Djúpivogur
A A

Útimessa í Malvíkurrétt í Álftafirði

Útimessa í Malvíkurrétt í Álftafirði

Útimessa í Malvíkurrétt í Álftafirði

skrifaði 28.06.2012 - 12:06

Næsta sunnudag 1. júlí, verður útimessa í Malvíkurrétt í Álftafirði og hefst athöfnin kl. 14.00. Sóknarpresturinn sr. Sjöfn Jóhannesdóttir messar og kirkjukórsfélagar leiða sönginn.

Malvíkurrétt er sérstakur og fallegur staður sunnan við Djúpavog og minnir um margt á kirkju í náttúrunni. Þar er steinn sem nefndur er Altari og klettar umlykja staðinn og veita þar skjól. Síðast var messað í Malvíkurrétt fyrir þremur árum og var fjölmennt og veðrið lék við messugesti, sem eftir messu nutu góðra velgjörða í boði sóknarnefndar Hofskirkju.

Nálægt Malvíkurhöfða eru margir þekktir staðir sem Íslendingasögur nefna í sambandi við kristnitökuna árið 1000. Í Álftafirðinum á Þangbrandur að hafa dvalið hjá Halli á Þvottá og sungið messu þar og skv. Ara fróða skírði hann Síðu-Hall og hans heimafólk í Þvottánni. Kirkjan og kirkjuleg þjónusta á sér því langa sögu í Álftfirði og reistur var minnisvarði um Síðu-Hall við Þvottá í tilefni 1000 ára kristni á Íslandi. Ýmis örnefni eins og Þangbrandsbryggja og prestasteinn er að finna þarna og svo er Papey ekki langt undan.

Malvíkurhöfði er um 45 km. sunnan við Djúpavog. Ekið er eftir þjóðveginum frá Djúpavogi, þar til komið er að Selá, þá er ekki farið yfir brúna heldur beygt til vinstri og farinn vegarslóði, sem er fær fjórhjóladrifnum bílum, að messustað. Aðeins þarf að ganga 100-200 metra. Nánari leiðsögn verður við þjóðveginn.   

Sóknarnefndin býður upp á kaffiveitingar að lokinni messunni. Allir eru velkomnir og hvattir til að mæta í skjólgóðum fatnaði.