð í Stapaey sem liggur fyrir föstu við sjókvíar í Berufirði.  Hér er á ferðinni teistuhreiður sem fuglinn hefur gert sér um borð í skipinu og er efniviður hreiðursins harla sérstæður eins og sjá má á myndum, en þar gefur að líta ryðgaðar málingarflögur sem fuglinn hefur sópað saman kringum eggið.  AS

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Krossnefir á ferð og flugi um bæinn

Á undanförnum dögum hefur verið mikið um krossnef hér í húsagörðum á Djúpavogi og muna menn ekki eftir að hafa séð jafn mikið í einu lagi af þessari skemmtilegu flækingsfuglategund hér á svæðinu.  Í gær fór ljósmyndari á vettvang og kíkti við í trjálundi hjá Stefáni Guðmundssyni hafnarverði á Djúpavogi en í garði hans voru þá tvö pör af krossnef.  Karlfuglinn er skrautlegri og litríkari og því eru eðli málsins fleiri myndir af honum. sjá einnig á http://djupivogur.is/fuglavefur/ . Tvíklikkið á myndirnar til að stækka.  AS

 

 

 

 

 

 

  

 

Common Crossbill

A number of Common Crossbills (Loxia curvirostra) have been spotted in the village of Djupivogur over the last days.  Common Crossbills live in woodlands in N-America, Europe and Asia.

 

 

07.07.2009

Krossnefir

Í dag tilkynnti Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir ljósmyndara heimasíðunnar um krossnefi í garði sínum. Þar voru á ferð tveir fuglar karl og kerling saman, sjá meðfylgjandi myndir. Á sama tíma meldaði Stefán Guðmundsson 4 krossnefi garði sínum en voru farnir þegar að var komið. Ljóst er því að töluvert af krossnef er á ferðinni hér í bænum á Djúpavogi þessa dagana.  AS

 

 

 

 

 

07.07.2009

Flórgoðinn á Fýluvogi

Flórgoðinn er einn af þeim litríkari fuglum sem við eigum og hér má sjá smá sýnishorn af honum á Fýluvognum. AS

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

28.06.2009

Hreiður

Þegar börn og starfsfólk mætti til vinnu sinnar einn morgun í maí blasti við þeim hreiður alveg við innganginn ofan á útiljósinu.  Það hafði verið ein af þessum löngu helgarfríum  og þá hafði skógarþröstur gert sér lítið fyrir og komið upp hreiðri og verpt í það 4 eggjum.  Við héldum að nú myndi hann yfirgefa hreiðrið þegar allt í einu yrði umgangur og skellir í útihurðinni en svo var nú ekki og fylgdumst við með því þegar Þrösturinn kom upp 3 ungum.  Þegar við kíktum í hreiðrið sáum við að einn unginn hafði dáið í hreiðrinu sínu. Fleiri myndir hér.

 

ÞS

Ungar brandandar skriðnir úr eggi

Skapp inn í Hamarfjörð í dag og kíkti á 10 stk. brandandarunga sem voru ný skriðnir úr eggi.  AS

 

 

 

 

 

 

 

19.06.2009

Grafandarkolla með unga

Í kvöld mátti sjá þessa grafandarkollu með unga sína á sundi út við svokallaðar Selabryggjur á Búlandsnesi, nokkrar grafendur verpa á svæðinu. AS

 

 

 

 

 

 

 

17.06.2009

Hrossagaukur á hreiðri sleppur fyrir horn

Það má segja að þessi hrossagaukur hafi sannarlega sloppið vel á hreiðrinu sínu en í gær fór sláttuvél yfir hreiðrið og án þess að sláttumaðurinn tæki strax eftir.  Hrossagaukurinn lét þessa umferð ekki trufla sig og sat á hreiðrinu í allan dag.  AS 

 

 

 

 

 

 

16.06.2009