Djúpivogur
A A

Yfirlýsing frá Vísi hf að höfðu samráði við sveitarstjórn

Yfirlýsing frá Vísi hf að höfðu samráði við sveitarstjórn

Yfirlýsing frá Vísi hf að höfðu samráði við sveitarstjórn

skrifaði 27.05.2014 - 11:05

Að loknum viðræðum við Pétur H Pálsson framkvæmdastjóra Vísis hf sem staddur var á Djúpavogi í gær var niðurstaða fyrirtækisins að senda út eftirfarandi tilkynnningu til að skýra stöðu mála nánar varðandi framvindu Vísis hf á Djúpavogi sem var að mati sveitarfélagsins orðið mjög knýjandi. 
Sveitarstjórn fagnar þeim áfangasigri sem náðst hefur í þeirri baráttu sem staðið hefur um nokkurra vikna skeið. Niðurstaða þessi mun gefa okkur öllum, sem að málinu koma hér á Djúpavogi, aukið svigrúm til að vinna að því að treysta áfram grundvöll að öflugri vinnslu hér á Djúpavogi, sem er eftir sem áður okkar meginmarkmið. Þennan tíma sem framundan er munum við m.a. nýta til þess að þrýsta á stjórnvöld að koma að málum með mum markvissari og sterkari hætti en gert hefur verið til þessa.                                                                                                          

AS 

Tilkynning Vísis hf er svohljóðandi. 

Djúpavogi 26. maí 2014.
 

 

Vísir hf. frestar flutningi á fiskvinnslu

frá Djúpavogi til Grindavíkur

 

 

 

Útgerðarfyrirtækið Vísir hf. hefur ákveðið að fresta flutningi á fiskvinnslu félagsins frá Djúpavogi til Grindavíkur um allt að eitt ár. Þó með þeirri undantekningu að ein af þremur vinnslulínum félagsins verður flutt frá Djúpavogi eins og upphaflega stóð til. Vegna ákvörðunarinnar, sem tekin var í upplýstu samráði við sveitarstjórn Djúpavogshrepps, flytja færri starfsmenn Vísis til Grindavíkur ráð var fyrir gert.

 

Söltunarlína, ásamt tilheyrandi tækjabúnaði, verður flutt til Grindavíkur en á Djúpavogi verða eftir tæki og vinnslulínur til ferskfiskvinnslu og frystingar. Í stað söltunarlínunnar verður fjárfest í vinnslulínu til slátrunar og pökkunar á eldisfiski.

 

Vegna frestunarinnar gefst heimamönnum mun rýmri tími til að bregðast við boðuðum breytingum. Ákvörðunin er í fullu samræmi við þann vilja og ásetning stjórnenda Vísis að að finna og byggja upp starfsemi og störf í stað þeirrar sem hverfa og bjóða starfsfólki sínu ný störf á sama stað eða sömu vinnu á nýjum stað.

 

Starfsmönnum Vísis og sveitarstjórnarmönnum á Djúpavogi var gerð frekari grein fyrir framkvæmdinni á  fundi í dag.  Stjórnendur Vísis munu áfram vinna með sveitarstjórn Djúpavogshrepps við að styrkja stoðir fyrir nýja atvinnustarfsemi í fiskvinnsluhúsi Vísis á Djúpavogi fyrir 30 – 35 manns. Samstarf fyrirtækisins og sveitarstjórnarinnar hefur verið til fyrirmyndar þau 15 ár sem Vísir hefur verið með starfsemi á Djúpavogi.

 

 

Fyrir hönd Vísis hf.

 

Pétur Hafsteinn Pálsson framkvæmdastjóri