Djúpavogshreppur
A A

Iðkendahátíð Neista 2019

Iðkendahátíð Neista 2019
Cittaslow

Iðkendahátíð Neista 2019

Greta Mjöll Samúelsdóttir skrifaði 01.04.2019 - 10:04

Iðkendadagur Neista fór fram fimmtudaginn 28.mars með pomp og prakt.

Neistakrakkar fjölmenntu í Löngubúð þar sem þeir fengu glæsilegar veitingar að venju.
Að því loknu voru íþróttamenn Neista fyrir árið 2018 valdir.

Fótboltaneistinn

Viktor Ingi Sigurðarson

Viktor hefur verið duglegur og áhugasamur á æfingum í vetur og hann hefur einnig staðið sig frábærlega með liði Hattar á Egilsstöðum í boltanum og verið þar mikilvægur hlekkur í því liði. Hann stundar æfingarnar samviskusamlega og er frábær með boltann.

Framfarir og ástundun í fótbolta

Natalía Lind Óðinsdóttir

Natalía stundar æfingarnar af kappi og mætir einnig samviskusamlega og stundvíslega og sýnir þeim mikinn áhuga. Hún er mjög kappsöm og er einstaklega góð í markinu sem og annars staðar. Hún stendur sig almennt mjög vel.

Frjálsíþróttaneistinn

Hekla Pálmadóttir

Hekla mætir alltaf vel og stundvíslega og gerir æfingarnar af miklu kappi. Hún er áhugasöm og vill gera vel. Hún er einnig einstaklega áhugsasöm um hástökkið sem og kúluvarpi og stendur sig mjög vel í því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Framfarir og ástundun í sundi

Brynja Kristjánsdóttir

Hera Líf sundþjálfari Neista hefur fylgst með Brynju vaxa sem sundmaður Neista síðan haustið 2015. Hún mætir á allar æfingar tímanlega og hefur tekið miklum framförum í sundi. Hún er mjög metnaðarfull og gerir æfingarnar mjög samviskusamlega.

Sundneistinn

Hekla Pálmadóttir

Hún hefur allaf verið dugleg og samviskusamur sundiðkandi hjá Neista. Hún tekur þátt í öllum sundmótum sem eru haldin í fjórðungnum þar sem hún rakar inn verðlaunapeningum. Hún er frábær fyrirmynd, stundvís, metnaðarfull og gerir æfingarnar alltaf uppá 10. Þess má geta að meðan að formlegar sundæfingar lágu niðri um tíma þá hélt Hekla áfram að mæta í sundlaugina og æfa sig af kappi ásamt nokkrum örðum sundköppum.

Íþróttamaður Neista 2019

Aldís Sigurjónsdóttir

Hún æfir fótbolta undir merkjum Neista og spilaði í liði Einherja/Sindra/Neista síðasta sumar. Þar spiluðu hún og stöllur hennar í A-liðum og unnu Norðausturlands-riðilinn. Þær unnu alla leikina í riðlunum og munaði liðið sannarlega um markaskorarann frá Neista sem gat hæglega spilað allar stöður. Liðið endaði svo í Reykjavík í úrslitum en töpuðu þar fyrir gríðarsterkum liðum. Aldís mætir á allar fótboltaæfingar Neista – sækir akademíur og knattspyrnuskóla í fjórðungnum og allar aukaæfingar sem hægt er að fara á.

Aldís hefur einnig alltaf verið framúrskarandi sundmaður. Hún tekur allar æfingar alvarlega og tekur oft aukaæfingar. Hún raðar inn verðlaunapeningum á þeim mótum sem hún tekur þátt í og er mjög nálægt AMÍ tímum í bringusundi.

Aldís er mjög metnaðarfullur íþróttamaður sem Neisti er stoltur fyrir að hafa alið af sér.Hún er frábær fyrirmynd.


Viljum við þakka öllum iðkendum og foreldrum fyrir komuna og samveruna,og einnig Löngubúð fyrir frábærar veitingar.
Fyrir hönd Neista.
Hafdís Reynisdóttir.