Djúpivogur
A A

Úthlutun úr Styrktar- og menningarsjóði Sparisjóðs Vestmannaeyja

Úthlutun úr Styrktar- og menningarsjóði Sparisjóðs Vestmannaeyja

Úthlutun úr Styrktar- og menningarsjóði Sparisjóðs Vestmannaeyja

skrifaði 09.01.2013 - 08:01

Meðfylgjandi er fréttatilkynning og myndir frá Sparisjóðnum vegna úthlutunar úr Styrktar- og menningarsjóði Sparisjóðsins 2012. Skógræktarfélag Djúpavogs hlaut viðurkenningu í þetta skiptið og voru það Guðlaugur Birgisson og Vigdís Guðlaugsdóttir sem tóku við henni fyrir hönd Skógræktarfélagsins:

Sparisjóðurinn úthlutaði úr Styrktar- og menningarsjóði Sparisjóðs Vestmannaeyja, í fimmta skipti þann 29. nóvember s.l.

Við hittumst hér í sparisjóðnum á Höfn og áttum góða stund saman.

Dagskráin var þannig að 2 ungir hljóðfæraleikarar, Þorkell Ragnar og Ármann Örn, léku fyrir okkur á hljómborð og gítar, meðal annars frumsamin lög.

Við afhentum viðurkenningar til 3ja aðila að þessu sinni og einnig skrifuðum við undir áframhaldandi samstarfssamning við Golfklúbb Hornafjarðar til næstu 3ja ára.

Þessir aðilar fengu viðurkenningu og styrk:
Nemendafélag FAS
Skógræktarfélag Djúpavogs
Björgunarsveitin Eining á Breiðdalsvík

Á eftir var boðið upp á veitingar, snittur  og nýlagað kaffi að hætti okkar í sparisjóðnum.

Anna Halldórsdóttir
forstöðum. Sparisjóðsins

Neðar á síðunni má sjá nánar um þá sem fengu styrkveitingu

Skógræktarfélag Djúpavogs

Hálsaskógur er sannkallaður sælureitur, sem lætur ekki mikið yfir sér frá þjóðveginum séð.  Fyrir  60 árum var Skógræktarfélag Djúpavogs  stofnað og hefur félagið verið ötult í gróðursetningu allar götur síðan. Auk fallegs gróðurs,  skartar skógurinn góðum göngustígum og þar er líka að finna  bekki og borð sem nýtast vel til útivistar í veðursælum skógarlundinum, sem er staðsettur í um 2ja km fjarlægð frá, hinu fallega bæjarstæði, Djúpavogi. Hálsaskógur var  formlega vígður sem“ Opinn skógur“  í júní 2008.  Ég vitna hér í grein frá Skógræktarfélagi Íslands:
„Ýmsir áhugaverðir staðir eru í og við Hálsaskóg.  Álfheiðarskúti er hellir rétt fyrir ofan skóginn. Dregur hann nafn sitt af ungri stúlku, sem árið 1627 tókst að sleppa frá ræningjum „Tyrkja“ (sem reyndar voru frá Marokkó) með því að fela sig í hellinum. Gatklettur ber nafn sitt af tveimur samsíða götum, sem tengja jarðmyndunina og skóginn, en götin eru leifar af trjástofni sem varð fyrir hrauni.
Bergið á svæðinu er frá síð-míosen tíma (8,5-10 milljón ár) og á þeim tíma uxu þar ýmsar tegundir  barr- og lauftrjáa, en líklegast er að barrtré hafi myndað götin, vegna þess hversu bein þau eru. Í skóginum má einnig finna tóftir, fjárrétt og fallega kletta“.
Skógræktarfélag Djúpavogs hefur  unnið að  stöðugri uppbyggingu skógarins  í 60 ár og af því tilefni  sendum við okkar bestu afmæliskveðjur í Hálsaskóg. Megi hann stækka og dafna á ókomnum árum og verða íbúum og gestum á svæðinu áframhaldandi gleðigjafi.

Nemendafélag FAS
Framhaldsskólinn í  Austur-Skaftafellssýslu (FAS) fagnar 25 ára afmæli skólans á þessu ári. Einn af viðburðum ársins var nýstárleg sýning á leikverkinu „Átta konur“  en það var samstarfsverkefni Leikhóps FAS og Leikfélags Hornafjarðar.
Nemendur skólans hafa mest um það að segja hvernig tekst til  að halda uppi öflugu  og fjölbreyttu félagslífi. Það er augljóst að þetta ár hefur verið viðburðaríkt. Ekki er hægt að gera öllum þáttum skil en þess skal getið að 12 klúbbar voru stofnaðir í ársbyrjun og viðburðir voru fjölmargir.  Þar má nefna kaffihúsakvöld, þorrablót, stelpu/konukvöld,  handboltamót, FÍFA mót, RockBand mót, öskudagsball fyrir börn sveitarfélagsins, útvarpsútsendingar og árshátíð, svo dæmi séu tekin. Skólahúsnæðið var nýtt undir flesta þessa viðburði og mæltist það vel fyrir.   
Það vill stundum  gleymast að þakka unga fólkinu það sem vel er gert. Nemendafélag FAS er vel að því komið að fá viðurkenningu fyrir öflugt félagslíf í skólanum sínum og sendum við  skólanum og nemendum hans góðar  kveðjur og framtíðaróskir.

Björgunarsveitin Eining
Árið 1950 bar boðað til fundar í samkomuhúsinu á Heydölum. Tilefni fundarins var stofnun slysavarnardeildar í Breiðdal.  Fjörutíu manns sóttu fundinn.
Á þessum 60 árum hefur starfið þróast  og breyst eins og gefur að skilja.
Félagið hélt í samráði við ungmennafélagið samkomu á 17. júní árið 1952 og  við það tilefni flutti formaður deildarinnar ávarp sem hér verður gripið niður í:

„Heiðruðu samkomugestir!

Þetta er í fyrsta sinn sem slysavarnardeildin Eining boðar til samkomu og þykir okkur, sem að henni stöndum, mikils um vert að vel megi takast. Slysavarnarmálin eru eitt af því fáa, sem íslenska þjóðin sameinast einhuga um og því hefur svo mikið áunnist til góðs í þeim málum á síðari árum og sannast þar sem víðar hið fornkveðna: „Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér.“"

Í dag, rúmlega 60 árum síðar, getum við flutt þennan sama texta við þetta tækifæri og  hvert orð, er orð að sönnu.
Það er því heiður að fá að afhenda þessa viðurkenningu enda er björgunarsveitin  Eining einn af mörgum  hlekkjum í stórri keðju Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.