Djúpivogur
A A

Listaverkið í Gleðivík fær góða dóma

Listaverkið í Gleðivík fær góða dóma

Listaverkið í Gleðivík fær góða dóma

skrifaði 07.09.2009 - 17:09

Jón Baldur Hlíðberg hefur ýmislegt sér til afreka unnið í áranna rás, en hann hefur m.a. prýtt margar fræðibækur og önnur rit með sínum snilldarteikningum m.a.  í spendýrabókina og fiskabókina auk fjölmargra annarra merkra bóka.
Þá hefur Jón Baldur Hlíðberg unnið að verkefnum hér í Djúpavogshreppi m.a. á hann teikningar þær sem eru á upplýsingaskiltunum um fuglana hér á svæðinu en það verk vann hann með okkur á sínum tíma.  
Um þessar mundir er svo teiknarinn góði að vinna að öðru ánægjulegu verkefni með okkur hér í Djúpavogshreppi ásamt Jóhanni Ísberg, en þar er um fjöruskilti að ræða en á þeim skiltum verða dregnar fram teikningar ásamt upplýsingum um lífríkið í fjörunni til ánægju og fróðleiks fyrir gesti og gangandi á komandi árum. 
Jón Baldur Hlíðberg hefur utan þessa alls verið leiðsögumaður til langs tíma og hefur m.a. flakkað um með mikinn fjölda náttúruskoðara þvert og endilangt um landið og þá ekki síst fuglaskoðara. 

Í þessu ljósi er því sérstakt ánægjuefni að koma eftirfarandi bréfi frá Jóni Baldri Hlíðberg á framfæri sem hann sendi okkur vegna listaverksins í Gleðivíkinni þar sem hann fer miklu lofsorði um verkið. 
Við þökkum Jóni Baldri að sjálfsögðu kærlega fyrir bréfið sem sjá má hér að neðan.  AS.

 
 Jón Baldur Hlíðberg við greiningu í lífríkinu í fjörunum á nærsvæði Djúpavogs fyrr í 
 sumar, Bryndís ferðamálafulltrúi fylgist áhugasöm með.


Bréf frá Jóni Baldri Hlíðberg um listaverkið í Gleðivík.

Undirritaður hefur sjaldan séð ástæðu til að tjá sig skriflega um listir, raunar má segja að í einu skiptin sem ég hef skrifað um list eða listaverk þá hafi það verið í önuglegheitum til að fjasa yfir staðsetningu þeirra úti í ósnortinni náttúru okkar sem sótt er að úr öllum áttum.

Nú sé ég mig knúinn til að tjá mig einu sinni enn og í þetta sinn verður sleginn nýr tónn.

Þegar ég frétti af tilvonandi listaverki Sigurðar Guðmundssonar í Gleðivík við Djúpavog fyrir nokkru var ég ekki alveg viss um að þessi hugmynd myndi ganga upp. Hún virtist mjög vandasöm í framkvæmd en nú eftir að hafa séð verkið og umhverfi þess verð að viðurkenna að ég er stórhrifinn.

Í mínu starfi sem teiknari náttúrufyrirbæra hef ég lært að meta fegurðina sem býr í öllu okkar náttúrulega umhverfi hvort heldur er í lit eða formi, angan eða hreyfingu, náttúran er allstaðar falleg og hrífandi á einhvern hátt, í allri sinni fjöbreytni. Sú hugmynd að taka fjölda eggja mismunandi tegunda og horfa fyrst og fremst á form þeirra finnst mér snilldarleg.

En eggið er svo miklu meira en stúdía í formi. Egg er hlaðið táknmyndum margvíslegra gæða. Egg er fyrirheit, egg er öryggi, egg er endunýjun og í egginu hvílir framtíðin. En fuglsegg eru líka öll fagurlega löguð þótt þau séu mjög mismunandi . Sigurður stillir upp þessum stóru fullkomnu eggjum eins og ákalli til móður náttúru um að hún veiti okkur í framtíðinni af þeim gæðum sem eggið vissulega ber ætíð með sér.

Steinninn sem valinn hefur verið í eggin ljáir þeim eðlilegt yfirbragð, mér finnst strax eins og litur, áferð og lögun fari saman. Fá form eru tilgerðarlausari en eggið í einfaldleika sínum, en um leið er það mjög viðkvæmt, þarna er því farin vandrötuð leið, en mér finnst þetta hafa heppnast eins vel og hugsast getur.

Það er svolítið undarlegt að upplifa svona verk á svona stað. Það að ekki stærra pláss en Djúpivogur skuli skarta þessu verki, einu stærsta og best heppnaða listaverki landsins, ber vott um einhvern sérstakan kraft, áræði og bjartsýni sem ég er fullviss um að muni fleyta þessum litla bæ inn á margt kortið, í marga ferðasöguna og á marga landkynningarbæklinga. Fyrir marga munu þetta verða sjálf fjöreggin.

 Ég er sannfærður um að þetta verk Sigurðar á eftir að vekja vaxandi athygli og ánægju. Sömuleiðis spái ég því að þarna sé komin ný táknmynd fyrir ykkar landshluta, nokkuð sem þið megið vera stolt af um fjölmörg ókomin ár.

Til hamingju.

Jón Baldur Hlíðberg teiknari og leiðsögumaður.


Jón Baldur Hlíðberg og Jóhann Ísberg við Hvaleyjarvatn á Búlandsnesi síðastliðið sumar. AS.